149. löggjafarþing — 82. fundur
 21. mars 2019.
ávana- og fíkniefni, 1. umræða.
stjfrv., 711. mál (neyslurými). — Þskj. 1135.

[11:35]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni þess efnis að heimilt verði að stofna og reka neyslurými að undangenginni heimild embættis landlæknis.

Neyslurými er skilgreint í frumvarpinu sem lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.

Samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni er varsla og meðferð ávana- og fíkniefna óheimil á íslensku forráðasvæði. Með því að veita þá undanþágu sem lögð er til í þessu frumvarpi er lögfest heimild fyrir stofnun neyslurýmis þar sem heimilt er að neyta ávana- og fíkniefna undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og við aðstæður sem lágmarka þann skaða sem notkun getur haft í för með sér, svo sem sýkingar, ofskömmtun og aðra alvarlega fylgikvilla notkunarinnar.

Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem neyta ávana- og fíkniefna í æð og jafnframt að draga úr neyslu ávana- og fíkniefna utan dyra, á almannafæri, og þar með annars vegar að draga úr ofskömmtun á ávana- og fíkniefnum og hins vegar að notaður sprautubúnaður finnist á víðavangi.

Neyslurými eru fyrst og fremst ætluð til skaðaminnkunar, til að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar ávana- og fíkniefna, án þess endilega að draga úr notkun þeirra. Skaðaminnkun gagnast ekki aðeins fólki sem notar slík efni heldur einnig fjölskyldum þeirra, nærsamfélagi notandans og samfélaginu í heild.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópusambandið hafa bæði fjallað um skaðaminnkandi úrræði eins og neyslurými sem þau telja vera mikilvægan þátt í að draga úr ýmsum smitsjúkdómum og dauðsföllum vegna neyslu of stórra skammta. Ávinningi neyslurýma hefur í þessu samhengi verið skipt í þrennt, þ.e. persónulegan ávinning fyrir einstaklinga sem neyta ávana- og fíkniefna í æð og þeirra nánustu, samfélagslegan ávinning, sem best sést á umgengni á almenningsstöðum, og loks fjárhagslegan ávinning sem felst aðallega í styttri legutíma á sjúkrahúsum, snemmbúnum inngripum og lægri lyfjakostnaði vegna meðferðar við HIV-smiti og lifrarbólgu C.

Eins og kunnugt er hefur Frú Ragnheiður – skaðaminnkun, sem starfrækir sérútbúinn bíl á vegum Rauða krossins í Reykjavík séð einstaklingum sem neyta ávana- og vímuefna í æð fyrir hreinum sprautubúnaði og jafnvel nauðsynjavörum, en þörf er á frekari þjónustu fyrir einstaklingana eins og almennri heilbrigðisþjónustu og hreinlætisaðstöðu, og einnig er þörf fyrir stað þar sem þeir geta neytt efnanna við bestu mögulegu aðstæður.

Virðulegi forseti. Við samningu þessa frumvarps var sérstaklega litið til nágrannalandanna en um 90 neyslurými eru nú starfrækt víða um heim. Framkvæmdin í Danmörku og Noregi var sérstaklega skoðuð og eru fimm neyslurými í Danmörku nú og tvö starfrækt í Noregi. Þar og víðar hefur verið talið mikilvægt að þjónusta í neyslurými verði skilgreind sem lágþröskuldaþjónusta. Í því felst að allar hindranir séu fjarlægðar í þeim tilgangi að auðvelda einstaklingum að nýta sér þjónustuna. Þá er þjónustan sérstaklega sniðin að þörf jaðarsettra einstaklinga með skaðaminnkun að leiðarljósi.

Hindranirnar sem vísað er til geta m.a. verið almennt viðhorf starfsmanna innan heilbrigðisþjónustunnar til einstaklinganna, skortur á trausti einstaklinganna í garð heilbrigðisþjónustu, opnunartími neyslurýmis, hönnun og skipulag rýmisins, staðsetning, biðtími, samgöngur og gjaldtaka.

Þá er nauðsynlegt að þar sé boðið upp á þjónustu sem sinnir grunnþörfum einstaklinga sem neyta ávana- og fíkniefna í æð, svo sem næringu, hreinlætisaðstöðu, hreinum sprautubúnaði og fatnaði. Einnig verði í boði samþætt heilbrigðisþjónusta, t.d. til að koma í veg fyrir sýkingar og veita sálrænan stuðning. Þar eru einnig undir tilvísanir í vímuefnameðferðir, sértæk heilbrigðisþjónusta, félagsleg ráðgjöf og ýmis önnur fræðsla.

Í frumvarpinu er lagt til að þessi atriði verði nánar útfærð í reglugerð sem ráðherra setur um stofnun og rekstur neyslurýma.

Virðulegi forseti. Í umræddu frumvarpi er lagt til að heimilt verði, að undangengnu leyfi landlæknis, að stofna neyslurými þar sem einstaklingum er heimilt að neyta ávana- og fíkniefna sem annars eru óheimil samkvæmt lögum. Þannig verður að gera ráð fyrir að einstaklingar geti á leið sinni í neyslurými haft undir höndum þann skammt sem þeir hafa í hyggju að neyta. Það fer því eftir mati lögreglunnar hverju sinni hvort gripið sé til refsivörsluaðgerða gegn einstaklingi sem er með efni á sér á leið til neyslurýmis, ýmist með aðvörun, haldlagningu efna, sekt eða ákæru.

Í því skyni væri æskilegt að sveitarfélag gerði formlegt eða óformlegt samkomulag við lögregluna um hvernig standa eigi að löggæslu í grennd við neyslurými líkt og gert er í Danmörku og Noregi þar sem samkomulag er um refsilaus svæði í grennd við neyslurými.

Áætlað er að í neyslurými verði annars vegar aðstaða fyrir einstaklinga til að neyta efna í æð. Hins vegar er gert ráð fyrir annarri aðstöðu þar, þar sem hægt er að veita þeim heilbrigðisþjónustu. Í reglugerð sem sett verður um stofnun og rekstur neyslurýma verður kveðið á um að í hverju neyslurými verði ávallt tveir starfsmenn á vakt og að annar þeirra sé hjúkrunarfræðingur en hinn þurfi ekki nauðsynlega að vera heilbrigðisstarfsmaður.

Þess vegna er lagt til í frumvarpinu að sá kafli laga um heilbrigðisstarfsmenn sem fjallar um réttindi og skyldur þeirra gildi um þá sem starfa í neyslurými. Aftur á móti er nauðsynlegt að tryggja refsileysi starfsmanna neyslurýma þar sem það getur komið upp að einstaklingur látið lífið við neyslu inni í rýminu, enda verður notendum gert að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þeir séu inni á eigin ábyrgð. Þá verður starfsmönnum sem vinna í neyslurýmum kennt að bregðast við þegar einstaklingur tekur of stóran skammt með því að nota Naloxon, sem er lyf sem dregur úr áhrifum ofskömmtunar.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi því sem hér er mælt fyrir er stigið mikilvægt skref til verndar lífi og heilsu einstaklinga sem lifa við alvarlegan fíknisjúkdóm sem er bæði lífshættulegur vegna neyslunnar en einnig vegna þeirrar hættu sem skapast þegar umræddir einstaklingar neyta efna í æð á óöruggan hátt við óöruggar aðstæður.

Síðastliðin ár hefur þörfin fyrir það úrræði sem hér er mælt fyrir að verði heimilað með lögum sýnt sig ótvírætt þegar litið er til eftirspurnar eftir þeirri þjónustu sem Frú Ragnheiður – skaðaminnkun hefur veitt. Á hverju ári sækja um 450 einstaklingar þá þjónustu sem þar er veitt og hefur aukning milli ára verið stigvaxandi frá því að Frú Ragnheiður hóf störf árið 2008. Aukningin milli áranna 2017 og 2018 var 7%. Einnig er ljóst að þörf er á frekari þjónustu við umrædda einstaklinga og er markmið þessa frumvarps að tryggja lagaskilyrði fyrir því að slík þjónusta geti verið veitt. Þá hef ég ákveðið nú þegar að veita 50 millj. kr. styrk til stofnunar og reksturs neyslurýmis á grundvelli þessara laga þar sem þörfin er talin brýnust.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins sem hér er til umræðu og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar og til 2. umr.



[11:44]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma með þetta mál í sal Alþingis. Ég fagna því, þetta er gott mál. Þetta er frjálslynt mál og mun hafa jákvæðar afleiðingar ef fram fer sem horfir.

En ég er með nokkrar spurningar. Ráðherra kom vissulega inn á mikilvægi þess að þau sveitarfélög sem kjósa að nýta sér þetta svigrúm, þetta úrræði, hefðu með sér óformlegt eða formlegt, eftir atvikum, samstarf við lögregluna. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að í Noregi hafi verið gert slíkt óformlegt samkomulag þannig að lögreglumenn eru hvattir til að keppast ekki við að stöðva einstaklinga, eins og orðalagið er, sem eru á leið í neyslurými þó að þeir geti metið það hverju sinni. Vissulega er mikilvægt að lögreglan hafi það mat á sinni hendi.

Ég velti því upp hvort það sé ekki ástæða til að ganga lengra og vera með skýr skilaboð því að ég held að ekkert okkar sem erum jákvæð fyrir þessu, og allra síst þeir sem standa fyrir því, heilbrigðisyfirvöld, sjái fyrir sér að einstaklingar sem hyggjast nýta sér þetta verði stöðvaðir.

Mig langar aðeins að fá nánari útskýringu hjá hæstv. ráðherra: Hvernig var samtalið við lögregluna? Er samkomulag frágengið? Verða einhverjar leiðbeiningar? Verður hverjum lögreglumanni eða lögregluþjóni í sjálfsvald sett hvort hann stoppar þetta? Fer þetta eftir því hvort viðkomandi einstaklingur er með óspektir á leiðinni eða lítur illa út, er óhreinn eða hver veit hvað?

Mér finnst þetta skipta töluvert miklu máli, sérstaklega í ljósi þess að þetta er mikil nýjung, mikið framfaraskref og ekki síst vegna þess að það hvernig til tekst í upphafi mun væntanlega hafa áhrif á hvernig framhaldið verður.



[11:46]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæðar undirtektir í þessu máli. Ég tek undir það sem kemur fram hjá henni, þetta er gríðarlega mikilvægt framfaraskref og vonandi er þetta fyrsta skrefið af fleirum í áttina að því að auka úrræði undir merkjum skaðaminnkunar í samfélaginu. Það er það sem við þurfum að gera.

Það er klárt að við erum hér að ryðja nýja braut og þess vegna er þetta litla frumvarp kannski ekki bara til marks um þá breytingu sem það felur í sér heldur líka táknrænt skref í áttina að því að löggjafinn taki það til sín að breyta löggjöfinni í átt til skaðaminnkunar.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega um samráð við lögreglu og þá umræðu alla saman. Áformin um að leggja þetta mál fyrir voru fyrst sett á samráðsgáttina og þá komu einhverjar athugasemdir. En þegar frumvarpið var komið fullbúið í samráðsgáttina kom ein umsögn og hún var frá Rauða krossinum sem studdi málið. Við höfum því ekki séð í þessu formlega ferli athugasemdir. En hins vegar erum við við smíði frumvarpsins algerlega meðvituð um þá stöðu sem er þarna úti eftir samtöl við lögreglu o.s.frv. Eðli máls samkvæmt þarf lögreglan að fara varlega í því að taka beina afstöðu til mála af þessu tagi en mun auðvitað fara að lögum hér eftir sem hingað til. Þegar lögunum er breytt með þessu móti verður það líka til breytinga í starfsumhverfi lögreglu.

Svo virðist sem það tíðkist síður að beita refsivörsluaðgerðum gegn fólki með neysluskammta á sér hvort sem er, það er í raun sá veruleiki sem er þarna úti. Ef til vill þarf löggjafinn í fyllingu tímans að taka það til sérstakrar umfjöllunar, til að byggja lögin á þeirri framkvæmd sem er raunverulega til staðar.



[11:48]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég hlakka til að sjá þetta í frekari umfjöllun velferðarnefndar. Það er alveg hárrétt að þetta er kannski bara sá raunveruleiki sem er uppi hjá einstaklingum með neysluskammtana. Það verður góð umræða um það.

Mig langar í seinni umferð að varpa þeirri spurningu yfir til ráðherra að nú eru þessi neyslurými, eðli málsins vegna, ætluð fólki 18 ára og eldri og fyrir því liggja ríkar ástæður en samt er það staðreynd, því miður, að aukning í vímuefnanotkun er líka mikil meðal ungmenna yngri en 18 ára: Eru heilbrigðisyfirvöld með í skoðun ný úrræði, einhverjar nýjar leiðir til að aðstoða þau ungmenni, hvort sem það er beinlínis í skaðaminnkun eingöngu eða einhvers konar samstarf, einhverjar nýjungar? Við verðum því miður að horfast í augu við að það sem hingað til hefur verið gert hefur ekki skilað tilætluðum árangri, ekki ef maður lítur á tölur um aukningu.



[11:50]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er ljóst að það vandamál eða viðfangsefni sem hv. þingmaður nefnir er raunveruleiki og það er partur af því umhverfi sem við erum með hér. Við getum spurt okkur sem svo: Hvað gerist ef einhver kemur inn í neyslurými og er yngri en 18 ára? Hvað ætlum við að gera í þeim tilvikum? Það er ljóst að sú lagabreyting sem hér er lögð til fjallar ekki um þann hóp. Í raun réttri ætti að vísa viðkomandi frá. En þá spyr maður: Er ekki betra að viðkomandi fái viðunandi aðstæður með hjúkrunarfræðing nærri og viðunandi upplýsingar? En þá erum við í raun og veru komin inn á verksvið barnaverndaryfirvalda og komin inn á annað svið en heilbrigðisyfirvöld geta tekið ákvörðun um með þeim hætti sem lagt er til í þessu frumvarpi.

Það má segja að flækjustigið aukist, ef hægt er að orða það sem svo, þegar um er að ræða börn og ungmenni því þá koma barnaverndarsjónarmiðin að. Slík stjórnvöld þyrftu þá að koma að úrræðum sem yrðu að vera sérsniðin að börnum og ungmennum.



[11:51]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil, rétt eins og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, lýsa yfir ánægju minni með að þetta frumvarp sé komið fram og lýsa yfir mínum stuðningi við framgang þess á þingi. Hv. þingmaður var reyndar á undan mér með þá spurningu sem ég hafði hvað mestan áhuga á að ræða sem sneri að vernd þessara einstaklinga þegar þau eru á leið til og frá neyslurýmum.

Ég velti fyrir mér, rétt eins og hæstv. ráðherra talaði um, refsileysi fyrir þá heilbrigðisstarfsmenn sem taka þátt í þessu, hvort ekki þurfi að skoða svoleiðis nálgun gagnvart þessu. Ég hugsa um þetta líka út frá réttaröryggi og skýrleika refsiheimilda. Ef það liggur fyrir að það má ekki vera með fíkniefni á sér — það er bara þannig, þannig eru lögin — hvernig útskýrum við það og hvernig kemur það fyrir dómstóla og hvernig getur það verið skýrt fyrir fólkið sem er á leið til eða frá neyslurými að það muni hugsanlega sæta refsingu fyrir það, en hugsanlega ekki?

Hæstv. ráðherra vísaði í að sá praxís hjá lögreglu væri hverfandi að handtaka fólk fyrir neysluskammta. Ég velti fyrir mér hvort hún hafi einhver gögn sem styðji þetta og fyrst svo er, hvort það sé ekki einmitt, eins og hæstv. ráðherra vék aðeins að, kominn tími á að afglæpavæða neysluskammta vímuefna.



[11:53]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og stuðninginn við málið. Eins og ég tók fram í mínu andsvari er alveg ljóst að við erum að stíga hér skref sem snýst ekki bara um þetta mál. Það snýst um svo ótal margar spurningar sem hrannast upp og mörg viðfangsefni sem gætu sannarlega verið næstu skref. Einmitt þess vegna held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að þingið nái að ljúka afgreiðslu málsins núna þó svo að það skilji eftir nýjar spurningar. Ef við ætlum að ná algerlega utan um málið með heildstæðum hætti, með öllum þeim „hvað ef?“ spurningum sem vakna, getur það orðið til þess að fresta því að þessi löggjöf nái fram að ganga.

Ég deili vangaveltum hv. þingmanns varðandi réttaröryggi og skýrleika o.s.frv. Spurningin sem hv. þingmaður kemur hér með, um neysluskammta og refsileysi, er sannarlega næsta spurning. Það er umræða sem á að vera partur af umfjöllun velferðarnefndar um þetta mál. Þó að við séum þar líka í skilgreiningarvanda, eins og við höfum áður talað um í tengslum við önnur mál — hvað er það, hvað er neysluskammtur í hverju tilviki? — er það samt eitthvað sem við glímum við í nútímanum og við þær kringumstæður úti í samfélaginu þar sem 450 manns leita þjónustu Frú Ragnheiðar getur Alþingi ekki annað en spurt sig þessara spurninga. Við verðum að taka þær á dagskrá.

Ég fagna því ef hv. velferðarnefnd lítur svo á að það sé partur af umfjöllun nefndarinnar að ræða þessi álitamál jafnframt.



[11:55]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Ég tek undir það að vissulega eiga þessar spurningar alls ekki að tefja framgang málsins.

Við erum að tala um næstu skref og mér finnst vissulega mikilvægt að við skoðum afglæpavæðingu neysluskammta. En mig langar kannski líka að vísa í eitt sem mér finnst mjög mikilvægt næsta skref og það snertir annan hóp sem er gríðarlega viðkvæmur. Það eru fangar sem nota vímuefni. Mér hefur fundist af því sem ég hef lesið mér til um aðstæður fanga og kynnt mér að skaðaminnkun fyrir fanga sé mjög takmörkuð á Íslandi. Samkvæmt öllum þeim samtökum sem láta sig þessi málefni varða eru fangar langviðkvæmasti hópurinn og er í langmestri hættu á að verða veikur vegna neyslu og er líklegri til að vera í neyslu en aðrir hópar úti í þjóðfélaginu.

Skaðaminnkun í fangelsi finnst mér vera mjög mikilvægt næsta skref til að taka. Fangelsismálayfirvöld hafa oft ýjað að því að öryggi hamli því að það séu t.d. sprautunálaprógrömm og svoleiðis og líka að með því að fara í skaðaminnkandi aðgerðir í fangelsum séum við að viðurkenna að þau eigi við vandamál að stríða, sem ég held að hljóti að verði bara að gerast. Afneitun dugar ekki endalaust, að afneita vanda sem vissulega er til staðar. Og vegna þess að við vorum að tala um næstu skref langaði mig að halda þessu til haga.

Þetta mál er vissulega gríðarlegt framfaraskref og ég held að það sé mjög mikilvægt hvernig við nálgumst þetta með neysluskammtana, sem myndi þá leysa annað vandamál, það hvernig lögregla kemur fram við fólk sem er á leiðinni til eða frá neyslurýmum.

Hvað varðar ungt fólk vildi ég bara koma því að að á tónlistarhátíðum og öðrum stöðum þar sem vitað er til þess ungt fólk sé mögulega að fara að nota einhver vímuefni, hafa félagasamtök í öðrum löndum verið með tjöld þar sem fólk getur prófað vímuefnin sín og þetta hefur aukið öryggi þessara barna aðallega. (Forseti hringir.) Í þeim ramma þarf líka að vera til skoðunar hvort lögreglan muni veitast að þessum börnum og reyna að taka af þeim neysluskammtana eða hvað það nú er.



[11:57]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn þakka ég fyrirspurnirnar. Mig langar sérstaklega að grípa boltann þar sem hv. þingmaður nefnir málefni fanga. Við höfum verið að ræða heilmikið heilbrigðisþjónustu við fanga og þá höfum við kannski fyrst og fremst verið að tala um geðheilbrigðisþjónustu sem hefur ekki bara verið ófullnægjandi heldur hefur hún ekki verið nein um árabil á Íslandi. Það er þó allt í farvegi og vonandi er samningaviðræðum að ljúka hvað það varðar, við erum komin í höfn með almenna heilbrigðisþjónustu og við þurfum að klára það sem heitir geðheilbrigðisþjónusta fyrir fanga.

En þessi hópur sem hv. þingmaður nefnir krefst heildrænnar nálgunar, allt frá því að dómur gengur og þar til komið er að því tímabili sem er eftir afplánun. Þetta er samfelld vegferð í lífi fólks sem lendir þarna og kannski er skaðaminnkunarnálgunin sem hv. þingmaður nefnir, sem er kannski bara leið til að nálgast þann veruleika sem er sannarlega í fangelsum, partur af því að endurskoða hugmyndafræðina bak við fangelsisvistun á Íslandi. Ég átta mig á því að það tilheyrir málaflokki annars ráðherra en ég held að Íslendingar þurfi að stíga skref í áttina að því að horfa meira á betrun en refsinálgun og ég held að partur af því sé að nálgast einstaklinginn í því félagslega samhengi sem hann er en ekki sem einstakling sem á bara að þola refsingu í einhvern ákveðinn tíma og svo sé allt með kyrrum kjörum eftir það.

Við vitum það, sem vitum sífellt meira um geðheilbrigðismál o.s.frv., að lengi býr að fyrstu gerð. Við vitum að þetta snýst um ævina alla þannig við þurfum að nálgast þennan hóp sérstaklega með heildstæðum hætti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:59]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það er ástæða í dag til að gleðjast yfir því að þetta mikilvæga og góða mál sé nú komið til Alþingis og til þinglegrar meðferðar. Eins og ráðherra fjallaði um mun samþykkt þessa frumvarps heimila stofnun og rekstur neyslurýma, sem er lagalega verndað umhverfi, þar sem einstaklingar yfir 18 ára aldri geta neytt vímuefna í æð á öruggan hátt undir eftirliti og þar sem gætt er hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.

Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins um málið á það rætur sínar að rekja til þingsályktunar um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu sem lögð var fram á sínum tíma af Birgittu Jónsdóttur og þingflokki Pírata, ásamt fulltrúum úr öllum flokkum á 143. löggjafarþingi.

Tillagan var samþykkt 16. maí 2014 og send ríkisstjórninni. Þingsályktunin fól ríkisstjórninni það hlutverk að endurskoða stefnu í vímuefnamálum á grundvelli lausnamiðaðra og mannúðlegra úrræða á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Þáverandi heilbrigðisráðherra var falið að skipa starfshóp í því skyni að vinna að mótun stefnunnar.

Verkefni starfshópsins var þríþætt: Í fyrsta lagi að gera úttekt á gildandi lagaumhverfi svo afmarka mætti viðfangsefnið nákvæmlega og undirbúa lagabreytingar og/eða nýja löggjöf. Í öðru lagi að líta til löggjafar annarra ríkja þar sem horfið hefur verið frá refsistefnu tengdri neyslu ólöglegra vímuefna og tillagna alþjóðlegra nefnda og stofnana á sviði rannsókna í forvörnum gegn vímuefnaneyslu.

Og í þriðja lagi að skapa heildstæða stefnu sem legði höfuðáherslu á mannúðlega nálgun og vernd mannréttinda sem dragi úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu með því að stuðla að auknu trausti jaðarhópa til samfélagsins og þeirra stofnana sem eiga að veita þeim þjónustu og skjól.

Greinargerð þingsályktunartillögunnar hófst á tilvitnun í Kofi Annan, sem mig langar að endurtaka, með leyfi forseta:

„Það er trú mín að eiturlyf hafi eyðilagt líf margra, en röng stefna stjórnvalda hefur eyðilagt líf miklu fleiri. Við þurfum að horfa á stefnuna og spyrja okkur einlæglega og heiðarlega; virkar hún? Ef hún virkar ekki, höfum við hugrekki til að breyta henni?“

Forseti. Samþykkt þessarar þingsályktunartillögu markaði ákveðin þáttaskil í stefnumótun stjórnvalda gagnvart því samfélagslega vandamáli sem felst í misnotkun vímuefna. Allt frá því að stjórnvöld byrjuðu fyrst að taka eftir því að hér á landi kynni neysla vímuefna að vera nokkuð útbreidd, hefur stefnumótun byggt á því að refsa fólki fyrir alla meðferð efnanna, hvort sem þau eru til eigin neyslu eða til sölu eða dreifingar. Það sést líka í því að lög um ávana- og fíkniefni hafa aldrei farið í heildarendurskoðun. Í grunninn erum við að miklu leyti enn þá að starfrækja sömu stefnu og hér var sett á fót árið 1974.

Í kjölfar síendurtekinna misheppnaðra herferða lögreglu og stjórnvalda gegn vímuefnaneytendum er almenningsálit hér á landi loksins að breytast. Fólk er að komast á þá skoðun að kannski sé réttara að hjálpa fólki í vanda frekar en að ofsækja og refsa því. Það er í þessu andrúmslofti sem þingsályktunartillaga þingflokks Pírata og allra annarra flokka á þingi var lögð fram og síðast samþykkt samhljóða með stuðningi allra flokka. Þess vegna er samþykkt hennar svo mikilvæg. Hún markar byrjun á mikilvægri og víðtækri stefnubreytingu stjórnvalda, sem ég vona einlæglega mun halda áfram eftir þetta mikilvæg skref heilbrigðisráðherra.

Í kjölfar þess að tillagan var samþykkt á Alþingi var skipaður starfshópur í samræmi við fyrirmæli hennar. Hann lauk störfum árið 2016 og færði heilbrigðisráðherra skýrslu sína, sem kynnti hana fyrir Alþingi.

Í niðurstöðum hópsins voru 12 tillögur um aðgerðir sem grípa skyldi til. Mér finnst mikilvægt að reifa þær til þess að minna okkur á það verk sem á eftir að vinna.

Fyrsta tillagan var afnám fangelsisrefsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum. Því er ekki búið að breyta í lögum. Því miður virðist eins og vinnu við það sé hætt. Það er óljóst hvar það mál stendur en augljóslega er það hjá dómsmálaráðherra en það hlýtur að vera verkefni sem unnið er í samráði við heilbrigðisráðherra. Það væri fróðlegt að heyra frá heilbrigðisráðherra hvar sú vinna er stödd, hvort hún þekki það.

Önnur tillagan fjallar um að smávægileg fíkniefnalagabrot fari ekki á sakaskrá. Því er ekki lokið. Einungis er í gildi mæling á blóði varðandi vímuefnaakstur. Það er víst komið inn í nýja umferðarlagafrumvarpið, sem er til mikilla bóta og ber að fagna.

Fjórða tillagan: Fráhvarf, meðferð á sjúkrahúsi og fjölbreyttari úrræði. Því er ekki lokið, að mér skilst. Aðgengi að hreinum sprautubúnaði og nálaskiptaþjónusta. Frú Ragnheiður sinnir þeim málum eins og stendur. Lágmarksreglur um meðferð, því máli virðist ekki vera lokið. Skimanir fyrir HIV og lifrarbólgu C hjá einstaklingum í vímuefnavanda. Ég veit ekki hvar það mál er statt eins og staðan er núna, hvað varðar neyslurými, sem er þetta frumvarp. Það var áttunda tillagan.

Níunda tillagan er gjaldfrjáls heilsugæsla fyrir jaðarsettra hópa. Mér skilst að því sé ekki lokið. Samráðsvettvangur vegna vímuefnamála — því er ekki lokið. Fangar í vímuefnaneyslu njóti sömu réttinda, er ekki heldur lokið. Tólfta tillagan er um eflingu rannsókna og forvarnastarfs. Ég veit ekki alveg hvar það verkefni stendur.

Nú, rúmum tveimur árum síðar, eftir að þessar tillögur komu fram höfum við aðeins komið nokkrum af þessum tillögum til framkvæmda. Ég hef haft af því áhyggjur að vilji stjórnvalda til að fylgja þessari þingsályktun hafi minnkað. Að þegar að því komi raunverulega að víkja af braut refsistefnunnar og fara af fullum þunga í afglæpavæðingu og skaðaminnkun sé vilji stjórnvalda kannski minni en áður virtist. Þess vegna gleður það mig að þetta frumvarp sé hér að komast til 1. umr. Ég vona svo innilega að við getum tryggt því góða og skjóta meðferð í þinginu.

Ég veit að ég mun tryggja málinu góða og skjóta meðferð, alla vega í velferðarnefnd, svo mikið er víst. Ég vil hvetja ráðherra og ríkisstjórnina alla til frekari dáða í því að feta áfram braut skaðaminnkunar og afglæpavæðingar. Ef markmiðið er að byggja upp samfélag sem byggist á samkennd og umhyggju fyrir náunganum er nauðsynlegt að halda áfram á þessari braut, og ekki bara vegna samkenndar og umhyggju fyrir náunganum heldur líka af því að þetta er rökrétta leiðin fyrir samfélagið allt.

Hæstv. ráðherra talaði um það áðan að hún væri glöð yfir því að það væri hlutverk velferðarnefndar að ræða þetta þingmál í hinu stóra samhengi. Stóra samhengið er auðvitað afglæpavæðing neysluskammta vímuefna. Ég tek undir þau orð. Það er svo sannarlega mikilvægt að ræða það í hinu stóra samhengi. Ég er sammála því að þó að við séum ekki búin að svara öllum álitaefnum og það sé ekki alveg komið á hreint hvert við stefnum í þessum málum megi það ekki stoppa framfarir og að góð mál fái að fara í gegn þótt það veki upp fleiri spurningar. Við þurfum þá bara að svara þeim spurningum og ganga í hin verkefnin sem allra fyrst.



[12:07]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Já, ég stenst ekki mátið að nýta tækifærið til að standa hér glöð og þakklát í ræðustól. Það er staðreynd að á sama tíma og okkur sem erum í stjórnarandstöðu ber að vera vakandi og veita ríkisstjórninni virkt aðhald, og láta í okkur heyra þegar við teljum ástæðu til, þá felst í því ákveðin skylda til að standa upp og styðja við þau framfaraskref sem við teljum að verið sé að stíga. Þetta er einfaldlega slíkt mál.

Það er virkilega lofsvert af hæstv. ráðherra að leggja frumvarpið fram. Lengi hefur verið kallað eftir því og þörfin er mikil. Staðreyndin er sú að hún vex með tímanum og gríðarlega hratt. Við stöndum uppi með þá þekkingu núorðið að fíkn er sjúkdómur og ber að meðhöndla hana sem slíka og í samræmi við það. Það felur einfaldlega í sér, eins og með aðra sjúkdóma, að við þurfum að veita fólki stuðning til að takast á við fíknina með aðgengi að ólíkum meðferðarúrræðum á eigin forsendum í stað þess að fara með fólk sem ánetjast vímuefnum sem ótínda glæpamenn.

Í stað þess að útiloka fólk sem hefur ánetjast vímuefnum frá samfélaginu, horfa í hina áttina, vera þakklátur fyrir að vera ekki í þeim hópi eða neyða fólk til að fara í eina ákveðna samþykkta tegund meðferðar, sem í þokkabót hefur sýnt sig að ber verulega takmarkaðan árangur, er þetta rétta leiðin. Þó svo að neyslurými hafi ekki verið starfrækt af sveitarfélögum á grundvelli laga til þessa höfum við þó sem samfélag fengið að sjá jákvæð áhrif þessarar nálgunar í gegnum skaðaminnkandi starf sjálfboðaliðasamtaka Frú Ragnheiðar, líkt og hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni.

Á þeirra vegum hefur sérinnréttuðum bíl verið ekið á milli einstaklinga sem tilheyra þessum jaðarsettu hópum í samfélaginu á borð við heimilislausa og einstaklinga sem nota vímuefni í æð. Sex sinnum í viku, ef ég fer rétt með, er þeim boðin aðstoð á eigin forsendum þar sem boðið er upp á hreinar nálar, sprautur, nálabox, ráðgjöf og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti á lífshættulegum sjúkdómum sem gjarnan fylgja neyslu.

Ein jákvæðustu áhrif þessarar þjónustu, fyrir utan persónulegu áhrifin, er að draga úr jaðarsetningu sem er mjög mikilvægt fyrir öll samfélög, ekki síst nú á tímum, og ekki síður að draga úr álagi á heilbrigðiskerfið, álagi sem fylgir áhættusamri neyslu vímuefna. Þetta kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan, þessar þrjár tegundir ávinnings, þ.e. sá persónulegi, sá samfélagslegi og sá fjárhagslegi. Útgáfa þessarar lausnar hefur að einhverju leyti verið reynd á Íslandi og reynslan af henni er góð og á því hvílir málið væntanlega að ákveðnu leyti.

Mig langar að benda aðeins á umsögn Rauða krossins í samráðsgáttinni. Þar er talað um að neyslurými verði fundið húsnæði sem tengist ekki beinlínis öðru húsnæði fyrir vímuefnanotendur, heimilislausa einstaklinga, þ.e. verði ekki í þeim aðstæðum sem fólk veigrar sér við að mæta í. Þá bendi ég sérstaklega á konur sem gjarnan eru útsettar fyrir ákveðinni misnotkun ef þær aðstæður eru uppi.

Ég sé það í greinargerð með frumvarpinu að þetta er sama málið og er verið að stefna að víðast annars staðar. Það er líka mikilvægt samkvæmt rannsóknum verkefnastjóra Rauða krossins, og þeirra sem hafa skoðað þessi mál með tilvísun í það sem verið er að gera í löndunum í kringum okkur, að staðsetningin sé miðsvæðis, nálægt þeim sem eru í þörfinni. Þá erum við kannski komin með þessa staðsetningu alla í einn graut þannig að það er ákveðin áskorun en þetta eru alla vega hlutir sem mjög mikilvægt er að hafa í huga.

Síðan er það líka annað mál að ef ná á markmiðunum þarf að tryggja að friðhelgi neyslurýma sé tryggð og að lögreglan geti stutt við starfsemi rýmanna, að heimildir hennar séu svo skýrar að öryggi notenda sé tryggt á sama hátt og hún heldur áfram að vinna gegn brotastarfsemi sem gjarnan tengist ávana- og fíkniefnanotkun. Ég fór í gegnum það með hæstv. ráðherra áðan og fékk svör og treysti því og vona að það verði unnið áfram.

Í lokin langar mig að nefna að það er nauðsynlegt, þegar til svona neyslurýma verður stofnað á grundvelli þessara laga, að byggt verði á reynslu þeirra samtaka sem hafa unnið við skaðaminnkandi úrræði. Þar nefni ég aftur Frú Ragnheiði, þ.e. Rauða krossinn, Ungfrú Ragnheiði, Konukot, Gistiskýlið og slíkt. Það er gríðarlega mikilvægt að kraftar þessara aðila sem hafa reynslu og þekkingu, og eiga ekki síst traust þeirra sem þurfa á þessari þjónustu að halda, séu nýttir áfram. Við erum mjög gjörn á að líta á praktísku atriðin en það er þetta traust sem skiptir öllu máli ef nýta á þessi úrræði eins og vonir standa til.

Ég fékk tækifæri til að nefna við hæstv. ráðherra úrræði fyrir þá einstaklinga sem eru háðir vímuefnum, ekki síst vímuefnum í æð, og öryggi þeirra, en eru yngri en 18 ára. Ég óska þess að samstarf við til þess bær yfirvöld, barnaverndaryfirvöld og þá hæstv. velferðarráðherra sem fulltrúa þar, verði skoðað áfram og útvíkkað á einhvern mögulegan hátt. Vegna þess að öll rök sem hníga að því að þetta sé mjög gott úrræði fyrir 18 ára og eldri eiga jafn vel við fyrir þá yngri. Að öðru leyti þakka ég fyrir þetta mál og styð hæstv. ráðherra heils hugar í að ná því í gegn.



[12:14]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, sem hefur verið kallað neyslurými. Ég held að það sé sérstök ástæða til að hrósa hæstv. ráðherra og ráðuneytinu fyrir framlagningu þessa máls. Það er greinilegt við lestur greinargerðarinnar og yfirferð málsins að lögð hefur verið töluverð vinna í það í ráðuneytinu að búa málið sem best úr garði til að tryggja það að þeir endar sem væri hægt að hnýta í aðdraganda þess væru hnýttir.

Þetta er allt mjög mikilvægt og málið er kannski ekki síst mikilvægt í ljósi þess að við erum hér að fjalla um afar viðkvæman þjóðfélagshóp, hóp sem á sér kannski ekki sérlega marga málsvara í samfélaginu, á undir högg að sækja og er haldin fíkn sem sjúkdómi sem jafnvel hluti samfélagsins er ekki einu sinni inn á að samþykkja að sé sjúkdómur. Það er ekkert einfalt mál að þurfa að bera þann vanda með sér og eiga svo kannski meira og minna von á því öllum stundum að samfélagið eða hluti samfélagsins sé á lofti með refsivönd eða umvöndunarorð um að viðkomandi sé lasinn eða veikur. Það er vond staða.

Frumvarpið raungerir líka í lagalegum búningi stöðu sem hefur að mörgu leyti verið uppi. Við höfum verið með, eins og mér heyrðist einhverjir hv. þingmenn koma inn á, hreyfanleg neyslurými. Það má segja að sú aðstoð sem er til að mynda í boði í Konukoti sé vísir að þessu, þó að Konukot sé náttúrlega ekki neyslurými, en t.d. nálaskiptiprógramm og stuðningur er að einhverju leyti sambærileg aðstoð og ég geri ráð fyrir að yrði í boði í neyslurýmum.

Það er aðeins komið inn á það í greinargerðinni að það yrði að tryggja einhvers konar samstarf við lögreglu og löggæsluyfirvöld á viðkomandi stöðum. Auðvitað vitum við það að í praktískum skilningi erum við líklegast að tala um að sett yrðu upp eitt til tvö svona úrræði á Íslandi. Það er afar hæpið að þetta yrði víðar. En einmitt vegna þess að það er langlíklegast að þetta yrði sett upp í Reykjavík og yrði þar með væntanlega að einhverju leyti fjármagnað af borginni, þá kann að vera að það þyrfti að ræða það sérstaklega við borgina með hvaða hætti yrði staðið að því.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir aðkomu heilbrigðisstarfsmanna og eins og hv. þingmenn þekkja þá þarf að sjá til þess að sú vinna sé greidd og gengið frá því með tilhlýðilegum hætti og það sé allt í lagi. Það þarf líka, eðli málsins samkvæmt, að tryggja öryggi í kringum svona starfsemi, ekki bara öryggi þeirra sem sækja þessa þjónustu heldur líka þeirra sem starfa þar og huga að þeim þáttum.

Þá hafa þingmenn komið einnig inn á atriði sem snúa að fólki sem er yngra en 18 ára. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að lögin eigi við um aðra en þá sem eru 18 ára og eldri, ef af yrði. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra, þá í samstarfi við ráðherra félags- og barnamála, að halda áfram að vinna að lausnum á þeim vanda og þá eðlilega í samstarfi við Barnaverndarstofu, mögulega Stuðla eða a.m.k. að fá ráðgjöf frá þessum aðilum, því að við þurfum líka að tryggja að þessir einstaklingar eigi, ég veit ekki hvort er rétt að kalla það sama rétt en alla vega sömu möguleika á þjónustu og úrræðum og þeir sem eldri eru. Í heimi fíkniefnanotandans breytist líklega ekkert rosalega mikið daginn sem hann verður 18 ára annað en að hann verður 18 ára og þar með lögráða. Þess vegna er mikilvægt að löggjafinn og framkvæmdarvaldið horfi til þessa hóps sérstaklega.

Ég geri ráð fyrir að hv. velferðarnefnd fái þetta mál til umræðu. Ég á ekki von á öðru en að nefndin muni taka vel í að afgreiða það. Ég mun a.m.k. beita mér fyrir því. Ég vona að hv. þingmenn séu mér sammála í því að hér er á ferðinni mikil réttarbót fyrir afmarkaðan hóp, lítinn hóp, en hóp sem er í mjög erfiðri stöðu og þess vegna full ástæða til að við gerum það sem við getum til að styðja við hann.



[12:21]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, með síðari breytingum, í sambandi við neyslurými fíkla. Það snertir fyrst og fremst þá sem neyta ávana- og fíkniefna og eru jaðarsettir í samfélaginu, félagslega og efnislega.

Ég ætlaði að koma í andsvar við ráðherrann í framsögu ráðherrans en var fullsvifaseinn og ákvað því að setja mig á mælendaskrá.

Ég ætla ekki að lengja málið mikið en fagna frumvarpinu og þeirri hugmynd að hjálpa fólki sem er í þessari stöðu í samfélaginu, sem er sprautufíklar og er oft í mjög slæmri aðstöðu með verkfæri sem valda sýkingum til að mynda, að veita því þann kost að vera í betri aðstöðu. Eins og segir í frumvarpinu er tekið tillit til reynslu annarra landa. Mér finnst þetta framfaraskref í að koma til móts við okkar minnstu bræður og systur.

En mig langaði í því samhengi — og það er eiginlega sú spurning sem ég hefði viljað spyrja ráðherrann að — að nefna að margumræddir biðlistar inn á meðferðarstofnanir eru ekkert að styttast. Það hnikast ekkert í því máli í rétta átt, að mér finnst. Kannski getur ráðherrann upplýst okkur betur um það.

Ég hef töluverðar áhyggjur af því að það skuli ekki vera að þróast í betri átt. Mikið af fíklum, fólki sem er í þeirri stöðu, þrá að komast út úr neyslunni. Gluggi fíkla, alkóhólista, sem eru á þessum stað í lífinu er oft mjög lítill eða opnast ekki oft, sá gluggi sem er viljinn til að taka skrefið inn í meðferð, taka skrefið til að sækja sér hjálp og þiggja hana.

Töluvert af þeim einstaklingum eru á þeim biðlistum sem ég var að nefna. Þannig er með fyrirkomulagið í meðferðarstöðvum, alla vega hjá SÁÁ, að það er ákveðin goggunarröð. Séu menn að sækja um í fyrsta skipti í meðferð fara þeir framar í röðina. Þeir sem eru mjög veikir, lífshættulega veikir, fá forgang og þá oft í samstarfi við Landspítalann, ef þeir eru það illa staddir að þurfa að fara á gjörgæslu eða eitthvað slíkt. Svo eru þeir aftar í röðinni sem oft eru kallaðir á meðferðarheimilum endurkomumenn og -konur. Það er oftar en ekki útigangsfólk og margt af því haldið sprautufíkn.

Ég hefði viljað spyrja ráðherrann hvort ekki sé í framhaldi af þessari aðgerð hægt að stíga það skref að fara í þá vinnu með meðferðarstöðvunum. Starfsfólk á meðferðarstöðvum er mjög sérhæft og stöðvarnar oft og tíðum með besta starfsfólkið í meðferðargeirum ávana- og fíkniefna í heiminum, leyfi ég mér að segja vegna þess að ég hef kynnt mér það.

Þetta fólk hefur náð gríðarlegum árangri. Um 50% þeirra sem klára meðferð t.d. frá SÁÁ eru enn óvirkir alkahólistar tveimur árum seinna. Árangurinn er því gríðarlegur. Sumir þurfa að fara oftar en einu sinni í meðferð og það er einmitt fólk í hópi þeirra fíkla sem eru nánast á götunni. Það er mjög algengt að þeir einstaklingar þurfi tvær, þrjár, fjórar meðferðir til að ná árangri, sem er eðlilegt innan meðferðarkjarnans. Það er ekki óeðlilegt að einstaklingur þurfi þrjár, fjórar meðferðir. Þá kviknar á perunni: Já, það var þetta sem ég þurfti að gera til að ná árangri. Það er oft lítil þúfa sem veltir stóru hlassi í því samhengi.

Ég varpa þessu fram af því að ráðherra situr í salnum og spyr hvort við getum ekki sameinast í þeirri vinnu að stytta raunverulega biðlista á áfengis- og vímuefnameðferðarstöðvum.



[12:28]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt sérstaklega frekar en allir aðrir, sem koma þó hingað upp og vilja tjá sig örlítið. Það er mjög klassískt fyrir stjórnmálamenn.

Mig langaði bara að segja að þó að ég fagna framkomu þessa frumvarps og telji í rauninni að þetta sé rétt leið, finnst mér þetta líka alveg gríðarlega erfitt. Mér finnst með einhverju móti að við séum að viðurkenna ákveðna uppgjöf. En stundum er nú lífið þannig, það er svo margt í því sem við ekki ráðum við. Stundum þurfum við hreinlega að bregðast við því sem út af ber. Ég er jú komin á þá skoðun að fyrir svo langt leiddan hóp eins og við horfum til í þessu máli, sé vissulega betra að huga að örygginu en hitt.

Mig langaði bara að segja að þó að við fögnum þessu frumkvæði finnst mér líka mjög erfitt að stíga þetta skref, og ég hygg að mörgum öðrum þingmönnum kunni að finnast það.

Því miður gat ég ekki verið viðstödd alla umræðuna því að ég þurfti að vera annars staðar, en ég veit að aðeins hefur verið komið inn á lagalega þáttinn. Það er vissulega eitthvað örlítið öfugsnúið þegar við segjum að hér sé um að ræða ólögleg fíkniefni en samt er það þó í einhverjum tilfellum þannig að við ætlum ekki að bregðast við því þegar fólk er í einhverjum ákveðnum aðstæðum.

Með þessu er ég ekki að segja að ég styðji ekki frumvarpið því að ég geri það og ég fagna því mjög að það sé komið í þingið. Við fáum umsagnir frá fagaðilum og getum þá tekið upplýsta og faglega umræðu um stöðuna og hvernig best sé að bregðast við henni.

En ég ítreka það sem ég sagði, mér finnst þetta erfitt og við verðum alltaf að passa upp á forvarnaþáttinn. Það hlýtur alltaf að vera nr. eitt, tvö og þrjú, að reyna að koma í veg fyrir, eins og kostur er, að fólk endi í þeim aðstæðum að við þurfum að bregðast við með einhverju eins og neyslurými.



[12:30]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér í dag þýðingarmikið málefni og ég tek undir orð þeirra sem segja að það sé gleðilegur viðburður að við fjöllum um þetta mál og nálgumst þetta viðfangsefni með jafn opnum huga og þetta frumvarp ber með sér. Þetta er þýðingarmikið málefni, innihaldsmikið og efnisdrjúgt, kannski ekki óumdeilt og kann að orka á einhverja sem þungbært siðferðilegt viðfangsefni. Hér kallast nefnilega á ýmis rótgróin sjónarmið, viðtekin siðgæðisviðmið, samfélagsleg þjónusta, mannúð, lög og reglur og fagmennska svo eitthvað sé nefnt.

Ég held, virðulegur forseti, að flestir vildu umfram allt nýta alla sína orku til að sporna við og vinna að forvörnum og fyrirbyggjandi verkefnum til að koma í veg fyrir ofneyslu vímuefna og fíkniefna af hvaða tagi sem er meðal okkar unga, efnilega og glæsilega æskufólks eða fólks á öllum aldri sem berst jafnvel fyrir lífi sínu í þessum heljargreipum, í stað þess að koma til móts við einstaklinga í þessari erfiðu stöðu í skugga mannlífsins þar sem baráttan er hörð. En við einsetjum okkur að gefa þessum hluta samferðarfólksins eins og öllu öðru fólki von um aukin lífsgæði og sjálfsvirðingu við aðstæður sem hafa orðið hlutskipti hans. Þetta er ekki stór hópur en hann þarf stuðnings við.

Allt er þetta unnið eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu samkvæmt markmiðum Sameinuðu þjóðanna og eins og hæstv. ráðherra kom svo vel inn á í sinni yfirferð er búið að skoða þetta af heilbrigðisyfirvöldum víða um heim og það ber allt að sama brunni.

Frumvarpið gengur út á að embætti landlæknis verði heimilað í samráði við sveitarfélög að opna og starfrækja svokölluð neyslurými þar sem einstaklingum 18 ára og eldri er heimilt að neyta ávana- og fíkniefna við eins tryggar aðstæður og mögulegt er og undir eftirliti af hálfu heilbrigðisstarfsmanna þar sem menn og konur gæta fyllsta hreinlætis og öryggis eins og hægt er til að leitast við að fyrirbyggja sýkingar.

Neyslurými styðjast við hugmyndafræði skaðaminnkunar en í henni felst að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar ávana- og fíkniefna, hvort sem þau eru lögleg eða ólögleg, án þess endilega að markmiðið sé beinlínis að draga úr notkun ávana- og fíkniefna við þessar aðstæður þó að það sé auðvitað alltaf undirliggjandi þáttur sem við höfum öll einsett okkur að vinna að. Eins og fram kemur í frumvarpinu gagnast skaðaminnkun ekki bara fólki sem notar efnin því líkt og hæstv. ráðherra kom inn á eru fjölskyldurnar einnig undir, nærsamfélagið og raunar allt samfélagið. Grundvallarþáttur þessarar hugmyndafræði er líka sá að í þessum úrræðum felst viðurkenning á því að fjöldi fólks á Íslandi og víðar um heiminn heldur áfram að nota ávana- og fíkniefni þrátt fyrir alla viðleitni í þágu forvarna, fræðslu og fyrirbyggjandi starfs til að koma í veg fyrir að hafin sé neysla á vímuefnum eða áframhaldandi notkun efnanna.

Við þekkjum öll umræðu sem kviknar með reglulegu millibili um umgengni á almenningssalernum og jafnvel á opnum leiksvæðum barna, notaðar nálar og ummerki sem valdið geta hættu. Þetta vekur með skólastjórnendum og foreldrum auðvitað ugg. Einn höfuðtilgangur þessa frumvarps er einmitt sá að draga úr neyslu ávana- og fíkniefna utan dyra og á almannafæri og þar með draga úr því að notaður sprautubúnaður finnist á víðavangi. Því er augljóst að það er þörf á valkosti eins og neyslurými fyrir einstaklinga sem neyta þessara efna í æð til að lágmarka áhættu og skaða af áframhaldandi notkun. Einhverjum kann að þykja að í þessu skrefi felist ósigur eða uppgjöf, baráttan sé að tapast. Ég lít ekki þannig á, þvert á móti er í þessu fólginn sigur að ákveðnu leyti, sigur hugans. Við erum að horfast í augu við staðreyndir, þessi niðurbrjótandi öfl, og með því er betur hægt að takast á við þennan vanda.

Umræða um valkosti af þessu tagi hefur verið nokkur hér á landi undanfarin misseri. Ástæða er til að nefna hið ágæta frumkvæði, Frú Ragnheiði, eins og fram hefur komið hér fyrr. Það er skaðaminnkandi úrræði sem starfrækt er á höfuðborgarsvæðinu og hefur verið gert frá því á árinu 2009. Svipað úrræði er einnig í boði á Akureyri, það úrræði heitir Ungfrú Ragnheiður, og það er Rauði krossinn sem hefur haft frumkvæði að þessu og borið uppi þetta starf að hluta til eða í verulegum mæli í sjálfboðavinnu fagfólks. Markmiðið er að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu, heimilislausra og þeirra sem nota vímuefni í æð.

Hér fetum við okkur á dálítið hálum ís hvað varðar lagaumhverfið en mér finnst mikil reisn yfir því hvernig við þó leitumst við að nálgast þetta málefni. Úrræði Frú Ragnheiðar er hreyfanleg þjónusta, það er sérbúin bifreið sem fer um höfuðborgarsvæðið flest kvöld vikunnar. Það er að vísu aðeins í boði að kvöldlagi og æskilegt væri, og ég held að það sé hugmyndin, að þetta verði úrræði sem verði a.m.k. í boði allan daginn en þyrfti að vera sólarhringsþjónusta þegar fram líða stundir. Það á eftir að koma nánar í ljós. Það er, eins og fram hefur komið, ýmisleg þjónusta og liðveisla sem fólki er veitt í þessu umhverfi og það er af hinu góða. Það er heilsufarsráðgjöf og það geta verið sáraumbúðaskipti, almenn heilsufarsráðgjöf og það sem er mikilvægt er, nálaskiptaþjónusta.

Þessi starfsemi hefur sannað gildi sitt, fest sig í sessi en aðstandendur þjónustunnar telja af sinni reynslu að styrkja þurfi umgjörðina og gera fagfólki enn betur kleift að bregðast við og laga sig að þeim aðstæðum sem ríkja, t.d. þegar einstaklingur tekur of stóran skammt. Víðast í neyslurýmum erlendis er heilbrigðisstarfsmönnum sem þar vinna gert kleift að nota sérstakt lyf sem dregur úr áhrifum ofskömmtunar. Ég þekki ekki gjörla til þess hér en það hefur verið takmörkunum háð. Það er gott til þess að vita að þetta reynslufólk Frú Ragnheiðar hefur tekið þátt í að undirbúa þetta mál sem við erum að fjalla um í dag.

Virðulegur forseti. Fyrirmyndina að þessari þjónustu er að finna víða í kringum okkur. Það má nefna Danmörku sem er nærri okkur, þar hófst viðlíka starfsemi árið 2012 og í Noregi heldur fyrr, árið 2004, en fyrsta neyslurýmið var tekið í notkun árið 1981 í Hollandi. Nú eru þessi rými um veröldina víða og líklega um 90 talsins eftir því sem fram kemur í greinargerðinni.

Virðulegur forseti. Það er ástæða til í dag að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fyrir Alþingi þetta frumvarp og gefa þingheimi kost á að fjalla um þetta áleitna og samfélagslega málefni sem lætur engan ósnortinn. Mér finnst persónulega að hér sé fetuð braut skynsemi og raunsæi, að við horfum á staðreyndir lífsins, ef svo má segja, með berum augum, setjum ekki kíkinn fyrir blinda augað eins og okkur hefur stundum verið tamt. Mér finnst þau viðhorf endurspeglast í þessu frumvarpi, að líta beri á þennan veruleika eins og hann er en ekki kannski eins og við vildum gjarnan að hann væri.



[12:42]
Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því gríðarlega að þetta frumvarp sé komið fram á Alþingi Íslendinga og hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra innilega og þakka henni hreinlega fyrir að þetta sé komið fram á Alþingi. Það er risastórt skref fyrir okkur sem þjóð. Eins hefur verið sérlega ánægjulegt að verða vitni að því hvernig umræðan hefur verið í þingsal í dag um þetta mál. Hér hefur verið talað af ró og yfirvegun. Talað hefur verið fordómalaust, af raunsæi, eins og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom inn á rétt áðan. Það er greinilega þverfagleg sátt um þetta mikilvæga mál og ég fagna því eiginlega meira en ég get komið í orð.

Neyslurými eru einhver mesta framför á sviði skaðaminnkunar í heiminum sem fram hefur komið á síðustu áratugum. Þegar neyslurými eru skoðuð er eðlilegt að horfa til Kanada, enda er Kanada leiðandi í því úrræði. Þar verða örsjaldan dauðsföll af völdum ofskömmtunar og er ástæðan tvíþætt: Þar eru viðlíka neyslurými og við ræðum í dag og frumvarpið snýst um, og eins er mikil áhersla lögð í Kanada í allri vinnu í kringum skaðaminnkun á lyfið Narcan. Í raun og veru má segja að neyslurými án Narcan sé svolítið eins og vínbúð sem selur bara pilsner.

Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra á síðasta þingi, að mig minnir, um hvort hægt væri að auka aðgengi að þessu lyfi, Narcan. Svo ég fari aðeins út í hvers vegna lyfið Narcan er svona mikilvægt í neyslurýmum og raunverulega á mun fleiri stöðum þá má t.d. finna þetta lyf á almenningssjúkrahúsum í Kanada. Þar má finna það í nefúðaformi. Þegar menn lenda í því að fara í ofskömmtunarástand vegna ópíóíða, þá er oft um örfáar mínútur að ræða á milli lífs og dauða. Þar kemur lyfið Narcan inn í myndina. Hægt er að fá þetta lyf í nefúðaformi og getur raunverulega hver sem er gefið þetta lyf, fólki sem er í ofneysluástandi. Það getur munað, eins og áður segir, bara nokkrum mínútum milli lífs og dauða í þessum efnum og því er svo mikilvægt að þetta lyf sé til staðar í öllum neyslurýmum, helst á almenningssalernum og jafnvel á heimilum fólks þar sem vitað er að einstaklingur misnotar ópíóíða.

Setjum þetta í samhengi við t.d. hnetuofnæmi, sem getur verið banvænt. Við sem samfélag höfum ákveðið að eðlilegt sé að til séu pennar til að bregðast við þegar um er að ræða neyðarástand í því efni.

Narcan er líka til í sprautuformi. Þegar það er gefið þarf það að vera gert af lærðu heilbrigðisstarfsfólki, en nefúðalyfið getur keypt svo mikinn tíma áður en faglært heilbrigðisstarfsfólk mætir á svæðið, þá getur aðgengi að þessu nefúðalyfi skipt öllu máli.

Eins og áður segir fagna ég þessu frumvarpi alveg sérstaklega. Mér finnst ég varla þurfa að bæta neinu við því sem áður hefur komið fram. Það var ánægjulegt að heyra orð hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar þar sem hann minntist á skömmina í kringum þessa fíkn. Að skömmin sjálf geti gert hlutina enn verri og þegar samfélag jaðarsetur hópa sem eru viðkvæmir fyrir á slíkan hátt með því að ala á skömm, fordómum og hræðslu, geri það illt verra. Neyslurými hafa sýnt fram á að þau draga úr skömminni, draga úr hræðslunni, draga úr einmanaleikann sem fólk getur upplifað þegar það er statt á þeim stað að vera í viðjum fíknarinnar. Eins er augljóslega um bara heilbrigðismál að ræða, eins og t.d. hv. þm. Sigurður Páll Jónsson kom inn á, upp á hreinlætið. Þegar verið er að nota tæki og tól, sprautur og svoleiðis er minni sýkingahætta ef aðilar geta fengið aðgang að hreinum tækjum og tólum, sprautum, nálum o.s.frv. og þá er líka augljóslega minni hætta á smiti. Aðeins var komið inn á það þegar fundist hafa sprautur á víðavangi, hjá skólum o.s.frv. Neyslurými draga úr líkunum á slíkum slysum.

Að lokum ætla ég aftur að hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra sérstaklega fyrir vinnu hennar í þessu máli og fyrir hennar opna hug gagnvart þessum málaflokki. Það er meira en dýrmætt fyrir okkur sem þjóð.

Aðeins hefur verið komið inn á aldurshópinn 18 ára og yngri. Auðvitað er það mjög flókið, og lagatæknilega séð sérlega flókið. Þann þátt þarf að skoða af festu. Ég efast ekki um að hæstv. heilbrigðisráðherra geti innt það vel af hendi, ég treysti henni til þess.

Frú Ragnheiður á líka alveg sérstakt hrós skilið, það góða fólk sem setti Frú Ragnheiði á stofn og hefur unnið að því og átt stóran þátt í því að orðræðan hefur breyst hér á landi frá því að færast frá sleggjudómum, eins og fordómum sem leiða af sér skömm, þessari jaðarsetningu, yfir í það að hér er um að ræða heilbrigðisvandamál. Hér er um að ræða mál sem samfélagið þarf að taka höndum saman um. Um er að ræða vanlíðan fólks. Og það er yndislegt að sjá þessa þróun á Íslandi og gerir mig stolta af landi og þjóð og að vera Íslendingur og vera þingmaður í dag.



[12:49]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er búin að vera löng leið. Stríðið gegn fíkniefnum var sett af stað fyrir mörgum áratugum, fyrir 40, 50 árum, og loksins erum við farin að stíga skref sem eru vænleg til sigurs í þessu stríði. Eins og það stríð hefur hingað til verið háð, þá hefur allt verið gert til að halda fíkniefnunum í burtu og þá ýtast þau niður í undirheimana og skaða það fólk sem við ætluðum í upphafi að vernda, okkar veikasta fólk. Það skaðar það fólk hvað mest. Það sýkist, fær alnæmi, lifrarbólgu og alls konar aðra sjúkdóma sem eru tengdir neyslunni, langt umfram það sem væri ef til væru neyslurými. Þetta hafa staðreyndir sýnt þar sem slíkt hefur verið gert.

Við erum loksins hætt í blindni að berjast í stríðinu gegn fíkniefnum við að halda þeim frá þar sem okkar veikasta fólk má líða þjáningar. Við erum farin að horfa á þetta út frá manneskjulegum sjónarmiðum. Það sem við viljum raunverulega gera er að minnka þá þjáningu sem óhófleg neysla fíkniefna veldur. Það er það sem við ætluðum í rauninni alltaf að gera og vildum gera, eða alla vega þau okkar sem vorum ekki að nota þetta í einhvers konar pólitískum tilgangi, til þess að skapa óvin sem væri hægt að berjast gegn, við getum kallað það einhvers konar popúlisma, og sanka að sér völdum í kjölfarið. Sums staðar var stríðið gegn fíkniefnum notað þannig. Það sem við viljum öll gera er að minnka þjáninguna sem þessi misnotkun veldur og neyslurými er eitt af skrefum í þá átt.

Í þingsályktunartillögunni sem við Píratar lögðum fram á sínum tíma, eftir að hafa rannsakað málið mjög vel, er þetta skref lagt til. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir, hún hefði að sjálfsögðu gert þetta þó að Píratar hefðu ekki farið af stað á sínum tíma, en ég þakka henni fyrir að nefna hana. Við rannsökuðum efni þessarar þingsályktunartillögu, sem þingmenn allra flokka voru aðilar að, gríðarlega vel. Við rannsökuðum það sem hafði gerst í Portúgal, í Sviss. Það sem gerðist í Portúgal var að þeir tóku skrefið lengra, þeir afglæpavæddu neysluna alveg á öllum fíkniefnum. Það var nefnilega svo mikill ópíumfaraldur í gangi þar á þeim tíma. Úrtölumennirnir sögðu eða þeir sem voru hræddir, skulum við frekar segja, langflestir voru allir af vilja gerðir í þessum efnum, en þeir sem voru hvað hræddastir sögðu: Neyslan á eftir að aukast, fíkniefnatúrisminn á eftir að koma og þetta á allt eftir að verða verra. Það gerðist ekki.

Þegar ég skoðaði gögnin fimm árum eftir að þetta var gert, það var tekin saman stöðuskýrsla um málin, var ástandið miklu betra. Það var minni neysla margra fíkniefna, örlítið meiri í sumum, en skaðinn sem hlaust af neyslunni, bæði alls konar sjúkdómar og dauði, hafði minnkað gríðarlega. Annað skref sem þar var síðan stigið var að fólki var gert betur kleift að fá meðferðarúrræði ef það var tekið með neysluskammta. Það hætti að vera glæpur að vera með neysluskammta, en þó, ef fólk var tekið með neysluskammta var hægt að taka þá af því og vísa því fyrir framan hóp sérfræðinga sem ráðlagði því og beindi inn á þá braut að geta komist út úr fíkninni og farið að fóta sig í lífinu.

Við vinnslu þessarar tillögu okkar töluðum við m.a. við aðila sem eru í The Global Commission on Drug Policy, sem er hópur sem Kofi Annan, fyrrum aðalritari Sameinuðu þjóðanna, er í forsvari fyrir. Þar var kona sem var fyrrverandi forseti Sviss og hún leiddi okkur í sannleikann um það hvernig þeir hefðu þar í landi m.a. veitt fólki neysluskammta á öruggum svæðum, öruggum stað þar sem það gæti neytt þeirra. Og niðurstöðurnar eru alls staðar þær sömu: Það er minni skaði af neyslu þessara efna en annars og neyslan fer ekki upp.

Þetta er stórkostlegur sigur í stríðinu gegn þeirri þjáningu sem óhófleg neysla fíkniefna veldur. Og ég er mjög þakklátur fyrir að við séum komin hingað.



[12:54]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka afar góða umræðu hér og sérstaklega jákvæðar undirtektir við þessu þingmáli. Það gleður mig sérstaklega að fá svo jákvæð viðbrögð við frumvarpinu.

Mig langar að nefna nokkur atriði sem komið hafa fram í umræðunni. Mér finnst rétt að halda því til haga að það er löng leið sem við erum búin að feta þangað sem við erum komin í dag. Það er rétt og sanngjarnt að halda því til haga að aðdragandinn að þeirri skýrslu sem heilbrigðisráðherra lagði svo fram hér á þinginu 2015/2016, var auðvitað að frumkvæði Pírata, að koma þessari umræðu hér inn í þingsal. Það ber að þakka.

Það vill svo til að sú umræða er algerlega samstiga og samhliða þeirri umræðu sem er orðin ofan á hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og fleiri aðilum sem eru í alþjóðlegri stefnumótun í heilbrigðismálum, að við verðum að stíga skref í anda skaðaminnkunar ef við ætlum að koma til móts við þann heilbrigðisskaða og þá heilbrigðisógn sem stafar af ofneyslu ávana- og fíkniefna. Það gerum við ekki bara með því að freista þess að hindra neyslu efnanna. Það hefur verið reynt, en það er ekki leiðin, það er klárt.

Hins vegar höldum við áfram að bjóða upp á meðferðir. Við höldum áfram að missa ekki sjónar á mikilvægi forvarna. Og við höldum áfram að missa ekki sjónar á því að líf einnar manneskju er samtvinnað lífi svo margra annarra, lífi samfélagsins alls og álagi og umræðu sem samfélagið allt sveiflast í. Og við vitum að þegar einstaklingur hefur orðið fyrir þeirri ógæfu að verða af einhverjum ástæðum jaðarsettur þá er erfiðara að komast aftur á beinu brautina.

Þannig að það út af fyrir sig að stjórnvöld taki ákvörðun um að fresta því í lengstu lög og allra helst að hafna jaðarsetningu fólks, eykur möguleikana á því að allir séu þátttakendur í samfélaginu. Það er markmið út af fyrir sig. Það er markmið sem lýtur ekki bara að skaðaminnkun heldur sýninni á samfélagið í heild. Þá sýn vil ég halda í heiðri sem heilbrigðisráðherra og sem stjórnmálamaður á þessum tímum, sem eru að mörgu leyti mjög merkilegir tímar í Íslandssögunni, þ.e. þegar við erum að reyna að stilla aftur sjónglerið og ná fókus eftir efnahagshrunið.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.