149. löggjafarþing — 83. fundur
 25. mars 2019.
fjármálaáætlun og staða flugmála.

[15:04]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra um tvennt. Í fyrsta lagi: Er okkur ekki óhætt að gera ráð fyrir því að ríkisstjórnin muni draga til baka fjármálaáætlun sína og fresta þeirri umræðu sem til stóð að hafa í þinginu á morgun í ljósi þess að forsendur áætlunarinnar standast ekki? Loðnubrestur liggur fyrir og mikil óvissa hangir yfir í ferðaþjónustunni og það hlýtur að verða tekið með í reikninginn þegar við ræðum fjármálaáætlun til næstu ára.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort ríkisstjórnin sé með eitthvert plan til að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi, sérstaklega hjá flugfélaginu WOW. Er ríkisstjórnin með áform um að bregðast við ólíkum sviðsmyndum eftir því hvernig þau mál þróast? Komið hefur fram að ráðherrar hafi hitt erlendan ráðgjafa í Stjórnarráðinu sem mun hafa verið staddur þar fyrir rælni og er ágætisráðgjafi í bankamálum, að mér skilst, og ágætt að ríkisstjórnin leiti álits þessa manns. En hefur hún leitað til sérfræðinga á sviði flugmála og hefur hún mótað sér áætlun um það hvernig brugðist verði við, með það að markmiði að lágmarka tjónið fyrir íslenskt samfélag fari illa í rekstri þessa flugfélags, verja störf og halda starfseminni gangandi eins og kostur er?

Nú er það ekkert nýtt að flugfélög lendi í vandræðum. Mörg stór flugfélög hafa gert það á undanförnum árum og jafnvel áratugum og þar af leiðandi er fyrir hendi heilmikil reynsla í að bregðast við slíkum aðstæðum. Hefur ríkisstjórnin litið til þeirrar reynslu, leitað sér ráðgjafar? En fyrst og fremst: Hefur ríkisstjórnin eitthvert plan?



[15:06]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu mun ríkisstjórnin ekki afturkalla fjármálaáætlun sína, enda er hún byggð á gildandi hagspám. Vakin er athygli á því að það eru óvissuþættir í efnahagsmálum eins og alltaf á við. Hvernig höfum við búið okkur undir óvissuþættina? Við höfum t.d. greitt upp rúma 700 milljarða af lánum á undanförnum árum til þess að vera betur í stakk búin til að takast á við aðstæður sem eru fyrirséðar, þ.e. að kólnað geti í hagkerfinu.

Við höfum líka rekið ríkissjóð með miklum afgangi á undanförnum árum og teflum núna fram áætlun um að reka ríkissjóð með myndarlegum afgangi á hverju ári á næstu árum. Þannig erum við að búa í haginn fyrir áföll, ef þau verða, án þess að þurfa að fara í hallarekstur í ríkisrekstrinum. Við erum að búa í haginn fyrir framtíðina með þeim hætti sem við höfum hagað okkur ár eftir ár eftir ár og birtist svo glögglega í fjármálaáætluninni sem við eigum að ræða á morgun.

Rétt er þetta með loðnubrestinn, það eru vonbrigði, en það eru aðrir hlutir sem ganga betur en fyrir var spáð. Það hefur verið mjög mikill þróttur í hagkerfinu, þannig var t.d. hagvöxtur á síðasta ári mun meiri en við höfðum gert ráð fyrir. Það eru því líka í bland við neikvæðar fréttir mjög jákvæð tíðindi úr efnahagslífinu.

Þegar spurt er hvort ríkisstjórnin sé með einhver áform varðandi þá óvissu sem ríkir núna í flugrekstri þá hefur ríkisstjórnin í marga mánuði fylgst náið með þeirri stöðu og er að sjálfsögðu með sínar áætlanir ef reksturinn stöðvast. Mér fannst hv. þingmaður gefa í skyn að ríkið ætti að stíga inn og tryggja áframhaldandi rekstur. Til þess að geta svarað þeirri spurningu verður þingmaðurinn að gera betur grein fyrir því hvað hann á við. Á hann við hvort uppi séu áform um að ríkið taki að sér að reka flugfélagið, fjármagna það eða eitthvað þess háttar? Ég þarf að vita betur hvað átt er við til að geta svarað þeirri spurningu.



[15:08]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég tel reyndar ekki endilega skynsamlegt að hæstv. fjármálaráðherra svari þeirri spurningu á þessum tímapunkti hvað ríkisstjórnin ætli að gera, enda liggur ekki fyrir hvernig málið fer. Það gæti haft óæskileg áhrif ef hæstv. fjármálaráðherra færi að útlista nákvæmlega hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar yrðu við tilteknar aðstæður.

Þess vegna er ég ekki að spyrja út í áætlunina. Ég er ekki að spyrja hvað ríkisstjórnin ætli að gera. Ég er einfaldlega spyrja: Er ríkisstjórnin með plan eða plön sem eru löguð að ólíkum sviðsmyndum? Veit ríkisstjórnin hvernig hún ætlar að bregðast við í dag eða á morgun eða næstu daga, eftir því hvernig hlutirnir þróast? Veit ríkisstjórnin hvernig hún ætlar að grípa inn í, eftir atvikum, til að koma í veg fyrir eða lágmarka það tjón sem af þessu kann að verða?

Það eru dæmi frá útlöndum um að stjórnvöld hafi gripið inn í til að halda rekstri gangandi. Ég er ekki að fara fram á að hæstv. fjármálaráðherra svari því hvort hann hafi slíkt í huga. Ég er einfaldlega að spyrja: Er ríkisstjórnin með plan?



[15:10]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, við höfum haft sérstakan starfshóp að störfum í marga mánuði sem hefur undirbúið viðbragðsáætlun stjórnvalda eftir ólíkum sviðsmyndum. Ég hef sagt það nokkrum sinnum opinberlega að ég telji ekki réttlætanlegt að setja skattfé inn í áhætturekstur eins og þennan. Þess vegna er það ekki hluti af okkar áætlunum að gera neitt slíkt. En hins vegar þurfa stjórnvöld auðvitað að vera viðbúin, ef einhver meiri háttar röskun verður, að huga að orðsporsáhættu sem því gæti fylgt og eins stöðu farþega og hvernig greiða skuli úr ef á þarf að halda.

Þær aðstæður hafa ekki enn þá skapast, sem betur fer. En við erum viðbúin því ef það gerist.