149. löggjafarþing — 83. fundur
 25. mars 2019.
rekstrarumhverfi útflutningsgreina.

[15:33]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég held að sú alvarlega staða sem blasir við okkur sé ekki tilefni til þess að standa í miklu karpi í þessum stól heldur einmitt að við reynum að einhenda okkur saman í það hvernig við tökum á þessum vanda. Ég hlustaði á orð hæstv. fjármálaráðherra um að stjórnvöld væru að vinna eftir ýmsum sviðsmyndum til að bregðast við þeim vanda sem snertir WOW og þann bráðasta vanda sem við erum að glíma við. Ég treysti því að svo sé.

Ég hef hins vegar áhyggjur og velti því fyrir mér hvort þetta sé ekki líka ástæða og tækifæri fyrir okkur til að hugsa aðeins til lengri framtíðar. Ferðaþjónustan hefur gengið í gegnum fordæmalaust vaxtarskeið en samt er búið að vera nokkuð ljóst undanfarin tvö til þrjú ár að þessi uppgangur hefur ekki skilað sér í traustari afkomu greinarinnar. Raunar er ljóst að undanfarin tvö ár, hið minnsta, hefur greinin verið afkomulítil eða jafnvel með öllu afkomulaus, sem segir okkur að sú staða sem við stöndum frammi fyrir núna er hvorki sérlega óvænt né ófyrirséð.

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé mér ekki sammála um að það sé nauðsynlegt að horfa til þess hvernig við treystum undirstöður og rekstrarumhverfi útflutningsatvinnuvega okkar. Því að ferðaþjónustan sýnir okkur einmitt nákvæmlega hversu brothætt sú umgjörð er með þá mynt sem við störfum með. Þetta er sú atvinnugrein sem er útsett og mjög viðkvæm fyrir sveiflum í gengi krónunnar og hefur sýnt það augljóslega með því að hér var tæplega 30 milljarða tap á flugrekstri bara á síðasta ári miðað við þær tölur sem birst hafa.

Það virðist vera sem greinin sé meira og minna í járnum eða í tapi í fordæmalausum uppgangi. Á sama tíma hefur heldur lítill sem enginn vöxtur orðið, t.d. í sprota- og tæknigeiranum á síðastliðnum þremur árum af sömu ástæðum; af óásættanlegum rekstrarskilyrðum útflutningsatvinnuvega.



[15:35]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni þegar hann segir að það skipti miklu að gera það sem við getum til að treysta rekstrarumhverfi útflutningsgreinanna og þar með talið ferðaþjónustunnar, sem gengið hefur í gegnum alveg fordæmalaust vaxtarskeið undanfarin ár. Það hefur gengið á ýmsu. Sumum fyrirtækjum í ferðaþjónustu gengur afskaplega vel, öðrum gengur síður. Mörg eru rekin með tapi.

Ég myndi vilja vekja athygli á því að margt hefur haft áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu, þar með talið ferðaþjónustunnar. Jú, auðvitað skiptir gengi krónunnar máli. Mér finnst samt flestir vera þeirrar skoðunar að krónan hafi legið í kringum jafnvægisgildi sitt núna um nokkurt skeið. Hún hefur veikst frá því að hún styrktist hvað mest, sem hjálpaði öllum útflutningsgreinunum, þar með talið ferðaþjónustunni. Og bókunarstaðan fyrir komandi sumar var alveg ágæt um síðustu áramót miðað við það hversu mikil neikvæðni var í umræðunni og borið saman við fyrra ár.

Það verður auðvitað ekki horft fram hjá því hversu gríðarlega miklar launahækkanir hafa verið á Íslandi á undanförnum árum. Laun á Íslandi, eins og við rekjum í nýútkominni fjármálaáætlun, hafa í evrum hækkað langt umfram það sem á við í samanburðarlöndunum, nágrannalöndunum. Laun á framleidda einingu á Íslandi hafa hækkað langt fram úr því sem átt hefur við í samanburðarlöndunum, sama hvort við horfum til Evrópuríkja eða þess vegna vestur um haf. Sömuleiðis hafa aðrir þættir gert ferðaþjónustuaðilum erfitt fyrir. Ég nefni bara þá gríðarlega hörðu samkeppni sem er í flugrekstri yfir Norður-Atlantshafið. Það hefur ekki gert mönnum auðvelt fyrir og ekki heldur olíuverðsbreytingar. (Forseti hringir.) Ég held að vandinn liggi ekki í íslenska gjaldmiðlinum.



[15:37]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það var vissulega ekki til að bæta samkeppnisstöðu útflutningsatvinnugreinanna að fá tugprósenta styrkingu gjaldmiðilsins ofan á þær miklu launahækkanir sem fjármálaráðherra vísar til og ég ætla ekki að deila við hann um.

Það er augljóst að ef við ætlum að treysta rekstrarumgjörð útflutningsatvinnugreina til langframa verður kjarasamningsumhverfið líka að taka mið af því og grafa ekki undan alþjóðlegri samkeppnishæfni okkar, líkt og almennt er viðurkennt og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.

En það verður ekki fram hjá því litið að íslenska sveiflan er einmitt þessi: Við förum dálítið fram úr okkur, einkaneysla eykst og krónan styrkist, af því að vextir eru hækkaðir ofan í það ástand, sem grefur enn frekar undan útflutningsatvinnuvegunum. Það er ekki fyrr en þeir kikna sem leiðréttingin fer af stað. Við erum því alltaf á einhverju innstæðuleysi, jafnvel árum saman, áður en hagkerfið brotnar svo undan okkur.

Ég held að við hljótum að þurfa að horfa á ríkisfjármálin og hvernig þau geti stutt (Forseti hringir.) betur við og á vinnumarkaðinn, en það er ekki hægt að horfa fram hjá gjaldmiðlinum lengur.



[15:39]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar sú breyting verður í hagkerfinu að ferðaþjónustan, sem var kannski hálfdrættingur á við sjávarútveg eða orkufrekan iðnað, er skyndilega í útflutningstekjum tekin fram úr báðum þessum stoðum hagkerfisins og jafnvel farin fram úr því sem þessar tvær stoðir skapa samanlagt í útflutningstekjur á stuttu tímabili — ja, við hverju er öðru að búast en að krónan styrkist? Er það ekki einmitt það sem krónan hlýtur að gera og á að gera? Ég held að það hafi verið rétt hjá Seðlabankanum sem hann gerði þegar krónan styrktist vegna þess að við fórum úr hálfri milljón ferðamanna í 2 milljónir ferðamanna og gott betur og þegar krónan var að styrkjast var hún að gera nákvæmlega það sem eigin gjaldmiðill hlýtur að eiga að gera við þær aðstæður. Reyndar var slíkt flóð af gjaldeyri inn í landið að Seðlabankinn mátti hafa sig allan við að taka hann af borðinu til að forða enn frekari styrkingu. Þannig hefur ferðaþjónustan í raun og veru skapað (Forseti hringir.) bróðurpartinn af þeim gjaldeyrisforða sem nú er að finna í Seðlabankanum.

Að þessu leytinu til held ég að við séum með gott dæmi um hversu (Forseti hringir.) mikilvægt það var að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil.