149. löggjafarþing — 83. fundur
 25. mars 2019.
lokun göngudeildar SÁÁ á Akureyri.

[15:40]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. 1. mars sl. var göngudeild SÁÁ á Akureyri lokað. Við erum búin að taka þessa umræðu nokkuð reglulega við hæstv. heilbrigðisráðherra hér í þinginu, m.a. í óundirbúnum fyrirspurnum í lok janúar í fyrra þar sem svipuð staða var komin upp varðandi göngudeildina á Akureyri. Hún hefur verið starfrækt frá 1993 og sinnt svæðinu frá Blönduósi og austur á firði. Það sem gerðist í samþykktum fjárlögum hjá okkur í desember var að veittar voru 150 milljónir til SÁÁ með áherslu á að það fjármagn færi í göngudeildir SÁÁ í Reykjavík og á Akureyri. Nú eru að verða liðnir þrír mánuðir af þessu ári og það virðist sem það hafi gengið ákaflega hægt þessa þrjá mánuði að ná einhverju samkomulagi milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ um hvernig eigi að fara með þetta fjármagn.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig gangi varðandi að þessir aðilar nái samkomulagi um að nýta fjármagnið til þeirra verkefna sem þeim var falið af þinginu í desember þegar við samþykktum fjárlög 2019 og hver staða málsins er á þessum tímapunkti.



[15:42]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Vegna þess að hv. þingmaður nefnir að þessi starfsemi hafi verið í gangi um áratugaskeið á Akureyri er rétt að nota tímann og segja að þessi rekstur hefur verið greiddur af sjálfsaflafé samtakanna og með stuðningi frá Akureyrarbæ hingað til, sem sagt ekki á grundvelli þjónustusamnings við ríkið. Það var ekki fyrr en á árinu 2018 með fjárlögum fyrir árið 2019 sem ákvörðun var tekin af ríkinu um að koma inn í þennan rekstur með sérstöku fjárframlagi. Þess vegna kom mjög á óvart þegar SÁÁ ákvað að loka göngudeildarþjónustunni tímabundið frá 1. mars vegna kostnaðar þegar um er að ræða starfsemi sem hefur verið við lýði um áratugaskeið og hefur verið greidd af sjálfsaflafé og í fyrsta skipti í sögunni erum við með eyrnamerkta peninga úr ríkissjóði til að tryggja reksturinn. Þá kom á óvart að mönnum skyldi verða svo brátt sem ljóst er að loka starfseminni. Það kom mér á óvart og olli mér vonbrigðum.

Vegna þess að það er ekki bara hv. þingmaður heldur líka sú sem hér stendur sem veit að sé von á óundirbúnum fyrirspurnatíma eru meiri líkur en minni á að einhverjum detti í hug að spyrja um samningaviðræður varðandi rekstur SÁÁ og göngudeildarþjónustu á Akureyri spurði ég sérstaklega um þetta í morgun og mínar upplýsingar eru þær að samningaviðræður gangi vel og að Sjúkratryggingar Íslands reikni með því að ljúka samningagerð mjög fljótlega. Á morgun er fundur um málið og ég vonast til þess að það verði fundurinn sem lokar málinu.



[15:44]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Við ræddum þetta einmitt í lok janúar í fyrra í óundirbúnum fyrirspurnum varðandi þjónustusamninga hjá ríkinu. Í þessu tilviki eru það um 900 millj. kr. á ári sem hafa farið til SÁÁ úr ríkissjóði, en það hafa ekki verið skilgreind almennilega markmið ríkisins með viðkomandi þjónustusamningi, þ.e. í hvað fjármagnið á að fara. Við gerðum athugasemd við þetta í janúarlok í fyrra, fyrir einum 14 mánuðum, þannig að aðeins hefur verið unnið í málinu við að reyna að skilgreina þetta. Þetta á svo sem við víða.

Á Íslandi eru starfandi rúmlega 40 áfengis- og vímuvarnaráðgjafar. Eins og staðan er núna er enginn fyrir utan suðvesturhornið. Þeir eru allir á höfuðborgarsvæðinu.

Ég ítreka það bara og þakka fyrir svörin sem hér hafa komið fram um að þetta sé að gerast en við þurfum að skilgreina vel, og það á víða við í heilbrigðiskerfinu, (Forseti hringir.) hvað við erum að fá fyrir það fjármagn sem kemur fram.



[15:46]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það og nákvæmlega sú staða sem nú er uppi vekur okkur til umhugsunar um það hversu heppilegt það er að eyrnamerkja upphæðir á fjárlögum tilteknum þjónustuveitanda, hvort það kunni að vera heppilegra að merkja fjárhæðirnar tiltekinni þjónustu sem þurfi að veita og eigi að veita. Eins og kemur fram í máli hv. þingmanns hafa fleiri aðilar veitt og geta veitt svipaða þjónustu og hér um ræðir. Til ráðuneytisins hafa leitað sérfræðingar á sviði áfengismeðferðar um að gera samninga um t.d. þessa starfsemi. Það mál er í skoðun innan ráðuneytisins en það breytir því ekki að Alþingi afgreiddi fjárlögin með þeim hætti að þessir peningar eru eyrnamerktir SÁÁ en ekki öðrum.