149. löggjafarþing — 83. fundur
 25. mars 2019.
sérstök umræða.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[15:47]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa sér tíma í þessa mikilvægu umræðu. Staða erlends starfsfólks hér á landi hefur verið mjög til umræðu á þessu uppgangsskeiði og af ærinni ástæðu. Við höfum heyrt allt of margar sögur þar sem verið er að brjóta mjög gróflega á réttindum starfsfólks, sem býr við algjörlega óviðunandi aðstæður og er í aðstöðu gagnvart vinnuveitanda sínum sem er á engan hátt ásættanleg.

Að því sögðu segi ég um leið: Það er afskaplega mikilvægt að við höldum þessari umræðu við það sem ég myndi kalla hina skipulögðu glæpastarfsemi á þessu sviði, sem nær aðeins yfir örlítinn hluta vinnumarkaðarins. Mér finnst of oft sem þessi umræða sé tekin þannig að hér sé upp til hópa stór hluti íslenskra fyrirtækja að brjóta á starfsfólki sínu, sem ég held að eigi alls ekki við í þessu tilfelli og þykist raunar hafa nokkuð fyrir mér í því. Þetta eru fáar en mjög alvarlegar undantekningar. Og vandinn þegar verið er að glíma við slíkt er að oftar en ekki erum við að glíma við hóp einstaklinga sem eru í hreinni og klárri skipulagðri glæpastarfsemi, þar sem ásetningurinn frá upphafi er að brjóta á kjarasamningsbundnum réttindum, þar sem ásetningurinn er frá upphafi að hagnýta sér veika stöðu þess starfsfólks sem í hlut á. Því að það er jú það sem einkennir stöðu þessa hóps eðli máls samkvæmt. Hér er fólk sem er nýkomið til landsins, þekkir afskaplega lítið til réttinda sinna á vinnumarkaði og þekkir ekkert til kjarasamningsumhverfis o.s.frv. Hvernig getum við beint aðgerðum okkar að því að hjálpa þessum hópi að koma í veg fyrir þessi ásetningsbrot á vinnumarkaði?

Núna í janúar kom út skýrsla á vegum vinnuhóps hjá hæstv. ráðherra sem nefnir ýmis atriði sem nauðsynlegt sé að skoða, t.d. útvíkkun keðjuábyrgðar, baráttu gegn kennitöluflakki og svo mætti áfram telja. Auðvitað er þáttur þar sem ég hefði viljað sjá víðfeðmari umfjöllun um, sem er sá grunnur sem hlýtur óhjákvæmilega að liggja hjá okkur öllum hér, að á bak við mörg af þessum alvarlegustu brotum séu hrein og klár mansalsmál. Mansalsmál eru ekki þannig að fólk sé hlekkjað við veggi. Hér hagnýta menn sér með grófum hætti vanþekkingu og veika stöðu fólks á vinnumarkaðnum eða hér á landi og þar sem slík brot eiga sér stað, þar sem einstaklingar eru með óeðlilegum hætti upp á vinnuveitanda sinn komnir, t.d. varðandi húsnæði, varðandi atvinnuleyfi o.s.frv.

Það vekur athygli í þessari umræðu allri að þrátt fyrir að við sjáum að umhverfið er annað varðandi tíðni mansalsmála t.d. í nágrannalöndum okkar, á Norðurlöndunum, hefur ekki enn þá fallið dómur, svo best ég þekki, um mansal hér á landi. Þeir þröskuldar sem reistir eru í núverandi lagaramma virðast vera of háir til að hægt sé að færa sönnur á slíkt. En persónulega er ég ekki í nokkrum vafa um að einhver af þessum alvarlegustu málum geti ekki talist neitt annað hreint og klárt mansal.

Þess vegna held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að við horfum til lagaumhverfis, ekki síst hvað þessi alvarlegustu mál varðar, mansalsmálin og þessi grófustu brot, ásetningsbrot varðandi refsiheimildir, og hvernig við stöndum að rannsókn þeirra. Skipulögð glæpastarfsemi er oftast með einföldustum hætti upprætt með því að elta peningaslóðina; hver hagnast, hversu mikið og hvernig var að málum staðið.

Vandinn er hins vegar um leið sá að við getum ekki gengið endalaust fram í því að þrengja regluumhverfið gagnvart þeim fyrirtækjum sem hér eru. Ég undirstrika að þorri þeirra fyrirtækja sem starfa á íslenskum markaði ætlar sér og leggur metnað sinn í að vinna eftir lögum og reglum og búa vel að starfsfólki sínu.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

Hvernig hyggst hann beita sér í þessu máli? Er eftirlitinu nægilega vel sinnt? Hefur það það (Forseti hringir.) fjármagn sem til þarf? Hvernig ráðum við bót á þessu böli?



[15:52]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Það er laukrétt að við þurfum alltaf að vera á varðbergi í þessum málum og mikilvægt að þau séu tekin með reglulegum hætti til pólitískrar umræðu, ekki bara til að skerpa á ríkisstjórninni og ráðherrunum heldur líka til að þessi umræða heyrist reglulega, að stjórnmálin í landinu láti sig þessi mál varða, hvar í flokki sem menn standa.

Það er rétt að koma því að í upphafi, varðandi almennt eftirlit á vinnumarkaði, að ríkisvaldið, eða stofnanir á vegum ríkisins, fer einungis með eftirlit með mjög litlum hluta vinnumarkaðarins, sem eru útsendir starfsmenn og starfsmannaleigur, eða um 0,9%. Það hefur verið talsvert mikil umræða um starfsmannaleigur. Það má líka geta þess að það er margt sem bendir til þess að á þessu ári sé útsendum starfsmönnum að fækka mjög mikið hér á landi. Á árinu 2018 voru starfandi útsendir starfsmenn í heildina 1.107 á vegum 115 erlendra þjónustufyrirtækja, en í febrúar 2019 voru starfandi hér á landi 79 erlendir starfsmenn á vegum 13 erlendra þjónustufyrirtækja. Það virðist því vera að þeim sé að fækka.

Þingmaðurinn spyr: Til hvaða aðgerða getur ríkisvaldið gripið í þessum málum? Eru hlutirnir í lagi? Ég skipaði síðasta haust starfshóp sem fór sérstaklega yfir þessi mál og hann hefði ekki verið skipaður nema af því að við töldum að það þyrfti að skerpa á þessum málum í heild sinni. Hópurinn skilaði niðurstöðum í janúar sl. og kom með fjölmargar tillögur sem við höfum þegar sett í farveg, til að mynda um kennitöluflakk, sem var ein af stærstu tillögum hópsins. Þar hefur atvinnuvegaráðuneytið og hæstv. ráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þegar kynnt frumvarp sem nú er komið í samráðsgátt.

Önnur tillaga var sú að útfært yrði hvernig mætti fyrirbyggja alvarleg og/eða ítrekuð brot gegn starfsmönnum með því að útvíkka refsiábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna. Félagsmálaráðuneytið er núna í samstarfi við Vinnueftirlit ríkisins að vinna að breytingum hvað þennan lið varðar og við vonumst til þess að geta kynnt það sem fyrst.

Þriðja tillagan er m.a. að stjórnvöldum verði veittar lagaheimildir til að taka á brotastarfsemi með þvingunarúrræðum og með stjórnvaldsviðurlögum. Þarna erum við m.a. að vinna að tillögum til að fylgja eftir þessari skýrslu og gerum það í samstarfi við Vinnueftirlit ríkisins.

Í skýrslunni er líka fjallað um að það skuli setja skyldu um keðjuábyrgð í lög um opinber innkaup. Það er breyting sem væri hæglega hægt að koma inn í meðförum þingsins. Þingið hefur þegar til umfjöllunar frumvarp þar sem þessi mál eru opin og væri mögulegt að fylgja því þar á eftir.

Síðan er ein tillaga um að komið verði í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði undir formerkjum starfsnáms eða sjálfboðaliðastarfsemi og markaður skýr rammi um hvað skuli heimila undir þeim formerkjum. Þar hefur ráðuneytið, frá því að þessari skýrslu var skilað, verið í samstarfi við Vinnumálastofnun að forma slíka tillögu sem við vonumst til að geta kynnt sem fyrst.

Jafnframt er ágætt að segja frá því að ein af tillögum þessa hóps var að það yrði búið til víðtækt skipulagt samráð og samstarf á milli stofnana í eftirlitsgeiranum og ekki bara innan félagsmálaráðuneytis heldur líka með lögreglu, ríkisskattstjóra og fleiri aðilum. Þessi hópur hefur þegar verið skipaður og fyrsti fundur hans fór fram í félagsmálaráðuneytinu 20. mars sl., þar sem lagt var til að samstarfshópurinn myndi hefja vinnu sína á því að formbinda reglulegt samráð, koma sér upp verklagi og ákveða samstarf þessa samstarfsvettvangs við samtök aðila vinnumarkaðarins um skipulagt vinnustaðaeftirlit.

Allar þessar tillögur í skýrslunni eru því þegar komnar í farveg og við fylgjum þeim mjög fast eftir. Ég á von á því að það þarfnist einhverra lagabreytinga til að fylgja þeim eftir og að þau frumvörp muni koma fram á næsta haustþingi.

Hv. þingmaður minntist sérstaklega á það að oft væru starfsmenn í erfiðri stöðu gagnvart yfirmönnum sínum vegna húsnæðismála. Þá vil ég nefna að fyrir tveimur vikum settum við inn í samráðsgátt frumvarp sem á að gera það óheimilt að blanda saman ráðningarsamningum og húsaleigusamningum. Ég bind vonir við að við getum lagt það fram í þinginu áður en framlagningarfrestur rennur út.

Ég vil bara segja að þetta er gríðarlega mikilvæg umræða, mikilvægt að þessum málum sé fylgt fast eftir og ég þakka (Forseti hringir.) þingmanninum fyrir að taka þetta upp á þinginu.



[15:58]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, fyrir og sömuleiðis hæstv. ráðherra.

Því er hægt að halda fram að brot á vinnumarkaði sé að finna innan flestra atvinnugreina og því miður eru það sérstaklega þær greinar sem eru í vexti hverju sinni. Eins og staðan er nú er það helst ferðamanna- og byggingariðnaður sem við höfum heyrt fréttir af undanfarin misseri sem styðja þessa tilgátu, alla vega innan byggingariðnaðarins. Við getum gefið okkur að þeir sem stunda slík brot séu aðeins með það markmið í huga að græða á fyrirkomulaginu, að fá meira fyrir sinn snúð. Það er varla hægt að halda því fram að þeir sem slíkt gera viti ekki betur, að þeir hafi gert þetta í góðri trú. Það segja þeir núna á tímum upplýsinga.

Ég heyrði að ráðherra boðaði frumvarp, en það eru nefnilega ýmis óæskileg hliðaráhrif sem haft geta alvarlegar afleiðingar. Sem dæmi má nefna hvernig aðbúnaður þeirra er sem lenda í þeim hremmingum að lenda í klóm þeirra sem stunda félagsleg undirboð. Þeir sem stunda félagsleg undirboð eru oftar en ekki þeir sem bjóða svo þessu fólki upp á að dvelja í húsnæði sem ógnar öryggi þess og heilbrigði.

Það er varla hægt að hugsa það til enda ef eitthvað slæmt gerist þegar maður veit að ofan í allt annað er aðbúnaður þeirra algerlega óásættanlegur. Þessi þáttur virtist einmitt vera einn af þeim þáttum sem stóðu út af í skýrslu hjá nefnd í janúar. Ég vona að ráðherra muni beita sér áfram í þessu efni, því að það er varla hægt að hugsa þá hugsun til enda ef illa fer.



[16:00]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þessa þörfu umræðu. Ég er nú reyndar tvisvar sinnum búinn að biðja um nákvæmlega þessa umræðu. Því miður hefur það einhvern veginn farist fyrir þó að ráðherrann hafi verið velviljaður. Kannski ekki gott að Sjálfstæðismenn séu framsögumenn í svona góðu máli.

Ég var í starfshópi ráðherra sem fjallaði um undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði og skilaði mjög góðu starfi að mínu mati enda hópurinn gríðarlega vel skipaður af fólki úr atvinnulífinu og ekki síst frá stofnunum þjóðfélagsins. Í skýrslunni segir að starfshópurinn leggi áherslu á það stefnumið að hindra og stöðva brotastarfsemi á vinnumarkaði, ekki aðeins félagsleg undirboð heldur alla brotastarfsemi á vinnumarkaði. Í því felist sameiginlegir hagsmunir launafólks, atvinnulífs og samfélagsins alls. Markmiðið sé að regluverk og aðgerðir séu skilvirk og skili tilætluðum árangri. Skýr pólitískur vilji og stuðningur stjórnvalda sé forsenda árangurs.

Mér finnst þetta mjög skýr skilaboð. Ég hefði viljað spyrja ráðherrann að því hversu mikinn undirbúning þurfi til að koma tillögum hópsins í framkvæmd. Hvaða lagabreytingar er nauðsynlegt að gera og hve langan tíma má ætla að það taki að breyta lögum og færa eftirlitsaðilum verkfæri til að takast á við vandann? Það er gríðarlega mikilvægt atriði að þeir sem fylgjast með vinnumarkaðnum hafi einhver verkfæri til að taka á þeim málum.

Það voru síðan tíu tillögur sem hópurinn lagði fram og ráðherrann fór ágætlega yfir þær hérna áðan. Ég verð bara að segja það í lokin, virðulegur forseti, að það var með ólíkindum að hlusta á starfsmenn skattsins og lögreglustjóra og heyra hvernig farið er með grimmd og ágirnd gegn erlendu vinnuafli sem hefur verið undirstaðan á vinnumarkaði síðastliðið ár. Það er þjóðinni til háborinnar skammar hvernig það hefur verið. Það er gríðarlega mikið atriði að á því verði tekið föstum tökum og ég treysti ráðherranum vel til þess.



[16:02]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Undanfarin misseri hafa landsmenn orðið vitni að mörgum sorglegum dæmum um slæmt framferði og viðmót gagnvart erlendum starfsmönnum sem hingað leita í ærin verkefni. Úr ýmsu hefur verið að velja á útþöndum byggingarmarkaði, í óþreyjufullri í ferðamannaþjónustu og á blómstrandi veitinga- og gistimarkaði.

Þar virðast finnast sumir íslenskir vinnuveitendur, ekki allir, sem óhikað og oft markvisst athafna sig handan laga og reglna og sýna hreinan fantaskap. Allt í skjóli þess að lög og reglur eru og hafa verið vanbúin. Alvarlegustu tilvikin þola ekki dagsljósið, eru til skammar og standast tæpast ákvæði laga um dýravelferð. Samtök launþega, stéttarfélögin hafa linnulítið vakið athygli stjórnvalda á alvarlegum brestum og augljósum tilvikum um brotalamir og níðingshátt en hafa ein og sér lítil og takmörkuð úrræði til að bregðast við. Sú mynd sem virðist blasa við er að stjórnvöld setji kíkinn fyrir blinda augað og ani áfram og viðhafi í besta falli einhverja orðræðu um að eitthvað þurfi að gera, styrkja þurfi eitt og stuðla að öðru, en svo gerist harla lítið og það sem gerist, gerist hægt.

Við horfum upp á brot af öllu tagi: Ólöglega sjálfboðaliðastarfsemi, launastuld, ófullnægjandi ráðningarsamninga, misnotkun á vinnandi fólki, brot á ákvæðum um hvíldartíma, óviðunandi aðbúnað og misnotkun í tengslum við útleigu á íbúðarhúsnæði í eigu atvinnurekenda og það viðgengst enn. Við þurfum ekki annað en að minnast umfjöllunar um mál rúmenskra verkamanna í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV fyrir skemmstu.

Virðulegur forseti. Er til of mikils mælst að hæstv. ráðherra beiti sér af ofurefli og geri það að algjöru forgangsverkefni að vinna að úrbótum og tryggja að við högum okkur að þessu leyti eins og siðmenntuð þjóð?



[16:05]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna þeim tillögum sem við fengum í byrjun árs um félagsleg undirboð. Loksins, loksins vil ég segja, af því að það hefur tekið allt of langan tíma að komast á þann stað sem við erum á í dag. Skýrslan er virkilega góð enda byggir hún á samtali og samstarfi á milli þeirra aðila sem málin snerta, aðila vinnumarkaðarins, launafólks, atvinnurekenda og ríkisins.

Það er sannast sagna skammarlegt hvernig sumir hafa leyft sér að koma fram við verkafólk á síðustu árum. Þetta er fólk sem að miklu leyti vinnur í þeim atvinnugreinum sem hafa verið vaxandi og staðið undir hagvexti síðustu ára, ferðaþjónustu og byggingariðnaðinum sérstaklega. Þegar við horfum á fréttaskýringarþættina sem hér hafa verið nefndir í ræðum þá er sannast sagna kaldhæðnislegt að fólkið sem byggir öll þessi glæsihýsi þurfi sjálft að búa í einhverjum hreysum, illa einangruðu og leku iðnaðarhúsnæði einhvers staðar í útnára á meðan það reisir hér hallirnar yfir okkur hin. Þessi þarf að snúa við og gott að heyra ráðherrann er til í tuskið.

Ég má til með að nefna verkalýðshreyfinguna sérstaklega vegna þess að hún fyllti í þá eyðu sem allt of lengi var þar sem stjórnvöld áttu að vera. Það kemur verkalýðshreyfingunni ekkert á óvart hvernig ástand mála er. Hún hefur unnið á síðustu árum mikið þrekvirki í því að berjast fyrir réttindum launafólks, að fylgjast með því hvar brotið sé á fólki, hvar félagslegt undirboð og vinnumansal kann að eiga sér stað þar sem fjármagn og heimildir hins opinbera hefur skort.

Nú er kominn á fót formlegur samstarfshópur ríkisstjórnar, stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, (Forseti hringir.) sem ráðherra sagði hér í ræðu að hefði fundað í fyrsta sinn í síðustu viku, þannig að vonandi, herra forseti, erum við komin með skikk á þessi mál.



[16:07]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni. Hann var með flotta ræðu. Ég ætla að vera aðeins praktískari í nálgun en þakka fyrir umræðuna og fagna því einnig að þessi vinna sé komin af stað. Samstarfshópurinn, sem félags- og barnamálaráðherra skipaði um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði, skilaði skýrslu sinni í byrjun árs.

Velferðarnefnd bauð í kjölfarið ráðherra ásamt formanni starfshópsins að koma á fund nefndarinnar og gera grein fyrir niðurstöðum og tillögum skýrslunnar. Á fundi velferðarnefndar kom fram sá vilji ráðherra að hrinda tillögum starfshópsins í framkvæmd eins fljótt og mögulegt væri og var talað um að von væri á því að vinnan yrði kláruð á vorþingi 2020. Ég tek undir með ráðherra að það er mjög brýnt að koma þessum tillögum til framkvæmda sem allra fyrst. Langar mig því til að hvetja ráðherra til að birta tímasetta áætlun fyrir þessa vinnu þannig að við í velferðarnefnd getum veitt honum gott og virkt aðhald í þessum málaflokki.

Einnig hvet ég hann til að birta kostnaðaráætlun vegna þess að ég á sérstaklega erfitt með að sjá að á nýrri fjármálaáætlun sé gert ráð fyrir því að það sé nokkur kostnaður sem fylgir þessum breytingum. Ef hann er sýndur einhvers staðar þætti mér alla vega vænt um ef hæstv. ráðherra gæti bent mér á hvar það er. Ein af tillögum starfshópsins sem snýr að eftirliti er að þau stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði, þ.e. lögreglan, ríkisskattstjóri, vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun, geri með sér formlegt samkomulag um skipulegt samstarf gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Formbundið verði reglulegt samráð og samstarf þessa samstarfsvettvangs við aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit. Það er mjög mikilvægur hluti af tillögunum.

Í fjármálaáætlun segir, með leyfi forseta:

„M.a. hefur Vinnumálastofnun verið með lögum falin veiting atvinnuleyfa sem og eftirlit með útsendum starfsmönnum og starfsemi starfsmannaleigna í því skyni að koma í veg fyrir félagsleg undirboð á vinnumarkaði í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og önnur stjórnvöld.“

Ég fæ ekki með nokkru móti séð að gert sé ráð fyrir kostnaði við þetta eftirlit í umræddri fjármálaáætlun. Gott væri að heyra frá ráðherra hvernig staðið verði undir þessu eftirliti. Ég get ekki séð annað en að í nýrri fjármálaáætlun sé, (Forseti hringir.) að teknu tilliti til hagvaxtar, verðbólgu og launaþróunar, samdráttur einmitt í málaflokki (Forseti hringir.) um vinnumál og atvinnuleysi. Ég get heldur hvergi séð fjármagn til ríkisskattstjóra. (Forseti hringir.) Það væri því gott að fá skýringar á þessu. Verða þessar tillögur fjármagnaðar og hvar get ég séð þær?



[16:09]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þessa þörfu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir að vera með okkur og taka þátt í henni með okkur í dag.

Ég er ein af þeim sem sat fyrir framan sjónvarpstækið þegar fréttaskýringarþátturinn Kveikur birtist okkur í vetur. Ég verð að segja að þó að maður vissi að staðan væri svört og að virkilega væri verið að níðast á viðkvæmum hópi sem hingað kæmi til þess að vinna og taka þátt í uppbyggingu í samfélagi okkar bjóst ég aldrei við að ástandið væri svona svart.

Ég vil þakka öllum þeim þingmönnum sem talað hafa á undan mér og kortlagt stöðuna hægt og hljótt því að það skiptir öllu máli að við tökum utan um málið af festu. Það er í rauninni dapurlegt að það skuli þurfa að koma til fréttaskýringarþátta og annars eins til að ýta almennilega við hv. löggjafanum. Í þessu tilviki sjáum við það eins og svo oft áður að það er nauðsynlegt hafa rannsóknarblaðamennsku, þann þrýsting og það upplýsingaflæði sem við fáum með henni.

Mér finnst hins vegar ekkert hafa verið rætt um það hér hvaða viðurlögum við eigum að beita þegar einbeittur brotavilji, eins og við höfum nú ítrekað þurft að horfast í augu við, verður dreginn fram í dagsljósið. Er ekki kominn tími til að við tökum virkilega til hendinni og komum í veg fyrir að jafnvel ítrekað séu sömu aðilar bara með mismunandi aðferðum og einbeittum brotavilja að níðast á þeim sem síst skyldi?

Ég þakka hjartanlega fyrir þessa umræðu og hvet hæstv. ráðherra til dáða. Ég efast ekki um að hann mun taka málið traustum tökum.



[16:12]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, fyrir að vekja athygli á þessu máli og hæstv. félagsmálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, fyrir hans innlegg.

Á hausti sem leið skipaði hæstv. félagsmálaráðherra starfshóp sem fékk það hlutverk að koma með tillögur um aðgerðir gegn félagslegum undirboðum á innlendum vinnumarkaði og skilaði hópurinn tillögum í lok janúar sl.

Formaður hópsins, Jón Sigurðsson, kom fyrir velferðarnefnd í lok febrúar ásamt félagsmálaráðherra til að kynna nefndinni vinnuna. Kom fram í máli Jóns að þetta hefði verið góð vinna, en alls voru 16 manns í hópnum. Niðurstaðan var samhljóða; að vissulega þyrftum við að gera lagabreytingar en það mætti líka skerpa á ýmsum verkferlum sem til eru og gera stjórnsýsluna skarpari og gagnsærri. Kerfin þurfa að tala saman. Það skiptir miklu máli. Það virðist sem upplýsingahindranir hafi verið á milli stofnana í þessum málum þar sem erfiðleikar og brot koma upp. Það þarf að vera samstarfsvettvangur fyrir ríkisskattstjóra og aðila vinnumarkaðarins og það þarf að gera boðleiðir styttri. Það kom fram líka að málsmeðferð tæki of langan tíma. Það er ekki viðunandi þegar fólk er í vondri stöðu á vinnumarkaðnum og því viðkvæmara fyrir bellibrögðum og svikum. Hér er oft um að ræða fólk sem hefur veikan félagslegan bakgrunn, fólk sem á erfitt með að standa á sínu og þekkir illa rétt sinn. Þess vegna er mjög mikið atriði að stytta málsmeðferðartímann og auðvelda eftirlit. Það er nauðsynlegt að komið verði upp föstum samráðshópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins eins og tillögurnar báru með sér. Þetta skiptir allt máli.



[16:14]
Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. málshefjanda fyrir að opna þessa umræðu í dag. Eftir að hafa hlustað á þá sem töluðu í umræðunni á undan mér skynja ég það þannig að umræðan snúist að mestu leyti um starfskjör og aðstæður þeirra sem starfa mestan part hjá innlendum fyrirtækjum í gegnum starfsmannaleigur. Ég held að það sé mikilvægt að halda því í umræðunni og passa upp á það. En málið er að nokkru marki víðtækara en svo, því að það eru ekki bara starfsmannaleigurnar sem hafa séð fyrirtækjum fyrir vinnandi höndum með þeim hætti sem við þekkjum. Og það er mikilvægt að halda til haga að starfsmannaleiga og starfsmannaleiga þurfa ekki að vera sami hluturinn. Það eru prýðilegar starfsmannaleigur starfandi hér sem leggja mikið upp úr því að öllum reglum sé framfylgt og að vel sé búið að starfsmönnum þeirra. En svo eru svartir sauðir inn á milli, eins og við þekkjum.

En þátturinn sem ég vildi fá að benda á til viðbótar við starfsmannaleigurnar sem slíkar er það sem kölluð eru erlend þjónustufyrirtæki. Við fáum reglulega fréttir af því í fjölmiðlum að hin erlendu þjónustufyrirtæki sérstaklega hafi verið að vinna fyrir suma af þessum millistóru og stóru verktökum í stærri verkum þar sem að einhverju marki virðist gert út á það að hver starfsmaður sé hér í innan við 183 daga á hverju 12 mánaða tímabili og losni þar með undan ýmsu er snýr að skattskyldu hér heima fyrir. Ég held að við verðum að skoða það í þessu samhengi. Fremst í röðinni er auðvitað að aðbúnaður sé forsvaranlegur og í lagi og félagsleg undirboð séu ekki liðin. Við verðum að skoða það í því samhengi að starfsmannaleigur (Forseti hringir.) og það sem kölluð eru erlend þjónustufyrirtæki skarast að miklu leyti hvað þjónustu varðar.



[16:16]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja eins og aðrir á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Mér finnst reyndar líka ástæða til að minna á það að langflest fyrirtæki á markaði vilja auðvitað bara gera vel og vanda sig. Eftirlitsiðnaðurinn okkar og eftirlit með atvinnustarfsemi á að taka mið af því. Þannig eiga okkar stofnanir að mínu viti fyrst og fremst að vera leiðbeinandi til þeirra sem starfa úti á markaði, hvernig þeir geti sem best hagað sínum þáttum. Svo eru auðvitað alltaf einhverjir skussar sem þarf svolítið að ýta á eftir og síðan er lítill hópur fyrirtækja sem hreinlega, eins og kom fram áðan hjá frummælanda þessa máls, ætla sér að brjóta lögin og brjóta á fólki til að græða meiri peninga. Það er auðvitað viðbjóðslegt og á því þarf að taka með festu.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þær aðgerðir sem hann hefur nú þegar farið í annars vegar í lagaumhverfinu og hins vegar með skipun starfshóps til að fara yfir þá þætti sem þarf nauðsynlega að taka á. Þá er mikilvægt að það sé samstarf milli þessara aðila og eins og hópurinn svaraði þá þarf að vera formlegt samkomulag og skipulag þeirra aðila sem sinna eftirliti. Það er tvíverknaður af hálfu ríkisins og annarra stofnana sem koma að því en ekki síður fyrir fyrirtækin sjálf að lenda í því að einn daginn kemur Vinnueftirlitið og tekur út öryggið og svo kemur ríkisskattstjóri næsta dag að huga að einhverju öðru og þriðja daginn kemur svo verkalýðsfélagið að biðja um starfsmannaskírteini. Það hlýtur að vera miklu betra, bæði fyrir fyrirtækin sjálf og þessa eftirlitsaðila, að vera í samstarfi þannig að hægt sé að koma og kanna þessa þætti alla.

Svo hefur okkur verið sagt það til að mynda af fulltrúum frá ríkisskattstjóra þegar þeir mæta á fundi hjá okkur í efnahags- og viðskiptanefnd að þessir svörtu sauðir eru auðvitað svolítið þekktir. Á því hljótum við að þurfa að taka. Við hljótum að þurfa að geta gripið til aðgerða (Forseti hringir.) sem miða að því að þessa aðila sé hreinlega hægt að stoppa. Ég vona að frumvarp varðandi kennitöluflakk og þau frumvörp sem hæstv. ráðherra nefndi áðan taki einmitt á slíkum málum.



[16:19]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem er afskaplega þörf. Þann 30. janúar í fyrra tók hæstv. félags- og barnamálaráðherra þátt í sérstakri umræðu um félagsleg undirboð og svik á vinnumarkaði sem haldin var að mínu frumkvæði. Ég spurði hæstv. ráðherra þá hvaða aðgerðir væru fyrirhugaðar af hálfu stjórnvalda, í fyrsta lagi til að vinna gegn því að brotastarfsemin þrífist hér á landi, í öðru lagi til að tryggja starfsemi og eðlilega samkeppnisstöðu fyrirtækja sem virða kjarasamninga og lög og í þriðja lagi til að efla vinnueftirlit og nýta viðurlög við brotum á lögum og kjarasamningum og fylgja þeim eftir.

Heilbrigður vinnumarkaður er undirstaða góðra samfélaga og svikin verður að stöðva hér á landi. Brotastarfsemin beinist einkum að þeim sem eru veikastir fyrir, ungu fólki og erlendum starfsmönnum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Markvissra aðgerða er sannarlega þörf. Þeirra var þörf þá fyrir rúmu ári líkt og nú. Því miður hefur of fátt breyst á því rúma ári frá því að við ræddum málefnið síðast í þessum sal. Það þarf mannskap, það þarf vilja til að uppræta ósómann og það þarf viðurlög sem bíta á þá sem svindla. Lögregla, ríkisskattstjóri, verkalýðsfélög og atvinnurekendur þurfa öll að vinna saman því að heilbrigður vinnumarkaður er hagur okkar allra og það er mannúð og virðing fyrir mannréttindum líka. Starfsmannaleigur sem fara ekki að íslenskum lögum, sem svindla á launamönnum og láta græðgi ráða för umfram allt eiga ekkert erindi inn á íslenskan vinnumarkað og við þurfum að sjá til þess að starfsemi þeirra fái ekki að þrífast hér á landi.

Það duga engin vettlingatök. Ég vil, herra forseti, hvetja hæstv. ráðherra til dáða við að uppræta þá meinsemd.



[16:21]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði hefur verið mikið vandamál undanfarin ár, okkur sem velferðarsamfélagi til lítils sóma. Vinstri græn hafa flutt þingmál um keðjuábyrgð og lagt mikla áherslu á að hægt sé að koma í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði, félagsleg undirboð og jafnvel mansal. Það er því ánægjulegt að farin er af stað vinna á vegum ráðherra með aðkomu aðila vinnumarkaðarins og annarra opinberra aðila sem að málinu koma með einum eða öðrum hætti.

Eitt af því sem er mikilvægt að berjast gegn er kennitöluflakkið og nú liggur fyrir frumvarp sem ætlað er að stemma stigu við því. Því var m.a. velt upp í vinnu starfshópsins sem hér um ræðir að lágmarkslaun nytu opinberrar verndar þar sem réttindi eru tryggð með lögum og að lögfesta þyrfti ramma um starfsumhverfi starfsnáms, starfsþjálfunar og sjálfboðaliða en þar hefur verið mikil brotalöm á og misnotkun á vinnuframlagi. Sérstaklega hefur það bitnað á ungu fólki og erlendu fólki á vinnumarkaði. Ég tel að tillaga um formlegan samstarfshóp sé mjög mikilvæg og nauðsynlegt að hafa yfirsýn yfir hvar vinnumarkaðurinn er viðkvæmur fyrir brotastarfsemi og að mótuð sé stefna til framtíðar þar sem stjórnvöld geti hrint í framkvæmd þeim vilja sem liggur fyrir til að tryggja megi heilbrigðan og öruggan vinnumarkað.

En við höfum gert ýmislegt sem er til mikilla bóta eins og lög um keðjuábyrgð gagnvart starfsmannaleigum, dagsektir hækkaðar og heimild Vinnumálastofnunar til að leyfa umsagnir stéttarfélaga varðandi ráðningarsamninga. Það er auðvitað til skammar hvernig brotið hefur verið á verkafólki á vinnumarkaði, því fólki sem mikið hefur unnið að hagvexti í samfélagi okkar, og verkalýðshreyfingin (Forseti hringir.) hefur staðið sig mjög vel. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta samstarf raungerist milli verkalýðshreyfingar, (Forseti hringir.) opinberra aðila við að koma í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði.



[16:24]
Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Á Íslandi hefur liðist nútímaþrælahald í áraraðir. Í kjölfar uppljóstrunar í þættinum Kveik á RÚV sem fjallaði um brotastarfsemi á vinnumarkaði, skipaði núverandi félags- og barnamálaráðherra samstarfshóp sem skilaði skýrslu um lausnir á þeirri þjóðarskömm. Skýrslan sem kallast Skýrsla samstarfshóps félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði hefur verið mikið rædd í þingsal í þessari þörfu umræðu.

Brýnasta verkefnið í tillögum hópsins er að taka á kennitöluflakki á skilvirkan hátt. Það var því ánægjulegt að lesa í gær að hæstv. dómsmála-, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hefur lagt fram stjórnarfrumvarp sem situr nú í samráðsgátt Alþingis. Loksins, loksins, loksins verður tekið af alvöru og festu á kennitöluflakki á Íslandi. Þeim áfanga ber að fagna og hlakka ég mikið til að sjá þetta verða að lögum.

Eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á áðan virðist í mörgum tilfellum vera um einbeittan brotavilja að ræða hjá þeim fyrirtækjum sem brotið hafa á starfsfólki sínu. Það er því mikilvægt, auk þess að taka á öllum þeim liðum sem koma fram í skýrslu samráðshópsins sem ráðherra skipaði, að hægt sé að beita háum sektum og jafnvel loka starfsmannaleigum gerist þær brotlegar.

Eins má það ekki vera svo að húsnæðisöryggi starfsmanna sé upp á vinnuveitendur komið heldur verða starfsmenn að vera með eigin leigusamning við leigusala, en ekki hent út á gaddinn ef starfsmannaleigan segir þeim upp eins og fjölmörg dæmi eru um. (Forseti hringir.)

Að lokum verð ég að koma inn á að hæstv. ráðherra ber jú nafnbótina barnamálaráðherra og vil því minna á þá staðreynd að fjölmargir (Forseti hringir.) þeirra einstaklinga sem brotið hefur verið á eiga börn. (Forseti hringir.) Á Íslandi búa börn við fátækt og það er því mikilvægt að hraða (Forseti hringir.) vinnslu þessa máls og að allar tillögur sem samstarfshópurinn hefur komið fram með … (Forseti hringir.)



[16:26]
Forseti (Brynjar Níelsson):

Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.



[16:26]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni þessa umræðu. Um er að ræða mál sem yfirleitt snýst um græðgi og siðleysis ákveðinna aðila, sem betur fer ekki allra en það eru alltaf skemmd epli inn á milli sem nýta sér ódýrt vinnuafl og níðast á því án þess að blikna. Það segir mikið um löggjafann að við skulum geta rætt svona mál ár eftir ár og samt virðist lítið þokast í rétta átt. Þetta er fólk sem fær borguð mjög lág laun og það veit ekki einu sinni hver réttur þess er vegna þess að fólkið talar ekki okkar tungumál og því er ekki kynntur réttur sinn á eigin tungumáli.

Það ömurlegasta í því öllu saman er þegar fólk er komið í þá stöðu að búið er að rýja það inn að skinni og það kemst ekki einu sinni heim til sín aftur, á ekki fyrir fargjaldinu heim, enda borgar þetta fólk himinháa leigu eins og við höfum séð. Það er ömurlegt til þess að vita að þarna er oft fjöldi manns saman í einu herbergi. Fyrir utan það virðist allt í svona tilfellum vera vonlaust. Menn hafa ekki einu sinni almennilegan aðgang að náðhúsi og eru svo að byggja lúxushótel og lúxusíbúðir.

En það sem mér finnst eiginlega alvarlegast er það sem varðar mansal og þrælahald. Mér finnst skelfilegast í því öllu saman að við skulum hafa látið vændi og mansal viðgangast á milli nefndasviðs Alþingis og skrifstofa alþingismanna. Það hefur viðgengist í langan tíma án þess að við vissum (Forseti hringir.) að á viðkomandi skemmtistað færi fram mansal og vændi. Þetta er ömurlegt (Forseti hringir.) og það segir svolítið um okkur að þetta skuli gerast beint fyrir framan nefið á okkur og við höfum ekki hugmynd um það. Ég spyr mig: Þurfum við fjölmiðla (Forseti hringir.) til að upplýsa okkur um það sem var að gerast við hliðina á okkur? Það er alveg stórfurðulegt.



[16:29]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög góða umræðu um þetta mikilvæga mál. Sú skýrsla sem hæstv. ráðherra lét vinna er fyrir margra hluta sakir mjög góð, en við lestur hennar verð ég þó að segja að mér finnst fátt nýtt koma þar fram frá því ég kom fyrst að þessum málaflokki fyrir sex árum síðan. Þetta er vandamál sem er búið að ræða mjög lengi og lausnirnar sem við viljum gjarnan leita í alltaf þær sömu, það þurfi að herða lög og reglur og það þurfi að herða lög og reglur.

Við verðum að hafa í huga í því samhengi að við erum að glíma við skipulagða brotastarfsemi. Þó að vissulega þurfi alltaf að hafa hugann við það á ákveðnum sviðum að skerpa mögulega á viðurlögum, skerpa á refsiheimildum o.s.frv., þá er vandinn ekki löggjöfin heldur eftirlitið. Vandinn er að við erum með aðila sem eru að brjóta núgildandi löggjöf og ég myndi segja af hreinum ásetningi. Þess vegna kallaði ég þetta ásetningsbrot, skipulagða brotastarfsemi. Hún verður ekkert upprætt nema með, ég myndi segja, bókstaflegum ofsóknum í eftirliti. Það er það sem ég sakna dálítið úr skýrslu starfshóps hæstv. ráðherra, mér finnst of lítið tekið á eftirlitsþættinum þar, enn og aftur. Það hefur hvorki komið fram í þessari umræðu né í máli ráðherra hvort þar sé nægilega gætt að málum og nægilega mikið fjármagn tryggt til að hægt sé að sinna því eftirliti sem nauðsynlegt er til að uppræta þetta.

Þar liggur vandinn okkar á endanum. Lausnin felst ekki í því að þrengja með flóknu regluverki að þeim fyrirtækjum sem þegar fara að lögum heldur að uppræta starfsemi þeirra fyrirtækja sem ekki fara að núgildandi löggjöf. Við höfum lagaheimildir til staðar og ég vil sér í lagi minna á í tengslum við mansalsmálin sem rædd hafa verið að bent (Forseti hringir.) hefur verið á heimildir í núgildandi lögum sem hægt væri að beita, eins og 253. gr. hegningarlaganna (Forseti hringir.) um að misnota þekkingarleysi eða veika stöðu fólks í hagnýtingarskyni.



[16:31]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún er gríðarlega góð. Ég er sammála þeim sem bent hafa á það hér að langstærstur hluti fyrirtækja vill gera vel. Það er þetta litla hlutfall, svörtu sauðirnir, sem við þurfum að ná til. Ég er líka sammála því að í flestum tilfellum er þar um skipulagða brotastarfsemi að ræða.

Það mikilvægasta er að í þeirri vinnu sem farið hefur fram hefur tekist að fá alla að borðinu. Allir þeir aðilar sem þurft hefur að fá að borðinu í gegnum árin eru komnir að hingað og eru sammála um meginútlínur þess hvernig við getum aukið og eflt eftirlit með þessum svörtu sauðum og komið í veg fyrir þetta. Það eru ekki bara stéttarfélög og ekki bara stofnanir eins og Vinnumálastofnun sem þarna eru, þarna er líka ríkisskattstjóri, lögreglan og fleiri aðilar sem þurfa að koma að málum.

Svolítið hefur verið spurt um hvort aukið fjármagn fylgi þessu. Allar þessar stofnanir hafa gríðarlegt bolmagn og eru með mjög marga starfsmenn, eins og t.d. Vinnumálastofnun. Með því að setja þetta pólitískt á stefnuskrána er hægt að forgangsraða í þá þágu að auka slagkraftinn þarna inni. Það gerir það líka að verkum að þegar menn vinna saman getur það skilað ótrúlegum árangri þegar út í eftirlitið er komið, eins og kemur vel fram í skýrslunni.

Eins og fram kom í nýlegu máli sem kom upp, hafa einstakar stofnanir ekki valdheimildir eða slagkraft til að taka á ákveðnum aðilum og þurfa þess vegna aðstoð annarra. Þá er það tekið inn á þennan samstarfsvettvang, sem er grundvöllurinn að því að ná utan um grófu brotin.

Ég bind mjög miklar vonir við það og ítreka það að sá hópur hefur þegar fundað, hann gerði það í síðustu viku og er núna að móta sér (Forseti hringir.) sýn og reglur um hvernig hann ætlar að vinna, vegna þess að saman getum við unnið á þessari meinsemd. Það getur það enginn einn, (Forseti hringir.) hvort sem það er sá sem hér stendur eða hv. þingmaður sem hóf þessa umræðu. Hann þekkir hana vel (Forseti hringir.) sex ár aftur í tímann og veit að sameinuð (Forseti hringir.) náum við langmestum slagkrafti til að stöðva þetta. Um það erum við, ég, hv. þingmaður og aðrir, sammála.