149. löggjafarþing — 83. fundur
 25. mars 2019.
umbætur á leigubílamarkaði.
fsp. HKF, 617. mál. — Þskj. 1022.

[16:47]
Fyrirspyrjandi (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Forseti. Fyrir rúmu ári mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um frelsi á leigubílamarkaði þar sem lagt var til að samgönguráðherra yrði falið að afnema hámarksfjölda atvinnuleyfa til leigubílstjóra, fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra og opna markaðinn fyrir aukinni samkeppni.

Málið dagaði uppi í umhverfis- og samgöngunefnd, ekki síst vegna þess að þá glitti í niðurstöður starfshóps sem var að endurskoða í heild regluverk um leigubílaakstur með hliðsjón af annars vegar áliti ESA, sem komst að þeirri niðurstöðu í rökstuddu áliti að norsk leigubifreiðalöggjöf, sem um margt svipar til þeirra íslensku, fæli í sér brot á EES-rétti, og hins vegar með hliðsjón af frumkvæðisathugun ESA á íslenskum leigubílamarkaði og mögulegum hindrunum á aðgengi þar.

Það sem stofnunin skoðaði helst var hvort aðgangshindranir fælust í ákvæðum íslenskrar bifreiðalöggjafar um fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa á tilteknum svæðum og einnig í kröfu íslenskrar löggjafar um stöðvaskyldu. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum til ráðherra í apríl. Þar kom fram að hópurinn teldi rétt að afnema fjöldatakmarkanir á útgefnum atvinnuleyfum til leigubílaaksturs og enn fremur að fallið yrði frá lögbundinni stöðvaskyldu.

Viðbrögð hæstv. ráðherra þegar tillögurnar voru kynntar voru að tilkynna að hafinn yrði undirbúningur að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar til framlagningar á haustþingi á Alþingi 2019, og þá með víðtæku samráði við hagsmunaaðila. Í ljósi þess sem fram hefur komið, að það þurfi viðamiklar lagabreytingar til að framkvæma tillögur starfshópsins, spyr ég hæstv. ráðherra um stöðuna á þeirri vinnu og jafnframt í leiðinni hvort þess megi vænta, í bjartsýni, mögulega, að málið komi á samráðsgátt stjórnvalda í vor til að vera sem fyrst tilbúið næsta haust.

Enn fremur langar mig að vita hjá hæstv. ráðherra hvort við þessa vinnu sé farið í minnstu mögulegar breytingar til að mæta gagnrýni ESA varðandi íslenskan leigubílamarkað eins og hann er núna eða hvort málið verði unnið enn frekar í frelsisátt að þessu sinni.

Að lokum langar mig að beina sjónum að hlutverki leigubíla í almenningssamgöngukerfinu okkur. Í reglugerð um leigubifreiðar segir að leigubílaakstur sé þjónustugrein sem teljist til almenningssamgangna. Nú liggja fyrir drög um stefnu stjórnvalda um almenningssamgöngur í ráðuneytinu. Drögin voru á samráðsgáttinni og þar var opið fyrir umsagnir til 7. mars sl., ef ég fer rétt með. Í þessum stefnudrögunum er ekki vikið einu orði að leigubílum almennt, leigubílaakstri.

Í ljósi þessa er síðari spurning mín til hæstv. samgönguráðherra sú hvort væntar umbætur (Forseti hringir.) á leigubílamarkaði skipti máli þegar unnið er að stefnumörkun í almenningssamgöngum eða hvort þessi mál séu að mati hæstv. ráðherra alls ótengd.



[16:51]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir þessa fyrirspurn um umbætur á leigubílamarkaði. Það er rétt að ráðuneytið hefur, frá því að skýrsla starfshópsins um heildarendurskoðun á íslensku regluverki um leigubifreiðar kom út, unnið að mótun nýrrar löggjafar á þessu sviði. Það voru birt áform um lagasetninguna á samráðsgátt stjórnvalda síðasta sumar og þar komu athugasemdir sem unnið hefur verið úr síðan, þeim sem þá bárust.

Við höfum jafnframt fylgst með því að á öllum Norðurlöndunum hafa menn verið að breyta löggjöfinni, jafnvel þó að þeir hafi verið búnir að breyta henni í þá átt sem Noregur og Ísland eru að gera í dag. Við höfum fylgst með þeim breytingum. Sérstaklega hefur verið haft samráð við norsk samgönguyfirvöld sem vinna að sambærilegum breytingum á sinni löggjöf á þessu sviði, auk þess sem hliðsjón hefur verið höfð af þeirri vinnu sem nú fer fram í ráðuneytinu í tengslum við almenningssamgöngur. Ég kem aðeins inn á það síðar.

Í verkefnissáætlun ráðuneytisins vegna nýrra laga um leigubifreiðaakstur er gert ráð fyrir að drög að frumvarpi verði kynnt í samráðsgátt stjórnvalda fyrir sumarið, eða snemmsumars, á næstu mánuðum, með það fyrir augum að framlagning þess geti orðið í þinginu fyrir lok nóvember á þessu ári. Breytingarnar sem unnið er eftir taka mið af niðurstöðum starfshópsins en jafnframt horfum við til þeirra breytinga sem menn eru að gera á þessu kerfi á Norðurlöndunum.

Varðandi spurninguna um hvort umbætur á leigubílamarkaði tengist stefnumótun í almenningssamgöngum eða hvort þessi mál séu ótengd er það alveg skýrt í mínum huga að þau eru tengd. Það hefur komið fram í bæði kynningu og umræðu um almenningssamgöngur að í þróun almenningssamgangnakerfisins geta verið svæði þar sem nauðsynlegt er að stefnumótun á sviði leigubifreiðaaksturs og stefnumótun í almenningssamgöngum á landsvísu taki mið hvor af annarri. Það er nauðsynlegt að í löggjöf á sviði farþegaflutninga sé gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þar sem aðstæður bjóða ekki upp á reglubundnar almenningssamgöngur á hefðbundnu formi, t.d. vegna þess að þar búi fáir, sé svigrúm til að fylla upp í skarðið með því að tryggja aðgengi að leigubifreiðum. Eins hefur verið nefnt hvort deilihagkerfið muni taka á þessu, þ.e. deilibílar eða pantanaþjónusta þar sem leigubílar gætu sinnt þeirri þjónustu og einmitt á þeim svæðum þar sem búa fáir og stórir almenningsvagnar eru óhagkvæmir og myndu ekki skila tilætluðum árangri og eiga þar af leiðandi einfaldlega ekki við.

Þannig að svarið er já, það skiptir máli og málin eru mjög tengd, þjónusta leigubifreiða og almenningssamgangna.



[16:54]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tek undir að það er mikilvægt að það komi fram löggjöf um leigubílaakstur. Það er algerlega nauðsynlegt að við opnum á þennan akstur meira í frelsisátt og horfum á það sem er að gerast í borgum í kringum okkur þar sem aukin samkeppni hefur leitt af sér lægra verð og bætta þjónustu fyrir neytendur. Ég vil svo sannarlega að við fylgjum í þeim efnum á sama tíma og við þurfum auðvitað að tryggja öryggi farþega. Það held ég að geti farið ágætlega saman.

Mig langar líka að ítreka það sem kom fram í svari hæstv. ráðherra, að leigubílar eru auðvitað hluti af almenningssamgöngukerfi. Þannig er það í öllum borgarsamfélögum og deilibílar og sú þróun sem á sér stað á þessum markaði mun leysa ýmis vandamál sem við horfum á í borgarsamfélögum (Forseti hringir.) í dag. Þannig að ég hvet hæstv. ráðherra áfram í þessu máli.



[16:56]
Fyrirspyrjandi (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Það er ánægjulegt að heyra að málið er í þessum farvegi.

Ég hafði í seinni umferð hug á að forvitnast um, svolítið í tengslum við það sem ég spurði um fyrst, hvort það væri fyrst og fremst verið að mæta athugasemdum að lágmarki eða hvort ætlunin væri að horfa víðar. Það gleður mig að heyra að sú er hugmyndin og menn eru að horfa á farveiturnar, deilibílana, pantanaþjónustu og annað slíkt. Ég er sannfærður um að þetta skiptir gríðarlega miklu máli, vissulega mismiklu eftir aðstæðum. Til þess að leigubílarnir geti sinnt þessu hlutverki sínu í almenningssamgöngukerfinu, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom líka inn á, sem er gríðarlega mikilvægt, þarf þjónustan einfaldlega að vera aðgengileg nútímaheimilum og nútímasamfélagi og á viðráðanlegu verði. Þar kemur náttúrlega inn í heilbrigð samkeppni eins og annars staðar. Með heilbrigðri samkeppni er verið að innifela öryggissjónarmið ella er samkeppnin ekki sérstaklega heilbrigð.

Mig langar í lokin að nefna að náin tengsl eru á milli almenningssamgangna almennt og umhverfismála. Það er horft til aðstæðna í löndunum í kringum okkur, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, og það eru önnur lönd en Noregur að skoða endurbætur á sínu kerfi, væntanlega með tilliti til nýsköpunar og þeirrar þróunar sem er að verða, ekki síst í lífsháttum borgarbúa almennt. Eitt af því sem kemur upp eru hugmyndir um svokölluð græn leigubílaleyfi, þ.e. það er hvatt til þess á markvissan máta til að draga úr starfsemislosun bílaleigubíla. Ég velti því fyrir mér hvort það samhengi allt sé eitthvað sem er verið að skoða. Það væri synd að láta það tækifæri fram hjá sér fara þegar verið er að fara yfir svona viðamiklar aðstæður og þetta er það sem löndin, ekki síst í Mið-Evrópu, horfa mikið til þessa dagana. — Að öðru leyti þakka ég kærlega fyrir.



[16:58]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka málefnalega umræðu um þetta mál og vil bara taka undir í mínum lokaorðum að það er mikilvægt að við tökum svolítið á þessum framtíðarmöguleikum í löggjöfinni. Á sama hátt og við erum með í umferðarlögunum ákvæði um sjálfkeyrandi bíla þótt þeir séu ekki komnir, en við sjáum fyrir okkur að þeir muni koma, þá þurfum við líka í löggjöf um leigubíla að horfa á þá þróun sem getur þar orðið með pantanaþjónustu, deilibílanotkun og slíku, sem hluta af almenningssamgöngukerfi okkar. Ég vonast til að þetta komi allt saman þar skýrt fram. Ég ítreka aftur að við erum með heildarendurskoðun frá starfshópi sem í voru bæði hagaðilar og aðrir aðilar, sem er auðvitað grundvöllur löggjafarinnar. En við horfum líka á þær breytingar sem aðrar þjóðir eru að gera til þess að takast á við hina óvæntu þróun í framtíðinni.

Og svo varðandi græna leigubíla getur formaður Framsóknarflokksins ekki verið annað en ánægður með þá góðu ábendingu. Það væri glæsilegt ef allir bílarnir yrðu grænir, ekki bara á litinn heldur líka í tengslum við loftslagsmál.