149. löggjafarþing — 83. fundur
 25. mars 2019.
aðgerðir gegn kennitöluflakki.
fsp. GBr, 670. mál. — Þskj. 1086.

[17:21]
Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég legg hér fram fyrirspurn til ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar um kennitöluflakk. Þetta hefur því miður orðið gamalgróið í málinu, að heita má, en kennitöluflakk kallast það þegar fyrirtæki sem sér fram á gjaldþrot flytur eignir sínar yfir á nýja kennitölu en skilur skuldir fyrirtækisins eftir á gömlu kennitölunni. Þannig getur eigandi fyrirtækisins haldið áfram rekstri án þess að borga upp skuldir sínar því kröfuhafarnir geta aðeins gengið að þeim eignum sem skráðar eru á gömlu kennitöluna.

Í könnun sem nemendur í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík gerðu fyrir nokkrum árum meðal stjórnenda 600 íslenskra fyrirtækja kom fram að rúmlega 73% íslenskra fyrirtækja höfðu tapað fjármunum á kennitöluflakki og þriðjungur þeirra hafði tapað fjármunum á kennitöluflakki oftar en sex sinnum. Mikill meiri hluti af þeim stjórnendum sem tóku þátt sögðu að þörf væri á lagasetningu til að stemma stigu við kennitöluflakki.

Þetta er samfélagsmein, virðulegur forseti, sem hefur verið til umfjöllunar misserum og árum saman, kemur upp aftur og aftur. Samtök iðnaðarins hafa verið harðorð í gagnrýni sinni á kennitöluflakk í íslensku atvinnulífi og árið 2004 fóru þau í sérstaka herferð gegn kennitöluflakki. Það eru tíu ár frá því að fjórir þingmenn lögðu fram frumvarp á Alþingi þessa efnis, sem dæmi.

Í skýrslu vinnuhóps félags- og barnamálaráðherra frá því í janúar sl. um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði er þetta efst á blaði, að taka á kennitöluflakki með afgerandi hætti. Bregðast þurfi tafarlaust við og nauðsynlegt sé að hrinda í framkvæmd skilvirkum aðgerðum. Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa sömuleiðis barist fyrir þessu árum saman og fyrir liggja heildstæðar tillögur sem hægt er að gera að veruleika án tafar.

Virðulegur forseti. Ég lagði fram þessa fyrirspurn fyrir um þremur vikum síðan og nú um helgina var í fréttum að komin væru á samráðsgáttina drög að frumvarpi sem ætlað er að taka á kennitöluflakki og frestur til að skila inn umsögnum er fram á fimmtudag. Þetta er auðvitað ánægjulegt, eins langt og það nær, og ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir snögg viðbrögð, hún er ung og tápmikil og bregst hratt við.

En ég er með þrjár spurningar. Sumpart eru þær auðvitað úreltar. Ein gengur út á það hvort hæstv. ráðherra hyggist leggja fram málið núna á vordögum eða hvenær hún sjái það fyrir sér og hvort hún telji kannski að þessi drög sem liggja fyrir taki með nægilega góðum hætti á þessu máli þannig að það verði úr sögunni. Og að lokum: Hvaða tímamörk (Forseti hringir.) sér ráðherra fyrir sér varðandi frekari lagabreytingar sem nauðsynlegt er að ráðast í í þessu sambandi?



[17:24]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir fyrirspurnina. Það væri óskandi að maður þyrfti bara þrjár vikur til að undirbúa svona mál til að geta brugðist við þegar fyrirspurn er send. En það er rétt að við kynntum á samráðsgátt frumvarp sem er liður í þessu, ekki þó þannig að ef það verður að lögum sé hið svokallaða kennitöluflakk úr sögunni. En þetta er skref sem skiptir máli, er mjög vandað og vel undirbúið og löngu kominn tími fyrir okkur til að taka og klára. Ég vona innilega að frumvarpinu verði vel tekið, það fái þá þinglegu meðferð sem þarf og við sameinumst síðan hér fyrir vorið og tökum þessi skref.

Ég vil byrja á því að taka fram að það er ekki ólöglegt hér á landi að verða gjaldþrota. Þessu er mjög mikilvægt að halda til haga í allri umræðu um þessi mál. Þvert á móti er mikilvægt að gæta meðalhófs við leit að leiðum til úrbóta og að þær aðgerðir sem ráðist er í séu vel ígrundaðar og ekki sé gripið til úrræða sem t.d. hindra frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi eða hefta eða fæla erlenda fjárfesta frá því að koma með fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf.

Það er mikilvægt að hlúa að sanngjörnu viðskipta- og samkeppnisumhverfi hér á landi en kennitöluflakk í atvinnurekstri ógnar því. Þess vegna er mikilvægt að leitað sé leiða til að sporna við misnotkun á hlutafélagaforminu, af því að þetta er ekkert annað en misnotkun á því og kennitölu í atvinnurekstri. Orðið kennitöluflakk er þá notað um ákveðna misnotkun eigenda í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar, einkum þegar liggur fyrir grunur um ólöglegt atferli.

Í samráðsgátt Stjórnarráðsins er nú að finna frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Markmiðið með frumvarpinu er að stemma stigu við misnotkun á hlutafélagaforminu og er kennitöluflakk í atvinnurekstri þar fyrst og fremst undir.

Frumvarpið byggir á sáttmála ríkisstjórnarflokkanna en þar er m.a. að finna umfjöllun um stefnu ríkisstjórnarinnar í vinnumarkaðsmálum og kennitöluflakk er þar sérstaklega tilgreint. Frumvarpið er fyrsta skrefið í að bregðast við sameiginlegum tillögum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá því í júní 2017 um leiðir til að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri. Þetta mál hefur verið í vinnslu síðan. Auðvitað hafa svona frumvörp í einhverri mynd verið mjög lengi í vinnslu í ráðuneytum og lögð fram á þingi reglulega, en þetta mál hefur verið í vinnslu frá því sumarið 2017 þegar við tókum við þessum tillögum, ég og þáverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson. Þetta er vandasamt verk sem hefur kallað á mikið samtal milli ráðuneyta, ASÍ, Samtaka atvinnulífsins og fleiri. Kallaðir voru til sérfræðingar, bæði innan ráðuneytanna og utan, og þetta hefur tekið tíma. En ég geri líka ráð fyrir að málið sé nægilega vel unnið til að þola þinglega meðferð og verða samþykkt.

Sú tillaga sem hvað mest áhersla hefur verið lögð á er tillaga ASÍ og SA um að hægt sé að úrskurða einstakling í atvinnurekstrarbann í tilteknum tilvikum. Það skoðuðum við sérstaklega hvernig hægt væri að útfæra tillögur samtakanna um atvinnurekstrarbann svo að þær væru í samræmi við almenna málsmeðferð hér á landi. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að það er mikilvægt að meðferð mála sem þessara gangi hratt fyrir sig og því nauðsynlegt að huga að málsmeðferðinni hvað það varðar. Við mat á því hvaða útfærsla af atvinnurekstrarbanni komi helst til greina vegast á sjónarmið um skilvirkni og almannahagsmuni annars vegar og réttaröryggi borgaranna og meðalhóf hins vegar.

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þríþættar. Fyrst er að nefna tillögu um breytingu á 262. gr. almennra hegningarlaga, en tillagan gengur út á það að hægt verði að úrskurða einstaklinga í atvinnurekstrarbann í allt að þrjú ár með dómi, hafi viðkomandi gerst sekur um brot sem varða við 262. gr. almennra hegningarlaga. Um er að ræða meiri háttar brot gegn tilgreindum ákvæðum laga um tekjuskatt, laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, laga um virðisaukaskatt, laga um bókhald og laga um ársreikninga. Í frumvarpinu er einnig lagt til að við upptalninguna verði bætt við tilgreindum ákvæðum í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þannig að lífeyrissjóðsskuldbindingum verði veitt samsvarandi vernd og vörslusköttum.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, um að hert verði á hæfisskilyrðum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra slíkra stofnana og að sambærileg hæfisskilyrði og gilda um stjórnarmenn hlutafélaga, einkahlutafélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur gildi einnig um þá sem fengið hafa prókúruumboð.

Í þriðja lagi er lagt til að heimild ráðherra samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög til að krefjast skipta á búi slíkra félaga í ákveðnum lögbundnum tilfellum verði flutt til hlutafélagaskrár. (Forseti hringir.)

Ég geri ráð fyrir því að koma frumvarpinu inn í þingið fyrir tilskilinn frest.



[17:30]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og þakka fyrirspyrjanda áhuga á þessu máli. Ég get glatt hann með því að hann þarf ekki eftir neinu að bíða vegna þess að mál þessa efnis liggur nú þegar fyrir Alþingi. Það er núna í nefnd. Miðflokkurinn flutti þetta mál nú á haustdögum. Í því máli er m.a. ákvæði um að þeir sem verða fyrir því að verða gjaldþrota þrisvar sinnum á 18 mánuðum fái ekki að stýra fyrirtækjum næstu tvö ár á eftir. Þetta er mjög skilvirkt, mjög skýrt og mjög einfalt og ég fagna því að eiga hér góðan liðsmann við þetta frumvarp því að ég efast ekki um að hv. þm. Guðjón S. Brjánsson mun taka því fagnandi að fylgja þessu frumvarpi okkar.

Nú er nefnilega ekkert annað að gera en að rífa þetta frumvarp út úr nefnd og gera það að lögum. Það er hægt að gera það með undraskömmum hætti. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr viðbrögðum ráðherra, sem ég fagna mjög, en ég hygg að frumvarp okkar Miðflokksmanna gangi heldur lengra en frumvarp ráðherrans og verði þess vegna miklu beittara vopn í baráttunni við þann vágest sem kennitöluflakk er.

Ég mun fagna því sérstaklega ef hv. þm. Guðjón Brjánsson veitir þessu liðsinni, þessu góða máli okkar.



[17:31]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum aðgerðir gegn kennitöluflakki og fyrirspurn hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar til hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdísar K. R. Gylfadóttur. Ég fagna því hér, eins og aðrir hafa gert, að hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir aðgerðum gegn kennitöluflakki og þessari misnotkun á hlutafélagaforminu. Við Framsóknarmenn höfum áður lagt fram frumvarp þessa efnis. Ég hygg að það sé í líkingu við það frumvarp sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson vísaði til hér áðan en fyrrum hv. þm. Karl Garðarsson hafði veg og vanda af því að semja það frumvarp á sínum tíma.

Þetta markmið um að setja jafnvel atvinnurekstrarbann, ég held að það fari vel saman við þær tillögur sem hingað til hafa verið í þessu máli. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra í lokin, (Forseti hringir.) því að í svari við fyrirspurn minni um þetta mál kom fram að þetta hefði ekki verið lögformlega skilgreint hingað til og því ekki hægt að leggja mat á afleiðingar af þessu, hvort hann hyggist setja hóp af stað til að meta það.



[17:33]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég gat ekki annað en tekið til máls þegar ég heyrði hv. þm. Þorstein Sæmundsson segja okkur frá því að hann væri komin með lausn þessara mála, enda hefði hann lagt fram frumvarp um þetta efni. Þá vil ég benda hv. þingmanni á að kynna sér umsagnirnar sem komið hafa um frumvarpið til okkar inn í efnahags- og viðskiptanefnd, því að ég held að eftir að hafa farið yfir þær sé það niðurstaða okkar að sú leið sé ekki fær.

Eins mikið og ég tek undir það sem fram kemur í fyrirspurninni og markmiðinu með því frumvarpi sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson talaði fyrir áðan verðum við að fara varlega í þessum efnum. Eins og hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á þarf að huga að nýsköpunarumhverfinu hér.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra talaði um, þ.e. að það að leggja fram frumvarp tæki með einhverjum hætti á þessu. En við verðum auðvitað alltaf að huga að því að hér sé öflugt og gott umhverfi til nýsköpunar. Það má með engum hætti hefta atvinnufrelsi um of.

Þó að við viljum að sjálfsögðu (Forseti hringir.) öll koma í veg fyrir kennitöluflakk, sem er í rauninni síbrotastarfsemi og þar er einbeittur brotavilji fólks, má ekki taka á heiðarlegum aðilum sem eru hér að reyna að leggja eitthvað til í atvinnustarfsemi.



[17:34]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa góðu umræðu og fagna boðuðu frumvarpi. Það er mjög mikilvægt að ná tökum á þessari iðju. „Raðþrotamenn“ eru hér mikil meinsemd í viðskiptalífinu. Kennitalan er náttúrlega nokkurs konar fingrafar okkar í viðskiptalífinu og þessu má líkja við það að skipta um fingraför til að torvelda fingrafararannsóknir.

Þetta er sem sagt fólk sem hefur þá fyrirgert rétti sínum til atvinnurekstrar. Það þarf að taka á því. En um leið, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir vék að, verðum við að huga að því að menn þurfa líka að geta átt sér viðreisnar von í atvinnulífinu. Menn þurfa að geta brennt sig og reynt aftur fyrir sér, sérstaklega hvað varðar nýsköpun og því um líkt. Þess vegna má þetta ekki vera of grimmilegt (Forseti hringir.) um leið. En það þarf náttúrlega að taka á síbrotastarfsemi og koma í veg fyrir hana.



[17:35]
Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og öðrum þeim sem tekið hafa til máls.

Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra þegar hún segir að gjaldþrot séu ekki ólögleg á Íslandi. Eins og komið hefur fram erum við fyrst og fremst að tala um brotastarfsemi, rétt eins og við vorum að tala um um keðjuábyrgð og brotastarfsemi á vinnumarkaði í umræðunni.

Tilgangur þessa frumvarps er auðvitað sá að setja undir þann leka að helstu eigendur og stjórnendur geti í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar orðið uppvísir að því að keyra fyrirtæki sín ítrekað í þrot.

Ég vil leyfa mér að spyrja ráðherra að nýju: Eru þau viðurlög sem kynnt eru í frumvarpinu nógu afgerandi og skýr að hennar mati? Munu þau skila tilætluðum árangri?

Þær breytingar sem við erum að fjalla um ná eingöngu til þeirra tilvika þegar maður er dæmdur sekur um brot gegn ákvæðum 262. gr. hegningarlaganna og ná því ekki til annarra tilvika, sem geta verið alvarleg. Því eru kannski kröfuhafar og samfélagið í heild ekki að fullu varin fyrir kennitöluflakki.

En að öðru leyti árétta ég að við erum stöðugt að fjalla um síbrotastarfsemi sem við verðum svo grátbroslega vör við allt of oft, að fyrirtæki skipta um kennitölu og skipta jafnvel ekki einu sinni um nöfn. Samfélagið er látið una þessu. Það er ekki gott siðferði.



[17:37]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Svo ég bregðist við því sem hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom hér inn á, er alveg rétt að þessi fyrirhugaða breyting nær eingöngu til þeirra tilvika þegar maður er dæmdur sekur um meiri háttar brot gegn tilteknum ákvæðum laga og nær ekki til annarra tilvika. Það er þess vegna sem við teljum að nauðsynleg viðbót til fyllingar þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi mínu nú séu breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti.

Vinna við þær lagabreytingar er í höndum dómsmálaráðuneytisins og dómsmálaráðherra, sem er sú sem hér stendur, tímabundið. Sú vinna er þegar hafin. Málið var unnið í samráði við dómsmálaráðuneytið og er stefnt að því að leggja fram frumvarp þess efnis um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti á næsta löggjafarþingi.

Það verður horft til nágrannalanda í áframhaldandi vinnu.

Ég finn alveg fyrir því að fólk er óþreyjufullt og ég skil það mætavel. Sumir spyrja: Af hverju getum við ekki bara gert eins og Svíþjóð, núna? En Svíþjóð tók fyrsta skrefið fyrir rúmum 30 árum síðan þannig að við getum ekki ætlast til þess að við getum með einu frumvarpi komist á þann stað sem Svíþjóð hefur komist á á 30 árum þar sem tekið er skref fyrir skref. Þau læra af reynslunni. Fyrst voru þetta örfáir sem dæmdir voru í atvinnurekstrarbann. Svo fjölgaði þeim ár frá ári með tímanum. Það sama gerum við ráð fyrir að verði hér, að við færum okkur áfram og að horft verði til nágrannalanda í áframhaldandi vinnu.

Nú er tækifæri til að reyna að hefja kerfisbundna söfnun upplýsinga um þessa misnotkun með þessum breytingum. Við höfum ekki nákvæmt yfirlit yfir umfangið en gerum ráð fyrir því að það sé sambærilegt því sem er á Norðurlöndunum og er ekki hægt að ætlast til að það sé minna hér en þar.

Ég trúi því innilega að þetta frumvarp muni skila tilætluðum árangri, en það þarf meira að koma til. (Forseti hringir.)

Ég þakka fyrir umræðuna. Ég held áfram síðar.