149. löggjafarþing — 83. fundur
 25. mars 2019.
hvalir.
fsp. GuðmT, 611. mál. — Þskj. 1012.

[17:56]
Fyrirspyrjandi (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lagði fram aðra fyrirspurn um ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að heimila áframhaldandi hvalveiðar hér áðan til hæstv. ráðherra nýsköpunar og ferðamála. Þar spunnust af fjörugar umræður þar sem m.a. kom fram að hvalir væru fiskar, allir þeir sem hefðu sporð væru fiskar, hvalir væru góðir á bragðið og ýmislegt annað athyglisvert kom í ljós.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er samsteypustjórn margra flokka, en mér finnst samt ástæða til að fá fram mat hæstv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála í þessu máli.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji það í fyrsta lagi verjandi að heimilaðar hafi verið veiðar á 209 langreyðum og 217 hrefnum í ljósi þeirra upplýsinga frá Hafrannsóknastofnun að hrefnu hafi fækkað mikið á grunnsævi við Ísland frá síðustu aldamótum.

Það hafa verið færð sannfærandi rök fyrir því að hlýnun sjávar hafi valdið hruni sandsílastofnsins og hruni lundastofnsins og kríustofnsins og hrakið hrefnuna til Jan Mayen. Í því ljósi tel ég óábyrgt að leyfa veiðar á 207 hrefnum og 209 langreyðum, enda vitum við ekkert um það hvernig þessum villtu spendýrum reiðir af í hlýnandi og súrnandi hafi.

Í öðru lagi spyr ég hvort ráðherra telji ástæðu til að skoða breytingar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þannig að hvalir falli þar líka undir.

Það fer ekkert á milli mála að það hefur orðið mikil breyting á viðhorfi landsmanna til hvalveiða og náttúruverndar almennt á undanförnum áratugum og æ fleira fólk sem áttar sig á því hversu stórt og mikilvægt tákn fyrir náttúruvernd hvalurinn er. Í þessu sambandi má líka hafa í huga að hvalveiðar hafa þvælst fyrir málstað Íslands á alþjóðavettvangi þegar kemur að málefnum hafsins og gert það að verkum að erfiðara er fyrir Íslendinga að vera leiðandi í góðri og ábyrgri umgengni við auðlindir hafsins. Ógnir af völdum hlýnandi loftslags og súrnun sjávar gera það líka að verkum að ástæða er til að velta því fyrir sér hvort hagsmunir Íslendinga kunni kannski að felast í því að vernda alla hvali.



[17:58]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég sagði, í skriflegu svari við fyrirspurn hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur á síðasta ári, að ég væri ekki sannfærður um að hvalveiðar hér við land væru sjálfbærar. Þá lýsti ég jafnframt efasemdum mínum um að hagsmunir Íslendinga af nýtingu hvala væru eins miklir og stundum er haldið fram. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir um dýralíf að dýralíf á Íslandi sé hluti af íslenskri náttúru sem beri að vernda. Náttúran er auk þess stærsta aðdráttarafl Íslands fyrir ferðamenn.

Í minnisblaði Hafrannsóknastofnunar til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hvalveiðar kemur fram að hrefnu hafi fækkað mikið á grunnsævi við Ísland og að veiðiráðgjöfin taki mið af því. Þá segir jafnframt að talningar bendi ekki til minnkunar í stofnstærð heldur virðist útbreiðslan hafa hnikast norður vegna fækkunar í síld og loðnu að sumarlagi. Þetta eru vistfræðilegir þættir sem þarna er komið fram með en eins og segir í minnisblaðinu er erfitt að meta samspil hvala- og fiskstofna á tímum breytinga í umhverfi sjávar eins og orðið hafa síðustu tvo áratugi og hv. fyrirspyrjandi kom inn á. Það má segja að umhverfið sé kvikt og virðist taka hröðum breytingum.

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar hefur líka nýlega lýst yfir vonbrigðum með ákvörðun ráðherra. Ég tel enn þá brýnt að hvalveiðar verði skoðaðar heildstætt út frá þremur stoðum sjálfbærni, þ.e. umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum sjónarmiðum. Því tel ég að ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um áframhaldandi veiðar á hvölum, hefði átt að taka mið af þessu þrennu en ekki bara að mestu leyti af veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og hef ég lýst þessari skoðun minni yfir áður.

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fer nú fram skoðun á breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála að gera skuli. Þessi lög eru um aldarfjórðungsgömul og því rík þörf á að skoða breytingar á þeim. Ég geri ráð fyrir að leggja fram frumvarp þess efnis á næsta löggjafarþingi.

Til grundvallar þessari vinnu í ráðuneytinu er viðamikil skýrsla sem unnin var á árunum 2010–2013 og ber heitið Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði átta manna nefnd sérfræðinga ýmissa stofnana á þessu sviði og fulltrúa félagasamtaka, svo sem Skotvís og Fuglaverndar, sem skilaði af sér fyrrnefndri skýrslu. Var nefndinni ætlað að varpa skýru ljósi á lagalega stöðu villtra spendýra og fugla á Íslandi, m.a. með tilliti til dýraverndarsjónarmiða, og leggja fram tillögur um úrbætur. Leiðarljósið var að uppfylla markmið gildandi laga og þeirra alþjóðlegu samninga sem Ísland er aðili að og varðar verndun villtra spendýra og fugla sem og veiðar á þeim.

Vinna nefndarinnar einskorðaðist ekki við að rýna framkvæmd núgildandi laga, heldur átti hún að taka til skoðunar vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum, þar með talið selum og hvölum, í víðu samhengi. Í tillögum nefndarinnar varðandi allar þessar tegundir sem falla undir seli og hvali kemur fram að endurskoðun á lagaumhverfi og umsjón varðandi þær taki mið af því að allar tegundir sela og hvala heyri undir lög um villt spendýr og fugla. Þá segir jafnframt að endurskoðunin skuli hafa það að markmiði að uppfylla þá alþjóðasamninga á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar nýtingar auðlinda sem Ísland er aðili að.

Ég hef lagt áherslu á að tillögur nefndarinnar verði hafðar til hliðsjónar við endurskoðun laganna um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, ekki síst í ljósi þess að Náttúrufræðistofnun Íslands birti válista spendýra sl. haust. Samkvæmt mati Náttúrufræðistofnunar er landselur í bráðri hættu og útselur í nokkurri hættu. Við verðum að tryggja vernd þessara tegunda ef ekki á illa að fara fyrir þeim. Það hvort selir og hvalir eigi að heyra undir löggjöf um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra er því atriði sem mun koma til skoðunar við boðaða endurskoðun laganna í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.



[18:03]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Í áraraðir höfum við Íslendingar tekið mark á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar varðandi fiskstofna og farið mjög vel eftir þeim og ég sé enga ástæðu til þess að það sé ekki gert þegar hvalir eiga í hlut. Við Hafrannsóknastofnun eru okkar fremstu vísindamenn að störfum sem hafa kynnt sér þessa stofna í þaula. Það hefur komið í ljós að langreyði fjölgar hér í Norðurhöfum, telur rúmlega 100.000 dýr og að taka 200 dýr úr þeim stofni er ekki stórt skarð. Hrefnan er í kringum 45.000 dýr. Norðmenn eru núna að fara að auka hrefnuveiðar. Við höfum ekki veitt undanfarin ár nema einhver 30, 50 dýr, eitthvað slíkt, þrátt fyrir að kvótinn hafi verið hærri, þannig að það er held ég engin áhætta í því að veiða hval.

Hvað önnur áhrif varðar þá er, eins og fram hefur komið áður í umræðunni, hvalaskoðun með miklum blóma á Íslandi, hefur aldrei verið í betri færum en nú. (Forseti hringir.) Það getur líka verið varhugavert að kippa einu dýri út úr keðjunni og friða það (Forseti hringir.) eins og við höfum náttúrlega séð með friðun refsins á Hornströndum þar sem hvergi heyrist í mófugli og allar syllur sem refurinn kemst að eru tómar af fugli.



[18:05]
Fyrirspyrjandi (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör sín sem ég tel að hafi verið nokkuð skýr við báðum spurningum. Ég spurði hann í fyrsta lagi hvort hann teldi þessar veiðar verjandi. Ég skildi hæstv. ráðherra svo að hann teldi svo ekki vera. Í öðru lagi spurði ég hann hvort hann teldi ástæðu til að skoða breytingar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þannig að hvalir féllu þar jafnframt undir. Ég skildi ráðherrann svo að hann féllist á það. Ég þakka hæstv. ráðherra svör sín og hef ekki meiru við þetta að bæta.



[18:06]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa ágætu umræðu hér í dag. Ég held að það sé ekkert leyndarmál að okkur greinir á um það á Íslandi hvað gera eigi varðandi hvalveiðar. Í slíkum tilfellum er það mín trú og mín skoðun að það sé bara ágætt að slíkur ágreiningur sé uppi á borðum en ekki undir þeim. Við heyrum það hér í þingsal að við erum ekki öll sammála um þetta og það er líka bara allt í lagi. Mín skoðun er sú að við þurfum að horfa til fleiri en vistfræðilegra þátta, eins og kom fram í máli mínu, ekki síst efnahagslegra, og þá líka hvaða áhrif hvalveiðar hafa á ímynd landsins, ímynd ferðaþjónustunnar, ímynd okkar sem lands sem kennir sig við náttúruvernd og umhverfisvernd.

Aðeins varðandi endurskoðun á lögunum, villidýralögunum, eins og þau eru kölluð í daglegu tali, þá hlakka ég til að fara í þá vinnu. Líkt og nefndin komst að á sínum tíma ber að skoða hvort hvalir og selir eigi frekar heima undir þeirri löggjöf. Ég lofa ekki einu eða neinu um hver niðurstaðan verður varðandi það, en við munum að sjálfsögðu skoða það, enda ágætisrök færð fyrir því að það gæti verið gott fyrirkomulag.

En ég vil að lokum þakka aftur kærlega fyrir umræðuna. Við eigum örugglega eftir að ræða þetta oftar og aftur.