149. löggjafarþing — 87. fundur
 1. apríl 2019.
tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur, 1. umræða.
stjfrv., 762. mál (skattlagning tekna af höfundaréttindum). — Þskj. 1213.

[21:19]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, sem við köllum hér skattlagningu tekna af höfundaréttindum.

Tilefni frumvarpsins má m.a. rekja til sáttmála stjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis, en þar kemur m.a. fram sú stefnuyfirlýsing að hugað verði að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslensku ritmáli og fjölmiðlum. Jafnframt kemur fram að höfundagreiðslur sem viðurkennd samtök rétthafa innheimta skuli skattleggja sem eignatekjur.

Með frumvarpi þessu er stigið skref í samræmi við þá stefnuyfirlýsingu og lagt er til að greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa frá viðurkenndum samtökum rétthafa samkvæmt höfundalögum verði skattlagðar sem fjármagnstekjur í stað launatekna. Er það í samræmi við gildandi meginreglur um skattlagningu fjármagnstekna. Þá er jafnframt lagt til að fyrirkomulag skattheimtu á þessum greiðslum skuli vera í formi staðgreiðslu. Með því verður innheimta skattsins í samræmi við þær meginreglur sem gilda um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum auk þess að vera jafnframt öruggari og skilvirkari en ella.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna að þótt hér hafi verið vísað til stjórnarsáttmálans er það svo að þessari hugmynd hefur að sjálfsögðu verið margoft hreyft í gegnum árin og hún fæðist ekki við samningaborðið við stjórnarmyndun, heldur á sér rætur í áralöngu samtali við þá sem hafa einkum beitt sér fyrir hönd þeirra sem hafa tekjur vegna höfundaverka og kallað hefur verið eftir því að gerðar yrðu breytingar á skattlagningunni. Félag tónskálda og textahöfunda á þar nokkurn þátt og lengi var málflutningur þess sá að ekki ætti að skipta máli hvort um væri að ræða hugverk eða tréverk. Margir hafa eflaust heyrt þessu haldið á lofti og það hefur oft borið á góma að þetta eigi ekki að skipta máli þegar jafnræði í skattlagningu höfunda margvíslegra sköpunarverka hefur verið rætt. Þannig má segja að undirbúningur að þessari bragarbót á skattlagningu hugverka sem hér er rædd hafi verið unnin í fyrri ráðherratíð minni í fjármálaráðuneytinu, að undirbúningurinn hafi sem sagt verið unninn á undanförnum árum. Þótt aðdragandinn hafi verið nokkuð langur verð ég að segja að ánægjulegt er að nú sé loks komið að því að leggja þessa tillögu fyrir þingið.

Ég vonast að sjálfsögðu til þess að við getum náð saman um þá grundvallarhugsun sem hér er undir, að ekki sé ástæða til að meðhöndla þá tekjustrauma sem hér eru undir sem hverjar aðrar launagreiðslur eða aðrar tekjur sem falla inn í staðgreiðslukerfi tekjuskattsins, enda er það í mörgum tilvikum áhorfsmál hvar skattstofnar eiga heima í skattaregluverkinu. Einhverjir myndu segja að þetta væri nokkuð framsækin tillaga, sérstaklega þegar hún er borin saman við skattframkvæmd í helstu samanburðarríkjum, en það er nú í fínu lagi að vera framsækinn í skattaréttinum.

Mig langar að geta þess að á meðan málið lá frammi í samráðsgátt komu athugasemdir sem lutu m.a. að þeirri skilgreiningu sem er að finna í frumvarpinu og þeirri takmörkun sem felst í því að hér er verið að miða við þær greiðslur sem viðurkennd samtök rétthafa greiða út. Og það er alveg umhugsunarefni í þinglegri meðferð hvort sú skilgreining sem þar hefur fæðst, í vinnslu við málið, hjálpar til við að ná þeim grundvallartilgangi. Má kannski segja um það að þetta sé viðleitni til að hafa það alveg skýrt hvers konar greiðslur er verið að láta breytinguna ná til, en frá sjónarhóli skattyfirvalda, m.a. vegna eftirlits, geta risið álitamál þegar ekki er alveg skýrt að greiðslurnar séu af þeim stofni að viðurkennd samtök rétthafa hafi haft með þau að gera. Ég geri mér grein fyrir að þetta er álitamál.

Þá má gera ráð fyrir að breytingar á skattlagningu greiðslna til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa sem boðaðar eru í frumvarpinu muni hafa neikvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs þar sem lækkun tekna af tekjuskatti og tryggingagjaldi verði meiri en hækkun tekna af fjármagnstekjuskatti. Við sjáum fram á að sveitarfélög verði af útsvarstekjum af þeim greiðslum sem hér um ræðir. Áætlað er að nettótekjutap ríkisins nemi um 30 millj. kr. en tekjutap sveitarfélaga um 80 millj. kr. á ári.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.



[21:27]
Einar Kárason (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki þetta mál. Þetta hefur lengi verið baráttumál margra þeirra sem eiga sitt viðurværi undir höfundarétti. Ég hef skrifað um þetta mál áður og tekið þátt í samtökum og samtölum um að hrinda því í framkvæmd. Þess vegna er ég ánægður að sjá það. Ég var líka mjög ánægður með að heyra þann skilning sem hæstv. fjármálaráðherra leggur í hugsunina á bak við þetta og hver meiningin sé með þessu frumvarpi, eins og kom fram í hans framsöguræðu.

Það sem ég fylltist hins vegar miklum áhyggjum yfir þegar ég las frumvarpið var það atriði að jafnan er talað um það sem innheimt er af viðurkenndum samtökum höfundarétthafa. Við þekkjum svoleiðis samtök, það eru t.d. samtök eins og STEF enda eru þau fyrst talin upp í greininni. En þegar kemur að bókmenntaverkum er yfirleitt ekkert innheimt af neinum samtökum rétthafa heldur gengur það beint á milli þeirra sem vilja nýta sér viðkomandi verk. Við höfum litið svo á að þó að höfundatekjur í okkar litla samfélagi séu yfirleitt ekki miklar myndi menn dálitla innstæðu, einhvers konar sparisjóð í verkum sínum, og síðan gerist það öðru hvoru að það eru tekjur af þessum sjóði. Eitthvert tímarit, leikhús, forlag, vill gefa út aftur eða birta úr því og þá koma svona litlar tekjur. Við hugsum með okkur að ef maður á ljóð í bók og það er birt og maður fær tekjur af því ætti það að vera alveg jafngilt því að hafa tekjur af einhverjum þúsundkalli sem maður á inni á sparisjóðsbók.

Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Þetta mun ekki ná til tekna okkar höfundanna. Og við sem eigum okkar undir tekjum af bókaútgáfu höfum þegar orðið fyrir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hætta við að efna loforð sitt (Forseti hringir.) um að fella niður virðisaukaskatt á bókum.



[21:29]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ábendingu, að það séu til dæmi þess að þeir sem eru rétthafar falli ekki inn í þá meginhugsun frumvarpsins að það séu viðurkennd heildarsamtök sem sjái um að innheimta og skila höfundaréttargreiðslum. Ég vænti þess að þetta atriði þurfi að rýna betur í nefndarstarfinu og býð fram alla góða aðstoð úr fjármálaráðuneytinu til þess.



[21:30]
Einar Kárason (Sf) (andsvar):

Ég þakka svarið. Það gleður mig að heyra að fjármálaráðherra hefur fullan hug á því að hlusta á röksemdir í þessu máli. Ég get vel skilið að einhverjir sem um þetta véla hafi kannski ekki vitað að jafnvel þótt t.d. tónlistarmenn, sem ég þykist vita að hafi haft dálitla forystu í baráttunni í þessu máli, fái núorðið megnið af sínum tekjum í gegnum samtök af þessu tagi, hvort sem það er STEF eða IHM eða Fjölís eða hvað þau heita, á það alls ekki við um höfunda. Hér er að vísu vísað til Rithöfundasambandsins sem gerir samninga fyrir höfunda, en eftir það eru engin fjárhagsleg samskipti sem fara í gegnum það batterí. Semji menn eins og ég segi við leikhús, tímarit, útvarpsstöð, framleiðendur eða bókaútgefendur eru það milliliðalausir samningar milli höfundarins og viðkomandi.

Ég nefndi í lokin að við höfundar hefðum orðið fyrir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun að hætta við að fella niður virðisaukaskattinn af bókum. Þetta hefur lengi verið okkar helsta baráttumál. Við bjuggum við það í nokkur ár, sem var mjög góður tími að mörgu leyti, að það var ekki þessi skattur á bækur. Síðan var ákveðið að hætta við að efna það fyrirheit úr stjórnarsáttmálanum, fyrirheit sem hafði komið í ljós fyrir síðustu kosningar að var meiri hluti fyrir að standa við í þinginu. Að vísu var ákveðið í staðinn að rétta útgefendum einhverja dúsu, einhverja peninga úr ríkissjóði. Það er svona álíka og ef sjómenn hefðu barist fyrir einhverjum kjaramálum lengi og síðan fengju þeir loforð um að þetta yrði lagað og þeir fengju sín kjör bætt, en svo yrði þeim tilkynnt að það væri hætt við það en þeir gætu verið ánægðir samt því að ríkissjóður hefði ákveðið að gefa útgerðarmanninum þeirra glænýjan Range Rover.



[21:32]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skoðum þetta áfram með stöðu rithöfunda í tengslum við þetta frumvarp.

En varðandi bókaútgáfuna var það kjarnaatriði í allri hugsun um virðisaukaskatt eða aðrar leiðir til ívilnunar fyrir bókaútgáfuna að verja útgáfu íslensks ritmáls. Það er kjarnaatriðið. Hv. þingmaður leggur áherslu á að best hefði verið að fara þá leið að fella niður virðisaukaskatt af bókum, en eðli virðisaukaskattsins er þannig að með því er ekkert víst að rithöfundarnir sjálfir hefðu notið góðs af því. Þar er þá undir spurningin um hvort virðisaukaskattsleysi bóka hefði glætt eitthvað bóksölu í landinu. Þá hefðum við verið komin með þá stöðu að bóksalar, allir þeir sem væru að bjóða bækur, eftir atvikum tímarit, til sölu, væru inni í virðisaukaskattskerfinu með annan fótinn en ekki hinn. Uppistaðan af vörunum sem væru til sölu væri ekki í virðisaukaskattskerfinu, en allur reksturinn væri hins vegar þar inni, t.d. öll aðföng fyrir reksturinn. Það er fyrirkomulag sem þykir mjög óheppilegt þegar haldið er úti virðisaukaskattskerfi. Þess vegna var lögð áhersla á að fara aðra leið til að tryggja að útgáfan sjálf, útgáfa íslensks ritmáls, nyti stuðnings sem væri eins og ígildi þeirrar skattalegu ívilnunar sem hafði verið hugsuð sem virðisaukaskattsútfærsla.

Ég held að aðalmálið sé það að líta eftir því, fylgjast með því hvernig til tekst og vera reiðubúin að gera breytingar ef við náum ekki markmiðum okkar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.