149. löggjafarþing — 91. fundur
 9. apríl 2019.
raforkulög, 1. umræða.
stjfrv., 792. mál (tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku). — Þskj. 1253.

[23:31]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1253, frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku). Með frumvarpinu er lagt til að við III. kafla raforkulaga verði bætt nýju ákvæði þess efnis að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Tilefni frumvarpsins má rekja til þess að um nokkurra ára skeið hefur verið til skoðunar sá möguleiki að tengja raforkukerfi landsins við raforkukerfi annarra landa. Má þar m.a. vísa til skýrslna sem starfshópur á vegum stjórnvalda skilaði í júlí 2016 þar sem fram komu ýmsar greiningar varðandi hugsanlegan raforkusæstreng á milli Íslands og Bretlands. Með hliðsjón af því hversu umfangsmikið slíkt verkefni og slík ákvörðun yrði er talið eðlilegt og nauðsynlegt að framkvæmdin sé á hverjum tíma í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og háð samþykki Alþingis. Frumvarpið er hér lagt fram til að taka af öll tvímæli þess efnis.

Frumvarp þetta býr til ákveðna tengingu yfir í þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, frá 11. júní 2018. Samhliða lagafrumvarpi þessu er því lögð fram tillaga til breytingar á þeirri þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í þeirri breytingartillögu er lagt til að kveðið verði á um að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Jafnframt að það samþykki skuli liggja fyrir áður en framkvæmdir við slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar Landsnets. Því til grundvallar skuli liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum tengingar og framkvæmda vegna hennar.

Í núgildandi þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku er að finna skýrar áherslur sem eru bindandi við gerð kerfisáætlunar, t.d. í 4. tölulið um að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið, og í 10. tölulið um að við val á línuleið fyrir raflínur skuli gæta að verndarákvæðum friðlýstra svæða. Hafa þau áhersluatriði sem fram koma í þingsályktuninni ákveðna stöðu að lögum þar sem fram kemur í 1. mgr. 9. gr. raforkulaga að flutningsfyrirtækið skuli byggja flutningskerfið upp að teknu tilliti til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Almennt er litið svo á að ákvörðun um hvort raforkukerfi landsins verði einhvern tímann tengt við raforkukerfi annars lands sé ávallt alfarið á forræði íslenskra stjórnvalda. Bent hefur verið á að innleiðing þriðja orkupakka ESB leggi engar skyldur á herðar Íslandi að samþykkja hugsanlegan sæstreng. Má þar vísa til lögfræðilegra álitsgerða sem lagðar hafa verið fram um þau efni. Um efnisatriði þriðja orkupakkans vísast almennt til tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar sem við höfum áður fjallað um. Enginn vafi leikur á því að íslensk stjórnvöld ákveða hvaða innlendi aðili myndi veita leyfi fyrir lagningu raforkusæstrengs og á hvaða forsendum. Nefna má að í yfirlýsingu norskra stjórnvalda í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans er skýrt tekið fram að ákvörðun um lagningu nýrra sæstrengja sé ávallt á forræði norskra stjórnvalda. Hið sama gildir um Ísland. Það er þess vegna óhugsandi að sæstrengur yrði lagður til landsins gegn vilja Íslendinga og það er á valdi íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort heimila skuli að leggja, eiga og reka raforkusæstreng til og frá Íslandi.

Hvað varðar forsendur fyrir slíkri ákvörðun skiptir einnig máli að sveitarfélög á Íslandi fara með skipulagsvald og hafa á þeim forsendum ákvörðunarvald um hvaða uppbygging skuli leyfð og á hvaða forsendum. Í því sambandi koma óhjákvæmilega til skoðunar þættir eins og áhrif á umhverfi, samfélag og fleira. Verði slík ákvörðun tekin á einhverjum tímapunkti í framtíðinni er jafnframt ljóst að gera þarf ýmsar breytingar á lögum varðandi leyfisveitingar fyrir slíkri framkvæmd sem og varðandi atriði er lúta að rekstri og eignarhaldi á slíkri framkvæmd og mannvirkjum hennar. Það myndi sem sagt kalla á margar lagabreytingar ef við yfir höfuð værum að hugsa um að leggja sæstreng. Það þarf þá að sjálfsögðu allt að fara í gegnum þingið. Fjölda leyfa innlendra stofnana þarf fyrir slíkri framkvæmd og það þyrfti að fara mjög ítarlega í gegnum þá þætti málsins á vettvangi Alþingis ef að því kæmi.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.



[23:36]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Nú er komið að þeim fyrirvara sem ríkisstjórnarflokkunum og þeim sem eru fylgjandi tilskipuninni um þriðja orkupakkann hefur orðið tíðrætt um, þ.e. að settur verði þessi lagalegi fyrirvari sem eigi að tryggja það að orkupakki þrjú hafi engin áhrif, en engu að síður á að innleiða orkupakkann.

Ég hef miklar efasemdir um að þessi leið sé fær vegna þess að margt bendir til að hún brjóti í bága við EES-samninginn og sé þar með á skjön við Evrópurétt. Þetta er ósköp einfalt mál. Annaðhvort verður þingið og við að samþykkja orkupakka þrjú eins og hann kemur frá sameiginlegu EES-nefndinni eða að hafna honum alfarið. Það er ekki hægt með öruggum hætti að samþykkja aðeins hluta af þessum pakka. Við þekkjum það og við höfum reynslu af því í gegnum hið svokallaða kjötmál eða frystiskyldumálið þar sem lagasetning þess efnis að við ætlum samt sem áður ekki að leyfa innflutning á hráu kjöti stenst ekki samninginn. Málið var kært eins og við þekkjum. Við erum skaðabótaskyld og höfum þurft að borga háar fjárhæðir í þessum efnum. Þess vegna hræðist ég mjög að þessi leið dugi ekki og hef miklar efasemdir í þeim efnum. Hér getur myndast grundvöllur fyrir málshöfðun á hendur ríkissjóði og íslenskum dómstólum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Er ekki veruleg hætta á því að þetta mál fari á sama veg og hráakjötsmálið, þ.e. þetta ákvæði verði kært og verði dæmt ólögmætt?



[23:39]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einfaldlega ekki partur af pakkanum, partur af þriðju raforkutilskipuninni, að þurfa að leggja sæstreng. Skylda til að leggja sæstreng er einfaldlega ekki partur af þriðju raforkutilskipuninni. Þess vegna þurfti ekki undanþágur frá því og þess vegna getur enginn lögsótt okkur ef við ætlum ekki að leggja sæstreng af því að það er einfaldlega ekki partur af þriðju raforkutilskipuninni, ekki er nein skylda fyrir okkur til þess að leggja sæstreng.



[23:39]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svarið. Hæstv. ráðherra nefnir að það sé engin skylda til þess að leggja sæstreng. En ætla stjórnvöld að koma í veg fyrir það ef óskir berast um það frá t.d. þýska stórfyrirtækinu á sviði raforkumála, E.ON, sem gæti óskað eftir því að fá að leggja hér sæstreng? Er það þá ekki brot á EES-samningnum ef stjórnvöld ætla að segja nei í þeim efnum? Getum við nokkuð komið í veg fyrir það?

Það er ekkert til sem heitir orkupakki þrjú á íslenskum forsendum, það er bara orkupakki þrjú og við verðum að sætta okkur við það að við getum ekki fengið einhverja undanþágu frá honum. Það er alveg klárt mál. Þó svo að hæstv. utanríkisráðherra hafi rætt við orkumálastjóra Evrópusambandsins og fengið þar einhverjar upplýsingar eða einhvern sameiginlegan skilning um að við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu máli, þá er það ekki skuldbindandi að þjóðarétti og hefur ekkert gildi.

Þessar áhyggjur eru að mínu mati, herra forseti, réttmætar. Sporin hræða í þessum efnum. Við höfum reynt að setja sérstök lög til að tryggja það að við gætum haft einhverja sérstöðu aðra en sem um getur í samningum við Evrópusambandið á sviði EES-samningsins. Það hefur ekki gengið eftir. Hvers vegna má ætla að það muni ganga núna? Ég skil þetta ekki alveg, herra forseti.



[23:42]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér í dag hefur mikið verið rætt um skrif Stefáns Más Stefánssonar. Það snýr að þessum fyrirvara og hvað við þurfum að gera ef við tökum ákvörðun um að leggja sæstreng. Þá þurfum við að yfirfara ákveðin atriði. Það er ekki það sama. Það er ekki það sama og það sé einhver fyrirvari um hvort við þurfum að leggja sæstreng eða ekki. Við þurfum ekki undanþágur vegna skyldu okkar til að leggja sæstreng af því sú skylda liggur ekki fyrir og hún er ekki partur af þriðja orkupakkanum.

Þriðji orkupakkinn eða fyrsti eða annar eða fjórði eða hvað sem á eftir kann að koma snýr ekki að auðlindum okkar. Við ráðum því hvort og þá hvernig við nýtum okkar auðlindir. Þegar við höfum tekið ákvörðun um að nýta auðlindir með einhverjum hætti og úr verður til raforka, þá er það vara eins og hver önnur vara. Það er ekki partur af þessum þriðja orkupakka að gera okkur skylt að leggja sæstreng eða segja já ef einhver hefur áhuga á að leggja sæstreng.

Það hefur verið í umræðunni í 25 ár hvort við ættum að leggja sæstreng. Það eru örugglega einhverjir sem hafa áhuga á því að leggja hingað sæstreng, en það er á okkar forræði að gera það. Það er ekkert slíkt regluverk til um það af því að það hefur ekki verið á dagskrá. Menn verða að gera greinarmun á þessu. Auðlindir og nýting okkar á þeim er ekki partur af þessu. Það er ekki partur af orkumarkaðnum.

Orkumarkaðurinn snýr að því þegar við höfum tekið ákvörðun um að nýta auðlindir okkar og úr verður raforka. Þá er raforkan vara eins og hver önnur vara. Þá tekur ákveðið regluverk við. Auðlindir eru ekki partur af því regluverki. Menn verða einfaldlega að gera greinarmun þarna á og það er ekki málefnalegt að blanda þessu endalaust saman gegn betri vitund. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[23:44]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna að vera óblandaður hérna. Í upplýsingum sem Evrópusambandið hefur gefið út, yfirlitsmynd, er gert ráð fyrir sæstreng til Íslands sem næsta streng sem lagður verður. Spurning mín og áhyggjur mínar eru svolítið tengdar því sem Landsvirkjun er búin að vera að aðhafast núna í þó nokkurn tíma við að undirbúa lagningu sæstrengs. Í fyrsta lagi væri athyglisvert, og það mun kannski koma fram í fyrirspurn seinna, að fá upplýsingar um það hversu miklum peningum Landsvirkjun hefur varið í undirbúning á sæstreng sem stjórnvöld hingað til hafa afneitað að hafa áhuga á. Það væri fróðlegt fyrir skattgreiðendur í landinu að heyra af því.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé nú næsta víst að Landsvirkjun hafi látið af því að vinna að þessum undirbúningi, hvort það sé tryggt að það sé búið að leggja á hilluna þær áætlanir og þær bollaleggingar sem Landsvirkjun hafði uppi. Mig fýsir mjög að fá ráðherra til að svara mér því hvort tryggt sé að nú sé búið að koma böndum á þetta fyrirtæki í eigu þjóðarinnar, hvers ráðamenn hafa núna í nokkurn tíma leikið lausum hala og eytt peningum í að undirbúa sæstreng sem ég hélt að stjórnvöld, bæði fyrrverandi og núverandi, hefðu ekki í hyggju að yrði tengdur.



[23:46]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður er að spyrja um svokallaðan IceLink á þessum PCI-lista, eða með leyfi forseta, Project of Common Interest, á vegum Evrópusambandsins, þá hefur það verkefni verið á þeim lista frá árinu 2015 þegar formaður Miðflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, var forsætisráðherra. Sú umsókn hefur nú verið dregin til baka þannig að það verkefni mun einfaldlega ekki birtast á þeim lista þegar hann verður næst birtur í nóvember 2019.

Það hefur töluverð vinna átt sér stað um þetta mögulega verkefni, líka á meðal stjórnvalda, ekki eingöngu hjá Landsvirkjun. Það var einmitt hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sem átti fund með þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, og því verkefni var komið af stað. Það hefur komið fram að fyrirvari hans hafi verið um að verð mætti ekki hækka til almennings. En ég spyr þá: Hvað með allt valdframsalið? Voru engir fyrirvarar af hálfu hv. þingmanns um það, sem er stærsta málið í dag? Var þetta bara um að verð til almennings mætti alls ekki hækka? Þriðji orkupakkinn lá algjörlega fyrir árið 2015 og 2016 og reyndar mörgum árum þar á undan.

Hversu miklum fjármunum Landsvirkjun hefur eytt í skoðun á þessu verkefni hef ég ekki yfirsýn yfir, en það er sjálfsagt að spyrja þau að því. Það sem ég veit er að þetta verkefni sem mögulegt tækifæri til að flytja út orku hefur styrkt samningsstöðu Landsvirkjunar, sem er í eigu okkar allra, þegar kemur að samningum við stóriðjuna. Við seljum jú langstærstan hluta framleiddrar raforku í landinu til fjögurra fyrirtækja. Það hefur verið ágætt í samningaviðræðum við þau að geta sagt: Hér er mögulega önnur leið einhvern tímann í framtíðinni til að selja þá orku.

Ég vildi bara koma því að að þegar spurt er um hversu miklum fjármunum Landsvirkjun hefur eytt í þessa skoðun (Forseti hringir.) þá hefur hún líka leitt af sér sterkari samningsstöðu þess fyrirtækis sem er í eigu okkar, óháð þeim fyrirtækjum sem eru viðskiptavinir þeirra.



[23:48]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þennan netta útúrsnúning. (Gripið fram í.) Ég vissi bara ekki að Sigmundur Davíð hefði teiknaði rafstreng þarna inn. Það er hins vegar búið að koma fram og var í vinnugögnum í gær sem ég er því miður ekki með í höndunum núna, frásögn af fundi Camerons og Sigmundar Davíðs sem skýrir nákvæmlega hvaða fyrirvarar þar voru gerðir. Mér þætti vænt um að fá tækifæri, ég fæ það vonandi, til þess að geta komið þeirri dagskrá og þeirri útskrift í hendur ráðherrans þannig að hún þurfi ekki að vera með frekari útúrsnúninga um það mál.

Mér þykir hins vegar athyglisvert að það liggi ekki alveg fyrir, ráðherra hafi ekki á reiðum höndum hversu mikið er búið að eyða í undirbúning þessa verkefnis sem aldrei varð og ekki átti að verða. Ég segi: Ber er hver að baki nema sér bróður eigi.

Er ekki hægur vandi fyrir Landsvirkjun og fyrir ríkisstjórnina á hverjum tíma að benda þeim stórnotendum sem hér hafa keypt raforku alllengi á að það er ásókn erlendis frá í að setja upp gagnaver og fleiri fyrirtæki, ofurtölvur o.s.frv.? Ég get ekki séð af hverju í ósköpunum við þurfum endilega að hafa uppi í erminni, eins og ráðherra segir, að benda þessum fyrirtækjum á að það sé hægt að selja raforkuna úr landi til að halda þeim við efnið og fá þau til að greiða hærra verð. Ég held að það væri betra fyrir stjórnvöld að byggja frekar upp og reyna að fjölga þeim tækifærum sem eru hér á sviðum tækni og tölvuvera o.s.frv., en (Forseti hringir.) að standa í því að vera að veifa rafstreng framan í aðra.



[23:51]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að við viljum að sjálfsögðu hafa öflugt atvinnulíf og umhverfi fyrir fyrirtæki og efla samkeppnishæfni fyrirtækja. En við vitum líka að þegar þau fyrirtæki komu hingað til lands — þau hjálpuðu okkur m.a. við að byggja upp mjög öflugt flutningskerfi á sínum tíma og þetta eru fyrirtæki sem skipta okkur ótrúlega miklu máli og skapa fjölda starfa og mikil útflutningsverðmæti — þá seldum við raforku til þeirra fyrir töluvert lægri fjárhæðir en við gerum í dag. Ég held að það hljóti að vera hagur okkar allra að við seljum raforkuna á verði sem skilar sér heilt yfir án þess að ganga á það samkeppnisumhverfi sem fyrirtækin starfa í.

Ég ætla að mótmæla því að það sé útúrsnúningur að svara spurningunni. Það var spurt um það hversu mikil vinna hefði farið í það að skoða sæstreng og þrátt fyrir að spurningin hafi snúið helst að Landsvirkjun þá hlýtur að vera eðlilegt að svara því líka hver þáttur stjórnvalda hefur verið í því. Það er, leyfi ég mér að segja, útúrsnúningur að kalla það útúrsnúning að ég svari þeirri spurningu sem að mér var beint.

Sá fyrirvari sem gerður var á sínum tíma af hv. þingmanni og formanni Miðflokksins, fyrrum forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sneri að verðinu. Á þeim tíma lá algjörlega fyrir hvert innihald þessarar þriðju raforkutilskipunar var. Það virðist vera a.m.k. þannig að menn hafi ekki haft meiri áhyggjur af málinu þá en svo að það hafi verið helsta áhyggjuefnið.



[23:53]
Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Enn kem ég af sömu hvötum og ég hef gert fram til þessa í dag. Ég hef enn efasemdir um að það sem hér er boðað muni halda. Enn kemur til umræðu frumvarp sem hangir saman við hinn svokallaða þriðja orkupakka. Lagafrumvarp þetta, með leyfi forseta, hljóðar svo:

„Á eftir 5. mgr. 9. gr. a laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“

Hér er ætlunin að breyta raforkulögum og viðhald á þeirri blekkingu að við munum, eftir að hafa innleitt tilskipun um títtnefndan orkupakka, hafa sjálfræði um það hvort hingað verði lagður sæstrengur. Það ætti öllum að vera ljóst hver fyrirætlunin er með orkupakkanum. Hún gæti virst göfug í huga margra, en staðreyndin er sú að við erum bær til þess að framleiða mikið magn af grænni orku. Það mun því líklega verða mikill þrýstingur í framtíðinni á að fá að tengjast landinu, enda nær öruggt að tækni framtíðarinnar mun leysa vandamál því samfara.

Hvað framtíðin ber í skauti sér er eflaust ekki alltaf hægt að spá fyrir um. Hins vegar má öllum vera ljóst að ásælni í orkuauðlindir okkar er sífellt að ágerast. Við höfum dæmin fyrir framan okkur. Fjárfestingar í orkugeiranum þykja mjög arðvænlegar og það þarf engan stóran spámann til að sjá að þrýstingur úr þeirri átt mun aukast jafnt og þétt.

Að því sögðu þá ítreka ég þakkir mínar sem ég færði í ræðu minni áðan til hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar fyrir að staðfesta í máli sínu að við getum ekki með slíkri lagasetningu 100% tryggt okkur að þetta haldi.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.