149. löggjafarþing — 91. fundur
 9. apríl 2019.
breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, fyrri umræða.
stjtill., 791. mál. — Þskj. 1252.

[23:56]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 1252, um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Hinn 11. júní 2018 samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í þeirri þingsályktun er að finna almenn atriði sem hafa ber að leiðarljósi við uppbyggingu flutningskerfis raforku, þar með talið við gerð kerfisáætlunar.

Hafa þau áhersluatriði ákveðna stöðu að lögum þar sem fram kemur í 1. mgr. 9. gr. raforkulaga að flutningsfyrirtækið skuli byggja flutningskerfið upp að teknu tilliti til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Að sama skapi kemur fram í 5. mgr. 9. gr. a raforkulaga að nánari útfærsla mannvirkja vegna uppbyggingar flutningskerfisins ráðist af stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Í núgildandi þingsályktun um þetta efni er að finna skýrar áherslur sem eru bindandi við gerð kerfisáætlunar, t.d. um að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið eða að við val á línuleið fyrir raflínur skuli gæta að verndarákvæðum friðlýstra svæða.

Með breytingartillögu þeirri sem hér er lögð fram er lagt til að nýtt áhersluatriði bætist við í A-lið þingsályktunarinnar sem varðar mögulegar tengingar raforkukerfisins við raforkukerfi annarra landa.

Samhliða þessu þingmáli er lagt fram frumvarpið sem ég mælti fyrir hér á undan þar sem lagt er til að við raforkulög bætist ákvæði þess efnis um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Með því frumvarpi er búin til tenging í raforkulögum yfir í þá þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram.

Eins og fram kom í umfjöllun um áðurnefnt frumvarp má rekja tilefni þingmálsins til þess að um nokkurra ára skeið hefur verið til skoðunar að tengja íslenska raforkukerfið við raforkukerfi annarra landa. Hefur þar fyrst og fremst verið horft til Bretlands. Má þar m.a. vísa til skýrslu sem starfshópur á vegum stjórnvalda skilaði í júlí 2016 þar sem fram komu ýmsar greiningar varðandi raforku um sæstreng milli Íslands og Evrópu.

Til að undirstrika það er talið rétt að kveða sérstaklega á um það í fyrirliggjandi þingsályktun sem samþykkt var, eins og áður segir, í júní 2018. Enginn vafi leikur á því að íslensk stjórnvöld ákveða hvaða innlendi aðili veitir leyfi fyrir slíkum streng og á hvaða forsendum. Nefna má að í yfirlýsingu norskra stjórnvalda í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans er skýrt tekið fram að ákvörðun um lagningu nýrra sæstrengja sé ávallt á forræði norskra stjórnvalda. Hið sama gildir um Ísland. Því er óhugsandi að sæstrengur yrði lagður til landsins gegn vilja Íslendinga og það er á valdi íslenskra stjórnvalda og Alþingis að ákveða hvort heimila skuli að leggja, eiga og reka raforkusæstreng til og frá Íslandi.

Í fyrsta lagi er tekið skýrt fram í þingsályktunartillögunni að ekki verði ráðist í tengingu íslenska raforkukerfisins við raforkukerfi annars lands nema að undangengnu samþykki Alþingis, í öðru lagi að samþykki skuli liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar Landsnets og í þriðja lagi að til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skuli liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar og framkvæmda vegna hennar.

Hér er undirstrikað að lokaorðið í slíkri ákvarðanatöku er ávallt á hendi Alþingis. Að sama skapi er þetta í samræmi við hlutverk og stöðu kerfisáætlunar lögum samkvæmt sem og þingsályktun sem ég hef hér fjallað um. Samþykki Alþingis er því samkvæmt tillögunni nauðsynlegur undanfari þess að unnt sé að óska eftir heimildum frá stjórnvöldum vegna framkvæmdarinnar í samræmi við lög hverju sinni.

Taka ber fram að til að fylgja framangreindu ferli eftir, ef að því kæmi, þyrfti að gera ýmsar breytingar á lögum. Ekki er tímabært að leggja slíkt frumvarp fram fyrr en áform liggja fyrir um að leggja ákvörðun um tengingu með sæstreng fyrir Alþingi. Könnun á því að leggja raforkusæstreng frá Íslandi til Evrópu er einfaldlega ekki komin á það stig.

Um efnisatriði þriðja orkupakka ESB að öðru leyti vísast almennt í tillögu utanríkisráðherra og það frumvarp sem ég hef nú þegar mælt fyrir.

Hæstv. forseti. Að lokum legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. atvinnuveganefndar og til síðari umr.



[00:00]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Ég hef eina spurningu til hæstv. ráðherra hvað þetta mál varðar, hvernig málið lýtur að ákveðnu fyrirtæki, HS Orku. Það fyrirtæki er að hluta til í einkaeigu. Þar eru meðal eigenda aðilar sem hafa talað fyrir því að leggja sæstreng og flytja orkuna úr landi. Hvernig horfir málið við fyrirtæki eins og HS Orku, sem hefur alla burði til að framleiða orku úr íslenskri orkuauðlind og flytja hana síðan úr landi í gegnum sæstreng? Ég þekki ekki nákvæmlega hvernig þetta mál lýtur að því. En sú staða gæti komið upp að fyrirtækið myndi óska eftir því. Þá væri gott að fá skoðun ráðherra og útskýringar á því hvort þetta girði eitthvað fyrir áform af því tagi.



[00:02]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. HS Orka hefur verið í einkaeigu í áratug, en mér skilst að sá eigandi sem hér um ræðir sé ekki lengur eigandi í því fyrirtæki. Einu viðskiptavinir Landsnets samkvæmt lögum eru annars vegar dreifiveitur og hins vegar stóriðjan, þannig að það er ein löggjöfin sem við þyrftum þá sérstaklega að breyta ef við ætluðum að leggja sæstreng. En ef eitthvert fyrirtæki, eins og t.d. fyrirtæki í einkaeigu, hefði áhuga á því að leggja hingað sæstreng, þá er það sem við getum sagt, ef það er það sem við viljum, að segja einfaldlega nei. Við getum líka tekið það til sérstakrar skoðunar. Við getum farið í slíkt mat, efnahagslegt, umhverfislegt, samfélagslegt mat, á því hvort það sé góð hugmynd eða ekki. Í framhaldinu færi það þá á kerfisáætlun Landsnets ef við samþykktum að gera það. En við getum líka einfaldlega sagt að við ætlum ekki að leggja sæstreng, mat okkar sé að það sé ekki góð hugmynd.



[00:04]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mér fannst það ekki alveg nægilega skýrt. Í þessu tilfelli, HS Orku, er þetta öflugt fyrirtæki og það hefur m.a. komið fram bæði í ræðu og riti að þeir hafa fulla getu til að framleiða og selja orku í gegnum sæstreng. Nú er fyrirtækið landfræðilega statt þannig að línulögn að fyrirhuguðum sæstreng er mjög lítil vegalengd þannig að það ætti ekki að vera fyrirstaða. Er stjórnendum stætt á að koma í veg fyrir að einkafyrirtæki geri þessa hluti? Það væri gott að fá það fram. Erum við ekki að undirgangast heilt markaðssvæði í raforkumálum? Þessu þarf að svara og væri gott að fá greinargóð svör hvað það varðar. Er ekki hugsanlegt að sú ákvörðun að neita því fyrirtæki verði kærð og fari sína leið og við myndum hugsanlega tapa því máli? Hvernig horfir við okkur þá? Ef ráðherra gæti aðeins skýrt þetta á einfaldan hátt væri það vel þegið.



[00:05]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Spurt er: Hvað getum við sagt? Svarið er: Við getum sagt nei. Það gerist varla miklu skýrara en það. Þegar spurt er: Getum við sagt nei? Svarið er: Já, við getum gert það. Allar álitsgerðir okkar færustu sérfræðinga eru algerlega sammála um að það sé á okkar forræði hvort við leggjum sæstreng hingað eða ekki. Staðan er að því leyti alveg eins og í Noregi.



[00:06]
Una María Óskarsdóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kynninguna áðan. Áfram höldum við að ræða það sem hefur verið rætt í tvo daga, innleiðingu á orkupakka þrjú.

Orkulöggjöf Evrópusambandsins miðast við aðstæður sem eru gjörólíkar því sem er hér á landi, eins og við þekkjum. Ólíkt stærstu aðildarríkjum ESB er Ísland auðugt af hreinni endurnýjanlegri orku. Við kyndum húsin okkar með jarðvarma en ekki olíu og gasi, eins og algengt er í löndum ESB. Raforka er ódýrari hér á landi en í flestum löndum Evrópusambandsins. Við getum ekki treyst því að ESB-ríkin setji reglur sem henta aðstæðum okkar. Það er einfaldlega þannig. Verði orkulagabálkurinn innleiddur á Íslandi aukast líkur á sæstreng. Sæstrengur til Íslands er nú þegar á lista yfir forgangsverkefni ESB á sviði millilandatenginga. Þótt ríkisstjórnin hafi óskað eftir því að hinn svokallaði IceLink færi út af lista er hún aðeins einn af mörgum umsagnaraðilum og ESB tekur hina endanlegu ákvörðun. Listi þessi er endurskoðaður á tveggja ára fresti og strengurinn getur farið aftur inn þótt hann verði tekinn út. ACER mun skera úr um hvort umsóknir um sæstreng til Íslands verði samþykktar.

Hvorki íslensk stjórnvöld né Alþingi munu geta staðið gegn slíkri framkvæmd. Þess vegna m.a. töldu lagasérfræðingarnir, sem oft hefur verið rætt um í dag, Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson í álitsgerð sinni, sem þeir skiluðu til utanríkisráðuneytisins 19. mars í ár, að reglugerð 713 samrýmdist ekki stjórnarskrá Íslands.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að við gætum sagt nei og við gætum líka sagt nei við innleiðingu þessara tveggja veigamestu gerða sem ræddar voru í gær og í dag, 713 og 714 frá árinu 2009. Við getum sagt nei vegna þess að við höfum áhyggjur af valdframsali, sem menn greinir á um. Lögspekinga greinir á um hvort um er að ræða valdframsal eða ekki og meðan sá vafi er uppi ber okkur skylda til þess í fyrsta lagi að skoða vel og vandlega þau rök sem koma fram með og á móti og að túlka vafann stjórnarskrá Íslands í hag. Það hljótum við að þurfa að gera.

Hæstv. forseti. Komið hefur fram í máli ræðumanna að hinir svokölluðu fyrirvarar geta haft afleiðingar fyrir íslensk stjórnvöld. Þeir geta hugsanlega haft þær afleiðingar að ESA getur höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi þar sem tilskipunin er ekki réttilega staðfest vegna fyrirvaranna. Þetta finnst mér alvarlegt mál og vera ein ástæðan fyrir því að við, Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn Íslands, ættum að segja nei við orkupakka þrjú og/eða setja málið til sameiginlegu EES-nefndarinnar til að ræða það áfram, enda taka þessar gerðir ekki gildi nema sæstrengur komi til. Og þá spyr maður sig: Af hverju vinnum við okkur ekki tíma til að vinna málið betur fyrst þær hafa enga réttarfarslega lagalega þýðingu fyrr en sæstrengur verður lagður?

Hæstv. forseti. Ég tel að margir þingmenn í dag hafi lýst þeirri skoðun sinni að menn vilji fara varlega í þessu máli og það held ég að skipti máli að við gerum.



[00:12]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Forræðið sem snýr að ákvörðunum varðandi sæstreng er algerlega á forsendum Íslendinga. Við höfum aldrei í öllu þessu ferli verið að gefa frá okkur valdið sem snýr að ákvarðanatökum. Hvað varðar þennan PCI-lista, þar sem gert er ráð fyrir í gögnum að verði skoðaður árið 2027, þá er það umsókn frá Landsneti árið 2015 sem kom okkur á þann lista, það kom ekki annars staðar frá. Af hverju vilja menn ekki hafa þær forsendur á réttum stað? Það var Landsnet sem óskaði eftir því 2015. Það er ekki eins og hinir stóru, vondu úti í heimi standi í röðum eftir því að vera með umsókn um að tengjast hingað með sæstreng. Þetta er og hefur verið og verður á okkar forræði. Þessi þriðja orkutilskipun hefur bara snúist um grunnvirki yfir landamæri. Hún hefur hvorki snúist um orkuflutninga, hvernig staðið er að þeim, né ný grunnvirki eða annað heldur bara núverandi, og hefur heldur ekki snúist um að einhver aðili úti í hinum stóra heimi geti skipað okkur fyrir hvernig við framleiðum orku og setjum upp virkjanir og annað í því samhengi. Ég held að ljóst sé að fram hafi komið í umræðunni og bent hefur verið á aðila, okkar færustu menn á þessu sviði, umsagnir þeirra og álitsgerðir, (Forseti hringir.) að allt sé þetta gert rétt með þeim hætti eins og talað hefur verið um, þ.e. það sem er verið að leggja til.



[00:14]
Una María Óskarsdóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka spurningarnar. Í máli mínu ræddi ég ekki um það að Íslendingar gefi frá sér ákvörðunarvald. Eins og þingsályktunartillagan sem hér liggur frammi ber með sér er það Alþingi Íslendinga sem hefur úrslitavaldið í því hvort verður lagður sæstrengur eða ekki. Ég hef áhyggjur af valdframsalinu, hugsanlegu valdframsali, sem kemur fram í gerðunum sem hafa verið margnefndar hér, en ekki því að Íslendingar geti ekki ákveðið að það sé í þeirra valdi að taka ákvarðanir um sæstreng. Ég hef ekki áhyggjur af því.

Það sem hv. þingmaður nefndi varðandi umsóknina frá Landsneti, allt sem kom fram í ræðu minni áðan stendur þrátt fyrir það, að það er þannig að ESB getur tekið út og sett inn á nefndan lista og við vitum að áhugi er frá örugglega mörgum að nálgast þessa grænu eftirsóknarverðu orku sem við búum yfir. Það sem í mínum huga skiptir mestu máli er að við Íslendingar ráðum sjálf yfir orkuauðlindum okkar og framseljum ekki vald okkar eins og þessar gerðir virðast benda til.



[00:16]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einungis Landsvirkjun og Landsnet sem geta óskað eftir því að fara inn á þennan lista, hinn svokallaða PCI-lista. Það er í höndum okkar Íslendinga, í þessu tilviki þessarar stofnunar hér, Alþingis, að samþykkja að slíkt sé gert. Í gögnum þessa máls, í álitsgerðum sem hafa komið fram, t.d. Skúla Magnússonar, eru atriði á bls. 39 í niðurstöðukafla, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vakin er athygli á því að umræddar gerðir þriðja orkupakkans, og heimildir 7., 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 713/2009, taka með engum hætti til ákvarðana um tengingu fyrir flutning raforku til annarra ríkja, svo sem með lagningu sæstrengs. Því síður taka heimildirnar til ákvarðana um eiginlega nýtingu auðlinda, t.d. virkjana. Það er því niðurstaða mín að umfjöllun um þessi efni, sem lúta að afstöðu almennra reglna EES-samningsins til auðlindastjórnar, falli utan þeirra álitamála sem mér hefur verið falið að fjalla um og hafi þar af leiðandi ekki þýðingu um stjórnskipulega heimild til innleiðingar gerða svonefnds þriðja orkupakka.“

Ég held að í umræðunni, sem er komin á þriðja sólarhringinn, í gær og fyrradag, hafi þetta ekki verið alveg nægilega skýrt, finnst mér, vegna þess að það er tiltölulega skýrt hvernig staðið er að þessum málum. En í umræðunni hefur svolítið verið hrært í pottunum. Það er tilfinning mín. En þetta er mjög skýrt og síðan með PCI-listann. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Það voru íslensk fyrirtæki; Landsnet og Landsvirkjun og stjórnvöld (Forseti hringir.) þess tíma — ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórn (Forseti hringir.) Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á sínum tíma (Forseti hringir.) hafi eitthvað haft með það að gera að hafa sótt um að fara inn á PCI-listann (Forseti hringir.) á þeim tíma.



[00:19]
Una María Óskarsdóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það sýnir sig bara í umræðunni að þetta er flókin umræða. Hún er mjög flókin. Þess vegna fagnaði ég því í gær í ræðu minni að umfjöllun um þessar umdeildu EES-gerðir færi fram hér og eins og hv. þingmaður benti á er þriðji sólarhringurinn að byrja. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er mjög flókin umræða og fyllsta ástæða til að fara varlega.

Mér finnst skipta máli varðandi sæstreng, og það er enginn misskilningur þar, hér liggur frammi þingsályktunartillaga um að Alþingi hafi síðasta orðið í því. En við vitum samt sem áður að margir hafa alveg örugglega, það hefur heyrst af aðilum úti í hinum stóra heimi, sem hafa áhuga á að nálgast hér græna orku. Það er bara ósköp eðlilegt.

En ég vil, hæstv. forseti, að við nálgumst þetta verkefni þannig að Íslendingar hafi fullt forræði yfir þeim stofnunum sem munu höndla með þau mál. Þar nefni ég þá stofnun sem fengið hefur það valdframsal sem svo virðist vera, og að farið verði sérstaklega vel yfir að það eru Íslendingar sem (Forseti hringir.) ráða í þeim málum en ekki Evrópusambandið.



[00:21]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég er aðallega að leita að tilgangi fyrir framlagningu þessarar tillögu. Ég get ekki séð betur en að hún sé gjörsamlega tilgangslaus. Hún er reyndar í dálitlu ósamræmi við það sem við horfum upp á, því að hér segir, með leyfi forseta:

„Tilefni breytingarinnar má rekja til þess að um nokkurra ára skeið hefur verið til skoðunar að tengja íslenska raforkukerfið við raforkukerfi annarra landa. Hefur þar fyrst og fremst verið horft til Bretlands.“

Það er væntanlega þetta sprikl Landsvirkjunar sem menn eru að tala um þarna. En margt af því sem er í undirbúningi núna hér innan lands gæti verið undirbúningur að því að leggja sæstreng einhvern tímann í framtíðinni.

Nú ætla ég að taka upp sæstrengsumræðuna sem búið er að reyna að halda fram að ég hafi verið að stunda hérna í þrjá sólarhringa, sem er rangt. Ég hef ekki rætt sæstreng fyrr en nú.

Í undirbúningi er flutningslína, norðausturlína svokölluð, sem ber miklu meira rafmagn en við þurfum á að halda. Hún ber nægilegt rafmagn til þess að fóðra sæstreng, fyrir utan að búið er að veita 100 rannsóknarleyfi fyrir svokallaðar smávirkjanir sem eru 9,9 megavött, eða aðeins minni, til að falla undir radarinn varðandi umhverfisáhrif. 100 slíkar smávirkjanir og leyfishafinn er sá sami. Rannsóknarleyfishafinn er einn og hinn sami fyrir þessar 100 virkjanir. Við erum því ekkert að tala um einhverjar krúttlegar bændavirkjanir, að einhver bóndi norður í landi eða fyrir vestan sé að virkja bæjarlækinn. Við erum að tala um að einkafyrirtæki er búið að ná sér í 100 rannsóknarleyfi til að byggja 100 smávirkjanir. Þessi 100 leyfi, ef af virkjun yrði, gætu þá orðið til þess að framleidd yrðu í kringum 1.000 megavött, sem er allmikið afl og örugglega hægt að nota til að fóðra sæstreng ef til þess kæmi.

Við vorum áðan að fjalla um lagafrumvarp sem var í sjálfu sér sama efnis og þessi tillaga. Ég sé ekki betur við fyrstu sýn en að meira að segja í textanum í þessari tillögu séu atriði sem eru ósammála lagatextanum sem við vorum að fara yfir rétt áðan í frumvarpinu. Þannig að ég held að það sé full þörf á því að menn lesið þetta vel saman þegar málin fara til nefndar. Í öðru lagi hvet ég til þess að nefndin leiti að tilgangi fyrir þessu þingmáli. Ég held að það sé kannski fyrsta skrefið þannig að við getum komist að einhverju nýtilegu.

Það er fjarri mér að fara að lengja umræðuna mjög mikið en ég auglýsi eftir tilgangi með þessari þingsályktunartillögu sem liggur hér frammi núna.



[00:24]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að taka á ýmsu, en mig langar að ræða það sem kom fram í ræðu hv. þingmanns um flutningskerfi raforku á Norðurlandi. Hann kemur með athugasemdir sem snúa að þeim hugmyndum sem eru uppi um flutningskerfi raforku á Norðurlandi og gefur í skyn að þetta sé með þeim hætti að hér sé verið að undirbúa einhverjar línulagnir um Norðurland í flutningskerfinu sem eigi síðan að nýtast vegna sæstrengs. Ég hefði mikinn áhuga á að fá nánari útlistingar á þessu og skýringar á því hvert hv. þingmaður er að fara og hvort hv. þingmaður sé ekki meðvitaður um það ástand sem er á Norðurlandi í flutningskerfi raforku og viti þar með ekki hvert verið er að fara með því að efla raforkukerfið á Norðurlandi. Það er gríðarlega mikilvægt að fá þetta fram. Þetta er það sem ég kalla að vera að hræra í pottum með einhverri þvælu eins og í þessu tilviki, eins og gefið er í skyn hér og var gert í Kastljósi gærdagsins.

Við Norðlendingar búum á svæði þar sem hefur verið raforkuskortur í 10–15 ár, fátt hægt að gera, atvinnuuppbygging hefur verið takmörkuð vegna þessa. Síðan fer þetta út í einhverja umræðu hér um sæstreng og það að byggja upp flutningskerfi raforku á Norðurlandi snúist um að fæða sæstreng. Þetta er skammarleg umræða. Ég get sagt þér það að við Norðlendingar höfum enga þolinmæði fyrir svona hlutum og svona ummælum.



[00:27]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka mjög fyrir þetta andsvar sem veitir mér kærkomið tækifæri til að upplýsa það að ég veit að á Eyjafjarðarsvæðinu m.a. er þegar mikill orkuskortur og hefur verið lengi. Það er svo merkilegt að frá því að Blönduvirkjun tók til starfa árið 1992 hefur hún aldrei gengið á fullum afköstum vegna þess að það hefur ekki verið hægt að færa frá henni orku, þ.e. austur frá Húnavatnssýslu austur í Eyjafjörð. Þetta er mér vel kunnugt um.

Ég er hins vegar að tala um allt aðrar línulagnir, hv. þingmaður. Mér er ljúft að segja frá því. Það er fáum meira áhugamál en þeim sem hér stendur að það hefði verið fyrir löngu, löngu síðan verið búið að ganga þannig frá að lína milli Blöndu og t.d. til Akureyrar hefði komist á koppinn og að Blönduvirkjun hefði verið keyrð með fullu afli. Við erum að tala um 30 ár. Ég er hins vegar að tala um norðausturlínu, nýsetta á dagskrá. Ég er að tala um hana. Ég er ekki að tala um línu sem ætti að fæða Eyjafjarðarsvæðið allt. Alls ekki. (NTF: Hvaða línu ertu að tala um?) Ég er að tala um línu sem hefur ýmist verið kölluð norðausturlína eða Kröflulína. Hún er austan Akureyrar. Ég bið þingmanninn að virða það við mig að hafa lesið fréttir um það. Ef hann hneykslast gríðarlega þá hljóta þær frásagnir að hafa verið rangar.

Ég ítreka það við hv. þingmann að mér er vel kunnugt um að það er varla hægt að setja upp dekkjaverkstæði á Akureyri núna vegna raforkuskorts. Ég lýsti því einmitt áðan hvað ég teldi að gera ætti til að koma í veg fyrir það og til að bæta þar úr. Því fer fjarri að ég sé að tala fyrir einhverju orkusvelti fyrir Eyjafjarðarsvæðið. (Forseti hringir.) Því fer algerlega fjarri.



[00:29]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég var líka að tala um þessa sömu línu. Við erum að tala um byggðalínuna. Við erum að tala um línu milli Blöndu og Fljótsdalsstöðvar. Frá Blöndu á Rangárvelli við Akureyri heitir hún Blöndulína 3. Frá Rangárvöllum að Kröflu heitir hún Hólasandslína 3. Og frá Kröflu í Fljótsdalsstöð heitir hún Kröflulína 3. Það þýðir ekkert að tala um eina línu og setja í það samhengi að Kröflulína 3 sé hugsuð fyrir sæstreng. Kröflulína 3 er hluti af byggðalínu landsins og ein af þremur línum sem tengir saman Norður- og Austurland. Ég frábið mér svona, að fólk sé ekki betur að sér þegar það talar um jafn alvarleg málefni af svona léttúð eins og hefur verið gert hér og í Kastljósinu í gær. Menn verða að vera með á hreinu hvað þeir eru að segja í svona málefnum. Þetta er eitt stærsta málefni landsbyggðarinnar í dag og ég hefði haldið að í þessum sal væru hv. þingmenn með það á hreinu. Þegar við tölum um svona málefni verða menn að vera með stærðirnar nokkurn veginn á hreinu og hvað við ræðum. Þetta er ekki norðausturlína. Þetta heitir bara Kröflulína 3 frá Kröflu í Fljótsdalsstöð, Hólasandslína 3 frá Rangárvöllum í Kröflu og Blöndulína 3 frá Blönduvirkjun á Rangárvelli við Akureyri. Þetta er allt hluti af þessum byggðarlínuhring

Mér finnst þetta reglulega slæmt. Mér finnst svo ámælisvert að við séum stödd þarna þar sem við ætlum að taka alvarlega umræðu um þessi mál. Ég held að það sé bara nauðsynlegt að ræða þetta frekar. Við tókum heilmikla umræðu um flutningskerfi raforku sem við samþykktum í júní sl. Við erum nýbúin að taka þessa umræðu. Þetta er ein veigamesta (Forseti hringir.) umræðan um uppbyggingu landsbyggðarinnar í dag. Við verðum greinilega að fræða allan þingheim betur um þessi mál.



[00:31]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því ef hv. þingmaður vill ræða við mig um þetta mál, tek því mjög fagnandi og er eiginlega ber að því að taka leiðbeiningum frekar ljúflega og vel enda veitir mér ekki af. Mér þykir leitt að hafa æst hv. þingmann svona upp fyrir svefninn, því í öllu þessum málum sem við höfum rætt hér á þriðja sólarhring hefur mér síst verið hlátur í huga. Við erum að taka mjög afdrifaríkar ákvarðanir í öllum þessum málum, nema þessu máli hérna sem ég skil ekki. Þess vegna biðst ég undan því að vera sakaður um einhverja léttúð, ég biðst undan því. Ég fer ekki ofan af því að það eru fregnir af því að burðargeta Norðausturlínu sé umfram þarfir, og ég er ekki að tala um það sem hv. þingmaður er að brytja hér ofan í mig, ég er að tala um að burðargetan eins og henni var lýst í norðausturlínunni er umfram það sem við þurfum. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður getur bara hlegið að mér eins og hann vill fyrir það, en við þurfum þá hreinlega að taka þá umræðu í betra tómi og fara gaumgæfilega yfir hana. En að láta sér detta í hug að ég sé að tala niður Norðurland og á Eyjafjarðarsvæðið, það er fjarri öllu lagi, ég biðst undan því.



[00:33]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er einkar áhugavert að fylgjast með þeim örfáu ræðum sem hafa verið haldnar um þessi mál. Annars vegar kemur hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson og pakkar saman því sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hélt fram um hina svokölluðu norðausturlínu, sem er að sjálfsögðu hárrétt hjá okkar manni, hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni, Kröflulínu 3, og svo eru hlutir gefnir í skyn sem virðast ekki standast nokkra skoðun. Það hefur meira að segja sérstaklega verið kannað hvar tengingin ætti helst að koma ef okkur dytti í hug að leggja sæstreng. Það yrði suðausturhornið og þar er engin tenging í dag og hún ekki á neinni áætlun. Þetta er nú svona.

Síðan kom hv. þm. Una María Óskarsdóttir og talaði um PCI-listann og það að Evrópusambandið eða fyrirtæki gætu sett okkur á þann lista og ACER úrskurðað um hvort samþykkja ætti slíkar umsóknir eða ekki. Þetta gæti vart verið meira fjarri lagi. Verkefni fara ekki inn á þennan lista nema óskað sé eftir því og það er ekki ESB eða fyrirtæki úti í heimi heldur Landsvirkjun eða Landsnet sem geta óskað eftir því. Aðildarríki, sem í okkar tilfelli er Ísland, þarf að samþykkja það. Öðruvísi gerist það ekki. Þetta er staðreynd sem er ekki hægt að deila um á nokkurn einasta hátt.

Það er ekki hægt að halda því fram að það sé Evrópusambandið sem setji okkur á þennan lista eða að ACER hafi eitthvert úrskurðarvald í því, það er fullkomin þvæla. Þetta er ekki rétt. Ég veit ekki hvort aðrir hv. þingmenn hafi haldið því fram í umræðum undanfarna daga eða ekki. Ef það hefur verið gert vona ég að einhver hafi svarað og geri ráð fyrir að það hafi verið gert. Ef ekki þá liggur þetta alla vega fyrir núna. Þá getum við hætt að ræða að það séu einhverjir aðrir en við sem tökum ákvörðun um það hvort við erum á listanum. Ég ítreka að við höfum tekið okkur út af listanum. Við erum ekki lengur á listanum og munum ekki birtast á honum í nóvember þegar hann verður birtur að nýju.

Þess utan, ef okkur dytti í hug að fara að skoða það að leggja sæstreng, eru landfræðilega mestar líkur á því að það yrði til Bretlands. Maður þarf reyndar að fylgjast með á milli klukkustunda hvað er að gerast þar í landi en miðað við stöðuna eins og ég held að hún sé núna verður Bretland að öllum líkindum ekki einu sinni í Evrópusambandinu og þá á þetta regluverk sem við erum að rífast um ekki við yfir höfuð. Þá á eitthvert allt annað regluverk við. Fyrir utan það þá höfum við ekkert regluverk um sæstreng af því að ekki er á dagskrá að leggja sæstreng. Ef það væri á dagskrá að leggja sæstreng yrði að vera mikil umræða hér. Það þyrfti samþykki Alþingis og það svo að fara þaðan á kerfisáætlun Landsnets. Síðan þyrftum við að búa til allt regluverkið utan um það, af því að það er ekki til.

Það er auðvitað meiri háttar vinna, mörg lög. Viðskiptavinir Landsnets eru til að mynda í dag eingöngu stóriðja og dreifiveitur. Við þyrftum þá að búa til nýjan viðskiptavin. Þetta snýr að skipulagsvaldi og fleiri og fleiri lagabálkum sem allir yrðu að koma hingað inn í sérstaka umfjöllun til samþykktar, til þinglegrar meðferðar og það allt saman.

Ef maður skrifar það út sem menn hafa haldið fram í umræðum getur eitthvert fólk komið hingað og lagt sæstreng sem kostar að öllum líkindum mörg hundruð milljarða. Ef slíkur sæstrengur yrði lagður væri hann langtum lengri en lengsti sæstrengur í heimi. Ég veit ekki hvort það væri tæknilega betri hugmynd eða fjárhagslega mjög góð hugmynd, en það þyrfti að selja raforkuna á ansi háu verði til þess að það borgaði sig.

Það er hægt að tína til svo fjölmörg atriði sem sýna fram á hversu fjarstæðukenndur þessi málflutningur er fyrir utan það að í grunninn er það Alþingi sem þarf að samþykkja þetta. Þegar sagt er að þetta sé allt frekar tilgangslaust er ég almennt þeirrar skoðunar, óháð þriðja orkupakkanum, að þetta atriði eigi einfaldlega heima í þingsályktun um uppbyggingu flutningskerfis raforku sem atriði til umfjöllunar. En þetta er auðvitað líka gert til að taka af allan vafa og til að svara áhyggjum um forræðið í þessari umræðu. Þetta er partur af því hvernig við vinnum málið, hlustum á áhyggjur og svörum þeim málefnalega og komum inn með vandað mál og umræðu sem tekur af allan vafa.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.