149. löggjafarþing — 94. fundur
 11. apríl 2019.
höfundalög, 1. umræða.
stjfrv., 797. mál (flytjanleiki efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum). — Þskj. 1258.

[14:55]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum vegna innleiðingar reglugerðar Evrópusambandsins um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum.

Virðulegur forseti. Markmið frumvarpsins er að tryggja að einstaklingar sem ferðast á milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins og dvelja þar tímabundið geti nýtt sér áskrift að stafrænu efni sem þeir hafa keypt í sínu heimalandi. Um er að ræða réttarbót og framfaraskref fyrir neytendur en nú geta þeir, þó að þeir séu tímabundið í öðru landi á Evrópska efnahagssvæðinu, nýtt sér þá þjónustu þar sem þeir eru áskrifendur. Með frumvarpinu er lagt til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins 1128/2017 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 frá 6. júlí 2018.

Virðulegur forseti. Reglugerðin hefur í för með sér ákveðna takmörkun á rétti rétthafa til að afmarka leyfi til nota verka sinna á landfræðilegum grundvelli. Af þeim sökum er talið rétt að fella reglugerðina inn í höfundalög og lagt til að það verði gert með því að setja nýtt ákvæði í VI. kafla höfundalaga í nýja grein, 53. gr. a. Ákvæði þeirrar greinar mun vísa til reglugerðarinnar með áorðnum breytingum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018, samanber 2. gr. frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi: Lagt er til að ákvæði reglugerðarinnar um flytjanleika efnisþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, verði gild lög að íslenskum rétti. Reglugerðin miðar að því að fjarlægja hindranir á því að neytendur geti notið þjónustu frá efnisveitum sem þeir eru áskrifendur að eða geti fengið aðgang að efni sem þeir hafa áður keypt eða leigt í heimalandi sínu þegar þeir ferðast til annarra ríkja og dveljast þar tímabundið. Það er gert með því í fyrsta lagi að skylda veitanda efnisveituþjónustu á netinu sem veitt er gegn greiðslu að gera áskrifanda, sem er tímabundið staddur í aðildarríki, kleift að fá aðgang að efnisveituþjónustunni á netinu og nota hana á sama hátt og í búsetuaðildarríki hans, þar með talið með því að veita aðgang að sama efni, fyrir sömu tegundir og sama fjölda tækja, fyrir sama fjölda notenda og með sams konar virkni, samanber 3. gr. reglugerðarinnar.

Í öðru lagi að til að gera þjónustuveitandanum kleift að uppfylla þessa skyldu er kveðið á um það í 4. gr. reglugerðarinnar að efnisþjónusta á netinu, aðgangur og notkun hennar til áskrifanda sem er tímabundið staðsettur í öðru aðildarríki en sínu búseturíki skuli samkvæmt reglugerðinni eingöngu teljast fara fram í búseturíki áskrifandans. Þetta skiptir máli varðandi höfundaréttindi og möguleg ákvæði í leyfissamningum sem bundnir eru við ákveðin landsvæði. Ákvæði greinarinnar leiða til þess að notkun höfundaréttarvarins efnis sem á sér stað þegar efnisveituþjónustan veitir aðgang að því telst einungis eiga sér stað í því landi sem áskrifandi hefur fasta búsetu, ekki í því landi sem hann dvelur tímabundið. Þetta ákvæði kemur í veg fyrir að þjónustuveitandinn þurfi að semja við höfundaréttarhafa um notkunarrétt í hverju því landi sem áskrifandi velur að heimsækja.

Í þriðja lagi er þjónustuveitanda efnisveitu á netinu gert skylt að sannprófa búsetuaðildarríki áskrifandans, samanber 5. gr. reglugerðarinnar. Þetta skilyrði er sett til að rétthafar geti sinnt eftirliti með notkun verka sinna.

Í fjórða lagi. Sá sem veitir efnisveituþjónustu á netinu án þess að fá greitt fyrir getur samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar ákveðið að veita áskrifendum sem eru tímabundið staddir í öðru aðildarríki möguleika á að hafa aðgang að og nota efnisveituþjónustuna á netinu með því skilyrði að veitandinn sannreyni búsetuaðildarríki áskrifandans í samræmi við reglugerðina.

Í fimmta lagi. Kveðið er á um að ekki sé hægt að takmarka rétt neytenda samkvæmt reglugerðinni með samningnum, samanber 7. gr. reglugerðarinnar.

Í sjötta lagi skal vernd persónuupplýsinga tryggð, samanber ákvæði 8. gr. reglugerðarinnar.

Í sjöunda lagi er kveðið á um það í 9. gr. að skylda til að veita aðgang að efnisveitu á netinu yfir landamæri samkvæmt reglugerðinni taki einnig til fyrirliggjandi samninga og áunninna réttinda fyrir gildistöku hennar. Það er gert til að tryggja að ekki líði of langur tími áður en neytandi geti nýtt sér þann möguleika eftir að reglugerðin tekur gildi. Einnig jafnar þetta samkeppnisskilyrði.

Virðulegur forseti. Líkt og ég kom inn á fyrr í ræðu minni er um framfaraskref fyrir neytendur að ræða. Með frumvarpinu er greinargerð þar sem er farið ítarlega í öll ákvæði reglugerðarinnar sem lagt er til að verði að lögum hér á landi og möguleg álitaefni umfram það sem ég hef tæpt á í ræðu minni.

Að því mæltu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr., virðulegi forseti, vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[15:02]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir frumvarpið og framsöguna. Ég minnist þess að hafa fjallað um þetta mál þegar það kom inn í utanríkismálanefnd til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara og gott að sjá þetta hér í frumvarpi.

Það er eitt sem ég minnist, virðulegur forseti, að hafi komið til tals hjá okkur og það var varðandi RÚV. Við áttuðum okkur ekki nógu vel á því hvort þetta ætti við um RÚV. Ég man að það var sérstök umræða hjá okkur um þetta. Þetta er reyndar sérstakt áhugaefni hjá mér því að ég hef fengið víða ábendingar um efni, t.d. það sem KrakkaRÚV er með, að það sé ekki opið fyrir það erlendis og þá á ég við fyrir Íslendinga sem búsettir eru erlendis. Það er oft mjög erfitt að nálgast barnaefni á íslensku fyrir þann hóp þannig að ég hef ítrekað bent á KrakkaRÚV og það frábæra efni sem þar er að finna. Þótt ég ætli ekkert endilega að hrósa RÚV fyrir margt finnst mér full ástæða til að hrósa því fyrir störfin þegar kemur að menningarefni fyrir börn.

Myndi þessi lagabreyting með einhverjum hætti opna á það eða er það bara ákvörðun hæstv. ráðherra að bregðast við því með einhverjum hætti að RÚV geti opnað sína þjónustu fyrir fólk sem er staðsett erlendis? Þá er ég sérstaklega að vísa til Íslendinga sem búsettir eru erlendis.

Síðan langaði mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra hefði látið fara fram einhverja skoðun nú þegar á þeim breytingum sem áttu sér stað á höfundalögunum hjá Evrópuþinginu ekki alls fyrir löngu. Þau mál fengu töluverða umræðu í fjölmiðlum. (Forseti hringir.) Ég klára svo í næsta andsvari.



[15:04]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja um Ríkisútvarpið. Það sem þetta frumvarp sem ég mælti hér fyrir gerir er að Ríkisútvarpinu er heimilt að gera þetta, en það er ekki skylda. Ég er hins vegar á því að það sé mjög brýnt að opna fyrir þetta. Þá er ég m.a. að hugsa um að börn og ungmenni hafi aðgengi að dagskrá Ríkisútvarpsins og fjölskyldur sem vilja efla tungumálið, sem búa í skamman tíma erlendis. Ég myndi fagna því ef ég og hv. þingmaður færum saman í þá vegferð að tryggja gott aðgengi að efni Ríkisútvarpsins erlendis.

Hv. þingmaður spurði einnig um ný höfundalög sem hafa verið til umræðu. Við erum að skoða þetta í ráðuneytinu og mér væri ljúft og skylt að mæta fyrir allsherjar- og menntamálanefnd til að gera grein fyrir okkar mati á áhrifum þessara nýju laga og umræðunni um þau.



[15:06]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég tek heils hugar undir með henni um mikilvægi þess að Íslendingar búsettir erlendis hafi gott aðgengi að efni RÚV og sérstaklega er ég að velta fyrir mér íslenskukunnáttu barna þar sem á netinu flæðir nú mjög mikið af efni en yfirleitt er það á ensku og erfiðara er að nálgast íslenskt efni.

Mig langar líka að taka fram að ég held að einmitt í þessum lögum eins og mörgum öðrum sem við tökum upp frá Brussel — ég er ekkert alltaf neitt ofboðslega hrifin af því, virðulegur forseti — snúist málið um neytendavernd. Þetta gerir það einmitt. Ég tel að það sé mikill hagur í þessu fólginn fyrir íslenska neytendur, hvort sem um er að ræða íslenskar efnisveitur eins og RÚV, en ekki síður áskrift að Netflix eða öðru og geta notað það hvar sem er í heiminum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að það verði mjög spennandi að fylgjast með umræðunni um höfundaréttarlögin sem samþykkt voru í Evrópuþinginu, með hvaða hætti við tökum þau upp í EES-samninginn og innleiðum. Það sem ég velti kannski helst fyrir mér er hvort það muni hafa einhver áhrif á ýmis mál sem við erum með til umræðu í þinginu, ég er sérstaklega að vísa í mál sem eru í efnahags- og viðskiptanefnd varðandi rafræn viðskipti og rétthafasamtök hafa gert athugasemd við, m.a. á þeim forsendum að það séu að verða breytingar á höfundaréttarlögunum í Evrópu. Þess vegna er gott að við fylgjumst mjög vel með.

Varðandi Evrópumálin skiptir hagsmunagæsla okkar einmitt á fyrri stigum miklu máli. Í ljósi þess að við höfum eytt miklum tíma í að ræða orkupakka þrjú og lög sem samþykkt voru úti í Brussel 2009 er gott að við færum okkur aðeins nær í tíma þegar fjallað er um lagabreytingar í Evrópu sem við munum kannski taka upp.



[15:08]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé einmitt mjög brýnt að við vegum og metum áhrifin af nýjum höfundalögum sem eru nú til umræðu hjá Evrópuþinginu. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að kortleggja stöðuna og kanna á fyrri stigum málsins áður en við tökum viðkomandi löggjöf eða tilskipanir eða reglugerðir upp í okkar lög, að við séum búin að sjá hvar okkar hagsmunir liggja og hvernig við getum brugðist við og ekki bara brugðist við heldur haft áhrif í þeim málaflokkum sem skipta okkur miklu máli. Þetta er svolítið spurning um hugarfarsbreytingu, hvernig við nálgumst þetta alþjóðasamstarf, því að það er okkur mjög mikilvægt og ábatinn af því og ávinningurinn hefur verið verulegur. En það er auðvitað mismunandi eftir því hvert umræðuefnið er. Mestu máli skiptir að við séum mjög vel með á nótunum snemma í ferlinu.



[15:09]
Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Píratar fagna vissulega tilkomu þeirrar reglugerðar sem um ræðir og frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Ég vil vitna í stefnu Pírata um internetið sem eitt markaðssvæði, með leyfi forseta:

„Það sem er í daglegu tali kallað internetið var hannað til þess að koma í veg fyrir að upplýsingar glatist. Það þýðir að engar aðgangstakmarkanir eru byggðar inn í samskiptamiðilinn, sem internetið er orðið, sem slíkan. Aðgangstakmarkanir koma í veg fyrir frjálst flæði upplýsinga og fela í sér eftirlit með samskiptum manna á milli, við það myndast hætta á að gengið verði á borgararéttindi. Vegna þess hvernig internetið er hannað, án landamæra, þá er það óhjákvæmilega eitt markaðssvæði með tilliti til vara sem eru einungis til á internetinu eða í stafrænu formi.“

Það liggur einnig í hlutarins eðli að þegar við erum með tækni eins og hið svokallaða internet er erfitt að setja hömlur á það. Með því að fella niður stafræn landamæri er þannig einnig verið að tryggja að notendur þess séu ekki óafvitandi að brjóta lög. Af þessu ætti því bæði að leiða að notendur eru í minni hættu að brjóta lög óafvitandi og yfirvöld landanna þurfa ekki að eyða miklum fjármunum í að framfylgja bönnum sem þjóna í raun litlum tilgangi. Auk þess hefur raunin verið sú að þjónustuveitendur eru settir í hlutverk svokallaðrar internetlöggu til þess að framfylgja slíkum bönnum, sem getur komið í veg fyrir að friðhelgi einkalífs notenda sé tryggð með fullnægjandi hætti.

Flytjanleiki þjónustu gerir það einnig þægilegra fyrir neytendur að nýta þær þjónustuveitur sem þeir eru áskrifendur að þannig að ekki skapast ástand þar sem fólk getur ekki notað alþjóðlega stafræna þjónustu við það eitt að fara yfir landamæri þar sem það eru tæknilega séð engin landamæri innan EES-svæðisins og því væri kjánalegt að viðhalda stafrænum landamærum innan svæðisins. Þetta er því frábært fyrir neytendur og internetnotendur og við Píratar fögnum því að þetta frumvarp sé komið fram.



[15:11]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er brýnt að efla neytendavernd á Íslandi og frumvarpið sem ég hef verið að mæla fyrir er einn liðurinn í því. Þetta eykur aðgengi áskrifenda að þeirri þjónustu sem þeir hafa greitt fyrir og er því mikilvæg réttarbót hvað það varðar.

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa nefnt að akkur væri í því að auka aðgengi að efni Ríkisútvarpsins og ég tel að það geti skipt miklu máli fyrir þá sem eru búsettir tímabundið erlendis og tel að við ættum að skoða það í sameiningu.

Virðulegi forseti. Þetta er framfaramál. Þetta snýr að neytendavernd og mun auka hag og réttindi neytenda.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.