149. löggjafarþing — 95. fundur
 29. apríl 2019.
áhrif kjarasamninga á tekjur öryrkja og eldri borgara.

[15:18]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Kjör öryrkja hafa dregist aftur úr kjörum annarra í samfélaginu um næstum þriðjung frá hruni og um tvo þriðju undanfarna þrjá áratugi. Skattkerfið veldur keðjuverkandi skerðingum og er notað til þess að leggja sífellt þyngri byrðar á herðar öryrkja og eldri borgara. Þessu verður að breyta.

Efling stéttarfélag og VR hafa skrifað undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins, svokallaðan lífskjarasamning. En um lífskjör hverra er að ræða? Hver verða næstu skref í kjaramálum öryrkja og eldri borgara? Ljóst er að núverandi fyrirkomulag hefur haldið öryrkjum og hluta aldraðra í ekki bara fátækt heldur sárafátækt. Það er óásættanlegt að lífeyrisþegar sitji alltaf eftir, séu alltaf neðstir í goggunarröðinni og þurfi sífellt að bíða eftir kjarabótum.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti því eitt sinn eftirminnilega yfir á Alþingi að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti.

Undanfarna þrjá áratugi hefur verið beitt ótrúlega fáránlegum klækjum til að koma í veg fyrir að öryrkjar og eldri borgarar fái réttlátar launahækkanir. Með ótrúlegum brellum og með því að nota neysluvísitölu — sem á að nota á vörur en ekki fólk — hefur verið séð til þess að öryrkjar sitji alltaf eftir. Það stendur skýrt í 69. gr. almannatryggingalaga að ákvörðun um hækkun bótanna skuli miða við launaþróun.

Nú er búið að gera nýjan kjarasamning um launamál. Þar er um krónutöluhækkanir að ræða. Þess vegna langar mig að fá svar frá hæstv. ráðherra — skýlaust svar: Munu öryrkjar fá sömu krónutöluhækkanir frá 1. apríl í ár og samið var um á vinnumarkaði?



[15:20]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að ræða hér kjör öryrkja. Í fyrsta lagi er tekin ákvörðun um vísitöluhækkun örorkulauna í fjárlögum hvers árs og þar hefur stundum verið miðað við neysluvísitölu. Stundum hefur verið miðað við neysluvísitölu plús einhver önnur viðmið, þannig að það er ekki alveg einhlítt hvernig sú ákvörðun hefur verið tekin.

Síðan er það svo, eins og hv. þingmaður þekkir og við höfum rætt allnokkrum sinnum hér í þessum stól, að stjórnvöld hafa eyrnamerkt sérstaka fjármuni í kjarabætur handa örorkulífeyrisþegum. Ég verð að viðurkenna varðandi þann hóp sem hv. þingmaður situr í ásamt fleiri hv. þingmönnum og fulltrúum Öryrkjabandalagsins, verkalýðshreyfingarinnar, Þroskahjálpar, atvinnulífs og ráðuneytis að ég er orðin langeyg eftir niðurstöðum og tillögum frá honum. Nú er mér sagt að fundur hafi verið boðaður þar 7. maí, vonandi til að skila þeim tillögum sem þar hafa verið til umræðu, því að jafnvel þótt aðilar þess hóps komi sér ekki saman um endanlegar tillögur held ég að það sé mjög mikilvægt að við fáum þær í hendur til að taka til umræðu á þessum vettvangi.

Hér er búið að eyrnamerkja á þessu ári 2,9 milljarða í kjarabætur handa öryrkjum. Það er ýmislegt hægt að gera við slíka fjármuni, hvort sem er til að draga úr vægi krónu á móti krónu skerðingar, horfa á framfærsluna eða auka hlutfall sveigjanlegra starfa handa öryrkjum. Ég vonast svo sannarlega til þess að við fáum að sjá það sem þessi hópur hefur verið að vinna með og að hægt verði að taka ákvarðanir sem þjóna því markmiði að gera jákvæðar breytingar til framtíðar til að bæta kjör öryrkja.



[15:22]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra rýr svör. Króna á móti krónu skerðingar eru bara allt annar hlutur en kauphækkanir á almennum vinnumarkaði. Það er greinilegt að öryrkjar eiga ekki að fá hækkun frá 1. apríl. Þá spyr ég: Eiga þeir að fá frá 1. janúar afturvirkt eða á að beita enn einu sinni sömu brellunum á þá og sjá til þess að þeir fái ekki kauphækkanir eins og allir aðrir? Á enn einu sinni að nota krónu á móti krónu umhverfið til að sleppa við að veita þeim þær hækkanir sem almenningur er að fá núna og var samið um í síðustu kjarasamningum? Þetta eru tveir ólíkir hlutir.

Spurningin er: Fá öryrkjar umsamdar hækkanir, krónutölurnar, eins og var samið um á almenna markaðnum, frá 1. apríl eða fá þeir það ekki? Fá þeir þær frá 1. janúar? Ef það er frá 1. janúar á næsta ári, fá þeir þá afturvirkt þannig að þeir sitji við sama borð og allir aðrir sem hafa fengið hækkanir?



[15:23]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tel mig hafa svarað spurningu hv. þingmanns þegar ég fór yfir það áðan að þessar hækkanir eru ákvarðaðar í fjárlögum hvers árs. Fjárlög næsta árs eru að sjálfsögðu ekki komin fram þannig að það bíður í raun og veru þeirra að sjá hvaða viðmið verða nýtt við þessar hækkanir, eins og verið hefur. Hv. þingmaður gagnrýnir það fyrirkomulag. En á sama tíma — og það er bara það sem ég benti á í mínu fyrra svari — erum með eyrnamerkta fjármuni í fjárlögum þessa árs sem er ekki verið að nýta í kjarabætur, sem væri hægt að nýta og er mikilvægt að fara að nýta.

Þess vegna vil ég ítreka það sem ég hef margoft ítrekað hér, að ég tel mjög mikilvægt að sá hópur sem hefur verið að störfum skili þeim tillögum sem þar eru undir, þó að það sé ekki full sátt um þær, þannig að þingmenn hafi hér a.m.k. efni til að ræða og geti farið að taka afstöðu til þeirra ólíku leiða sem þar hljóta að vera á borðinu, hjá umræddum hópi.