149. löggjafarþing — 95. fundur
 29. apríl 2019.
loftslagsbreytingar og orkuskipti.

[15:32]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er með hundleiðinlega spurningu. Loftslagsbreytingar eru stærsta ógnin sem steðjar að mannkyni í dag. Þær eru fleiri, t.d. hættan á kjarnorkustyrjöld sem er enn þá til staðar meðan ég man. Ef vel er að gáð má reyndar finna ýmsar ógnir sem mannkynið er misjafnlega vel í stakk búið til að bregðast við. En engin ógn er jafn yfirþyrmandi eða jafn stór og jafn viss sem loftslagsbreytingar. Sjáanlegar og hraðar loftslagsbreytingar eru reyndar þegar hafnar og það liggur fyrir að þær munu rústa mannlegu samfélagi eins og við þekkjum það ef ekki verður gripið vægast sagt hraustlega inn í. Reyndar þarf fordæmalausar breytingar á mannlegu samfélagi á næstu örfáu áratugum, bara til að draga úr mestu hörmungunum. Náist það ekki er erfitt að ýkja hverjar afleiðingarnar verða. Umhverfissinnar sem hlusta kinka eflaust enn þá bara kolli.

Þá kem ég mér að leiðindunum. Eitt af stóru vandamálunum í framtíðinni verður það að við verðum einfaldlega að skipta yfir í orkuauðlindir sem ekki krefjast útblásturs gróðurhúsalofttegunda, bæði Ísland og aðrar þjóðir. Með öðrum orðum mun þurfa að stórauka rafmagnsframleiðslu og ég minni á að við erum að tala um fordæmalausar breytingar á mannlegu samfélagi. Umhverfissinnar hafa gjarnan mótmælt fallvatnsvirkjunum í gegnum tíðina á Íslandi til að vernda ósnerta náttúru. Sjálfur tel ég mig til umhverfissinna og hef frekar hallast gegn virkjunaráformum en með þeim, þótt ég hafi reyndar bæði séð virkjunaráform sem ég skil ekki hvers vegna nokkur er á móti sem og áform sem ég skil ekki hvers vegna nokkur er hlynntur. En í ljósi loftslagsbreytinga finnst mér við þurfa að horfast í augu við a.m.k. tvennt:

Í fyrsta lagi, ef litið er til 100 eða 200 ára, verðum við að spyrja hvað sé átt við með ósnertri náttúru. Jöklarnir eru að bráðna og veðurfar er að breytast með tilheyrandi áhrifum á umhverfið allt. Hvað verður ósnert náttúra eftir 100 ár? Ég hef ekki svar við þessari spurningu.

Í öðru lagi: Eina leiðin til að fara í þessar fordæmalausu breytingar á mannlegu samfélagi er með orkuskiptum á slíkum hraða og skala sem hefur hingað til ekki þótt raunhæfur og er það kannski ekki. Því langar mig að spyrja þessarar leiðindaspurningar: Getum við umhverfisverndarsinnar tekist á við þetta fordæmalausa verkefni án þess að fórna öðrum? Sér hæstv. umhverfisráðherra fyrir sér að flóknara verði héðan af að velja og hafna þegar kemur að nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda á Íslandi í baráttunni við loftslagsbreytingar?



[15:34]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa hundleiðinlegu fyrirspurn sem hér er beint að mér. Hún er kannski ekki svo leiðinleg ef betur er að gáð. Ég tek undir þau orð hv. þingmanns að við stöndum frammi fyrir mjög stórri áskorun. Loftslagsbreytingar eru stærsta áskorun 21. aldarinnar að mínu mati.

Hér er spurt hvort við getum tekist á við þetta mikilvæga, stóra verkefni án þess að það hafi áhrif á auðlindir okkar. Ég held að stutta svarið við því sé að auðvitað hafa allar breytingar sem við þurfum að vinna að einhver áhrif á auðlindanýtingu. Þau áhrif eru ekki endilega neikvæð. Kannski eru sum þeirra neikvæð, önnur jákvæð. Þegar litið er til þess sem hv. þingmaður spurði sérstaklega um eða ræddi sérstaklega í sinni fyrirspurn, orkuskiptin, þá er í núverandi nýtingarflokki rammaáætlunar næg orka til að sjá fyrir þessum orkuskiptum sem munu gerast á lengri tíma en einum eða tveimur árum. Það hefur m.a. verið bent á varðandi þá aukningu sem er að verða núna á fjölda rafbíla, svo dæmi sé tekið, að ekki sé búist við að virkja þurfi sérstaklega fyrir það. En við þurfum að huga að því að þeirri orku sem við erum tilbúin til að ráðast í virkjanir fyrir sé beint í verkefni eins og þau sem snúa að loftslagsvænum verkefnum í framtíðinni.



[15:36]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og gott ef honum tókst ekki að búa til smávonarglætu í hjarta þess sem hér stendur, en sá er afskaplega þakklátur í hvert sinn sem það gerist. Þær minnka mjög hratt við skoðun þessa máls, því miður.

Mig langar ekki til að stela fyrirspurn sem er á dagskrá seinna í dag en ég ætla samt að hætta mér aðeins inn á það efni í ljósi svars hæstv. ráðherra, ég hlakka til að heyra umræðuna á eftir. Það snýst um frekari nýtingu á orkuauðlindum, kannski sér í lagi fallvatnsvirkjunum þar sem þær eru umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir sem hafa verið umdeildar hingað til, hvort slíkt standi til og hvert viðhorf hæstv. ráðherra sé til þess, hvort hann telji t.d. að setja eigi tiltekin skilyrði fyrir því til að ná einhverjum ákveðnum markmiðum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum eða í það minnsta að koma út á núlli. Með öðrum orðum að það sé alltaf tekið með í reikninginn þegar við förum út í einhver virkjunaráform hvort þau þjóni því markmiði að berjast gegn loftslagsbreytingum.



[15:37]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að benda hv. þingmanni á fyrirspurn frá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, sem er einmitt til fjármála- og efnahagsráðherra, um kolefnishlutleysi við hagnýtingu sameiginlegra auðlinda og eigna ríkisins. Mér vitanlega er ekki komið svar. (Gripið fram í.)Það kemur á eftir. Þá er bara mjög spennandi að sjá hvað er í því.

Til að svara spurningunni um hvort komi til greina að setja einhver skilyrði vegna frekari nýtingar þegar kemur að þessum málum finnst mér sjálfsagt að skoða slíkt. Maður hugsar kannski sérstaklega til þess að í orkustefnu sem verið er að móta núna sé hægt að setja fram einhverjar slíkar hugmyndir, að það sé ekki nákvæmlega sama í hvað sú orka fer sem verið er að afla. Þar mætti nefna sem dæmi hvort um er að ræða mengandi starfsemi, eins og hefur verið aflað orku til á Íslandi í allmiklum mæli hingað til, (Forseti hringir.) eða einhvers konar annarrar starfsemi eða orkuskipta, eins og ég nefndi hér áðan.