149. löggjafarþing — 95. fundur
 29. apríl 2019.
kolefnishlutleysi við hagnýtingu sameiginlegra auðlinda og eigna ríkisins.
fsp. KÓP, 609. mál. — Þskj. 1010.

[16:05]
Fyrirspyrjandi (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að eiga í þessu samtali við mig um þetta mál. Ég átta mig á því að fyrirspurnin er að einhverju leyti óvenjuleg og ég vona að hæstv. ráðherra virði það við mig að ég sé hér að reyna aðeins að hugsa upp á nýtt, kannski með smáskapandi hugsun, þegar kemur að loftslagsmálum. Ég hef líka átt samtal við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um í raun nákvæmlega sömu mál, um þær auðlindir eða eignir sem heyra undir hans ráðuneyti. Hugsunin er í sem skemmstu máli sú að þegar kemur að loftslagsmálum sé vandinn slíkur að það sé engin ein töfralausn, það þurfi einfaldlega að gera allt sem við getum gert.

Þess vegna hef ég hugsað hvort hið opinbera með sínar eignir, auðlindir og nýtingu á þeim gæti sett einhvers konar stefnu um að við nýtingu þeirra eigna og auðlinda verði að gæta kolefnishlutleysis. Þannig að þegar við komum auðlindum sem við förum með, þ.e. ríkið, í notkun munum við ekki auka á vandann heldur einmitt í það minnsta láta hann standa í stað. Best væri að við gengjum enn lengra og að nýting auðlindanna myndi jafnvel draga úr kolefnisútblæstri.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að skilyrða hagnýtingu sameiginlegra auðlinda og eigna ríkisins þannig að kolefnishlutleysi nýtingarinnar verði tryggt. Hvernig myndi sú stefna nýtast í baráttunni gegn loftslagsbreytingunum og jafnframt styðja við markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040? Og hvernig eru alþjóðlegar skuldbindingar í þeim efnum?

En af því að ég er líka að reyna að vera raunsær og praktískur velti ég fyrir mér hvaða áhrif slík stefna myndi hafa á hagnýtingu umræddra auðlinda og eigna ríkisins. Ef ráðherra er fylgjandi slíkri stefnu hvenær teldi hann skynsamlegt að hún tæki gildi í ljósi þeirra áhrifa sem hún myndi hafa á þau sem að nýtingunni standa?

Ég geri mér alveg grein fyrir því að óforvarandis væri ekki hægt að skella á kröfu um t.d. fiskveiðiauðlindina, sem ég átti orðastað um við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um daginn. Fólk þyrfti að hafa umþóttunartíma til að laga sig að því að slíkar kröfur væru gerðar.

Það má vel vera, forseti, að ekki sé nógu skýrt spurt eða að þetta eigi ekki allt heima undir hatti í ráðuneyti hæstv. ráðherra, en ég vona að hann virði það við mig og fari jafnvel á smáhugarflug með mér (Forseti hringir.) hér um hvort við getum nýtt okkar sameiginlegu eignir á einhvern slíkan hátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.



[16:08]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna tækifæri til að ræða þessi mál á þessum grundvelli. Segja má að meginstefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum birtist í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Við höfum sett okkur nokkuð metnaðarfull markmið og hófum þá vinnu strax í stjórnarsáttmálagerðinni að setja þessi mál nokkuð rækilega á dagskrá og höfum fylgt því vel eftir að mínu áliti.

Nú þegar spurt er um sameiginlegar auðlindir og eignir ríkisins sérstaklega myndi maður segja: Ja, hér er þá væntanlega fyrst og fremst um að ræða fiskstofnana í kringum landið, orkuauðlindir í hita og fallorku. Jú, ríkið á þar, fyrir utan bújarðir, alls kyns mannvirki. Það hefur einnig í sinni umsjón landsvæði, þjóðlendur, sem eru að mjög óverulegu leyti nýtt. Ef maður hoppar á milli þessara eignarflokka getum við kannski sagt varðandi auðlindir sjávar að þar hafi meginsjónarmiðið um langa hríð verið sjálfbærni. Vil ég meina að þar hafi náðst verulegur árangur í fyrsta lagi í fiskveiðistjórninni sjálfri að ná fram sjálfbærnimarkmiðunum.

Frá því að staðan í loftslagsmálum varð mönnum ljósari hafa útgerðaraðilar kappkostað mjög að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hafa náð verulegum árangri í þeim efnum. Í skýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi frá því í desember 2017 kemur fram að sjávarútvegurinn hafi þegar árið 2016 minnkað losun sína á gróðurhúsalofttegundum um 43% frá árinu 1990. Þrátt fyrir það er ljóst að koma þurfa til nýir orkugjafar ef takast á að gera nýtingu fiskimiðanna fullkomlega kolefnishlutlausa. Á móti koma sjónarmið um hversu stórt kolefnisfótspor mismunandi próteinframleiðslu til manneldis hefur, en leiða má líkur að því að þar komi prótein úr sjó vel út í samanburði við ýmislegt annað.

En svo ég nálgist aðeins spurninguna ætla ég að benda á að nýting okkur úr vatnsföllum landsins er nú því sem næst kolefnishlutlaus. Það er einhver losun við nýtingu jarðhitans. Varðandi nýtingu jarða sem ríkið á og leigir oft bændum má nefna að við vinnum sérstaklega að kolefnishlutleysi sauðfjárræktar í nýlegum samningum. Þegar spurt er hvort til greina kæmi að skilyrða nýtinguna almennt við kolefnishlutleysi, eins og komið var inn á í máli fyrirspyrjanda, held ég að það gæti verið mjög vandasamt. Við höfum valið frekar þá leið að setja okkur almenn markmið fyrir samfélagið í heild, sem þýðir að við setjum ekki sérstök markmið fyrir hverja atvinnugrein eða hverja mannlega athöfn fyrir sig heldur frekar samfélagið í heild sinni. Við setjum stjórnvöldum áætlanir um það hvernig við náum þessum markmiðum og getur fólk þurft að leggja þar mismunandi mikið á sig miðað við stöðuna á hverju sviði.

Við ætlumst líka til þess, eins og augljóst er og hefur komið fram, að aðrir en ríkið leggi allt sitt af mörkum, og við köllum líka á heimilin og alla aðra sem geta áhrif hér til þess að vera þátttakendur í því að ná, ekki bara okkar alþjóðlegu skuldbindingum heldur þeim markmiðum sem við höfum sett okkur sem ganga lengra.

Ég vil koma því að undir lokin að mér finnst þetta engu að síður áhugaverð fyrirspurn. Þetta er áhugaverð nálgun á mikilvægt málefni og verð ég að láta við það sitja í dag að segja að ég held að við getum ekki gert mikið meira en við höfum einsett okkur í bili. Við eigum reyndar fullt í fangi með að ná þeim markmiðum sem við höfum þegar sett okkur þó að þetta gæti verið ágætisviðmið til hliðsjónar þegar við metum árangurinn hverju sinni, hvort við höfum í hendi okkar tækifæri til að gera meira vegna eigna sem við höfum í umsjá eða erum með yfirráð yfir.



[16:14]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka bæði hv. þingmanni og hæstv. ráðherra fyrir mikilvægar spurningar og mikilvæg svör. Okkur gengur hægt, ég segi ekki of hægt ef við sláum í klárinn, að hraða okkur að ásættanlegu marki í loftslagsmálum. Þá á ég t.d. við Parísarsamkomulagið og þetta 1,5° markmið sem þar er. Stjórnvöld leika stórt hlutverk í þessu öllu saman ásamt einstaklingum, samtökum, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Ég segi stórt hlutverk og þess vegna er mikilvægt að hyggja að kolefnishlutleysi í starfsemi ríkisins og ég hvet til dáða í þessum efnum í anda kolefnishlutlauss Íslands fyrir árið 2040. Við heyrðum hér fyrr í dag um alvarleika loftslagsmála og þá langar mig að upplýsa að til er gróft mat á kostnaði heimsbyggðarinnar við að ná þessu 1,5° marki, það eru 23.000 milljarðar bandaríkjadala, 23 trilljónir bandaríkjadala, og ef við náum þessu ekki fyrr en með 2° markinu verða trilljónirnar 32.



[16:15]
Fyrirspyrjandi (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég heyrði eitt sinn af háskóla í bandarískri stórborg sem sótti um að fá að stækka, gæti tekið einhver þúsund eða tugi þúsunda nemenda inn í skólann. Skólinn fékk neitun frá skipulagsyfirvöldum. Neitunin var á þeim forsendum að bílaumferð myndi aukast svo mikið. Skólinn mætti stækka ef tryggt yrði að bílaumferð myndi ekki aukast neitt, eða 0% aukning á bílaumferð þó að nemendum fjölgaði um 10–20 þúsund. Hver varð niðurstaðan? Jú, það var gert. Skólinn var skipulagður á þann hátt að bílaumferðin jókst ekki nokkurn skapaðan hlut við stækkunina.

Hví er ég að tiltaka þetta? Jú, því að það er akkúrat svona sem ég sé fyrir mér að við gætum mögulega gert þegar kemur að nýtingu auðlinda okkar. Við setjum einfaldlega þau skilyrði að nýtingin auki á engan hátt við kolefnisfótspor okkar, og nýtingin verði kolefnishlutlaus. Og ég minni á að í kolefnishlutleysi felst ekki eingöngu það að draga úr útblæstri, sem er náttúrlega allra best, heldur líka binding. Það eru tvær leiðir, og þess vegna er talað um kolefnishlutleysi í þessu.

Sjálfur vil ég ganga svo langt, þegar kemur að auðlindum þjóðarinnar, okkar allra, í eigu ríkisins, að huga að allri keðjunni, þ.e. þegar við tölum um orkuauðlindir verður líka að huga að því í hvað orkan er notuð, þ.e. kolefnisfótspor framleiðslunnar sjálfrar — og tekur við af rafmagninu. Þá er ég nú komin aðeins út fyrir efni þessarar fyrirspurnar þó að háfleyg sé.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma og taka þátt í þessari umræðu og svara þessu og er þannig jákvæður í garð þess að (Forseti hringir.) við hugsum þetta á nýstárlega máta, því að eins og ég nefndi áðan, forseti, þurfum við að gera allt. Það er ekki bara eitthvað, við þurfum að gera allt þegar kemur að loftslagsmálum.



[16:17]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það aftur fram að mér finnst hv. þingmaður setja mikilvægt mál hér á dagskrá. Þetta er ein leið til að nálgast það hvernig við sækjum fram í átt að því yfirmarkmiði sem við höfum ákveðið fyrir okkur sem samfélag, fyrir okkur sem þjóð. Það leiðir hins vegar af ólíkri starfsemi að sum atvinnustarfsemi er með mest lítið kolefnisfótspor meðan önnur eru með mikið og það gæti orðið gríðarlega íþyngjandi að fara fram á fullt kolefnishlutleysi hverrar einingar fyrir sig enda erum við ekki í sjálfu sér að sækjast eftir því heldur hafa markmið okkar frekar horft til heildarútblásturs, heildarlosunarinnar. Það væri auðvitað eftirsóknarvert í sjálfu sér að það væri engin losun yfir höfuð miðað við það hver staðan er í dag.

Ég held hins vegar að það hafi vegna þessarar umræðu nú þegar komið fram að við Íslendingar höfum gríðarlega margt fram að færa. Þannig eru Íslendingar t.d. að selja þekkingu sína á sviði jarðvarma í Kína. Íslendingar eru að kynna fiskveiðistjórnarstefnu sína víða um heim sem fyrirmyndarfiskveiðistjórnarkerfi sem hámarkar afrakstur. Við erum að fjárfesta í nýjustu tækni. Hér eru verkefni sem tengjast kolefnisbindingu sem feikileg tækifæri geta verið samfara og loks eru stundaðar rannsóknir á Ísland sem eru beintengdar kolefnislosun og fela í sér möguleika til framtíðar sem gætu jafnvel (Forseti hringir.) velt stórum steinum til breytinga.