149. löggjafarþing — 102. fundur
 13. maí 2019.
frumvarp um þungunarrof.

[15:12]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í dag greiðum við atkvæði um hið svokallaða þungunarrofsfrumvarp heilbrigðisráðherra. Ég hef verið að velta fyrir mér, og þess vegna langaði mig til að koma upp í fyrirspurn við ráðherrann, hvort aldrei á neinum tímapunkti hafi verið hugsað út í það hversu ofboðslega viðkvæmt og stórt þetta mál er. Var aldrei hugsað út í það hvort það ætti að nálgast það á einhverjum öðrum forsendum, með heildstæðri nálgun sem lyti kannski um leið að forvörnum, skaðaminnkun, snemmtækri íhlutun? Það lyti einhverju öðru en t.d. þeim rökum að það snerist fyrst og síðast um sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama, sem virðist nú renna út við lok 22. viku meðgöngunnar. Þá halda greinilega þau rök ekki lengur.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Er málið ekki þannig vaxið, þegar við finnum að það er mjög mikil undiralda úti í samfélaginu, að við hefðum getað reynt í meiri sátt og samlyndi að ná utan um þetta viðkvæma mál og gert það þannig að við gætum öll vel við unað?



[15:14]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað mikið umhugsunarefni að mál af þessu tagi hafi ekki ratað inn á Alþingi síðan 1975 vegna þess að þá náðist ákveðin niðurstaða í mál þar sem krafan um sjálfsákvörðunarrétt kvenna var brotin á bak aftur. Síðan eru liðin öll þessi ár, 44 ár.

Þegar ég kom inn í heilbrigðisráðuneytið lá þar fyrir skýrsla sem var beðið um af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þá heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, þar sem frumvarp af þessu tagi var lagt til með mjög eindregnum og faglegum hætti. Þessi skýrsla lá á borðinu þegar ég kom að í ráðuneytinu og mér þótti einboðið að færa niðurstöðu nefndarinnar til Alþingis vegna þess að það er Alþingi sem á að taka ákvörðun um þessa hluti en ekki ráðherrann einn og sjálfur.

Ég verð að segja, þó að ég muni sjálfsagt gera betur grein fyrir því við atkvæðagreiðslu á eftir, að mér hefur fundist þingið sýna í umræðu um þetta mál hvers það er megnugt vegna þess að málið hefur verið tekið til mjög ítarlegrar umfjöllunar í hv. velferðarnefnd. Þar hafa málin skipast þannig að niðurstaða eða afstaða til málsins er ekki endilega í samræmi við stuðning við ríkisstjórn eða andstöðu við hana heldur afstöðu til málsins sem slíks. Það er kannski nákvæmlega þannig sem þingið á að virka, að við tökum öll afstöðu fyrst og fremst út frá málinu sem slíku.

Ég tel að þó að þetta mál snúist fyrst og fremst um sjálfsákvörðunarrétt kvenna sé hægt að rökstyðja þá niðurstöðu á mjög margan hátt. En niðurstaðan er alltaf þessi. Hún er rétt (Forseti hringir.) fyrir konur, hún er rétt fyrir þá skoðun og þá eindregnu afstöðu að konan eigi að ráða líkama sínum sjálf.



[15:16]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Ákvörðunin er rétt fyrir konur. Er hún rétt fyrir hið óborna barn? Hvenær kviknar lífsréttur að mati hæstv. heilbrigðisráðherra?

Þingið hefur talað, en hvenær fengum við í rauninni alvöruumræðu? Hvenær höfum við fengið alvöruumræðu um málið hér? Vissu íslenskir kjósendur það þegar þeir gengu í kjörklefann 2017 að þetta frumvarp væri fyrirliggjandi? Ég held ekki.

Þess vegna segi ég enn og aftur: Er á einhverjum stað markmið hæstv. heilbrigðisráðherra að taka utan um málaflokkinn með það að leiðarljósi að draga frekar úr fóstureyðingum en að samþykkja þær til loka 22. viku meðgöngu (Forseti hringir.) án nokkurra skilyrða?



[15:17]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Án þess að ég ætli að ræða málið hér efnislega undir þessum lið þá fannst mér rétt í ljósi þess hver væri aðdragandi málsins, að málið fengi umfjöllun í samráðsgátt Stjórnarráðsins og fengi umsagnir þar og kæmi síðan til þingsins og til nefndar. Nefndin hefur fjallað um málið mjög ítarlega á óvenjulega mörgum fundum miðað við það sem hér er undir. Þannig að ég tel að það sé mjög vel um málið búið í raun og veru. Auk þess var það tekið inn til nefndar milli 2. og 3. umr., sem gerist ekki endilega með öll mál.

En af því að hv. þingmaður vill ræða fleiri þætti sem lúta að barneignum og þungunarmálum, ef svo má að orði komast, þá er því til að svara að ég hef beitt mér fyrir því að auka aðgengi að getnaðarvörnum, sérstaklega aðgengi viðkvæmra hópa að hormónagetnaðarvörnum, og mun halda því áfram, auk þess sem kynfræðsla mun verða aukin og hefur þegar aukist á undanförnum misserum. Þetta er allt saman partur af stórri mynd.