149. löggjafarþing — 102. fundur
 13. maí 2019.
samningur Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið.

[15:19]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Leit að krabbameini í leghálsi og brjóstum er umfangsmesta verkefni Krabbameinsfélagsins sem stofnað var um miðja síðustu öld. Samkvæmt samningi við heilbrigðisyfirvöld sér félagið um skipulag og framkvæmd krabbameinsleitar sem nær til kvenna á aldrinum 23–69 ára. Þar eru einfaldlega blikur á lofti. Frá árinu 2013 hefur samningur félagsins við Sjúkratryggingar verið framlengdur sjö sinnum og núgildandi samningur er til ársloka þessa árs. Þessi starfsemi er undirfjármögnuð af ríkinu svo að Krabbameinsfélagið hefur þessi ár greitt með verkefninu. Það segir sig sjálft þegar um skammtímasamninga er að ræða að það er erfitt að þróa starfsemi og vinna að málefninu af einhverju viti til framtíðar.

Fyrr á þessu ári fékk Krabbameinsfélagið beiðni um að sinna verkefninu áfram fram yfir næstu áramót og koma með drög að samningi þar að lútandi til ráðuneytis. Félagið gerði svo, gekk frá samningsdrögum og sendi til ráðherra í mars. Þá voru skilaboðin þau að Sjúkratryggingar Íslands myndu hafa samband við Krabbameinsfélagið til að ganga frá framlengingunni. Síðan hefur ekkert heyrst. Hér er um að ræða mjög sérhæfðan hóp starfsfólks. Margt af því er með hálfs árs uppsagnarfrest og við blasir að Krabbameinsfélagið þarf að segja þessum hópi upp í næsta mánuði. Það er ekkert sem bendir til þess núna að þessi samningur verði endurnýjaður af einhverju viti. Það er alvarlegt að það ríki slík óvissa um framtíð skimunar fyrir krabbameini á Íslandi.

Ég spyr: Er hæstv. ráðherra sáttur við þetta ferli og þessi vinnubrögð? Hvenær verður upplýst hvað ráðherra hyggst fyrir í þessum málum? Getur hæstv. ráðherra mögulega upplýst það hér og nú?



[15:21]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Mig langar til að nálgast svarið við þessari spurningu út frá krabbameinsáætlun. Þannig er að fyrir liggur og fyrir lá krabbameinsáætlun í drögum þegar ég kom í ráðuneytið og hef ég nú staðfest áætlunina og komið henni til framkvæmda. Eitt af því sem lagt er til í krabbameinsáætlun er að sett sé á stofn skimunarráð. Skimunarráð er á vegum landlæknisembættisins og er ætlað að gera tillögur til ráðherra um fyrirkomulag skimana. Nú hefur skimunarráð skilað tillögum sínum. Það er gríðarlega mikilvægur þáttur í forvörnum að hafa öfluga skimanir og ekki síst þegar um er að ræða þau krabbamein sem hér eru til umræðu, legháls- og brjóstakrabbamein, en einnig krabbamein í ristli, sem líka hefur verið til umræðu. Þegar skimunarráð skilar mér sínum tillögum þá fjalla þær tillögur m.a. um fyrirkomulagið, þ.e. hver sér um hvað í þessu ferli.

Einn sá aðili sem hefur haldið utan um tiltekna þætti í skimun fyrir krabbameinum er Krabbameinsfélag Íslands og hefur gert það með miklum sóma. Síðan hafa aðrir aðilar tekið við þegar lengra er komið, Landspítali fyrst og fremst. Til þess að ná utan um þetta ferli og til að tryggja fulla þátttöku í þessum skimunum þá þarf í raun og veru að liggja fyrir að fólk mæti, að það sé þannig að fólk finni sig knúið til að til þess að mæta og sinna þessum innköllunum. Samkvæmt skimunarráði er gert ráð fyrir að fyrirkomulagið verði með lítillega öðrum hætti en nú er og að sett sé á stofn verkefnisstjórn til að koma þeim breytingum í kring.

Ég hef samþykkt þessar tillögur og geri ráð fyrir því að verkefnisstjórnin feli í sér og sé með aðild fulltrúa Krabbameinsfélags Íslands til að (Forseti hringir.) þessar breytingar, hverjar sem þær eru, séu með vitund og vilja Krabbameinsfélagsins.



[15:23]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég verð samt að segja að það var ansi tæknilegt við viðfangsefni, sem er raunverulega ekki mjög tæknilegt en þeim mun alvarlegra. Ég ætla að fá að nefna að þessar tillögur, ég hef ekki séð þær sjálf, en ég veit að í þeim hópi sem þá var settur á laggirnar var enginn sérfræðingur frá leitarstöðinni, eða hvað? (Gripið fram í.) — Nei, það var nefnilega enginn sérfræðingur þar í því máli þá. Það hefði kannski verið hægt að stytta þennan vandræðagang töluvert með því að hafa þau með í þeim tillögum sem þá voru unnar, en ekki að kalla þau til núna þegar búið er að leggja fram tillögur og hæstv. ráðherra búin að samþykkja þær. Þarna er aftur verklag sem hefði getað verið mun betra, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Á meðan Krabbameinsfélagið hefur beðið eftir niðurstöðum skoðunaraðila, sem eru vissulega minni sérfræðingar en þau á Krabbameinsfélaginu en var falið það verkefni að skoða þetta, hefur það lagt fram eigin tillögu að framtíðarskipulagi skimunar.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er inni í myndinni að taka tillit til þess? Hefur hún skoðað það?

Jafnframt langar mig að vita: Hversu (Forseti hringir.) sterka tilfinningu hefur ráðherra fyrir því að þetta verði klárað á þeim tíma sem um er að ræða? Eða (Forseti hringir.) verður Krabbameinsfélaginu boðið upp á enn einn bútasauminn í formi framlengingar?



[15:24]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Í fyrsta lagi varðandi tillögu skimunarráðs er hún að mörgu leyti að evrópskri fyrirmynd, þ.e. hvernig stofnanastrúktúrinn er, ef svo má að orði komast, í kringum skimanir. Ég hef fundað með Krabbameinsfélaginu og séð það upplegg sem Krabbameinsfélagið er með, sem er að mörgu leyti ekki óskylt því plani sem skimunarráð leggur fram. En skimunarráð er líka með mjög merkilega áherslu sem er sú að skimanir skuli vera gjaldfrjálsar. Þar erum við sammála Krabbameinsfélaginu um að það beri að vera þannig, vegna þess að það hefur verið viðkvæðið hjá mörgum að þeir hafi ekki treyst sér til að mæta í krabbameinsskoðanir vegna þess hversu dýrt það er.

Ég vænti þess eftir þessa fyrirspurn hv. þingmanns að ég kanni það í ráðuneytinu hvernig samskiptin hafa verið alveg á undanförnum vikum við Krabbameinsfélag Íslands, en Krabbameinsfélagið er svo stór gerandi á þessu sviði að það er ótækt annað en að framkvæmdin sé innleidd í samráði við það.