149. löggjafarþing — 102. fundur
 13. maí 2019.
afgreiðsla frumvarps um þungunarrof.

[15:26]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram munum við greiða atkvæði um þungunarrofsfrumvarp heilbrigðisráðherra í dag. Málið er viðkvæmt og umdeilt í þjóðfélaginu, það hefur verið keyrt í gegn án þess að hafa fengið fullnægjandi umræðu í nefndinni. Stjórnarþingmenn hafa sumir hverjir sagt að það komi þeim á óvart hversu langt málið sé komið.

Miðflokkurinn lagði fyrir nefndina viðbótarspurningar og óskaði eftir því að fá fleiri sérfræðinga fyrir nefndina. Því var hafnað. Formaður nefndarinnar neitaði stjórnarþingmanni um að reyna að ná sátt um viknafjöldann og sagði málið útrætt. Siðfræðistofnun leggur til að fresta málinu, svo viðkvæmt mál þurfi mun dýpri umræðu í samfélaginu. Það gerir Þroskahjálp einnig. Biskup Íslands telur að það sé ótækt að Alþingi samþykki frumvarpið óbreytt.

Málið hefur læknisfræðilegar, trúarlegar og siðferðislegar hliðar. Engum á vegum trúfélaga var boðið að koma fyrir nefndina. Formaður nefndarinnar hefur sagt að trúarleg sjónarmið eigi ekki að hafa áhrif — og þá væntanlega ekki heldur siðferðisleg álitaefni sem allir vita jú að eru ærin í þessu máli.

Ég beini því til forsætisráðherra að hún beiti áhrifum sínum til þess að Alþingi afgreiði ekki þetta viðkvæma mál á þessu stigi. Fjölmörg álitaefni eru í raun og sanni órædd.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Er ráðherra tilbúinn í breiðari og samfélagslegri sátt í málinu?



[15:28]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans fyrirspurn. Ég ber fulla virðingu fyrir því að þetta er mál sem ristir djúpt og varðar grundvallarsannfæringu margra, ef ekki allra, þingmanna. Ræðum fyrst aðeins um það vinnulag sem hefur verið viðhaft í þessu máli. Vinna við endurskoðun laga um þungunarrof var sett af stað í tíð ekki síðasta heilbrigðisráðherra heldur þarsíðasta heilbrigðisráðherra, hæstv. ráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar. Það var unnin mjög vönduð skýrsla sem birt var og fékk opinbera umræðu þá strax, fyrir einhverjum árum, ég ætla að það hafi verið 2015 eða 2016. Frumvarpið kom fram á haustþingi og hefur verið til umræðu í hv. velferðarnefnd. Ég get ekki annað sagt en það sem ég hef heyrt um þá vinnu. Mér skilst að í það hafi verið lögð mikil vinna, margir fundir verið haldnir um málið, margir gestir fengnir og ekki verið óskað eftir því til að mynda að fulltrúar trúfélaga mættu á fund nefndarinnar. Ég heyri ekki annað en að formaður nefndarinnar hafi haldið um málið eins vel og unnt er.

Það breytir því ekki að þetta er mál sem ég hef fullan skilning á að skiptir fólki í tvær fylkingar og fyrir mér er þetta risastórt grundvallarmál. Þetta er grundvallarmál sem snýst um sjálfræði kvenna að mínu viti, réttindi þeirra til að ráða yfir eigin líkama og eigin lífi, langþráð réttindamál, en um leið fylgir því frelsi sem boðað er í frumvarpinu mikil ábyrgð. Ég hef þá afstöðu að ég treysti fólki og konum til að taka ekki slíkar ákvarðanir af neinni léttúð. Ég treysti konum fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir þessum réttindum. Ég treysti því að þessi réttindi verði framfaraskref (Forseti hringir.) fyrir konur á Íslandi. Fyrir mér er þetta nefnilega líka mikið grundvallarmál og ég held að þær spurningar breytist ekki (Forseti hringir.) þó að við höldum fleiri fundi um málið því að ég tel að vel hafi verið að vinnunni staðið.



[15:30]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra. Víkjum aðeins að Sjálfstæðisflokknum. Hann hefur lagt mikið af mörkum við að stuðla að þeirri sátt sem segja má að hafi ríkt í íslensku samfélagi þegar kemur að þessum viðkvæma málaflokki. Nú gerist það að í ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að hefur hæstv. heilbrigðisráðherra ákveðið að rjúfa þessa sátt og rífa upp með rótum. Fyrir fram vil ég ekki trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi beygt sig í þessu máli til að tryggja stuðning Vinstri grænna við þriðja orkupakkann. Því hefur verið kastað hér fram í umræðunni að hrossakaup af slíku tagi hafa átt sér stað innan vébanda stjórnarflokkanna.

Það er þyngra en tárum taki, herra forseti, að lífsréttur ófæddra barna sé ekki meira virtur en raun ber vitni þegar um er að ræða flokka (Forseti hringir.) á borð við Framsóknarflokkinn [Kliður í þingsal.] og Sjálfstæðisflokkinn, (Forseti hringir.) að ekki sé minnst á þann flokk (Forseti hringir.) sem á sæti í ríkisstjórn í fyrsta sinn.



[15:31]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vekur athygli á að hv. þingmaður beindi fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra. Fyrirspurninni var ekki beint til Sjálfstæðisflokksins eða heilbrigðisráðherra og biður forseti þingmenn að gæta orða sinna.



[15:31]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og kom fram í mínu fyrra svari er hér um að ræða grundvallarmál. Það er alrangt sem hv. þingmaður gefur í skyn að um svona grundvallarmál eigi sér stað hrossakaup af nokkru tagi. Það er bara ekki svoleiðis, verð ég að segja, herra forseti.

Og mér finnst ekki við hæfi að tengja hér allsendis óskyld mál. Það frumvarp sem hér liggur frammi — og ég ítreka að ég hef fullan skilning á því að á því séu ólíkar skoðanir — er slíkt grundvallarréttindamál og varðar mína pólitísku sannfæringu svo djúpt því það snýst um réttindi kvenna yfir sínum eigin líkama. Konur verða aldrei sjálfstæðar fyrr en þær hafa þau fullu réttindi.

Einhverjir hefðu viljað ganga lengra og hafa engin tímamörk á og treysta konum til fulls. Það er mín persónulega afstaða. En ég mun styðja þetta frumvarp (Forseti hringir.) hér á eftir og ég læt ekki segja mér að um þetta mál eða mál af slíku tagi, sem er jafn alvarlegt og raun ber vitni, að mér, eða samstarfsfólki mínu í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, (Forseti hringir.) myndi detta í hug að fara í einhver hrossakaup um það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)