149. löggjafarþing — 106. fundur
 20. maí 2019.
um fundarstjórn.

dagskrá fundarins.

[17:17]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það vekur óneitanlega nokkra undrun að hér eigi að taka af dagskrá 4. dagskrármálið, útlendinga, sem sagt alþjóðleg vernd og brottvísunartilskipun. Ekki er nema rétt um einn og hálfur tími síðan við greiddum atkvæði sérstaklega um að leyfa að það yrði tekið á dagskrá, eins og segir í útbýttri dagskrá fyrir Alþingi mánudaginn 20. maí klukkan þrjú síðdegis, sem er núna. Þar er 4. mál á dagskrá útlendingar, mál 838. Um það var sérstaklega kosið í þingsal, þingmenn kallaðir til atkvæðagreiðslu. Nú er tilkynnt að það sé tekið af dagskrá. Við reyndum ýmislegt aðfaranótt fimmtudagsins í fundarstjórn forseta en skal nú haldið áfram eða er þetta bara enn eitt merkið um hófleg og snúin samskipti ríkisstjórnarflokkanna hvað skipulagið varðar?



[17:19]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Þessi tilkynning sætir undrun. Ég man ekki eftir öðru dæmi um — það kann að vera að það hafi gerst einhvern tímann en ég man ekki eftir því — að forseti Alþingis hafi sérstaklega beðið um að þingið hleypti máli á dagskrá, máli sem var of seint fram komið, til þess eins að taka það af dagskrá rúmum klukkutíma síðar.

Ég bið virðulegan forseta um að útskýra hvað sé á ferðinni. Getur verið að þetta sé enn eitt einkenni þess að stjórnarmeirihlutinn ætli sér að þvinga orkupakkamálið í gegnum þingið án þess að það fái tilhlýðilega skoðun? Þetta er a.m.k. mjög óhefðbundið og því ítreka ég þá beiðni til hæstv. forseta að hann útskýri hvað valdi þeim snöggu sinnaskiptum forseta.



[17:20]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég tek undir það með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að þetta kemur býsna mikið á óvart, ekki síst vegna þess að í morgun vorum við báðir, ég og sitjandi hæstv. forseti, á fundi forsætisnefndar þingsins að fjalla um þingvikuna. Þar var einmitt tekið til að þetta mál, þ.e. um útlendinga, ætti að vera á dagskrá í dag. Síðan eru ekki nema um þrír tímar og maður veltir fyrir sér hvað hafi gerst á þeim stutta tíma.

Ætla menn kannski að fresta umræðunni um 5. dagskrármálið líka þannig að við bara gjörbyltum dagskránni, eða hvað ætlar forseti? Hvað ætlar forseti sér að gera? Þetta er mjög undarlegt og ég hefði mjög gjarnan viljað fá útskýringar á því vegna þess að, eins og ég segi, hafandi tekið þátt í því í morgun að ræða um þingvikuna, þar á meðal þennan dagskrárlið, þá kemur þetta nokkuð á óvart.



[17:21]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á því að hv. þingmenn Miðflokksins séu ekki hér hoppandi sælir með að byrja umræðuna um þriðja orkupakkann strax. Næstur á mælendaskrá held ég að sé hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem er þá að fara í sína fimmtu ræðu um þingsályktunartillöguna er varðar þriðja orkupakkann.

Ég veit að hér kvartaði fólk að sjálfsögðu yfir því að þurfa að standa vaktina alla nóttina. Ég hefði haldið að ágætt væri að við myndum þá byrja umræðuna um hálf sex og gætum þá vonandi lokið henni einhvern tíma þegar liði á kvöldið. Ef úthaldið er meira er alla vega eitthvað aðeins minna sem þarf í næturfundi og hægt að nota dagsbirtuna í að ræða þetta mikilvæga mál, því að augljóst er að margir þingmenn eiga enn þá eftir að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri hvað það varðar þrátt fyrir alla þá klukkutíma sem farið hafa í umræðunni nú þegar.



[17:22]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að lýsa undrun minni á því að útlendingamálin skuli vera tekin af dagskrá með svo skömmum fyrirvara Ég sá heima að þetta mál væri á dagskrá í dag og þess vegna hef ég verið að undirbúa mig fyrir þessa umræðu. Málið er mjög stórt og mikilvægt og við áttum okkur á því að tilgangur þessa frumvarps er sá að flýta málsmeðferð í þessum málaflokki, sem er mjög brýnt, bæði fyrir þá sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi og einnig fyrir stjórnvöld.

Það er brýnt að þetta mál fari í gegn og ég held að við hljótum að sjá að það eru ekki boðleg vinnubrögð að gera þetta með þessum hætti, herra forseti, vegna þess að hér er mikið í húfi. Þessi málaflokkur kostar verulegar upphæðir og allar tafir á þessu frumvarpi munu kosta ríkissjóð háar upphæðir þannig að ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að ræða þetta hér og koma málinu sem fyrst til nefndar.



[17:23]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vona að það sé enginn misskilningur á ferð, auðvitað erum við hoppandi glöð, Miðflokksfólkið, að fá að ræða þriðja orkupakkann, og enginn glaðari en sá sem hér stendur, sem ekki hefur tekið þátt í umræðunni enn þá við síðari umr. og á því alla vega eftir 20 mínútna ræðu, tíu mínútna ræðu og nokkrar fimmur, þannig að mér er mikið í mun að þessi umræða hefjist og að hún fái þann tíma sem hún þarf.

Ég sé það nú að fyrst til stendur að blása til þessarar umræðu núna til klukkan hálf sex að kvöldi þá höfum við rúman tíma. Það er ekki nefndarfundur fyrr en klukkan níu í fyrramálið. Eða var það klukkan hálfníu? Ég man það ekki. Þannig að við höfum ágætan tíma til að reifa þetta mál. Ég var illa fjarri góðu gamni hér aðfaranótt fimmtudags, ég hefði mjög gjarnan viljað leggja orð í belg þá en fæ tækifæri til þess núna. Sú umræða sýndi okkur líka hversu stutt á veg umræðan um orkupakkann er raunverulega komin, (Forseti hringir.) þannig að það er ekki ráð nema í tíma sé tekið að halda henni áfram og gera það vel.



[17:25]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig rekur ekki minni til þess að máli sem samþykkt var hér rétt áðan til þess að verða síðan sett á dagskrá, sé síðan kippt út. Ég átta mig bara ekki á þessum sinnaskiptum og dagskrárvaldi og verð að taka undir með þingmönnum sem hafa komið upp og undrast þetta. Samkomulag var um að mæla fyrir frumvarpi um útlendinga, þ.e. Útlendingar (alþjóðleg vernd og brottvísunartilskipunin), sem er mikilvægt mál. Mér skilst að það hafi átt að koma því til nefndar, fara með það í umsagnaferli. Ég veit alveg að menn munu ekki leggjast hér í langar ræður, en ég skil engu að síður ekki þann ótta við að setja þetta mál á dagskrá. Ég tek undir með þeim sem hvetja hæstv. forseta til að endurskoða þessa ákvörðun og setja mál nr. 4 aftur á dagskrá. Við vorum búin að samþykkja það fyrr í dag og þá má spyrja: Hefur forseti heimild til að taka málið út af dagskrá fyrst þingið var búið að samþykkja það hér fyrr í dag?



[17:26]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við vorum að ræða þetta mál á þingflokksformannafundi í morgun og þar var allt komið í samkomulag. Ég er búinn að vera hér í þingsal síðan þingfundur byrjaði í dag og hafði ekki hugmynd um þetta. Ég gapti bara. Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Maður situr úti í sal og býst við að mál sé komið á dagskrá, búið er að greiða atkvæði um það og svo á að fara að ræða málið en þá er það bara horfið, gufað upp. Maður bara skilur ekki svona vinnubrögð. Ég er algerlega gáttaður á þessu. Til hvers vorum við að ræða þetta í morgun á þingflokksformannafundinum? Til hvers vorum við að greiða atkvæði um þetta? Hver er tilgangurinn ef það átti svo að láta það bara gufa upp allt í einu?



[17:27]
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur af því að ég var á næturvaktinni í síðustu viku með hv. þingmönnum Miðflokksins sem kvörtuðu oft yfir því í fundarstjórn forseta að sú umræða færi fram að nóttu til. Það var kvartað oft og mörgum sinnum þá nótt yfir því að sú umræða færi fram að nóttu til og þess vegna undra ég mig á því að nú sé kvartað yfir því að þriðji orkupakkinn fari fyrr af stað því að enn er bjart úti og svo lengist dagurinn auðvitað frá degi til dags nú að vori til. Ég held að það ætti bara að fagna því að verið sé að byrja umræðuna strax og sé ekki ástæðu til annars en að gera það. Ég veit að hv. þingmenn hafa óskað eftir því að ræða málið betur og koma mun fleiri sjónarmiðum áleiðis þannig að ég sé ekki af hverju ekki ætti að vera ástæða til að byrja að ræða þetta mál í dagsbirtu eins og óskir voru um, fjölmargar, í síðustu viku.



[17:28]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem átta sig ekki á því hvernig stendur á þessari dagskrárbreytingu. Við ræddum þetta mál á þingflokksformannafundi og það var talað um hvernig best væri að haga umræðunni. Við samþykktum að taka málið inn. Hæstv. dómsmálaráðherra er í húsinu. Getur forseti sagt okkur hvernig stendur á því að ákveðið var að breyta dagskrá með svona stuttum fyrirvara? Varla getur það verið vegna þess að hv. þingmenn Miðflokksins þurfa betri tíma og hér séu forseti og hv. stjórnarþingmenn sem vilja svo gjarnan greiða götu hv. þingmanna Miðflokksins? Það getur ekki verið skýringin. Ég bið forseta að segja okkur hvernig stendur á breytingunni.



[17:29]
Jón Þór Þorvaldsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig langar til að taka undir með þeim þingmönnum sem komu fyrst í ræðustól og gagnrýndu það fyrirkomulag sem verið er að lýsa. Búið er að samþykkja af þinginu að taka þetta mál á dagskrá og ekki nema eðlilegt að farið sé eftir þeim vilja sem þingið hefur lýst. Varðandi þá gagnrýni sem kom fram í máli hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur þá er það nú svo að þegar farið var í fundarstjórn forseta í síðustu viku var það vegna þess að forseti hafði gefið út að ekki yrði talað alla nóttina heldur yrði fundi slitið og málinu svo haldið áfram síðar. Það var fullt af fólki á mælendaskrá sem hafði ekki farið í sína fyrstu ræðu og voru gerðar athugasemdir við það. Ég verð að segja að þetta er þá í annað skipti á mjög fáum dögum þar sem brugðið er mjög út af venju við fundarstjórn forseta. Mig langar að biðja forseta að skýra fyrir okkur af hverju slík vinnubrögð eru viðhöfð.



[17:30]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir óskir þingmanna sem hafa komið upp hver á fætur öðrum og beint þeirri spurningu til hæstv. forseta af hverju verið er að breyta bæði boðaðri dagskrá og samþykktri dagskrá. Mér finnst það alger óþarfi. Mér finnst líka alger óþarfi að tala niður til þeirra þingmanna Miðflokks eða annarra stjórnarandstöðuflokka sem hafa verið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í öðru máli. Það vita allir að ég er eindreginn talsmaður þess að orkupakkinn fari hér í gegn en það er samt ekki boðlegt að tala þannig til þeirra sem eru á móti því að þeir þurfi endilega að gera það í björtu eða að þeir séu að óska eftir því að fá einhverja sérmeðferð. Það er ekki þannig.

Ég vil hvetja hæstv. forseta til þess að taka aftur á dagskrá eða koma með almennilega útskýringu á því af hverju máli nr. 838 hefur verið hent út af dagskrá. Þetta ber allt vott eða keim af ákveðnu geðþóttavaldi. Ekkert samráð — (Forseti hringir.) fyrir hádegi var samráð haft við alla þingflokka. Það varð ákveðin niðurstaða og það þarf (Forseti hringir.) að segja okkur frá því ef á að bregða út frá þeirri samþykktu niðurstöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[17:32]
Ólafur Ísleifsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi hafa tekið til máls um fundarstjórn eins og hún birtist hér í þessari sérkennilegu og einkennilegu ákvörðun. Mér sýnist að það sé hugsanlegt a.m.k. að þeir gætu orðið fimm stjórnmálaflokkarnir sem andmæla því. Það verða auðvitað að koma fram fullnægjandi skýringar á slíkri ákvörðun. Um leið leyfi ég mér að nefna að ekki hafa komið fram neinar skýringar á því af hverju sagt var úr stóli þingforseta undir miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins síðastliðinn að þingfundur myndi ekki standa langt inn í nóttina, eins og ég held að það hafi verið orðað nákvæmlega. Það er alveg rétt sem var sagt, margir tóku sig af mælendaskrá.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hitti naglann á höfuðið þegar hún (Forseti hringir.) talaði um geðþóttavald. Við getum náttúrlega ekki búið við það hér.



[17:33]
Birgir Þórarinsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil ítreka að það er mikilvægt að ræða frumvarp um breytingu á lögum um útlendingamál. Það frumvarp skiptir miklu máli og allar tafir koma til með að kosta ríkissjóð, vegna þess að tilgangur frumvarpsins er að flýta málsmeðferð slíkra mála. Það eru allir sammála um að brýnt sé að gera. Þetta er málaflokkur sem kostar ríkissjóð háar upphæðir. Á fjárlögum núna eru áætlaðir 3,6 milljarðar kr. í málaflokkinn og sú upphæð fer stöðugt hækkandi. Dómsmálaráðuneytið kom fyrir fjárlaganefnd og lýsti því yfir að jafnvel þyrfti 2 milljarða til viðbótar á þessu ári.

Þetta frumvarp, sem stóð til að ræða og var á dagskrá og samkomulag var um, snýst einmitt um að flýta málsmeðferð. Það er hagur allra, hagur þeirra sem leita eftir alþjóðlegri vernd, hagur stjórnvalda en fyrst og fremst kemur það til með að draga úr kostnaði við þann mikilvæga málaflokk. Slíkar tafir, að málið fari ekki til nefndar, geta kostað ríkissjóð (Forseti hringir.) hundruð milljóna, höfum það í huga. Er eitthvert ósætti milli stjórnarflokkanna? Eru Sjálfstæðismenn sáttir við þessa meðferð? Ég spyr.



[17:34]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er því miður lenska á Alþingi að beita einhvers konar fundataktík til þess að hafa áhrif á gang mála. Það er staða sem er að mínu mati til komin vegna þess að fundarstjórn er almennt hagað með hagsmuni ríkisstjórnarinnar að leiðarljósi. Það er ekki nýtt mál. Í ljósi þess finnst mér afskaplega mikilvægt að hafa í huga að þegar hv. þingmenn, t.d. Miðflokksins núna, upplifa að ekki sé tekið tillit til þarfa þeirra til umræðunnar þá grefur það undan trausti á fundarstjórn ef ekki eru gefnar skýringar á afbrigðum eins og þeim sem voru veitt í dag. Vel má vera að það séu góðar skýringar fyrir því að þetta mál var tekið af dagskrá en mér finnst mikilvægt að þær berist. Mér finnst hv. þingmenn hafa rétt á því hvort sem þeir eru í Miðflokknum eða einhverjum öðrum flokki. Mér finnst leiðinlegt að svona mál séu drifin áfram á hörkunni, það á ekkert að þurfa. Við getum alveg tekið okkur tíma í að ræða þetta mál, mér finnst það sjálfsagt og mér finnst sjálfsagt að verða við beiðni hv. þingmanna Miðflokksins og annarra (Forseti hringir.) sem hafa nefnt þetta.



[17:36]
Karl Gauti Hjaltason (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hérna upp og vil taka undir orð þeirra þingmanna sem hafa verið að tala um þá breytingu sem varð. Það var hlaupið í miklu óðagoti til atkvæðagreiðslu fyrr í dag vegna þess að breyta átti dagskránni, koma þurfti máli að, sem er nr. 4 á dagskrá dagsins. Nú ber svo við að því er breytt stuttu síðar. Menn voru búnir að undirbúa sig en því er breytt og á að fara strax yfir í 5. dagskrármálið, sem ég svo sem fagna vegna þess að ég ætla ekki að taka þátt í hinu. Sumir kalla þetta óðagot, taugaveiklun, fundataktík heyrðist áðan, eða einhvers konar bolabrögð. Þetta er kannski eins og það sem gerðist síðastliðið miðvikudagskvöld þegar tilkynnt var að umræðu væri að ljúka, þá hrundu margir þingmenn af mælendaskrá, létu taka sig af henni vegna þess að þeir ætluðu auðvitað að tala í umræðunni síðar, þegar hún yrði tekin næst á dagskrá. (Forseti hringir.) Ég kalla það bolabrögð.



[17:37]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill upplýsa, ef það hjálpar eitthvað til í þessari umræðu, hvernig það atvikaðist að þetta mál var tekið af dagskrá. Forsagan er sú að fyrir alllöngu síðan var óskað eftir því, ef pláss væri fyrir það, að mæla fyrir þremur stjórnarfrumvörpum sem komu fram eftir 1. apríl. Það voru tvö mál frá fjármálaráðherra og eitt mál frá dómsmálaráðherra, sem sagt þetta mál. En í öllum tilvikum var það sameiginlegur skilningur skrifstofu þingsins og viðkomandi ráðherra að málin yrðu þá eingöngu send til nefndar og ekki væri leitað eftir afgreiðslu þeirra á þessu vori. Þetta var dómsmálaráðherra gert ljóst og úr því svo væri sagði hún að það væri ekki sá munur á því að málið hefði einfaldlega verið lagt fram og það kynnt með því að vera orðið að frumvarpi, og hinu, hvort fyrir því væri mælt, að hún óskaði eftir því að það væri þá ekki tekið fyrir í dag.

Hæstv. ráðherra er flytjandi málsins og hefur forræði á því hvenær hún mælir fyrir því og að sjálfsögðu varð forseti við því að taka málið á dagskrá. Það var nú allt og sumt.



[17:38]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það er svolítið merkilegt hvað þurfti að bíða lengi eftir þeim skýringum sem forseti hefur nú veitt á þessari breytingu á dagskránni. Ég vil undirstrika það og árétta og taka undir með hv. þm. Birgi Þórarinssyni, sem þekkir náttúrlega gjörla til málsins eins og það blasir við augum þeirra sem sitja í hv. fjárlaganefnd, að málið sem hér átti að ræða, útlendingamálið, er ekki bara mikilvægt vegna þess að það er fallið til þess að treysta réttarstöðu hælisleitenda og þeirra sem eru í þeirri aðstöðu, heldur líka vegna þess að hér hefur verið hringt viðvörunarbjöllum og blikkað hafa rauð viðvörunarljós um að það sé alvarleg hætta á því að þessi málaflokkur sé að fara fram úr fjárlögum. Þess vegna lítur maður þannig á að í frumvarpinu sé meðfram öðru væntanlega ætlað að bregðast við þessu. Þetta er mjög mikilvægt og þýðingarmikið mál, herra forseti.



[17:39]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Varðandi skýringar hæstv. forseta hérna áðan hlýtur það að hafa legið fyrir, fyrir svo sem eins og tveimur tímum og fyrr í dag, hvers eðlis innkoma þess máls sem hefur nú verið afturkallað ætti að vera. Þess vegna er mjög sérkennilegt að þingmenn skuli hafa verið látnir greiða um það atkvæði að hleypa málinu sérstaklega á dagskrá til þess eins að kippa því út af dagskrá aftur. Það er eiginlega ekki hægt annað en að setja þetta í samhengi við þá uppákomu sem varð hér fyrir helgi kl. 23:30 þegar forseti tilkynnti að umræðum yrði senn frestað. Þær áttu þá eftir að standa í sjö klukkutíma, þ.e. um þriðja orkupakkann, alla nóttina. Mér dettur ekki í hug, virðulegur forseti, að kenna þeim þingforseta sem þá sat um að hafa tekið þá ákvörðun. En hver tók þá ákvörðun? Var það kannski sami aðili og tekur þessa ákvörðun núna, þessa óvæntu og að því er virðist ákvörðun sem er einsdæmi í þinginu a.m.k. í seinni tíð?



[17:41]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vekur athygli á því að sú atkvæðagreiðsla sem fram fór um afbrigði fyrir þessu máli hefur gildi í sjálfu sér, því að nú hefur Alþingi samþykkt afbrigði fyrir því að málið megi koma á dagskrá þó síðar verði, þ.e. búið er að veita afbrigði við því að málið, sem kom fram eftir 1. apríl, megi koma á dagskrá. Sú niðurstaða þingsins stendur að sjálfsögðu.



[17:41]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það ber margt að sama brunni þessar vikurnar og mánuðina að samskiptin á milli ríkisstjórnarflokkanna séu á köflum ekki eins góð og æskilegt væri hvað upplýsingaflæði varðar.

En mig langar til að vita, í ljósi þeirra útskýringa sem hæstv. forseti kom með á því hvers vegna málið er tekið af dagskrá rúmum einum og hálfum tíma eftir að greidd voru atkvæði sérstaklega um að það sé tekið á dagskrá eins og það var á prentuðu yfirliti þingsins í byrjun þingfundar, hver þessi þrjú mál eru. Bara svo það fari ekkert á milli mála vil ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi þingheim um hvaða þrjú mál það eru sem ráðherrar hafa fengið tekin hér inn með þessum hætti sem ekki er ætlunin að afgreiða á þessu þingi? Það einfaldar vinnu í nefndum vissulega frá því sem annars gæti orðið.



[17:42]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti getur upplýst að hin málin tvö voru frá hæstv. fjármálaráðherra og þau hafa þegar verið afgreidd og send til nefndar, en ekki er lögð áhersla á afgreiðslu þeirra á þessu vori og ég hygg að þeirri nefnd sem málið fékk til sín, væntanlega efnahags- og viðskiptanefnd, sé fullkunnugt um það.