149. löggjafarþing — 115. fundur
 3. júní 2019.
norðurskautsmál.

[09:39]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Já, þetta voru svolítið athyglisverð orðaskipti sem áttu sér stað áðan af því að það skiptir máli hvernig menn og konur innan ríkisstjórnar beita sér þá innan ríkisstjórnar. Ég vil sérstaklega spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig hún ætli að snúa sér þegar kemur að málefnum norðurskautsins. Árni Finnsson er í mjög athyglisverðu viðtali í Kjarnanum núna þar sem hann fer nákvæmlega yfir þau mál og dregur fram, eins og við höfum líka gert í þinginu, að yfirlýsing utanríkisráðherra norðurskautsríkjanna á dögunum í Finnlandi, fyrir einhverjum vikum, var eiginlega linuð mjög. Það var enginn metnaður þegar kom að umhverfismálum. Ég saknaði þess að sjá ekki vinnubrögð Vinstri grænna í þeirri yfirlýsingu. Sérstaklega eftir að forsætisráðherra hafði fundað með Pompeo hér og lagt sérstaka áherslu á loftslagsmálin hefði ég haldið að það hefði skilað sér á einhvern hátt inn í yfirlýsingu m.a. um málefni norðurskautsins. Nú eru Íslendingar með formennsku. Það er gott og það er mikilvægt. En hvernig ætlar forsætisráðherra þá að beita sér í málinu? Eins og Árni Finnsson bendir á er mikil vá fyrir dyrum og mikill skaðvaldur sem er m.a. bruni svartolíu á norðurslóðum. Við Íslendingar setjum einhver mörk en hvernig ætlum við að beita okkur á norðurslóðunum og í Norðurskautsráðinu? Hvað við ætlum við að gera? Ætlum við að fá Bandaríkjamenn, sem eru í algjörri afneitun varðandi loftslagsmálin? Hvernig ætlum við að beita okkur í því gríðarlega mikilvæga máli?

Ég ætla rétt að vona að ríkisstjórn Íslands og sérstaklega forsætisráðherra fari ekki að lyppast niður eins og hefur verið gert, t.d. varðandi hvalamálin, og láti undan stefnu Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að málefnum í loftslagsmálum og -stefnunni. Þar hefur ríkisstjórnin skilað að mínu mati lágmarkssamnefnara þegar kemur að stefnu í loftslagsmálum. Það eru ákveðin fyrirheit, fínt, en þetta eru (Forseti hringir.) lágmarksfyrirheit eftir uppskrift Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að loftslagsmálum.



[09:41]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ég ætla að fagna því hversu brennandi allur hv. þingheimur er orðinn í loftslagsmálum. Mér finnst mjög jákvætt að skynja þá breytingu sem hefur orðið í þingsal, til að mynda frá því í síðustu kosningum. Ég ætla að túlka það sem svo að hv. þingmenn, þvert á flokka, séu að hlusta á ungu kynslóðina eins og við höfum gert árum saman í Vinstri grænum. Ég fagna því að fleiri komi til liðs við okkur því þá er líklegra að við náum árangri.

Það vill svo til að stefna þessarar ríkisstjórnar — ja, það kann að vera að einhverjum finnist hún metnaðarlaus en eftir henni er töluvert spurt á alþjóðavettvangi þar sem við horfum annars vegar til Parísarsamkomulagsins 2030 og hins vegar kolefnishlutleysis 2040.

Hvað varðar norðurskautið sérstaklega hefur það verið boðað að ný stefna í málefnum þess — sú síðasta var samþykkt á Alþingi 2011 — komi til kasta þingsins á næstunni. Ég held að það sé lag í ljósi þess að við förum þar með formennsku og leggjum þar sérstaka áherslu — við tókum við formennskunni nú í maí, fyrir u.þ.b. tíu dögum, þannig að hv. þingmaður er ansi fljót að dæma árangur Íslendinga á því sviði á tíu dögum, en það kemur kannski ekki á óvart. Norðurskautsáætlun okkar og formennskuáætlunin leggur höfuðáherslu á umhverfismál, loftslagsmál og hafið.

Ég held að hv. þingmaður ætti að nota tækifærið og samfagna með mér því sem hæstv. umhverfisráðherra hefur boðað, þ.e. bann við notkun svartolíu í landhelgi Íslands. Það er eitt af því sem Árni Finnsson, sem hv. þingmaður nefndi, hefur verið einn af ötulustu talsmönnum fyrir. Það skiptir máli að við erum að stíga raunveruleg skref til að ná árangri þegar kemur að hafinu og loftslagi. Ég myndi segja, í ljósi hins mikla áhuga sem ég skynja hjá þingheimi, að við ættum að taka höndum saman um að gera enn betur í því. Ég fagna þessum áfanga.



[09:43]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég held að við forsætisráðherra getum fagnað því og það var sérstaklega ánægjulegt að í Evrópuþingskosningunum voru það græningjar, með mikla áherslu á umhverfismál en ekki síður á Evrópusamstarf, alþjóðasamstarf, sem unnu og síðan frjálslyndir demókratar þvert yfir álfuna. Það er mikið fagnaðarefni.

Ég held líka að hæstv. forsætisráðherra verði að nýta byrinn hér í þinginu varðandi loftslagsmálin. Við verðum að taka þau alvarlega og það þýðir ekki að fara eftir því hvað aðrir stjórnarflokkar hafa að segja í því máli. Það þarf að stíga miklu róttækari skref en verið er að gera.

Ég ítreka spurningu mína af því að það er lenska að svara ekki — við höfum verið hér heilan vetur og ég held að ég hafi aldrei fengið svör við spurningum sem ég hef beint til hæstv. forsætisráðherra. Ég ítreka spurningu mína: Hvernig ætlar forsætisráðherra að beita sér varðandi norðurskautið? Hvernig ætlar hún að beita sér fyrir því að dregið verði úr notkun svartolíu á svæðinu sem hefur gríðarleg áhrif hvað varðar hlýnun jarðar? (Forseti hringir.) Hvernig ætlar hún að beita sér fyrir því að loftslagsmálin verði sett af alvöru á dagskrá Norðurskautsráðsins en ekki farið eftir Trump-stjórninni (Forseti hringir.) og stuðningsfólki hennar í Bandaríkjunum?



[09:44]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður kvartar yfir að fá engin svör. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér formennskuáætlun Íslands sem hún ætti nú að þekkja, verandi í utanríkismálanefnd. Þar eru markmiðin sett fram með skýrum hætti hvað varðar loftslagsmál.

Hv. þingmaður talar um bann við svartolíu. Ég ítreka svar mitt frá því fyrir tveimur mínútum, ef hv. þingmaður náði því ekki sem ég sagði þá, um að hæstv. umhverfisráðherra hefur boðað bann við notkun svartolíu (Gripið fram í.) í landhelgi Íslands. Það þýðir að Ísland mun verða í fremstu röð hvað það varðar í heiminum.

Ég held að hv. þingmaður ætti að fagna því að markmið Íslands í loftslagsmálum, a.m.k. í tíð núverandi ríkisstjórnar, eru metnaðarfyllri en markmið innan ESB. Kannski höfum við ákveðið tækifæri til að nýta okkur það að standa utan Evrópusambandsins til að setja okkur eigin markmið í þeim málum.