149. löggjafarþing — 115. fundur
 3. júní 2019.
losun gróðurhúsalofttegunda.

[09:52]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er fyrirséður samdráttur í hagkerfinu og samhliða því er verið að boða samdrátt í ríkisrekstrinum. Niðurskurður er eðlileg og fyrirsjáanleg afleiðing af því en á sama tíma sjáum við fram á loftslagsvá og hamfarahlýnun. Aðgerðir Íslands í loftslagsmálum skipta verulegu máli. Þótt þær séu kannski litlar í stóra samhenginu snúast þær ekki síst um að sýna gott fordæmi úti í heimi. Við vitum líka að ákveðin hefð er fyrir því að þegar skera þarf niður eru umhverfismál oft meðal þess sem mest er skorið niður. Það er kannski skiljanlegt að einhverju leyti þar sem loftslagsvá er illa áþreifanlegt og flókið vandamál og fólk vill kannski leggja meiri áherslu á að einbeita sér að því að viðhalda framlögum til velferðarmála og annað.

Mér finnst því ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra, ekki síst þar sem við erum að fara að tala um nýja fjármálastefnu síðar í dag, hvort hann hafi einhverjar tryggingar fyrir því að árangri Íslands í loftslagsmálum og niðurskurði á CO2-losun verði ekki teflt í tvísýnu með niðurskurði núna. Ef svo er, hvaða tryggingar eru fyrir því? Hvernig getum við tryggt að við náum þessum árangri áfram? Ef einhvern veginn þarf að takmarka fjármuni, hvernig myndi hæstv. ráðherra vilja forgangsraða þeim verkefnum sem þarf að vinna?



[09:54]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er jú svo að það er aðhaldskrafa á öll ráðuneyti sem kemur fram í fjármálaáætlun og var búið að koma fram þegar í vor þegar hún kom fram fyrsta sinni, þannig að það er eitthvað sem hver og einn ráðherra þarf að takast á við hjá sér. Sú leið sem ég hef ákveðið að fara er að reyna að verja loftslagsmálin eins og mögulegt er og auðvitað er það eitthvað sem er alltaf til skoðunar þegar aðhaldskrafa er uppi hvar á að láta hana koma niður.

Eitt sem hægt er að gera er að reyna að taka til í rekstri, bæði hjá stofnunum ráðuneytanna og líka hjá ráðuneytunum sjálfum, en óhjákvæmilega getur komið að því að draga þurfi úr einhverjum verkefnum eða fresta þeim og það eru allt saman atriði sem eru til skoðunar í öllum ráðuneytum núna. En ég get fullvissað hv. þingmann um það að loftslagsmálin eru efst á dagskrá þegar kemur að því að verja fjármagn og tryggja árangur, eins og hv. þingmaður nefndi áðan.

Það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera í þeim málum er að koma hverju verkefninu á fætur öðru í vinnu, ef svo má að orði komast, sem kveðið er á um í aðgerðaáætluninni. Aðgerðaáætlunin er til endurskoðunar, eins og var boðað strax í fyrrahaust þegar hún kom fram, þar sem við erum að skoða hvar megi ganga lengra og reyna að ná enn þá meiri árangri í málaflokknum, sem er gríðarlega mikilvægur.



[09:56]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mikið er gott að heyra að loftslagsmálin verði áfram efst á baugi. En maður veltir því samt fyrir sér hvort það geti ekki einhver vandamál komið upp. Nú vitum við t.d. að ekki hefur verið neinn árangursmælikvarði tengdur aðgerðum ríkisstjórnarinnar samkvæmt loftslagsáætlun. Ég hef kallað eftir því nokkrum sinnum að það verði gert og ég á von á því að það komi í uppfærðri áætlun. En í ljósi þess að við vitum ekki hversu árangursríkar þessar aðgerðir eru þá vitum við heldur ekki hversu vel þeim fjármunum er varið sem þó er ráðstafað. Að auki erum við með fjármálaáætlun sem er vissulega með aðhaldskröfu en aðhaldskrafan hlýtur að aukast þegar ný fjármálastefna tekur gildi. Hvernig spilast þetta allt saman?

Ég veit að hæstv. ráðherra hefur mjög mikinn metnað í þessum málum en peningahliðin verður að ganga upp.



[09:57]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Auðvitað geta alltaf komið upp vandamál en ég held að við eigum að einbeita okkur að því að nálgast þessi mál sem verkefni. Þetta er stór áskorun sem við þurfum að takast á við í sameiningu og við leysum þau vandamál sem koma upp. (Gripið fram í.)

Hér er spurt: Hversu árangursríkar eru aðgerðirnar? Það er rétt að núna fer fram mat á því en ég vil benda á skýrslu Umhverfisstofnunar sem kom út í apríl eða maí sem bendir til þess að þrátt fyrir að ekki sé búið að taka tillit til nærri því allra aðgerða í skoðunum þeirra á aðgerðaáætluninni er samt að nást umtalsverður árangur árið 2030 miðað við það sem útreikningar þeirra sýna. Ég held að við séum algerlega á réttri leið og munum vonandi sjá síðar á árinu uppfærða áætlun þar sem við getum sett betur niður hverju hver og ein áætlun eða hópur af aðgerðum skilar þegar kemur að niðurskurði í losun, ef svo má að orði komast.

Og aftur (Forseti hringir.) ítreka ég að það er vilji minn að verja loftslagsfjármagnið eins og ég mögulega get.