149. löggjafarþing — 115. fundur
 3. júní 2019.
lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, frh. síðari umræðu.
þáltill. ÁÓÁ o.fl., 21. mál. — Þskj. 21, nál. m. brtt. 1484.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[12:23]

[12:12]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Alþingi er nú að stíga sögulegt skref um að samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks beri að lögfesta. Þetta risaskref mun stórbæta réttindi fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi. Með lögfestingunni verður Ísland eitt fyrsta land í heimi til að lögfesta samninginn og það er ekki oft sem við getum sagt slíkt í þessum sal.

Eins og margir dómar sýna er mikill munur á lögfestingu og fullgildingu. Í raun höfum við einungis lögfest þrjá viðamikla alþjóðasamninga og eru það barnasáttmálinn, mannréttindasáttmáli Evrópu og EES-samningurinn. Nú verður samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks settur á þennan stall. Ég vil að lokum þakka baráttufólki fyrir réttindum fatlaðs fólks og þakka sérstaklega fyrir þann þverpólitíska stuðning sem þetta mál fær.

Þetta sýnir, herra forseti, að við getum gert stórkostlega hluti saman í þessum sal þegar við viljum.



[12:13]
Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mér mikið gleðiefni að standa hér og segja: Til hamingju. Til hamingju, Ísland. Til hamingju með þetta risaskref. Til hamingju, öryrkjar, fatlað fólk. Fram undan eru breyttir tímar, bættir tímar. Það er alveg ljóst að mikil breyting mun verða á aðgengi og öðru slíku sem hefur skort á í okkar ágæta landi.

Ég segi við þingheim allan: Takk fyrir. Við erum að gera fallega hluti hér í dag og það er virkilega vert að okkur líði vel með það.



[12:14]
Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mikilvægi mannréttindasamninga dylst engum, enda hafa þeir reynst mjög öflugt tæki í baráttunni fyrir réttindum ýmissa hópa. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur það markmið að tryggja fötluðu fólki fullan rétt á öllum viðurkenndum mannréttindum og að það eigi að fá að njóta sjálfstæðs lífs og einstaklingsfrelsis á við okkur öll. Með lögfestingunni verður Ísland eitt fyrsta landið í heiminum til að lögfesta samninginn. Ég er stoltur af því. Ég veit að þó að baráttunni sé auðvitað ekki lokið er þetta risastórt skref.

Ég segi að sjálfsögðu já, herra forseti, og óska öllum til hamingju með þetta skref.



[12:15]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil taka undir það, með þeim sem hér töluðu á undan, að þetta er mikið happaskref, mikilvægt skref. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að hafa ýtt þessu máli áfram þó að ég hefði vissulega viljað sjá ríkisstjórnina sýna þar frumkvæði.

Hæstv. forsætisráðherra er í salnum og langar mig til að hvetja hana til að taka til skoðunar valkvæða viðaukann við samning Sameinuðu þjóðanna fyrir fatlað fólk. Þingið samþykkti samróma á haustdögum 2016 að fullgilda ætti valkvæða samninginn við þennan mikilvæga samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ég spurði hæstv. dómsmálaráðherra fyrr í vetur, en hún var algjörlega á öndverðri skoðun og taldi ekki mikilvægt að fullgilda valkvæða viðaukann. Ég vil hvetja hæstv. forsætisráðherra til að taka það mál upp. Það skiptir líka máli fyrir réttindi fatlaðs fólks að þeirri réttarbót verði fylgt eftir. Þetta er mikill gleðidagur og ég hlakka til að geta greitt þessari mikilvægu tillögu atkvæði mitt hér á eftir.



[12:16]
Sigríður Á. Andersen (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þótt hér sé ekki verið að greiða atkvæði um lögfestingu á þessum samningi Sameinuðu þjóðanna er hér lagt til að farið sé í þessa löggildingu svo fljótt sem verða megi og hér liggur fyrir breytingartillaga um að draga aðeins úr því.

Ég ætla að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls með vísan til þess sem kemur einmitt fram í nefndaráliti þar sem áréttað er að ákvæði samningsins feli að miklu leyti í sér markmið. Slíkir samningar og slíkur texti er á skjön við íslenska lagahefð sem byggir á því að lagatexti eigi að vera skýr um réttindi og skyldur borgaranna. Texti sem þessi hentar ekki og skapar engan beinan rétt fyrir þá sem vilja leiða af honum einhvern rétt fyrir dómstólum og er síður en svo til þess að skýra réttindi og skyldur fatlaðs fólks sérstaklega.

Það kemur fram líka í nefndarálitinu að áður hefur verið samþykkt ályktun um að samningur Sameinuðu þjóðanna yrði innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmdir. Sú vinna stendur yfir og gengur mjög vel og við eigum að einhenda okkur í það (Forseti hringir.) og einbeita okkur að því að ljúka því verki og gera það vel.



[12:18]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum að greiða atkvæði um sjálfsögð mannréttindi. Loksins, loksins fara venjuleg mannréttindi að gilda um fatlað fólk sem auðvitað vekur upp þá spurningu: Hvers vegna í ósköpunum þurfum við að setja sérstök lög um mannréttindi fatlaðs fólks? Það er samt gleðiefni að við ætlum að gera það og auðvitað eigum við að sjá til þess. Það er stefnt að því að búið verði að koma öllum lagabálkum í lag 13. desember 2020. Þá verður vonandi komin sú réttarvissa í íslensk lög að þegar málefni fatlaðs fólks eru tekin fyrir dómstólum er ekki hægt að segja að það sé ekki hægt að fara eftir mannréttindum vegna þess að ekki sé búið að lögfesta þennan samning. Við verðum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að mannréttindi gildi fyrir alla.



[12:19]
Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég kem upp til að fagna þessu flotta máli og þakka 1. flutningsmanni fyrir að leggja málið fram. Mér finnst einnig mikilvægt að þakka velferðarnefnd fyrir vinnuna því við höfum náð að vinna ótrúlega vel saman að svona mikilvægum málum. Það var einhugur, það var vilji allra í nefndinni að þessi samningur yrði lögfestur. Því vil ég hvetja ráðuneytið til að vinna þá vinnu vel og huga sérstaklega að þýðingu samningsins, að haft sé gott samráð við þýðingu samningsins, því það hefur klúðrast nokkrum sinnum. Það skiptir máli að gera það vel, sérstaklega í ljósi þess að við erum að lögfesta hann núna.



[12:20]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er mikið fagnaðarefni að við skulum vera að greiða atkvæði um þetta mál núna. Hér er um mikið réttindamál að ræða og mjög stórt symbólískt mál, herra forseti. Það skiptir miklu máli í öllu tilliti fyrir réttindi fatlaðs fólks.

Þeir frestir sem koma fram í breytingartillögunni og við greiðum líka atkvæði um á eftir ættu að duga stjórnsýslunni og ráðuneytunum til að hnýta þá enda sem þarf að hnýta til að geta klárað lögfestinguna. Ég treysti því að ráðuneyti sem eiga hlut að máli muni nú leggja aukinn kraft í þá vinnu, þar með talið, eins og hv. þm. Halldóra Mogensen kom inn á, nýja þýðingu samningsins til að tryggja að allir séu á sömu blaðsíðu þegar lögfestingin loksins tekur gildi.



[12:21]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu fulltrúa allra þingflokka er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og ljúka aðlögun íslenskra laga að honum. Samningurinn var fullgiltur 2016.

Dómsmálaráðuneytið vinnur nú að stöðuskýrslu til nefndar Sameinuðu þjóðanna um ráðstafanir sem gerðar hafa verið í því skyni að efna skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum. Við vonum að það gangi vel. Velferðarnefnd leggur áherslu á að ráðuneytin hraði vinnu sinni eftir föngum og forgangsraði í þágu þess að vinna frumvörp og mæla fyrir um þau réttindi sem samningnum er ætlað að tryggja.

Sem framsögumaður þessa máls vil ég þakka nefndarmönnum í velferðarnefnd fyrir einarðan stuðning við málið. Full samstaða var um að afgreiða málið með þessum hætti frá velferðarnefnd.



[12:22]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil taka sérstaklega undir þau orð sem hér hafa fallið um mikilvægi þessa samnings. Mig langar einnig að taka sérstaklega undir orð hv. þm. Halldóru Mogensen um að við þurfum að vanda til verka þegar við erum að tala um þýðingar á þeim grundvallarhugtökum sem við ætlum að nota. Við höfum fengið ítrekaðar ábendingar frá Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands og þá sérstaklega frá Rannveigu Traustadóttur sem hefur verið okkur mikið innan handar. Ég get eiginlega ekki ítrekað nógu mikið hversu mjög ég vil taka undir þessi orð.



Brtt. í nál. 1484 samþ. með 56 shlj. atkv.

Tillgr., svo breytt, samþ. með 54 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AFE,  AIJ,  AKÁ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BergÓ,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  GBr,  GÞÞ,  GIK,  GuðmT,  HSK,  HallM,  HKF,  HarB,  HVH,  HHG,  IngS,  JónG,  JÞÓ,  JSV,  KGH,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  LE,  OH,  ÓGunn,  ÓÍ,  ÓBK,  RBB,  SIJ,  SilG,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞorS,  ÞorstV,  ÞórP,  ÞórdG.
1 þm. (SÁA) greiddi ekki atkv.
8 þm. (BN,  GBS,  NTF,  PállM,  SDG,  SPJ,  VilÁ,  ÞSÆ) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till., svo breytt, samþ. með 55 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AFE,  AIJ,  AKÁ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BergÓ,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  GBr,  GÞÞ,  GIK,  GuðmT,  HSK,  HallM,  HKF,  HarB,  HVH,  HHG,  IngS,  JónG,  JÞÓ,  JSV,  KGH,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  OH,  ÓGunn,  ÓÍ,  ÓBK,  PállM,  RBB,  SIJ,  SilG,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞorS,  ÞorstV,  ÞórP,  ÞórdG.
2 þm. (BN,  SÁA) greiddu ekki atkv.
6 þm. (GBS,  LE,  NTF,  SDG,  SPJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.