149. löggjafarþing — 115. fundur
 3. júní 2019.
stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda, frh. síðari umræðu.
þáltill. KÓP o.fl., 19. mál. — Þskj. 19, nál. m. brtt. 1628.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[12:43]

[12:34]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða og greiða atkvæði um þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að komið verði á fót miðlægri upplýsingastofu fyrir innflytjendur. Mig langar til að taka fram sérstaklega að það er rakið í greinargerð með tillögunni að sérstaklega verði horft til starfs Fjölmenningarseturs á Ísafirði sem rekur samsvarandi stofnun sem hefur gengið mjög vel og hefur gengið í nokkur ár. Mér finnst mikilvægt að draga fram að horft verði til þeirrar starfsemi og jafnvel útvíkkunar á henni — og þá ekki bara í höfuðborginni heldur um allt land.



[12:35]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur. Mér finnst þessi þingsályktunartillaga óþörf. Mér finnst mun nær að útvíkka starfsemi Fjölmenningarseturs á Ísafirði. Ég sé fyrir mér fínasta útibú hér á höfuðborgarsvæðinu, ef svo ber undir.

Þetta er liður í því sem fram hefur komið fyrr í dag, að færa störf út á land, eins og það heitir þegar við stöndum hér. Mér fyndist það mjög til bóta ef við myndum horfa til þess með þetta mál.



[12:35]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er fagnaðarefni þegar ríkisstjórnin stígur skref í átt til þess að efla aðstoð og fyrirgreiðslu við innflytjendur sem af ýmsum ástæðum koma til Íslands til dvalar eða búsetu. Samfylkingin styður þess vegna þingsályktunartillöguna. Á markvissa og samræmda vinnu við þá mikilvægu þætti hefur nokkuð skort því þúsundir nýrra Íslendinga bætast stöðugt í hópinn. Styrkja þarf þá innviði sem þegar eru fyrir hendi og samræma alla krafta þeirra sem vinna í málaflokknum. Heildarstefna í þessum málaflokki liggur þó ekki fyrir. Samfylkingin hefur lagt fram tillögu þess efnis sem ekki hefur enn fengið framgöngu í velferðarnefnd og bíður nýs þings. En við styðjum þessa tillögu að öðru leyti.



[12:36]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð tillöguna, en mig langar líka að nefna, vegna þess að hér hefur verið minnst á Fjölmenningarsetrið á Ísafirði sem er ágætisstofnun og sinnir mjög mikilvægu og þörfu verkefni, að sérstaklega er hætt við því að útlendingar sem koma til Íslands einangrist, bæði félagslega og gagnvart öllum réttindum og skyldum sem eru til á Íslandi. Ástæðan er sú að yfirleitt tala þeir ekki tungumálið, þekkja ekki marga og koma frá öðrum svæðum þar sem ekki gildir hin sama svokallaða „almenna skynsemi“ og í íslensku samfélagi. Það eru hlutir hér sem Íslendingum þykja augljósir sem eru ekki augljósir þegar maður er nýr á landinu. Þetta þekki ég sem útlendingur sjálfur í öðrum löndum og ábyggilega fjölmargir hér inni.

Mér finnst mikilvægt að við höfum í huga þegar við ræðum um stofnanir og staðsetningar þeirra að þær verða að vera nálægt skjólstæðingnum. Það er langmikilvægasta atriðið. Það er ekki í sjálfu sér mikilvægt atriði hvaða stofnun nákvæmlega sinnir hlutverkinu, svo lengi sem því er vel sinnt og sinnt nálægt (Forseti hringir.) þeim skjólstæðingum sem stofnuninni er ætlað að aðstoða.



[12:38]
Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Efnisatriði málsins eru góðra gjalda verð en staðreyndin er sú að það er starfandi prýðileg stofnun á Ísafirði sem er kölluð Fjölmenningarsetur. Afstaða okkar í Miðflokknum er að skynsamlegra væri að styðja við það starf sem þar er unnið og hugsanlega útvíkka það með einhvers lags útibúi á höfuðborgarsvæðinu, ef þörf þykir á. Við getum ekki tekið undir að stofna nýja ríkisstofnun. Við munum greiða atkvæði gegn þessu máli en það er ekki út af efnisatriðum þess heldur teljum við að mun skynsamlegra væri að styrkja Fjölmenningarsetrið á Ísafirði en að búa til nýja ríkisstofnun.



Brtt. í nál. 1628 (ný tillgr.) samþ. með 49:8 atkv. og sögðu

  já:  AFE,  AIJ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  BN,  GBr,  GÞÞ,  GIK,  GuðmT,  HSK,  HallM,  HKF,  HarB,  HVH,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  JSV,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  LE,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  RBB,  SilG,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórP,  ÞórdG.
nei:  AKÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  KGH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  ÞorS.
6 þm. (GBS,  JónG,  NTF,  SÁA,  SIJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:39]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að gerast svo djarfur að segja að við séum að samþykkja mál sem muni breyta miklu fyrir líðan mjög margra. Þrátt fyrir að hér hafi komið fram í umræðum áðan að þarna væri ríkisstjórnin að stíga ákveðin skref er ekki svo, heldur eru það þingmenn Vinstri grænna sem leggja málið fram og ég er 1. flutningsmaður þess. Þingið er að samþykkja það og fela ríkisstjórninni verkefnið.

Það er skýrt tekið fram í greinargerð með málinu að horfa eigi vel til allrar þeirrar starfsemi sem er til staðar, þar með talið Fjölmenningarseturs þannig að ég verð að játa að ég skil ekki alveg andstöðu þeirra við málið sem bera hagsmuni Fjölmenningarseturs fyrir sig. En látum það vera. Þetta er fagnaðarstund að mínu mati.

Ég vil þakka hv. velferðarnefnd fyrir þetta mál, formanni hennar og framsögumanni málsins, hv. þm. Halldóru Mogensen annars vegar og hins vegar Ólafi Þór Gunnarssyni, og öðrum í nefndinni. Ég þakka góðar undirtektir í ráðuneytinu og hjá hæstv. ráðherra við því hvernig hægt sé að koma þessu máli áfram. Ég ætla að segja að ef atkvæðagreiðslan fer svona um þetta mál er þetta (Forseti hringir.) stór dagur fyrir þá sem sækja Ísland heim og vilja hér búa af einhverjum ástæðum, hverjar sem þær kunna að vera.



[12:40]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ritaði á nefndarálit þessa máls með fyrirvara og þeir snúa að tveimur þáttum. Við eigum þegar ráðgjafarstofu af þessu tagi, hún er staðsett á Ísafirði og heitir Fjölmenningarsetur. Í þeirri vissu að sú starfsemi sem nú á að efla verði byggð upp á forsendum þeirrar stofnunar — reynslan og þekkingin þar verði nýtt að fullu og að þetta verði ein en ekki tvær aðskildar stofnanir — styð ég tillöguna, með þeim fyrirvara.

Þess má geta líka, og fyrirvarinn snýr einnig að því, að Samfylkingin hefur staðið að þingsályktunartillögu um að farið verði í að vinna samræmda innflytjendastefnu til lengri tíma. Hún kom fram um svipað leyti og þessi tillaga var lögð fram. Við teljum eðlilegt að hún liggi fyrir áður en farið er að opna úrræði af þessu tagi án þess að við höfum heildarsýn yfir það hvernig við ætlum að byggja upp þennan mikilvæga þátt samfélagsþjónustunnar.

Heildarstefna er ekki til á Íslandi og að henni verður að vinna. En ég greiði þessari tillögu atkvæði. Heildarstefna bíður vonandi umfjöllunar næsta þings.



[12:41]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Líkt og rakið er í greinargerð með tillögunni er lagt til að sérstaklega verði horft til starfs Fjölmenningarseturs þegar starfsemi ráðgjafarstofu verði ákveðin og að stofan geti verið deild innan Fjölmenningarseturs.“

Þetta er skýrt í greinargerð, þetta er skýrt í nefndarálitinu og þetta kemur fram í fyrirvara frá hv. þingmanni Samfylkingarinnar. Þess vegna verð ég að velta fyrir mér hvernig í ósköpunum standi á því að hv. þingmenn Miðflokksins greiði atkvæði gegn þessari tillögu. Mér finnst það hneykslanlegt, ég verð að segja eins og er.

Það er erfitt að eiga við öll vandamálin sem fylgja útlendingamálum almennt. Hluti af því er hvernig við tökum á móti fólki og þegar fólk sýnir ekki stuðning lausnunum við þeim vandamálum sem það sjálft, þeir sömu hv. þingmenn, myndu sjálfsagt hafa áhyggjur af finnst mér það merki um ákveðna hræsni. Mér finnst það merki um að þeir hafi ekki lesið þetta mál sem þeir hafa ákveðið að taka ákvörðun um eða þá að þeir beri einfaldlega ekki næga virðingu fyrir málaflokknum til að takast á við hann af þeirri sæmd sem Alþingi ber.



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till., svo breytt, samþ. með 49:7 atkv. og sögðu

  já:  AFE,  AIJ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  BN,  GBr,  GÞÞ,  GIK,  GuðmT,  HSK,  HallM,  HKF,  HarB,  HVH,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  JSV,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  LE,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  RBB,  SilG,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórP,  ÞórdG.
nei:  AKÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  KGH,  ÓÍ,  SPJ,  ÞorS.
7 þm. (GBS,  JónG,  NTF,  SDG,  SÁA,  SIJ,  ÞSÆ) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:43]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Í tilefni orða sem sögð voru áðan, sem ég skil svo sem sjónarmiðin gagnvart, varðandi það að vonandi verði þessi þjónusta á forsendum þeirra stofnana sem nú eru fyrir hendi, tek ég fram að verði þetta að veruleika, sem ég vona svo innilega, því að við skulum muna að við erum bara að fela ráðherra að vinna að þessu, vona ég að það verði fyrst og fremst á forsendum þeirra sem nýta munu þjónustu umrædda stofnun, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) þeirra innflytjenda sem sækja landið heim, af hvaða ástæðum sem kann að vera, sem muni hvar sem er á landinu geta leitað sér upplýsinga um hvernig þeim best getur liðið hér á landi.



[12:44]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka nefndinni fyrir þetta mál og þeim sem fluttu það. Ég held að þetta sé gott mál. Bara til að leiðrétta þann misskilning sem verið hefur hjá einstaka þingmönnum þegar lýtur að þessu máli stendur ekki til að kljúfa Fjölmenningarsetur upp, sem í dag starfa hjá þrír starfsmenn, það er engin ástæða til að kljúfa það niður í fleiri einingar.

Hins vegar er í gangi vinna við að efla fjölmenningarsetrið, þ.e. að taka að sér verkefni núna sem lúta samræmdri móttöku. Þetta verkefni hérna snýr að því að auka þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Það getur verið innan Fjölmenningarseturs eða í samstarfi við setrið, í samstarfi við Vinnumálastofnun og fleiri stofnanir sem tengjast þessum málaflokki beint og óbeint. Þannig að ég furða mig á þeim misskilningi sem hér er í gangi. Ég held að þetta sé bara gott mál. Ég fagna því að það sé fram komið og sé að verða að veruleika. Ég hvet þá þingmenn til að gaumgæfa atkvæði sitt sem hafa misskilið málið á einhverjum forsendum. Það væri prýðilegt ef við gætum séð töfluna algræna. Takk fyrir þetta mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[12:45]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Aftur verð ég að lýsa yfir vonbrigðum með að hér séu þingmenn sem greiða atkvæði gegn þessari tillögu. Mér finnst það undirstrika það að hjá einum flokki á Alþingi virðist vera meiri metnaður fyrir því að búa til ágreining milli höfuðborgar og landsbyggðar eða búa til ágreining úr einhverjum staðbundnum meintum hagsmunum og í þessu tilfelli, eins og í öðrum, byggt á misskilningi, eða alla vega skilningsleysi á málinu eins og það liggur fyrir.

Ég vil bara segja við þetta tækifæri, vegna þess að þetta mál skiptir verulegu máli, að það eru vandamál sem fylgja því þegar rosalega margt fólk flyst milli landa. Það eru alls konar vandamál, tæknileg vandamál, skipulagsleg vandamál og vissulega vandamál sem snúa að því að fólk þekkir ekki réttindi sín og skyldur, skilur ekki alla anga og eiginleika samfélagsins, ýmist lagalega, félagslega eða menningarlega. Og eina leiðin til þess að eiga við það er með tillögum eins og þessari góðu tillögu og öðrum sambærilegum tillögum. Það er lykilatriði að svona tillögur séu samþykktar á Alþingi til að vel fari, og sér í lagi ættu þeir þingmenn, sem hafa áhyggjur af áhrifum (Forseti hringir.) aukinnar veru útlendinga á landinu, að styðja svona tillögu. Allir ættu að gera það.