149. löggjafarþing — 115. fundur
 3. júní 2019.
um fundarstjórn.

atkvæðaskýringar.

[12:47]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég vildi bara vekja athygli þingmanna á því að liðurinn þar sem þingmenn gera grein fyrir atkvæði sínu er til að gera grein fyrir þeirra eigin atkvæði en ekki annarra. Ég frábið mér að verið sé að gera grein fyrir mínu atkvæði í þessu máli sem áðan voru greidd atkvæði um. Tekið var fram skýrt áðan að áhugi væri á því að koma á útibúi frá þessu góða apparati á Vestfjörðum, á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land. Vegna þess að flóttafólk er víða um land, ekki bara á Vestfjörðum og í Reykjavík.

Þannig að ég frábið mér að það komi einhverjir gaurar og einhverjir aðrir og geri mér upp skoðanir og geri grein fyrir mínu atkvæði. Ég get gert það sjálfur ef ég kýs það. Ég bið menn að vera ekki að misnota þennan vettvang til þess. Ef þeir hafa einhverjar ástæður til að kasta rýrð á einhverja hérna geta þeir það undir réttum skilmálum og með réttum réttu fyrirvörum.



[12:48]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í aðalatriðum eiga menn að nota orðið þegar þeir biðja um það til þess að gera grein fyrir atkvæði sínu til að útskýra afstöðu sína og gera grein fyrir því af hverju þeir greiða atkvæði eins og raun ber vitni. Að sama skapi er ekki viðeigandi að vísa til hv. þingmanns hér í salnum sem einhverra gaura. Það er ekki viðeigandi, hv. þingmaður. (ÞorS: Ég biðst afsökunar á því.)



[12:48]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég vil bara byrja á að segja að ég tek það ekkert nærri mér að vera kallaður gaur, enda er ég gaur og skammast mín ekki mikið fyrir það, alla vega yfirleitt ekki.

Það er alvanalegt þegar fólk kemur hingað til að útskýra atkvæði sitt að það ræði atkvæðin í salnum. Það er alvanalegt. Ég hafna því algjörlega að það sé á nokkurn hátt óviðeigandi, óvenjulegt eða nýtt eða athugunarvert að hér fjalli þingmenn um atkvæðin sem birtast á töflunni þegar við ræðum atkvæðagreiðsluna. Það er fullkomlega venjulegt og fullkomlega eðlilegt, það er algjörlega samkvæmt öllum hefðum og mér að vitandi ekki brot á neinum reglum. Ef þær eru til eru þær væntanlega nýlegar.

Sömuleiðis dró ég þá ályktun, sem ég nefndi áðan, út frá því hvernig hv. þingmenn Miðflokksins sjálfir töluðu. Ég dró ályktun af þeirra eigin orðum. Ég las tillöguna, ég las nefndarálitið, ég heyrði ræður hv. stuðningsmanna málsins. Það dugði mér, í sambland við orð hv. þingmanna sem og líka vinnubragða þeirra hér almennt, sem ég verð að segja, alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég er svolítið þreyttur á.