149. löggjafarþing — 116. fundur
 4. júní 2019.
skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, 2. umræða.
stjfrv., 891. mál (nýting séreignarsparnaðar). — Þskj. 1464, nál. 1598.

[15:52]
Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Með frumvarpinu er lagt til að heimild til ráðstöfunar á greiðslum í séreignarlífeyrissjóð í tengslum við öflun á íbúðarhúsnæði til eigin nota verði framlengd um tvö ár. Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í tengslum við lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins sem undirritaðir voru 3. apríl sl.

Það úrræði sem ætlunin er að framlengja var upphaflega hluti af svokallaðri leiðréttingu og var ætlað að vera tímabundið til 30. júní 2017. Gildistími þess var framlengdur um tvö ár með lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, nr. 111/2016, og nú er ætlunin að framlengja gildistímann um tvö ár öðru sinni. Vert er að vekja athygli á því að fulltrúar ríkisskattstjóra bentu nefndinni á að úrræðið krefjist mikillar og tímafrekrar vinnu embættisins sem bitni m.a. á getu þess til að sinna öðrum og mikilvægum verkefnum. Þá sé tæknilegur búnaður við framkvæmd úrræðisins, svo sem tölvukerfi og vefsíða, mörgum annmörkum háður og þarfnist nauðsynlega uppfærslu. Ekki sé unnt að sjá á frumvarpinu eða greinargerð með því að gert sé ráð fyrir óhjákvæmilegum kostnaði embættisins af frumvarpinu verði það að lögum. Nefndin hefur skilning á ábendingum ríkisskattstjóra að þessu leyti og beinir því til ráðuneytisins að þær verði teknar til greina við komandi vinnu við gerð frumvarpa til fjáraukalaga og fjárlaga.

Að því sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir skrifar undir álitið með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir í ræðu hér en undir álitið rita sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, og hv. þingmenn Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, með fyrirvara eins og áður segir, Ólafur Þór Gunnarsson, Smári McCarthy og Silja Dögg Gunnarsdóttir.



[15:55]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli framsögumanns ritaði ég undir nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar með fyrirvara en með þessu frumvarpi er lagt til að núverandi heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar og úttektar á viðbótariðgjaldi til séreignarsparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sem að óbreyttu fellur úr gildi 30. júní nk., verði framlengd um tvö ár, til 30. júní 2021.

Fyrirvari minn er vegna þessa sem ég mun nú fara yfir. Frumvarpinu er ætlað að létta skattbyrði tiltekins hóps skattgreiðenda til húsnæðiskaupa. Til þess að fjármagna það verður skattbyrðin flutt til og lögð á skattgreiðendur framtíðarinnar. Úrræðið nýtist hvað best þeim sem best standa. Sveitarfélögin hafa mótmælt samráðsleysi og skorti á mótvægisaðgerðum vegna tekjutaps þeirra verði frumvarpið að lögum. Auk þess gengur frumvarpið gegn þeirri meginhugsun sem séreignarsparnaðarkerfið er byggt á.

Herra forseti. Þetta er nokkuð mikill fyrirvari og nú spyrja menn: Hvers vegna er sú sem hér stendur ekki á móti frumvarpinu? Því er til að svara að þegar kjarasamningar voru undirritaðir 3. apríl sl. voru gefin fyrirheit um samþykkt þessa frumvarps þannig að þetta sem tilgreint er í frumvarpinu er í rauninni liður í kjarasamningsgerðinni. Stéttarfélögin leggja ríka áherslu á að staðið verði við það fyrirheit og þess vegna mun Samfylkingin samþykkja frumvarpið. En þegar breytingin var gerð á sínum tíma í tengslum við svokallaða leiðréttingu vorum við með efasemdir um að það ætti að fara svona með séreignarlífeyrissparnaðinn einmitt af þeim ástæðum sem ég taldi upp sem er fyrirvari minn við nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Ég hef lokið máli mínu.