149. löggjafarþing — 120. fundur
 11. júní 2019.
málefni SÁÁ.

[10:41]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég hef stundum komið hingað og beint orðum mínum að hæstv. heilbrigðisráðherra og ætla ég að þakka henni fyrir að vera með okkur hér í dag þannig að ég hef tækifæri til að gera það enn á ný.

Gleðiefnið í sambandi við SÁÁ og þá fjárveitingu sem við samþykktum fyrir jólin um að veita 150 millj. kr. til starfseminnar hjá SÁÁ er náttúrlega sá samningur sem þegar hefur náðst upp á 100 milljónir í göngudeildirnar. Markmiðið var eins og við skildum það, eða a.m.k. flest okkar, að eyða biðlistum inn á Vog. Þá skilst mér að eftir standi 50 milljónir sem ekki hefur, samkvæmt samtali mínu nú í morgun, verið samið um enn, því miður. Vonandi er það á góðri leið og það er það sem mig langar til að nefna við hæstv. heilbrigðisráðherra.

Nú vitum við, samkvæmt landsfundi SÁÁ, að það er að fjölga á biðlistanum inn á Vog. Nú bíða 650 manns eftir meðferð og aðstoð á Sjúkrahúsinu Vogi. Þær tölur sem ég hafði áður voru um 600. Það góða í stöðunni eru nýjustu tölur landlæknis sem sýna að dregið hefur úr ótímabærum dauða vegna ofneyslu ópíóíða og lyfjaeitrunar. Á árinu 2018 létust 39 einstaklingar vegna slíkrar eitrunar.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í auknar forvarnir. Hvað líður þeim samningi með 50 milljónirnar inn á Sjúkrahúsið Vog? Og hvaða forvarnir er hæstv. heilbrigðisráðherra að vinna í núna af fullum krafti eins og ég trúi að hún sé að gera til að við sjáum áframhaldandi jákvæða þróun í fækkun dauðsfalla hjá fólki vegna ofneyslu ópíóíða?



[10:44]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og tek undir það sem kemur fram í máli þingmannsins um að við getum sannarlega fagnað því að dauðsföllum vegna ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja hefur fækkað um helming það sem af er ári miðað við sama tíma í fyrra. Það er mat embættisins og ekki síður forstjóra SÁÁ að aukin vitundarvakning um skaðsemina hljóti að hafa haft áhrif auk þess sem hún nefnir sérstakar aðgerðir heilbrigðisráðuneytisins sem lúta að breyttu reglugerðarumhverfi varðandi ávísun þessara lyfja. En mikilvægast af öllu er vitundarvakning meðal almennings og auðvitað líka heilbrigðisstétta. Ég fagna því sérstaklega að þarna sjáum við beinlínis á tölum að ótímabærum dauðsföllum fækkar. Það er það sem við hv. þingmaður erum sammála um að sé ólíðandi annað en að takast á við af fullum krafti og það hef ég gert og vil gera áfram.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um þær 50 milljónir sem enn hefur ekki verið samið um á yfirstandandi ári og hv. fjárlaganefnd eyrnamerkti sérstaklega samningum við SÁÁ í samræmi við stefnu heilbrigðisráðuneytisins í þessum málaflokki. Það er ánægjulegt að segja frá því að ég hef skrifað bréf til Sjúkratrygginga Íslands þar sem ég hef lagt áherslu á að það sé tekið til við samninga um þessar 50 milljónir eins fljótt og nokkurs er kostur. Ég hef auk þess átt fund með forystu SÁÁ um þessi mál og raunar fleiri sem lúta að snertiflötum milli ráðuneytisins og SÁÁ og Sjúkrahússins Vogs. Þar hafði SÁÁ uppi ákveðnar hugmyndir um það hvernig þessir fjármunir mættu nýtast sem best fyrir viðkvæmustu hópana sem SÁÁ hefur verið að sinna og ég tók þeirri málaleitan vel. En verkefnið er hjá Sjúkratryggingum Íslands og ég vonast til þess að við sjáum afrakstur þessa samstarfs hið fyrsta.



[10:46]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Staðreyndin er sú að nú eru um 125 milljónir enn þá inni á reikningum Sjúkratrygginga Íslands af þeim 150. Þrátt fyrir að samningar hafi náðst um göngudeildir er einungis búið að greiða út 25 milljónir af þessum 100, þó svo að árið sé u.þ.b. hálfnað. En það gleður mig verulega ef á að spýta í lófana hvað það varðar og ég vil trúa því að þetta fjármagn muni a.m.k. skila sér allt fyrir næstu áramót. Við höfum kannski litla ástæðu til að ætla annað.

En ég spyr þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra minntist á lyfjamálin: Er hæstv. heilbrigðisráðherra búin að skoða eitthvað þá gríðarlegu lyfjasóun sem við horfumst í augu við akkúrat núna? Við erum að urða hundruð tonna af lyfjum árlega sem hefur verið ávísað allt of mikið til veikra einstaklinga. Þeir hafa í rauninni dáið frá fullum skápum af lyfjum, allt upp að verðmæti 600.000 kr. og ljóst er að einstaklingar hafa fallið frá. Við erum að horfa upp á gríðarlega sóun hvað þetta varðar (Forseti hringir.) og þetta eru jafnvel lyf sem eru einmitt að rata inn á markaðinn. Ég spyr hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé líka að taka pínulítið utan um þetta.



[10:47]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Jú, þetta er eitt af því sem er til skoðunar varðandi lyfjamálin. Það er alveg ljóst að við verðum að ná miklu betur utan um þann málaflokk. Við erum ekki ein í þeirri stöðu, þ.e. Íslendingar, heldur er þetta viðfangsefni sem verður sífellt meira krefjandi eftir því sem tímanum vindur fram í löndunum í kringum okkur líka. Við sjáum t.d. ítrekaðar fréttir frá Finnlandi um lyfjaskort og kostnaður ríkjanna í kringum okkur eykst mjög frá ári til árs, sérstaklega að því er varðar dýrustu og flóknustu lyfin. Við þurfum að ná miklu betur utan um þetta en við höfum gert. Það var ánægjulegt að geta sagt frá því að við vorum að ná fyrsta skrefinu í því að geta farið í sameiginleg lyfjaútboð með Norðmönnum og Dönum á dögunum, sem er viðleitni til að ná verðinu niður, til að stilla saman strengi með öðrum. Það hefur lengi staðið til að reyna að gera það.

Ég vil loks taka fram að ég vænti þess að þessir peningar komist fljótt í vinnu fyrir SÁÁ og þá góðu starfsemi sem þar fer fram. Ég mun beita mér í þá veru.