149. löggjafarþing — 120. fundur
 11. júní 2019.
rammaáætlun.

[10:49]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar í dag að beina orðum mínum til hæstv. umhverfisráðherra í tengslum við rammaáætlun. Um nokkra hríð hefur legið fyrir beiðni í umhverfisnefnd um að hæstv. ráðherra heimsæki nefndina og fari yfir stöðu mála því að framlagning uppfærðrar áætlunar var á þingmálaskrá. Það liggur fyrir að verkefnisstjórnin hefur skilað fyrir þó nokkru en ekkert bólar á málinu í uppfærðum búningi. Verður óneitanlega áhugavert að sjá hvort ráðherra ætli sér að gera einhverjar breytingar á tillögu verkefnisstjórnarinnar eða hvort ráðherra sjái fyrir sér að leggja þær tillögur verkefnisstjórnarinnar fram óbreyttar. En það sem mig langar til að forvitnast um hjá hæstv. ráðherra í dag er svarið við spurningunum: Hver er staðan á þessari vinnu? Hvenær má þingið vænta þess að fá upplýsingar um hvernig málinu vindur fram? Sér ráðherrann fyrir sér breytingar á framlögðum tillögum verkefnisstjórnar? Í fyrri umferð ætla ég að láta þetta duga sem spurningar til hæstv. ráðherra.



[10:50]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Kannski er ástæðan fyrir því að ég hef ekki enn hitt ykkur í nefndinni sú að það er ekki tímabært fyrr en hægt verður að greina nefndinni frá því hvað er fram undan. Ég vil leggja áherslu á að í stjórnarsáttmála er fyrst og fremst talað um að bæta raforkuöryggi og áhersla er lögð á að friðlýsa svæði í verndarflokki rammaáætlunar sem samþykkt var 2013. Þetta er það leiðarljós sem ég hef haft í vinnunni, þ.e. að hefja friðlýsingu svæða í verndarflokki rammaáætlunar. Staðan á því er þannig að sendar hafa verið auglýsingar um friðlýsingu verndarflokka í vatnsafli, þegar kemur að 2. áfanganum sem samþykktur var 2013, eins og fyrr segir, og við erum að vinna afmarkanir fyrir jarðhitasvæðin, sem hefur reynst örlítið erfiðara en ég átti von á í upphafi, en við vonumst til að geta sent það frá okkur fyrir sumarið.

Þetta er sú forgangsröðun sem ég hef haft á hlutunum en samtímis hefur verið til skoðunar sú niðurstaða verkefnisstjórnar 3. áfanga, sem skilaði tillögum sínum til ráðherra fyrir um tveimur árum. Ég hef talið mikilvægt að vinna hlutina í þessari röð í samræmi við þær leiðbeiningar sem eru í stjórnarsáttmála. Ekki er tímabært að segja til um það með hvaða hætti áætlunin verður lögð fyrir þingið, en við stefnum að því að gera það á næsta þingvetri.



[10:52]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir athyglisvert svar og ég leyfi mér að segja heiðarlegt því að þetta eru auðvitað nýjar upplýsingar, þó ekki nýrri en svo að ég kom aðeins inn á þetta í ræðu sem ég hélt í eldhúsdagsumræðum í fyrra þar sem ég hafði áhyggjur af því að það væri meðvitað verið að mola í sundur, brjóta undan því verkfæri sem rammaáætlunin er.

Það að hæstv. ráðherra hafi sem viðmið í sínum störfum fyrst og fremst stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en ekki rammaáætlun í þessum efnum, sem er lögbundið ferli eins og við þekkjum, er býsna athyglisvert. Mig langar bara að biðja hæstv. ráðherra að koma hérna upp og leiðrétta mig ef ég er að misskilja það að rammaáætlun sé orðin víkjandi í þessari vinnu. Ætlunin var að leggja rammaáætlun fram á þessu þingi. (Forseti hringir.) Nú segir hæstv. ráðherra að ætlunin sé að leggja hana fram á næsta þingi en segir á sama tíma að leiðarljósið sé allt annað.



[10:53]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Stjórnarsáttmálinn hefur ekki breyst neitt frá því að hann kom fram þannig að það er alveg ljóst að þar er áhersla á að friðlýsa svæði í 2. áfanga rammaáætlunar. Það hefur ekki breyst neitt og ég hef unnið eftir því.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, og það er líka verið að vinna að því í ráðuneytinu, því að lögum samkvæmt ber að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Hún verður á dagskrá þingsins á næsta ári. Það tókst ekki að ljúka því á þessum þingvetri. Það er alls ekki verið að mola kerfið niður, langt í frá. Hér er unnið eftir þeim lögum og reglum sem gilda. Þingmaðurinn þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég vinni að því leynt eða ljóst að mola niður kerfið um rammaáætlun sem ég tel að sé gríðarlega mikilvægt kerfi til að leiðbeina okkur akkúrat um það hvar við eigum ekki að ráðast í virkjanir og hvar séu möguleikar á að ráðast í virkjanir. Eins og við vitum er orkunýtingarflokkurinn þannig (Forseti hringir.) að þar þarf að skoða hlutina betur í hverju tilfelli fyrir sig.