149. löggjafarþing — 120. fundur
 11. júní 2019.
um fundarstjórn.

svör við fyrirspurnum.

[11:10]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Lungann af þessu kjörtímabili, það sem af er, hef ég beðið frétta af fyrirspurn sem ég sendi fyrst hæstv. félagsmálaráðherra og síðan hæstv. dómsmálaráðherra. Nú er þingi að verða lokið og ætti að vera lokið en ekkert bólar á svari. Ég verð að leita enn einu sinni ásjár forseta vegna þess að ríkisstjórnin er stofnuð um það að styrkja störf Alþingis og biðja um að þeirri fyrirspurn verði svarað áður en þingi lýkur.

Í annan stað bíð ég líka eftir svari við fyrirspurn til fjármálaráðherra um undanskot í skattkerfinu en ég tel að ef svar bærist gæti það verið þokkalegt fóður inn í umræðu um stagbætta og þó götótta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þess vegna bið ég nú forseta um það enn einu sinni að veita mér, sem hluta af þessu þingi sem á að styrkja, liðsinni til að þeim fyrirspurnum verði svarað tafarlaust.



[11:12]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti mun láta grennslast fyrir um það hvar svör við þessum tveimur fyrirspurnum eru á vegi stödd.



[11:12]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er með ólíkindum hvað hæstv. ráðherrar taka sér langan tíma til að svara fyrirspurnum þingmanna. Ég spurði fjármála- og efnahagsráðherra 29. janúar sl. um mál sem tengjast auðlindarentu, skatti á orkufyrirtæki, og enn hefur ekkert svar komið. Í byrjun apríl spurði ég sama hæstv. ráðherra um mál sem tengjast tekjuskatti fyrirtækja, arði fyrirtækja og tekjuskatti sem þau fyrirtæki skila í ríkissjóð, og enn hefur ekkert svar borist. Það er ekki hægt að sætta sig við þennan seinagang. Ég bið forseta að grennslast líka fyrir um þessar fyrirspurnir.



[11:13]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti mun bæta þessu á listann og það verður kannað hvar svör eru á vegi stödd eða hvort þau eru týnd í kerfinu.



[11:13]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég kem bara upp svo að þetta komi ekki út eins og gagnrýni stjórnarandstöðunnar eingöngu því að þetta er sameiginlegt hagsmunamál þingsins alls. Þess vegna tek ég undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað á undan mér. Það er ótækt að framkvæmdarvaldið og einstaka ráðherrar, sama hvar í flokki þeir eru, sinni ekki þeirri lögbundnu skyldu sinni að svara þinginu innan þess frests sem þeim er gefinn. Komi til þessi að lengri tíma þarf til að svara á einfaldlega að gefa skýrslu um það og vera í góðu samráði við fyrirspyrjanda hverju sinni. En þetta er ósköp einfalt: Það er tímafrestur og þegar þingið spyr eiga ráðherrar að svara. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:14]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa lagt orð í belg vegna þess að ég spurði hæstv. dómsmálaráðherra í mars sl. um kostnað vegna skipunar landsréttardómara. Ég ítrekaði þá fyrirspurn 20. maí í sérstökum umræðum um stöðu Landsréttar og fékk þá þau svör að síðar í þeirri viku yrði svarið, sem væri tilbúið inni í ráðuneyti, sent hingað til þingsins.

Nú ætla ég ekki að ætla hæstv. dómsmálaráðherra að fara hér með fleipur og get ég því ekki skilið orð hennar öðruvísi en svo að svarið sé komið til þingsins. Þá veltir maður fyrir sér hvar svarið sé. Hvers vegna hefur það ekki borist okkur fyrst það er komið til þingsins? Að minnsta kosti sagði hæstv. dómsmálaráðherra að svarið færi úr ráðuneytinu í þeirri sömu viku þannig að nú spyr ég hæstv. forseta: Hvar er svarið?



[11:15]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Fyrst forsetinn er að safna í sarpinn vil ég bæta við að samþykkt var skýrslubeiðni frá mér, ásamt fjölda annarra þingmanna, um stöðu eldri borgara, umfangsmikil skýrsla. Samþykkt var í þessum sal að forsætisráðherra ætti að vinna þá skýrslu. Beiðnin var samþykkt fyrir 20 vikum.

Samkvæmt þingsköpum, ég held að ég fari rétt með, hefur ráðherra tíu vikur til að skila skýrslu. Ég hef fullan skilning á því að skýrslubeiðnin var umfangsmikil og snertir stór málefni sem lúta að eldri borgurum í þessu landi en fyrst forsetinn er að safna í sarpinn mætti hann einnig athuga stöðu þeirrar skýrslugerðar hjá forsætisráðherra. Mér finnst fullmikið þegar tíminn er orðinn tvöfalt meiri en þingsköp gera ráð fyrir.



[11:16]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er uppáhaldsumræðuefnið mitt. Meðalsvartími í virkum dögum er 35 dagar í heildina, ekki 15 eins og gert er ráð fyrir. Af öllum þeim sem svara fyrirspurnum er einmitt virðulegur forseti sá eini sem er innan tímamarkanna með 13 virka daga í svartíma, dómsmálaráðherra er með 38 daga, félags- og jafnréttismálaráðherra 39 daga, fjármála- og efnahagsráðherra 42 daga, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 27, utanríkisráðherra 55, umhverfis- og auðlindaráðherra 38, mennta- og menningarmálaráðherra 53, heilbrigðisráðherra 28, forsætisráðherra 21, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 24, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 37 og svo félags- og barnamálaráðherra, eins og hann er orðinn núna, 39.