149. löggjafarþing — 120. fundur
 11. júní 2019.
ávana- og fíkniefni, 2. umræða.
stjfrv., 711. mál (neyslurými). — Þskj. 1135, nál. 1723.

[11:32]
Frsm. velfn. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni. Nefndin undirstrikar stuðning sinn við framangreint markmið, þ.e. að koma á neyslurýmum, en telur rétt að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu. Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við lög um ávana- og fíkniefni ákvæði sem heimili stofnun og rekstur neyslurýma. Með neyslurými er átt við lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingarvarna.

Í umsögnum um málið kom fram nokkuð afdráttarlaus stuðningur við það markmið að koma á fót neyslurýmum. Fram kom við umfjöllun nefndarinnar að neyslurými hefðu verið rekin um nokkra hríð í Danmörku í kjölfar breytinga á ávana- og fíkniefnalöggjöfinni sem heimili stofnun og rekstur slíkra rýma. Í Kaupmannahöfn hefði verið gert samkomulag við lögregluna um þær reglur sem gilda eigi í rýmunum og hvernig löggæslu sé háttað í kringum þau. Segir m.a. í samkomulaginu að í tilgreindum götum í grennd við neyslurýmið sé varsla fíkniefna til eigin neyslu í neyslurými refsilaus.

Við umfjöllun málsins var bent á það að töluvert hefði verið litið til framangreinds fyrirkomulags við gerð frumvarpsins. Væri þannig í greinargerð gert ráð fyrir því að sveitarfélögin gerðu samkomulag við lögreglu um það hvernig löggæslu yrði háttað í kringum rýmin, á sama hátt og gert hefði verið í Kaupmannahöfn. Virðist t.d. að mati nefndarinnar gert ráð fyrir því að refsilausu svæðin verði skilgreind nánar í slíku samkomulagi.

Í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eru gerðar athugasemdir við þessa útfærslu. Segir m.a. að ekki sé að finna í gildandi lögum, eða þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu, heimild fyrir lögreglu til þess að semja um refsilaus svæði en það væri verulegum vafa undirorpið að lögregla gæti gengið til slíkra samninga án skýrrar lagaheimildar. Í umsögn ríkissaksóknara var tekið undir framangreinda gagnrýni.

Þá óskaði nefndin eftir minnisblaði frá dómsmálaráðuneytinu þar sem gerð yrði grein fyrir því hvernig samráði við ráðuneytið væri háttað, hvort frumvarpið tryggði fullnægjandi lagastoð fyrir samningum sveitarfélaga við lögreglu um starfsemi neyslurýma og hvort gera þyrfti breytingar á öðrum lögum til að tryggja lagaumhverfi neyslurýma. Samantekt dómsmálaráðuneytisins um málið barst nefndinni 24. maí og er í henni tekið undir framangreind sjónarmið.

Líkt og fram hefur komið tekur nefndin heils hugar undir markmið frumvarpsins og telur brýnt að ráðast í þær lagabreytingar sem eru nauðsynlegar til þess að tryggja lagalegan grundvöll fyrir starfsemi neyslurýma. Nefndin telur hins vegar ljóst að frumvarpið tryggi ekki með fullnægjandi hætti lögmæti starfseminnar og að endurskoða þurfi ýmis atriði þess með víðtækara og virkara samráði.

Nefndin bendir á að hér er um mjög viðkvæma löggjöf að ræða sem getur haft mikil áhrif á heilsu fólks og réttarstöðu þess. Þá reyni í slíkri löggjöf á flókið samspil á milli réttinda neytenda, hlutverks lögreglu og ábyrgðar heilbrigðisstarfsmanna. Í því sambandi undirstrikar nefndin að engin af þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið reifuð lýsa andstöðu við neyslurými. Þvert á móti kom fram við umfjöllun um málið ríkur vilji til þess að leysa úr framangreindum álitamálum í samráði við heilbrigðisráðuneytið. Beinir nefndin því til heilbrigðisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins að halda áfram að vinna í málinu og leggja það fram að nýju eins fljótt og auðið er. Var m.a. rætt í nefndinni að við myndum helst vilja fá það til okkar strax í haust ef möguleiki er á því. Mér skilst að það sé vilji í ráðuneytunum til að flýta þessu máli mjög.

Við umfjöllun nefndarinnar kom einnig fram það sjónarmið að markmiði neyslurýma yrði best náð ef varsla neysluskammta fíkniefna yrði gerð refsilaus. Nefndin bendir á að það skjóti skökku við að afnema refsingu við háttsemi sem almennt er ólögmæt innan tiltekins svæðis á grundvelli sjónarmiða um skaðaminnkun. Í greinargerð frumvarpsins er bent á að neyslurými séu fyrst og fremst hugsuð sem úrræði fyrir þá sem eru langt leiddir í fíkn og eygja litla von um að hætta sinni neyslu. Með því að koma á fót neyslurýmum er stigið skref til viðurkenningar á því að þessir einstaklingar séu fyrst og fremst með sjúkdóm. Nefndin telur fulla ástæðu til þess að kanna hvort tilefni sé til að löggjöfin gangi enn lengra í því að koma til móts við þessa einstaklinga svo að þeim verði ekki gerð refsing vegna þess sjúkdóms. Beinir nefndin því til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna.

Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur og að auki Ólafur Þór Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason.



[11:37]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen kærlega fyrir yfirferðina. Ég sit í velferðarnefnd sem áheyrnarfulltrúi og ég tek undir með hv. þingmönnum, það voru töluverð vonbrigði að átta sig á því á síðustu skrefum eiginlega þessa máls að það hafi komið ekki betur klárað út. Mig langar í fyrstu að fá álit hv. þingmanns á þessu vegna þess að nú hefur hún stýrt nefnd sem er töluvert málaþung, með mörg mál og mörg þeirra hafa verið í samráðsgátt og hafa tekið breytingum þar áður en þau koma inn til þinglegrar meðferðar. Þetta mál fer í þann farveg en enginn tekur eftir því að þarna eru stórir hlutaðeigandi aðilar, dómsmálaráðuneyti annars vegar og síðan löggæslan, sem stíga ekki inn og koma ekki fram með sínar athugasemdir, annaðhvort af því að þeir voru ekki beðnir um það eða þeir hunsuðu beiðni um það. Það verður að segjast eins og er að mönnum bar einfaldlega ekki saman þegar nefndin reyndi að komast til botns í þessu. Það er kannski ekki stóra málið hér heldur að það liggur alveg ljóst fyrir að við í nefndinni vorum sammála um að við myndum ekki samþykkja mál sem væri þannig vaxið að ekki væri ljóst að réttur neytenda yrði tryggður lagalega, ég tala nú ekki um refsiábyrgð starfsmanna. Þetta er því eðlilegur farvegur.

Ég er hins vegar bara að velta fyrir mér hvort eitthvað sé hægt að gera vegna þess að við erum að stíga fyrstu skrefin með því að nýta samráðsgáttina. Þó að þetta sé klárlega skýrasta dæmið um að hún nýtist ekki sem skyldi vegna þess að menn stíga ekki þar inn hefur það komið fyrir í öðrum málum að stórir aðilar koma ekki inn á þessum fyrstu stigum af því að þeir vita ekki af því eða telja ekki ástæðu til. Það hefur síðan áhrif á þinglega meðferð. Er eitthvað sem hægt væri að breyta í þessu ferli að mati formanns í ljósi þessarar reynslu þegar samráðsgáttin er til staðar og málið ætti að vera í nægilegu samráðsferli (Forseti hringir.) að koma í veg fyrir að svona gerist, að það séu tvö ráðuneyti og aðrir opinberir aðilar sem einfaldlega eru ekki (Forseti hringir.) tilbúnir með sína skoðun þegar málið á að vera á lokametrunum?



[11:40]
Frsm. velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er einmitt mjög mikilvægur vinkill. Við sáum þetta klikka trekk í trekk. Mér skildist af mínum samtölum við ráðuneytin að talsambandi hafi ekki alveg verið náð, ekki verið nægilega mikið. Mér skilst að það hafi meira að segja gerst í startholunum, þ.e. ekki þegar málið var komið í samráðsgáttina heldur fyrr þegar sóst var eftir að fá aðstoð og dómgreind dómsmálaráðuneytisins að ráðuneytin hafi ekki alveg náð saman. Ég get ekki sagt til um hverjum það er að kenna, ég bara veit það ekki, en þetta er klárlega eitthvað sem þarf að laga. Það þarf að fá aðila eins og lögregluna og ríkissaksóknara mun fyrr að borðinu. Það hefur eitthvað klikkað og það er algjörlega óljóst hvað veldur því. Það var mjög leiðinlegt með þetta mál, sérstaklega af því að það kemur inn til nefndar þar sem nánast hver einasti þingmaður í nefndinni, þvert á flokka, er sammála markmiði frumvarpsins um að hér eigi að vera neyslurými og að það eigi að koma til móts við þá einstaklinga sem eru í mjög erfiðri stöðu vegna fíknar og fíkniefnaneyslu og að það eigi að koma fram við þá einstaklinga sem sjúklinga en ekki glæpamenn.

Ég fagna þeirri niðurstöðu sem við komumst að, það virðist líka vera eining innan nefndarinnar um að það eigi að ganga skrefinu lengra, eða skoða það a.m.k., og afnema refsingar fyrir neysluskammta. Það er stórkostleg niðurstaða og við getum fagnað því. Ég vona að heilbrigðisráðuneytið finni fyrir þeim stuðningi sem það hefur nú til að fara í þá vinnu og skoði að taka þetta mikilvæga skref núna. Þá kannski verða þessi mistök sem urðu í samráðinu til góðs í lokin.



[11:42]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Það er nákvæmlega það, að fá eitthvað jákvætt út úr þessu vegna þess að þetta er mál sem var mikil samstaða um í nefndinni, eins og hv. þingmaður kom inn á, og hér á þingi, í þingsal. Það var ekki hægt að heyra annað á umræðum fyrr í vetur og málið hefur fengið töluverða umræðu. Ég velti fyrir mér núna þar sem það þarf að fara ofan í málið aftur að við erum a.m.k. mörg sem óskum þess að það verði hugsanlega til þess að það verði útvíkkað og að varsla neysluskammta verði gerð refsilaus.

Þá kemur spurningin: Er eitthvað að mati hv. þingmanns sem við getum gert til að tryggja að verði farið í þá vinnu komi ekki sama staða upp aftur, að það sé eitthvað í kerfinu sem segir: Þetta gengur ekki upp? Nú erum við í velferðarnefnd í sambandi við velferðarráðuneytið, en getum við beint málinu til hins ráðuneytisins, ráðuneytis dómsmála, sem kemur að málinu? Væri rétt að fá aðra fastanefnd Alþingis með okkur í málið? Getum við gert eitthvað til að tryggja að verði málið útvíkkað núna í meðförum ráðuneytanna lendi það ekki aftur í sama einskismannslandi að ári? Hvað heldur hv. þingmaður um það?



[11:43]
Frsm. velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Mér skilst, og þetta er nokkuð sem ég vissi ekki áður en við fengum þessar upplýsingar í velferðarnefnd, að það að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum sé alfarið í höndum heilbrigðisráðherra. Þar af leiðandi held ég að það sem við getum gert sé að hvetja heilbrigðisráðherra til dáða í þessu efni og fara að taka þetta skref, sérstaklega í ljósi þess að það sem hefur komið úr þessari vinnu er augljós stuðningur við það verkefni. Við þingmenn getum bara stutt við og aðstoðað heilbrigðisráðherra og hvatt hana áfram. Það er eina leiðin sem ég sé fyrir mér að þetta gæti gengið.

Það er ljóst núna að þetta verkefni er í höndum heilbrigðisráðherra, að mér skilst, ef ég fer rétt með. Þær upplýsingar komu frá dómsmálaráðuneytinu. Þá er það frekar einfalt. Við hvetjum ráðherra til dáða í þessu efni og beitum þrýstingi og minnum hana á að þetta er vilji velferðarnefndar og þar af leiðandi vonandi vilji meiri hluta þingsins.



[11:45]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég leita ásjár forseta í þessu máli. Í framhaldi af svari fjármálaráðherra við fyrirspurn minni á síðasta ári um forsendur að baki hækkun bóta almannatrygginga sendi lögmaður Öryrkjabandalagsins erindi til umboðsmanns Alþingis vegna 69. gr. laga um almannatryggingar og síðan framkvæmdar fjármálaráðuneytisins við fjárlagagerð.

Umboðsmaður Alþingis sendi 18. janúar á þessu ári ákveðnar spurningar til fjármálaráðuneytisins og ákveðnar upplýsingar einmitt í þessu máli og engin svör hafa borist. Síðan hefur umboðsmaður í þrígang ítrekað þessa beiðni sína með bréfum, dagsett 26. mars, 26. apríl og síðan 16. maí. Þetta eru hátt í fimm mánuðir. Ekkert svar berst frá fjármálaráðuneytinu til umboðsmanns. Þess vegna leita ég til þín, kæri forseti, til að umboðsmaður fái stuðning frá þinginu við það að fjármálaráðuneytið svari umboðsmanni þannig að öryrkjar fái skýrari svör um nákvæman útreikning við framkvæmd almannatrygginga (Forseti hringir.) og þar með örorkubóta.

Ég leita ásjár, herra forseti, hjá þinginu. Það þarf að þrýsta á fjármálaráðuneytið að svara umboðsmanni í þessu máli.



[11:46]
Forseti (Guðjón S. Brjánsson):

Forseti hefur móttekið þessa beiðni og mun beita sér fyrir því að hún komist áleiðis.



[11:46]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil koma hingað upp til þess að fagna og þakka hv. velferðarnefnd fyrir góða vinnu í þessu máli. Það er leitt að það hafi ekki komist lengra. Mér fannst mjög gott að horfa til þess að loksins yrði komið á fót neyslurými hér á Íslandi sem er mjög mikilvægt skaðaminnkunarúrræði fyrir þá sem höllustum fæti standa þegar kemur að vímuefnaneyslu. Þetta er mjög mikilvægt úrræði og mig langaði mjög mikið að sjá það fá framgang hér. Að sama skapi er ég mjög ánægð með þann mikla samhug og samstöðu sem hv. velferðarnefnd hefur sýnt í þessu máli þegar hún leggur til, eins og fram kemur í áliti nefndarinnar, að við umfjöllun nefndarinnar hafi einnig komið fram það sjónarmið að markmiði neyslurýma yrði best náð ef varsla neysluskammta fíkniefna yrði gerð refsilaus. Nefndin bendir á að það skjóti skökku við að afnema refsingu við háttsemi sem almennt er ólögmæt innan tiltekins svæðis á grundvelli sjónarmiða um skaðaminnkun.

Í greinargerð er bent á að neyslurými séu fyrst og fremst hugsuð sem úrræði fyrir þá sem eru langt leiddir í fíkn og eygi litla von um að hætta sinni neyslu. Með því að koma á fót neyslurýmum er stigið skref til viðurkenningar á því að þessir einstaklingar séu fyrst og fremst með sjúkdóm. Nefndin telur fulla ástæðu til þess að kanna hvort tilefni sé til að löggjöfin gangi enn lengra í því að koma til móts við þessa einstaklinga svo að þeim verði ekki gerð refsing vegna þessa sjúkdóms. Beinir nefndin því til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna. Að þessu framangreindu leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Ég vil fyrst og síðast þakka hv. formanni nefndarinnar, hv. þm. Halldóru Mogensen, fyrir vinnu hennar í þessu máli en einnig hv. þingmönnum Ólafi Þór Gunnarssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Andrési Inga Jónssyni og Guðmundi Inga Kristinssyni sem öll eru sammála þessari niðurstöðu sem ég held að sýni mjög ríkan vilja þingsins til að afglæpavæða vörsluskammta fíkniefna sem mér finnst satt best að segja einkar mikið ánægjuefni — sem ég hefði kannski ekki endilega átt von á að ég myndi segja árið 2019 — vegna þess að þetta er mjög mikilvægt skref í átt að þeirri hugmyndafræði sem er að ná fótum í flestum ríkjum heims sem er sú að stríðið gegn fíkniefnum, hið svokallaða, sé stríð gegn fólki og það stríð sé tapað í þeim skilningi að ekki hefur tekist, þrátt fyrir áratugalanga bannstefnu í þessum efnum, áratugalanga refsistefnu í þessum málaflokki, að minnka umfang fíkniefna í neyslu né heldur neyslu þeirra. Það hefur ekki tekist að stemma stigu við þeim milljörðum sem fíkniefnasalar fá út úr viðskiptum sínum og nota til annarra ólögmætra aðgerða af sinni hálfu. Þetta er gríðarleg tekjulind og það hefur ekki tekist að minnka hana, heldur hefur hún þvert á móti farið vaxandi. Það hefur sýnt sig á þessari áratugalöngu bannstefnu að stríðið gegn fíkniefnum er löngu tapað og það var tapað frá upphafi.

Viðhorfsbreytingin sem ég vísa í, virðulegi forseti, er sú að í staðinn fyrir bannvæðingu, refsivæðingu, refsivöndinn endalausa, gagnvart því sem sumir kjósa að kalla sjúkdóm en aðrir kjósa að kalla viðbrögð við áföllum eða tengslaleysi við samfélagið — viðhorfið gagnvart því og viðbrögðin gagnvart því eigi ekki að vera þau að fjarlægja fólk úr samfélaginu eða aftengja það enn frekar frá samfélaginu, refsa því fyrir hluti sem sumir vilja meina að það hafi bara enga stjórn á heldur þess í stað að fókusa á mannúðleg skaðaminnkandi viðhorf og úrræði sem eru til þess fallin að hjálpa þeim sem ekki geta haft stjórn á sinni neyslu til að komast aftur á góðan stað í lífinu, hvort sem það vill halda áfram neyslu eða getur ekki hætt neyslu eður ei.

Út á það gengur hugmyndafræði skaðaminnkunar. Mér hefur fundist mjög ánægjulegt að sjá á sundanförnum árum hvernig hugmyndafræði skaðaminnkunar, þ.e. sú hugmynd að aðstoða fólk þar sem það er statt, að gera það ekki að skilyrði að viðkomandi hætti neyslunni heldur að vinna að því, með mannúð að leiðarljósi, að minnka sem helst skaðann sem hlýst af neyslunni, hefur náð fótfestu. Það er inntakið í frumvarpi um neyslurými. Til að svo megi verða á töluvert stærri skala í okkar samfélagi er það einmitt hárrétt niðurstaða hv. velferðarnefndar að afglæpavæða verði neysluskammta ólöglegra vímuefna. Öðruvísi gengur þetta ekki upp, virðulegur forseti, og þess vegna er þetta mjög ánægjuleg afstaða sem ég vona að komi fyrir Alþingi strax í haust.

Ég vildi af þessu tilefni segja hversu ánægjulegt mér finnst einmitt hvernig umræðan og viðhorfið til fólks sem notar vímuefni, hvort sem er í æð eins og t.d. þetta frumvarp um neyslurými snýr einna helst að, réttindi þess fólks til bestu mögulegu heilsu, réttindi til frelsis og mannvirðingar, hefur þróast á þeim örfáu árum sem Píratar hafa setið á Alþingi Íslendinga, þ.e. frá árinu 2013 þegar fyrst komu fram tillögur þess efnis að skoða bæri hvort afglæpavæða ætti neysluskammta vímuefna.

Ég vil meina, virðulegi forseti, við séum komin mjög langt í því að skoða hvernig væri best að því staðið, hvaða kosti og galla er í því að finna og hvernig við getum best fundið út úr því í okkar lagakerfi að standa að því. Ég vil af því tilefni minnast á að það eru margir aðrir kostir við að afglæpavæða neysluskammta og þeir snúa t.d. að unga fólkinu okkar sem getur þá með miklu öruggari hætti nálgast upplýsingar, aðstoð og þjónustu. Það þarf ekki að vera hrætt við að lögreglan sé aldeilis enginn vinur þeirra ef það hleypur á sig þegar kemur að neyslu vímuefna.

Við gætum komið af stað töluvert betri skaðaminnkunaráformum á tónlistarhátíðum og öðrum stöðum þar sem er líklegt að ungmenni geri mistök eða fái vond vímuefni til neyslu sem valda því að þau þurfi aðstoðar við. Það mun minnka óttann sem þessi ungmenni munu búa við að leita til lögreglu eða sjúkraflutningamanna eftir aðstoð og þar með minnka þá hættu sem þau standa frammi fyrir kjósi þau eða ákveði þau að fikta eins og stundum er sagt.

Þetta er einn af mörgum kostum en þar fyrir utan er rétt að árétta að fólk sem notar vímuefni er líka fólk og eins og ég kom að í upphafi ræðu minnar, herra forseti, er stríðið gegn vímuefnum, eins og það hefur verið kallað, stríð gegn fólki og það er tapað. Þetta er fyrsta skrefið í áttina að því að hætta þessu bulli. Það hefur ekki skilað okkur einum einasta árangri, ekki öðru en eymd og volæði þeirra sem fyrir því verða. Við sjáum það um allan heim að vímuefnalöggjöfinni er beitt sérstaklega hart gegn þjóðfélagshópum sem almennt eru í verri stöðu, gegn minnihlutahópum. Við sjáum líka að langstærstur hluti þeirra sem eru fangelsaðir um allan heim fyrir vímuefnalögbrot er fangelsaður einmitt fyrir vörslu fíkniefna og fyrir brot sem ekki fela í sér nokkurs konar ofbeldi. Við sjáum það líka að oft eru fíkniefnalagabrot dæmd töluvert harðar en töluvert grimmari glæpir að mínu viti, þ.e. fíkniefnalagabrot sem tengjast ekki neinu ofbeldi á neinn hátt og jafnvel gegn svokölluðum burðardýrum. Þau fá refsingar sem eru kannski margfalt á við það sem t.d. verstu brotamenn í kynferðisbrotamálum fá og þá sjáum við að burðardýr fá töluvert þyngri refsingar. Ég held að þetta sé arfleifð af bannstefnutímanum sem ég vona svo sannarlega að sé að líða undir lok og það fyllir mig bjartsýni, virðulegur forseti, að sjá alla hv. velferðarnefnd á þessu máli, sjá þetta framsýna viðhorf hennar og sjá að eitt af okkar helstu áherslumálum í Pírötum um mannúðarstefnu, afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna, hafi fengið svona góðan hljómgrunn á Alþingi Íslendinga. Það gleður mig sannarlega, herra forseti.



[11:57]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég tek til máls m.a. vegna þess að ég er einn af þeim sem rita undir þetta nefndarálit og til þess að undirstrika þann stuðning við efni frumvarpsins sem í álitinu felst. Eins og hefur komið fram í ræðum annarra hv. þingmanna er umbúnaðurinn um málið hins vegar akkúrat eins og það er komið til þingsins með þeim hætti að það er mat nefndarinnar að það þurfi að vinna það betur. Ég held að ég geti talað fyrir munn flestra nefndarmanna að við vonum svo sannarlega að málið komi fljótt aftur til þingsins svo að við getum gengið frá því að afgreiða þetta mikilvæga mál.

Þegar við fjöllum um málefni tengd fíkn hefur því miður verið allt of mikil lenska að líta þannig á að hún sé ekki vandamál alls samfélagsins, ekki heilsufarsvandamál, heldur eitthvert prívat vandamál þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Þannig er það alls ekki. Auðvitað brennur þyngst og erfiðast á þeim sem í hlut eiga en það er sannarlega samfélagsins að reyna að bregðast við og við eigum svo sannarlega, til að mynda með þessu úrræði, að reyna að hjálpa þessum einstaklingum.

Hugmyndin að þessum neyslurýmum er í grunninn afar góð og getur, a.m.k. í einhverjum tilfellum, leitt til þess að einstaklingar komist hreinlega í færi til að leita sér hjálpar, þótt síðar verði — þótt það sé í sjálfu sér ekki markmiðið með neyslurýmunum. Markmiðið með þeim er að horfast í augu við að þetta sé hluti af stærri vanda og að bregðast við, eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kom inn á áðan, með skaðaminnkuninni sem felst í þessu úrræði.

Ég hlakka til að taka aftur á þessu máli þegar það kemur aftur til hv. velferðarnefndar. Það er gleðilegt, eins og fleiri þingmenn hafa komið inn á, að það virðist vera ágætissamstaða um það í þinginu, milli allra þingflokka og þingmanna allra flokka, að þetta sé mál sem við eigum að klára og leysa. Ég vona að það verði undinn að því bráður bugur í heilbrigðisráðuneytinu að klára það.



[12:00]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að hér sé til umræðu þetta mál um neyslurými en það er eiginlega ekki hægt að tala um það öðruvísi en að nefna aðeins málaflokkinn í heild sinni, nefnilega vímuefnamál. Þannig er mál með vexti að frá upphafi ritaðrar sögu og sennilega fyrir það hefur mannkyn notast við vímuefni, það frægasta er sennilega áfengi en áfengi er ekki eina vímuefnið sem mannkynið hefur komist í tæri við. Þau eru ótal mörg, ýmsir kaktusar, sveppir, ýmsar plöntur og þeirra er hægt að neyta á ýmsan hátt. Það er hægt að drekka þau, reykja þau og borða. Það er hægt að neyta þeirra á ýmsan hátt. Af einhverjum ástæðum, væntanlega þeim að áfengi hefur svo ríka og gamla sögu meðfram mannkynssögunni, er gerð sú sérstaka undantekning í nútímasamfélagi að áfengi sé á einhvern hátt ekki vímuefni eða á einhvern hátt ekki fíkniefni eða á einhvern hátt ekki dóp. Það viðhorf hefur endurspeglast í lagaumhverfi í það minnsta á hinum svokölluðu Vesturlöndum og þótt víðar væri leitað, reyndar næstum því alls staðar ef ekki beinlínis alls staðar, að það þurfi að uppræta öll vímuefni nema áfengi. Þau skulu upprætt með löggæslu og á stundum beinlínis hernaði, herþyrlum þar sem vopnaðir einstaklinga hoppa út úr herþyrlum í svokölluðu kamúflasi eða felulituðum fötum og fara og skjóta fólk til að hafa hemil á útbreiðslu og dreifingu ólöglegra vímuefna.

Þetta ásigkomulag er stundum kallað dópstríðið. Það var háð í raun og veru að miklu leyti að frumkvæði Bandaríkjanna á seinustu öld, á seinni hlutanum upp úr 1970, 1972–1973, eitthvað svoleiðis. Það var farið í stríð við dóp, á ensku kallað „war on drugs“ og þetta er með verri pólitískum hugmyndum sem hafa komið fram á þeirri öld sem annars var mjög ríkuleg af hræðilegum hugmyndum.

Ísland er á meðal þeirra frjálslyndu lýðræðisríkja sem hafa tileinkað sér þetta viðhorf, ekki kannski beinlínis stríðshugarfarið í þeim málaflokki frekar en öðrum en hins vegar óhjákvæmilega þannig að þetta vandamál skuli leysa með löggæslu, passa það að góðu karlarnir sem eru löggurnar nái vondu körlunum sem eru dópsalarnir. Inni í miðju því stríði hafa síðan vímuefnaneytendurnir sjálfir lent.

Þeir eru á mjög undarlegum stað, þeir eru einhvern veginn bæði glæpamenn og fórnarlömb. Þetta er bæði löggæslumál og heilbrigðismál gagnvart þeim. Sú innri mótsögn hefur gert það að verkum að yfirvöld hafa misst af tækifærum, bæði til að aðstoða fórnarlömb vímuefnanna sjálfra og fórnarlömb undirheimanna sem hafa orðið til vegna lagalega ástandsins en sömuleiðis misst af tækifærum til að draga úr þeim aðgerðum sem yfirvöld eru gjörn á að fara í sem draga úr frelsi borgaranna.

Nú vill svo til að sá sem hér stendur er mjög hlynntur frelsi og það sem meira er, þeim sem hér stendur finnst mjög þreytandi að hlusta á fólk tala um að það sé hlynnt frelsi og aðhyllist frelsi en síðan þegar kemur að því að banna eitthvað er það alltaf til í að banna og þegar kemur að því að leyfa er það alltaf á bremsunni gagnvart því af að leyfa. Frelsi felur í sér að fólk geti gert mistök. Það er til áhugaverð lína úr lagi með hæstvirtum tónlistarmanni Björk Guðmundsdóttur sem sagði: „I thought I could organize freedom, how Scandinavian of me.“ Þýðingin er: Ég hélt að ég gæti skipulagt frelsið, en skandinavískt af mér.

Þetta er lína sem mér finnst að Íslendingar og Skandinavar og fleiri mættu taka til sín. Frelsið þýðir ekkert ef algjört öryggi á að fylgja. Frelsið þýðir ekkert ef algjört öryggi á að fylgja, ekki neitt, þá er það þýðingarlaust hugtak. Ég held að skilning á því skorti, sér í lagi hjá þjóðum eins og Íslendingum sem hafa í raun og veru mjög lítið í menningarlegu minni þurft að eiga við svakalega ánauð þegar kemur að grundvallarfrelsismálum. Það var vissulega þrælahald og síðan var vistarbandið lengi vel, sem er tegund af þrælahaldi, en þegar talað er um frelsi á Íslandi finnst mér yfirleitt verið að tala um sjálfstæði Íslands gagnvart Danmörku miklu frekar en frelsi einstaklings til að haga heilastarfsemi sinni úr líkama sínum í heimahúsum sínum eins og þeim einstaklingi sýnist. Þá allt í einu er frelsið orðið ægilega hættulegt vegna þess að við erum í stríði við vímuefni og í stríði við vondu dópsalana og vímuefnaneytendur eru, því miður, þrátt fyrir hið meinta frelsi þeirra dæmdir til að verða það sem kaninn kallar „collateral damage“. Ég kann hreinlega ekki íslensku þýðinguna á orðunum en það er fórnarkostnaður, skulum við segja, einhvers konar fórnarkostnaður.

Þetta mál fjallar auðvitað ekki um það allt saman í stóra samhenginu en er hins vegar afleiðing af m.a. skýrslu sem var gefin út af heilbrigðisráðherra, tilkomin vegna starfshóps sem sá sem hér stendur sat í. Sá starfshópur var settur á fót í kjölfar þingsályktunartillögu sem var lögð fram af þingflokki Pírata fyrir einhverjum árum síðan þannig að þetta er augljóslega hið besta mál en það er hins vegar í því samhengi að neyslurými er hugmynd sem er til þess fallin að koma til móts við þann hóp sem á í vandræðum vegna vímuefnaneyslu. Á sama tíma eru þessir hópar lögbrjótar. Þeir brjóta lögin, strangt til tekið ekki með því að neyta vímuefnanna, það er strangt til tekið löglegt, en þeir hafa vímuefnin í fórum sínum meðan þeir neyta þeirra þannig að augljóslega þurfa þeir að brjóta þau lög.

Það sem er svo áhugavert þegar rætt er við lögregluöflin á Íslandi er að þá verður til önnur mótsögn. Ég tek sérstaklega eftir því í viðtölum þegar ég ræði vímuefnamál og fæ ýmist að spjalla við lögreglu eða lögreglan tekur þátt í þeirri umræðu. Þá er ákveðin mótsögn. Einhvern veginn er bæði rosalega mikilvægt að neysluskammtar séu ólöglegir, það er rosalega mikilvægt, en að sama skapi er alltaf sagt að enginn fari í fangelsi, engum sé refsað fyrir neyslu eina og sér.

Virðulegi forseti. Hvers vegna er það ólöglegt ef það á ekkert að gera við þetta? Ef ekki á að eltast við neytendur, hvers vegna þarf að vera ólöglegt að hafa neysluskammta á sér? Það er engin ástæða, það getur ekki verið. Tilfellið er að við erum enn þá föst í þeirri mótsögn að við ætlum að líta á það sem heilbrigðismál og löggæslumál að vímuefnaneytendur séu bæði fórnarlömb og lögbrjótar. Sú mótsögn gerir það að verkum að við getum ekki hjálpað þeim hópi sem á í vandræðum með neyslu sína að því marki sem okkur ber skylda til að gera sem ábyrgum samfélagsþegnum og sér í lagi sem löggjafa.

Annað sem gleymist í þeirri umræðu allri, kannski eðlilega, en því miður, eru vímuefnaneytendur sem eiga ekki í vandræðum með neyslu sína. Ég held að þaðan komi mótsögnin í raun og veru. Ég held að fólk skilji almennt að fólk sem er mjög langt leitt af erfiðri fíkn sé fórnarlömb aðstæðna sinna, það sé komið inn í aðstæður sem það kemst ekki út úr, það fær ekki hjálp og það ræður ekki við eigin vilja að einhverju leyti. Án þess að vilja fara út í alla læknisfræðina og heimspekin á bak við fíkn, það furðulega fyrirbæri, held ég að hugmyndin um neytandann sem reykir hass eða sniffar kókaín eða eitthvað því um líkt og á ekki í neinum vandræðum með það, tollir í vinnu eða skóla eða hverju sem er, á ekki í neinum vandræðum með fjölskyldu sína eða vini, sé óvinur samfélagsins. Ég held að það sé sá aðili sem samfélagið er svo reitt út í. Það eru vímuefnaneytendur sem eru ekki búnir að vinna sér inn fyrirgefningu samfélagsins með því að leggja líf sitt í rúst og jafnvel annarra. Út úr því held ég að komi sú mótsögn og misskilningur um að við getum haft þetta löggæsluatriði og heilbrigðisatriði á sama tíma, að vímuefnaneytendur geti verið lögbrjótar og fórnarlömb á sama tíma. Á einhverjum tímapunkti þurfum við að fara að ræða það af meiri alvöru og í minna samhengi við það að allir vímuefnaneytendur séu sjálfkrafa fórnarlömb, bara það að vímuefnaneytendur gera ekki sjálfkrafa á hlut neins. Það kemur samfélaginu ekki við að einhver heima hjá sér sniffi kókaín eða reyki gras eða hass. Það kemur samfélaginu ekki við.

Ég hygg að hið háa Alþingi sé ekki alveg reiðubúið í þá umræðu enda frelsishugmyndin á Íslandi jafn klikkuð og ég lýsti áðan með ágætum söngtexta hæstvirts tónlistarmanns Bjarkar Guðmundsdóttur. Þegar allt kemur til alls þurfum við að fara út í það hvernig við ætlum að líta á þetta frelsi. Ætlum við að aðhyllast frelsi eða ekki? Við lendum þar á endanum.

Núna erum við sem betur fer á þeim stað að við getum aðeins einbeitt okkur að þeim sem eru sannanlega fórnarlömb og þeim sem allir, í það minnsta í orði, þykjast vilja hjálpa. Þá kemur svo skýrt fram hversu galið það er að refsa þessu fólki. Þar er það augljóst og þarf ekkert miklu meira en að hugsa aðeins út í það til að komast að þeirri niðurstöðu nema maður sé beinlínis á móti fólki sem á við vandamál að stríða og vilji fólki beinlínis illt fyrir það að eiga við vandamál að stríða. Ég held að reiðin beinist ekki að þeim hópi í raun og veru í samfélaginu. Ég held að hún beinist gagnvart þeim hópi sem kemst upp með það að nota önnur vímuefni, annað dóp en áfengi. Þetta vil ég reyndar meina að sé sambærilegt við ágreining milli trúarbragða. Það er allt í lagi að vera trúaður svo lengi sem það eru réttu trúarbrögðin.

Að öðru leyti er fólk alveg reiðubúið að viðurkenna skaðsemina af völdum trúarbragða og að sama leyti er fólk alveg reiðubúið að viðurkenna skaðsemi af völdum vímuefna svo lengi sem það er ekki rætt um skaðsemi áfengis nema auðvitað innan þess samhengis að auðvitað sé hægt að nota það í hófi. Auðvitað á að vera löglegt að selja það, auðvitað og augljóslega. Það eru ekki allir sem nota áfengi einhverjar fyllibyttur, ekki allir sem nota áfengi leggja líf sitt í rúst. Það eru ekki allir sem neyta áfengis sem deyja eða missa vinnuna. En veistu hvað, virðulegi forseti? Sumir sem neyta áfengis rústa lífi sínu, deyja, verða fíkninni að bráð, leggja fjölskyldulíf sitt og vinnu í rúst. Það eru ansi margir reyndar en af einhverjum ástæðum má aldrei setja það í samhengi við ólöglegu vímuefnin. Það fer í taugarnar á mér, virðulegi forseti, að talað sé um áfengi og vímuefni. Nei, nei, nei, áfengi er jafn mikið vímuefni og hvert annað. Það er jafn mikið fíkniefni og jafn mikið dóp. Ef kókaíni er dóp er áfengi er dóp. Það er ekki hægt að hafa þetta öðruvísi, alveg eins og ef við ætlum að kalla islam trúarbrögð eða gyðingdóm trúarbrögð köllum við kristni trúarbrögð. Það er ekki hægt að flokka þau eftir því hvort maður persónulega vilji geta notið þeirra eða ekki eða stundað þau eða ekki. Í því felst hræsni, virðulegi forseti, ekki meðvituð en það er hræsni.

Þess vegna finnst mér alveg þess virði fyrir fólk að velta fyrir sér hvernig því lítist á lagafyrirkomulag sem setti áfengi undir sama hatt og t.d. kannabisefni sem að mínu viti er mun vægara vímuefni að langflestu leyti. Þau eru öðruvísi og hafa ólík áhrif en ef ég velti fyrir mér verstu hasshausunum sem ég hef kynnst í gegnum tíðina og ber þá saman við verstu fyllibytturnar sem ég hef kynnst í gegnum tíðina er samanburðurinn mjög skýr. Ég veit alveg í hverju ég vil miklu síður sjálfur lenda eða að fólk sem mér þykir vænt um lendi í. Ég vil miklu síður að það lendi í áfenginu en um leið og sá samanburður er dreginn upp gerist það oft að fólk vill ekki fara út í þann samanburð, auðvitað ekki vegna þess að hann gerir augljósa hræsnina sem felst í núgildandi löggjöf og viðhorfum samfélagsins og löggjafans til vímuefnamála almennt, þá ótrúlegu hræsni, þetta ótrúlega skilningsleysi gagnvart því að fólk vilji hugsanlega nota annað vímuefni en það sem hefur verið notað seinustu árþúsundin opinberlega og í ritaðri sögu, að mestu leyti. Það er eina ástæðan fyrir því að áfengi er umborið en hin ekki. Það er menningarleg staða áfengis, það er það eina. Það er menningarleg staða þess, það er sú staðreynd að valdhafar vilja nota áfengi. Valdhafar skilja skemmtilegu sögurnar í gamla daga þegar þeir fengu sér aðeins of mikið í tána og sögðu skemmtilegur sögur og gerðu eitthvað fyndið og heimskulegt á sínum yngri árum, hugsa til þess með hlýhug. Það var gaman að þessu fylliríi, ég fór og reyndi við ranga stelpu og svo kemur einhver skemmtileg saga út úr því eða hvaðeina og auðvitað stundum harmsögur. Þegar kemur að ólöglegum vímuefnum eru það bara harmsögur vegna þess að valdhöfum finnst ekkert mikilvægt að reykja gras, þeim finnst aðeins mikilvægt að drekka áfengi og þess vegna er áfengi löglegt og ekki kannabisefni. Það er eina ástæðan fyrir því að áfengi er löglegt og ekki kannabisefni, eina ástæðan, það er menningarleg og söguleg staða þess.

Ég kemst ekki hjá því að nefna þetta, virðulegi forseti, vegna þess að mér finnst mikilvægt að það heyrist í pontu þegar tækifærin gefast. Þetta mál eins og fleiri, t.d. það mikilvæga mál sem ég vona að komi fram sem fyrst frá hæstv. heilbrigðisráðherra um að hætta að refsa vímuefnaneytendum, eru öll í samhengi við grundvallarviðhorf samfélagsins og löggjafans til frelsis og hvernig það lítur á fólk sem bregður út af vananum og notar vímuefni sem eru ekki hefðbundin í íslensku samfélagi og hvernig viðhorfin eru gagnvart fólki sem síðan fer sér að voða.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira í bili en fagna því mjög aftur að þetta mál sé komið fram og hlakka til að fá fleiri slík fram og hvet hv. þingmenn til að taka virkan þátt í umræðunni. Ég veit að hún er ekkert endilega alltaf skemmtileg og hún er ekki endilega þannig að hægt sé að ræða hana, þ.e. hún er ekki endilega þannig að þingmenn sjái sér fært að segja hlutina sem eru þó tiltölulega augljósir þegar kemur að t.d. frelsi og muninum á skaðsemi vímuefna.

Að lokum nefni ég að það eru til svokallaðar dipló leiðir og síðan ekki svo dipló leiðir til að orða hlutina og þannig finnst mér áhugavert að fullyrða á kannski fræðilegri hátt að löggjöfin sé ekki hönnuð með tilliti til þess hversu skaðlegt vímuefni er. Ég segi þetta og það er enginn sem hristir höfuðið, enginn sem hváir, þarf kannski aðeins að melta setninguna, en ef ég segi að áfengi sé miklu hættulegra en nokkur ólögleg vímuefni fær fólk smástuð. Ég var reyndar að segja nákvæmlega það sama. Það er umræðan sem ég held að hv. þingmenn óttist og að samfélagið sé ekki endilega alveg reiðubúið í en að mínu mati er það tilfellið, mjög bersýnilega svo. Ég vísa í rannsóknir á þessum vímuefnum því til stuðnings.

Eins og ég sagði fyrir örlitlum málalengingum síðan ætlaði ég ekki að lengja umræðuna og ætla að reyna að standa við það héðan af en fagna málinu og hlakka til að fá fleiri úr sömu átt.



[12:19]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að veita hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni andsvar en ummæli sem hann lét falla í ræðu hér áðan hvöttu mig hins vegar til dáða að fara aðeins yfir sögu bannstefnunnar. Hv. þingmaður heldur því fram, og ég tek alveg undir það, að ástæðan fyrir því að áfengi nýtur allt annarrar stöðu en önnur vímuefni er vissulega sú að það eru ákveðin menningarleg tengsl og það er út af því að vesturveldin fíla svolítið áfengið. Það er mjög einfölduð útskýring á því hvers vegna áfengi nýtur allt annarrar stöðu en önnur vímuefni. Hins vegar á sagan um stríðið gegn fíkniefnum og bannstefnan sér töluvert margþættari hliðar sem mig langaði að fara aðeins út í eða eins langt og ég næ á þessum níu mínútur sem ég á eftir, virðulegi forseti, af þessari ræðu.

Vissulega, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á rétt áðan, hefur mannkynið neytt hugvíkkandi efna í árþúsundir. Vímuefni á borð við ópíum, kóka, kannabis, khat, peyote, betel og kava hafa verið notuð í alls kyns tilgangi í gegnum þessi árþúsund. Mannfólkið hefur m.a. notast við þessi efni til lækninga, til trúarlegra athafna, til næringar sem og til að skemmta sér saman. Neysla vímuefna er því alls ekki nýtt fyrirbrigði og horfi maður til þessarar löngu sögu vímuefnaneyslu mannkynsins má horfa á alþjóðlegar tilraunir til að banna ræktun, framleiðslu, dreifingu og neyslu vímuefna sem spánnýs fyrirbrigðis.

Bannstefnan fæddist á 20. öldinni og hana má að hluta til rekja til þess að með auknum milliríkjaviðskiptum og fólksflutningum jókst neysla vímuefna verulega. Skaðleg áhrif óhóflegrar neyslu urðu meira áberandi í samfélaginu. Það er þó mikil einföldun að halda því fram að það sé eina ástæðan fyrir því alþjóðlega lagaumhverfi sem ríkir um vímuefnaneyslu jarðarbúa í dag. Heimurinn fyrir 100 árum var ekki svo ólíkur heiminum sem við upplifum í dag því að rétt eins og nú var heiminum þá stjórnað með tilliti til viðskiptahagsmuna valdamestu þjóðanna. Tilurð og þróun alþjóðlegrar bannstefnu gegn vímuefnum ber þess einmitt sterkt vitni.

Á 19. öld neytti fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins kóka og ópíums, t.d. í Kanada og Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu. Efnanna var neytt á fjölbreytilegan hátt, þau voru aðallega notuð sem verkjalyf eða róandi lyf. Lítið sem ekkert eftirlit var með neyslu efnanna, hvort sem heldur af hendi lækna eða ríkis. Almenningsálitið var á þá leið að neysla vímuefna væri val hvers og eins og samfélagið leit ekki niður á þá sem það gerðu. Lítið var hins vegar vitað um virkni vímuefnanna og því var algengt að fólk yrði háð þeim eða notaði þau fram úr hófi. Þannig má nefna að algengast var að millistéttarkonur, oftast húsmæður, væru háðar ópíum eða kókaíni, eða fólk sem vann í heilbrigðisgeiranum.

Á þessum tíma var ópíumneysla einnig mjög útbreidd í Kína og nágrannalöndum þess. Í gegnum söguna höfðu Kínverjar neytt ópíums sem hluta af helgiathöfnum, á tyllidögum og mannfögnuðum. Ópíum var einnig notað sem verkjalyf vegna ólæknandi eða krónískra sjúkdóma. Flest heimili áttu ópíum í verkjaskápnum þar sem það var notað sem lyf við hinum ýmsu sjúkdómum. Þrátt fyrir að ópíumneysla væri mjög algeng í Kína var mjög sjaldgæft að fólk ánetjaðist efninu og almennt neyttu Kínverjar ópíums á ábyrgan hátt og í hóflegu magni og hafði því neysla efnisins hvorki skaðleg áhrif á heilsu né langlífi meiri hluta neytenda heldur þvert á móti. Almenningsálitið átti þó eftir að breytast verulega, bæði í Kína sem og á Vesturlöndum. Um hálfri öld fyrir aldamótin 1900 hófust nefnilega gríðarlegir fólksflutningar frá Kína til Evrópu, Kanada, Bandaríkjanna og Ástralíu. Talið er að á þessu tímabili hafi um 2 milljónir Kínverja verið fluttar til Vesturlanda sem ódýrt vinnuafl. Aðkoma þeirra átti stóran þátt í breyttu viðhorfi Vesturlandabúa gagnvart vímuefnaneyslu. Mikil andúð og rasismi mætti kínverskum innflytjendur vestan hafs og ópíumreykingar þeirra urðu mikið áhyggjuefni. Þannig urðu ópíumreykingar ógnandi athæfi. Þær voru kallaðar kínversk plága sem leiddi til siðleysis, aukinna lögbrota og almennrar samfélagslegrar hnignunar. Þessi augljósi rasismi og fordómar eru talin hafa valdið því að mörg lönd settu í fyrsta sinn lög um neyslu vímuefna og þá sérstaklega um ópíumreykingar útlendinga.

Í Kína varð viðsnúningur á viðhorfum gagnvart ópíumneyslu af öðrum ástæðum en þó beintengdum. Kínverska valdastéttin áleit gríðarlegt framboð ópíums og vandamálin sem fylgdu neyslu þess bera vitni um óvelkomna íhlutun vesturveldanna. Kína hafði verið þröngvað til ópíumviðskipta við Breta eftir að þeir síðarnefndu sigruðu þá fyrrnefndu í ópíumstríðunum 1839–1842 og 1856–1860 og til að ljúka fyrra stríðinu hafði kínverska stjórnin þurft að undirrita Nanking-sáttmálann þar sem breska heimsveldinu áskotnuðust full yfirráð yfir Hong Kong. Það var síðan aðallega þaðan sem Bretar sigldu með milljónir Kínverja úr landi til að nota sem ódýrt vinnuafl á Vesturlöndum.

Nanking-sáttmálinn neyddi kínversku stjórnina til að opna fyrir viðskipti við Breta í nokkrum hafnarborgum Kína en Bretar notuðu þessa skilmála m.a. til að flytja þangað óhóflegt magn af ópíum frá Indlandi. Það var því blanda af rasisma og vilji fyrir siðferðisumbótum sem varð til þess að Vesturlönd byrjuðu að beita sér fyrir alþjóðlegri stjórn á ópíumviðskiptum á seinni hluta 19. aldar. Kínverjar á hinn bóginn álitu alþjóðlega stjórn nauðsynlega til að berjast gegn nauðungarviðskiptum sínum við breska heimsveldið.

Bandaríkin og Kína voru þau lönd sem börðust hvað harðast fyrir því að banna og refsivæða vímuefni á heimsvísu. Fulltrúar þeirra gengu út af ópíumráðstefnunni árið 1925 þar sem þeir töldu of litlar líkur á því að útkoma ráðstefnunnar myndi leiða í lög nægilega strangar hömlur á viðskipti. Á meðan Bandaríkin reyndu sitt ýtrasta til að koma á alþjóðlegu banni á áfengi og annars konar vímuefni græddu gömlu nýlenduríkin á tá og fingri á framleiðslu þeirra. Gömlu nýlenduríkin áttu gríðarstór ræktunarlönd í nýlendum sínum og einokuðu mjög arðbæran markað fyrir ópíum í Asíu. Þau sáu líka lyflækningamörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum fyrir kókaíni, ópíum, heróíni og morfíni, en eftirspurn eftir kókaíni hafði farið gríðarlega vaxandi í Evrópu í fyrri heimsstyrjöld. Það var notað sem svefnlyf og geðlyf og til að auðvelda hermönnum að ráða við sálfræðilegar afleiðingar hryllingsins sem fylgdi skotgrafahernaði. Lyfjafyrirtæki í Þýskalandi, Hollandi og Bretlandi sóttu hvað mestan gróða í sölu á kókaíni á stríðsárunum.

Bandaríkjamenn höfðu töluvert öðruvísi siðferðiskennd og lífsviðhorf en gömlu nýlenduríkin og voru þar af leiðandi í töluverðri andstöðu vegna sinnar sannkristnu púrítanísku viðhorfa sem gætti meðal bandarískra leiðtoga á þessum tíma, á millistríðsárunum. Bandaríkjamenn bönnuðu áfengi og önnur vímuefni í viðleitni sinni til að lifa algjörlega flekklausu lífi hér á jörð, eins og það var orðað, en yfirvöld í Evrópu létu sér samt sem áður ekki segjast.

Bannárin svokölluðu í Bandaríkjunum stóðu frá 1920–1933 þegar Bandaríkjastjórn leyfði aftur framleiðslu og neyslu áfengis en á þessu tímabili reyndu Bandaríkjamanna eftir fremsta megni að koma á bannstefnu gegn öðrum vímuefnum í anda áfengisbannsins á heimsvísu. Auðvitað var þessi herferð ekki einungis byggð á trúarhita og kristilegri hugmyndafræði heldur höfðu forsprakkarnir verulegra þjóðarhagsmuna að gæta með því að berjast á vel auglýstan hátt gegn alþjóðlegum viðskiptum með ópíum. Þar sáu þeir sér leik á borði að draga verulega úr gríðarlegum hagnaði nýlenduríkjanna gömlu. Annar hvati fyrir stefnu Bandaríkjanna var að þeir vildu koma sér í mjúkinn hjá kínverskum stjórnvöldum til að auka viðskipti milli landanna tveggja.

Strax á fyrstu árum áfengisbannsins í Bandaríkjunum varð sprenging í skipulagðri glæpastarfsemi. Stjórnmálamenn, lögreglumenn og glæpamenn sáu margir sér áhættulítinn leik á borði til að græða stórkostlega á nýjum svörtum markaði með áfengi. Leiðtogar í Evrópu voru langt frá því að vera sannfærðir um ágæti þess að innleiða sömu bannstefnu þegar sögur bárust frá Bandaríkjunum um að mafíur og önnur glæpasamtök hefðu náð yfirráðum yfir heilum borgum vestan hafs. Bandaríkjamönnum tókst því ekki að semja um alþjóðlega bannstefnu fyrr en eftir seinna stríð en þá höfðu Bandaríkin einmitt nógu mikinn áhrifamátt til að þrýsta í gegn markmiði sínu um vímuefnalausa veröld.

Þetta er bara mjög stutt upprifjun af fyrstu skrefunum í sögu bannstefnunnar. Bann við áfengi var við lýði í frekar stuttan tíma í Bandaríkjunum en þegar það leið undir lok var tekið upp á því að sníða nákvæmlega sama kerfi utan um bannstefnu gegn vímuefnum nema það gekk töluvert betur að flytja hana út, með efnahagsþvingunum og líka með hótunum um ofbeldi af hálfu Bandaríkjanna, en kannski einmitt bannstefnu þeirra af púrítanískari kantinum gegn áfenginu. Það á sér svo sem margar skýringar og sögur hvers vegna það gekk betur þá, væntanlega vegna þess að Bandaríkin stóðu uppi sem sigurvegarar í seinni heimsstyrjöld og höfðu mjög mikil áhrif eftir það. Stríðið gegn fíkniefnum hefur alltaf verið mjög þægilegur stefnupunktur fyrir Bandaríkin vegna þess að þarna er verið að berjast við ósýnilegan óvin. Hann deyr aldrei og það er mjög auðvelt að draga hann upp þegar sælast á af hálfu ríkisins í meira vald yfir borgurunum.