149. löggjafarþing — 121. fundur
 12. júní 2019.
um fundarstjórn.

beiðni um frestun umræðu.

[13:15]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að okkar kæri vinur, forseti Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, kemur í þingið kl. 13.45 og skilaboðin eru alveg skýr um að við eigum að haga okkur skikkanlega meðan hann er. Ég held líka að það sé mikilvægt að svo verði, að við sýnum ákveðna virðingu þegar hann er hér. Þess vegna nota ég tækifærið núna áður en hann er kominn í hús til að beina því til forseta að frekar verði gert hlé núna á þingfundi, a.m.k. að fiskeldið verði ekki tekið til umræðu. Það er eitt af þeim málum sem við höfum verið að ræða um. Þetta mál verður afgreitt en það þarfnast umræðu. Það er ekki hægt að fara í umræðu um svo mikilvægt mál í svona miklu ósætti.

Ég verð því miður að segja að stjórn þingsins er frekar losaraleg þessa stundina og það er ekki hægt að bjóða upp á bútasaumsumræðu um jafn mikilvægt mál og fiskeldið er meðan við erum ekki búin að ná saman. Þess vegna hvet ég forseta til að gefa okkur frekar tíma til að ná samkomulagi um málefnalyktir hér á þingi en að demba inn í dagskrána máli sem ég mun taka þátt í og ræða ítarlega.



[13:17]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Getu- og viljaleysi meiri hlutans til að ná einhverju samkomulagi um þingstörfin er með miklum eindæmum. Þrátt fyrir að stærstur hluti minni hlutans á þingi hafi sýnt mikla ábyrgð og mikinn vilja til að ná fram lausn varðandi þingstörfin hefur ekkert útspil komið af hálfu meiri hlutans. Nú er verið að misnota þá stöðu sem er í þinginu þar sem óskað er eftir eðlilegum, kurteislegum þingstörfum hér undir heimsókn Þýskalandsforseta til að setja umdeilt mál á dagskrá sem þarfnast mikillar umræðu og sem gengur þvert á það þó eina samkomulag sem náðst hefur milli meiri hluta og minni hluta, að umdeild mál yrðu ekki tekin á dagskrá fyrr en tekist hefði að semja um þingstörfin og þinglok. Þetta veldur miklum vonbrigðum.



[13:18]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með kollegum mínum sem töluðu á undan. Það er ekki vilji okkar að vera með einhver leiðindi endilega en ég vil benda á að það er ekki búið að semja við, ja, það sem ég myndi kalla málefnalega minni hlutann um þinglok. Fiskeldið er eitt af þeim málum sem þarfnast mikillar umræðu, sem hefur verið nefnt svokallað ágreiningsmál og það eru nokkur mál þar undir sem var okkar skilningur að yrðu ekki tekin á dagskrá fyrr en búið væri að semja um þinglok. Þess vegna þykir mér þetta á skjön við það samtal sem við höfum átt um að þetta mál, fiskeldi, og önnur mál verði geymd þar til við erum búin að ræða við forsætisráðherra og komast að einhvers konar samningum um þinglok. Mér finnst það mikilvægt. En núna á að setja það mál á dagskrá þrátt fyrir að ég og aðrir hafi beðið um að það yrði ekki sett á dagskrá. Það verður augljósara og augljósara (Forseti hringir.) að það á ekki að hafa neitt samráð við okkur um dagskrána. (Forseti hringir.) Forseti þingsins gerir bara það sem honum sýnist. Þess vegna erum við í fundarstjórnarumræðu.



[13:19]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég veit ekki hvernig ég á að orða þetta til að vera nógu málefnalegur fyrir minn smekk, en ég held að allir átti sig á því að mögulegir samningar um þinglok núna eru óvenjuerfiðir og flóknir. Í því að það sé erfitt að koma þeim saman er ekki fólginn neinn illvilji. Ég held að allir séu að reyna sitt besta í þeim efnum, í það minnsta er ég að leggja mig fram til að reyna að ná ásættanlegum lokum fyrir virðingu þingsins og okkur öll hér.

Ég veit ekki annað en að mál um fiskeldi hafi verið unnið í mikilli samvinnu milli stjórnar og stjórnarandstöðu, innan nefndar sem utan. Ég veit ekki hve marga fundi ég hef átt um þetta mál, bæði formlega og óformlega, til að upplýsa nákvæmlega hvar málið er statt. Ég hef heldur ekki skynjað annað en að allir vilji að málið í einhverju formi nái í gegn.

Nú er verið að æskja þess að mælt sé fyrir málinu og nýttur tíminn sem er núna. Auðvitað viljum við nýta hverja stund. (Forseti hringir.) Ef við erum klók í bústörfum þá viljum við nýta hverja stund þegar fáar eru til að koma okkur áfram, það sé mælt fyrir málinu (Forseti hringir.) og við hefjum umræðu. Það er enginn að tala um að ljúka henni núna.



[13:21]
Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og öðrum sem hafa mælt á þann veg að það væri sæmst að haga dagskrá þingsins með öðrum hætti en hér hefur verið boðað. Við eigum von á aufúsugesti og það er að sönnu rétt að þetta mál sem er á dagskrá hefur fengið mikla umræðu og mikla meðferð en það er einu sinni þannig að það eru þýðingarmikil atriði í málinu sem standa út af, eins og kom reyndar glögglega fram á fundi hv. nefndar núna í hádeginu. Þetta mál hentar í raun og sanni ekki sem mál á dagskránni þegar við eigum von á viðburði af því tagi sem við eigum von á hérna á eftir og er mikið ánægjuefni og tilhlökkunarefni. Þetta hentar ekki. Ég mælist til þess, frú forseti, að tekinn verði upp annar háttur.



[13:22]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ef það væri vilji til að klára samninga við málefnalega minni hlutann af hálfu ríkisstjórnarinnar væri það hægt og hægt að gera það mjög fljótt. Það er rosalega lítið sem stendur út af vegna þess að við höfum að nálgast þetta gríðarlega málefnalega. Við höfum leyft öllum málum sem ekki er ágreiningur um að rúlla í gegnum þingið og samþykkja þau en út af stendur að meðan við vorum að tala um að við værum tilbúin að hreyfa við þeim málum sem væri ekki andstaða við sögum við að það myndi stoppa á þeim málum sem væri ágreiningur um og að við þyrftum að semja fyrir þann tíma. Sá tími hefur ekki verið nýttur af hálfu ríkisstjórnarinnar og þess vegna erum við komin í þessa leiðinlegu stöðu í málum sem er annars alveg hægt að ná í gegn þó að það sé andstaða við þau. Núna byrjar þetta bara að stranda á því að forseti þingsins ákveður að setja á dagskrá mál sem hann veit og hefur verið talað um að þurfi að ná samstöðu um og er hægt að ná samstöðu um við málefnalega minni hlutann. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir tali við sitt lið, hói saman málefnalega minni hlutanum og klári samninga við hann.



[13:23]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Við erum einmitt á þeim tímapunkti — stundum er leiðinlegt að tala þannig, við sem höfum verið hérna eitthvað aðeins lengur en margir — sem við óttuðumst þegar við vorum að farin að tala um að leyfa málunum að fara í gegn. En við sögðum: Við vildum vera málefnaleg, við vildum hleypa málinu í gegn. Hér á árum áður var farið í hvert einasta mál og það stoppað til þess að halda samningsstöðu. (Gripið fram í: Satt.) Við ákváðum að gera það ekki í ábyrgu stjórnarandstöðunni. Við ákváðum að hleypa málum að og hvað gerðum við í gær? Meiri hluti stjórnarandstöðunnar hjálpaði málum ríkisstjórnarinnar í gegn. Ég velti því fyrir mér, ágæti hæstv. forseti: Hvað þýðir það fyrir okkur? Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur að vera málefnaleg í stjórnarandstöðu? Við fáum ekkert, það er aldrei tekið tillit til okkar, ekki við uppsetningu á dagskrá, ekki í samskiptum, ekki einföldum óskum um að gera hlé, breyta dagskrá meðan við náum saman, af því að það er stutt í að alla vega langstærstur hluti stjórnarandstöðunnar nái saman við ríkisstjórnina. En það er ekki hlustað. (Forseti hringir.) Auðvitað staldrar maður við þegar sagan og reynslan er þessi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:25]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Margt gæti mönnum dottið í hug að segja af þessu tilefni en það ætla ég að láta ógert. Það er rétt sem hér kom fram að við stöndum frammi fyrir óvenju flóknum viðræðum og þinglokum. Stjórnarandstaðan, a.m.k. þeir fjórir flokkar sem hafa unnið saman, hefur sýnt alla þá sanngirni, þolinmæði og umburðarlyndi sem mögulegt er við þessar aðstæður. Og til að því sé haldið til haga þá höfum við líka átt ágætissamskipti við hæstv. forsætisráðherra, en hún virðist ekki alltaf vera samstiga forseta. En það vil ég segja við hv. þingmann Kolbein Óttarsson Proppé að það er rétt að það skiptir máli að sýna búhyggindi en það þýðir ekkert að hlaupa bara út með hrífurnar (Forseti hringir.) áður en fólk er búið að koma sér saman um hvernig á að vinna verkið.



[13:26]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Enn einu sinni líður mér eins og ég sé komin á minn gamla vinnustað, leikhúsið. Hér erum við komin í þjóðarleikhúsið þar sem við eigum að stilla okkur upp í viðhafnarklæðum til að heiðra forseta erlends ríkis á meðan hæstv. forseti Alþingis ákveður að henda hérna inn ákveðinni sprengju. Hvaða framkoma er þetta eiginlega? Hér eru mjög viðkvæmar samningaviðræður í gangi. Það var löngu vitað að umræddur erlendur þjóðhöfðingi kæmi á þessum tímapunkti, Ef það skiptir máli að hafa hérna ró og frið og alla prúðbúna í salnum þegar þjóðhöfðinginn kæmi á svið, kæmi hér á viðhafnarsvalir, hvers vegna er þá ekki sett mál á dagskrá sem er ekki ágreiningsmál, eitt af þeim málum sem hefði lullað í gegn í sátt og samlyndi? Það virðist vera vilji til ágreinings, vilji til deilna (Forseti hringir.) við stjórnarandstöðuna sem er að knýja áfram hæstv. forseta þingsins. Þetta er alveg furðuleg framkoma.