149. löggjafarþing — 122. fundur
 13. júní 2019.
dýrasjúkdómar o.fl., 2. umræða.
stjfrv., 766. mál (innflutningur búfjárafurða). — Þskj. 1217, nál. m. brtt. 1674, nál. 1823.

[22:20]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Ég mun stikla á stóru úr nefndarálitinu sem er nokkuð langt og ítarlegt. Ég mun aðeins fara yfir nokkur lykilatriði. En með frumvarpinu er lagt til að núverandi leyfisveitingakerfi við innflutning á tilteknum landbúnaðarafurðum frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins verði lagt af. Felur það í sér breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Samkvæmt núverandi leyfisveitingakerfi þarf sérstakt leyfi Matvælastofnunar til að flytja inn kjöt, egg og ógerilsneyddar mjólkurvörur til landsins. Eftir breytingarnar þarf eftir sem áður leyfi Matvælastofnunar til að flytja slíkar vörur inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Líkt og ég kom inn á í 1. umr. kom ekki annað til greina en að takast á við þá stöðu sem komin var upp. Dómar voru fallnir á ríkið í Hæstarétti og EFTA-dómstólnum vegna svokallaðrar frystiskyldu. Við þessari stöðu er verið að bregðast með frumvarpinu. Leyfisveitingakerfið og frystiskyldan verður afnumin og því verður matvælalöggjöfin komin í takt við það sem íslensk stjórnvöld skuldbundu sig til að gera fyrir hartnær 12 árum en þó með því fororði að þau matvæli sem flutt eru til landsins skulu fara eftir þeim kröfum sem við setjum á innlend matvæli með tilliti til matvælaöryggis.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og fengið fjöldann allan af gestum. Í umfjöllun nefndarinnar var bent á, m.a. af Matvælastofnun, að óvíst væri hvort tækist að ljúka tilteknum aðgerðum áður en frystiskyldan yrði afnumin. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir 1. september nk. sérstaklega og var þar vísað til viðbótartrygginga vegna svína- og nautakjöts. Í ljósi þess að ekki stendur til að taka neina áhættu í matvælaöryggi telur meiri hluti nefndarinnar rétt að fresta gildistöku um tvo mánuði. Meiri hluti nefndarinnar telur að sú frestun muni ekki hafa teljandi áhrif á þá hagsmuni sem fjallað hefur verið um. Fram komu sjónarmið í umfjöllun nefndarinnar um að samþykkt frumvarpsins muni hafa áhrif á tekjur innlendra framleiðenda. Þannig þurfi að bæta samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar til að vinna á móti tekjusamdrættinum. Ágreiningur er þó milli umsagnaraðila um umfang þessa tekjusamdráttar.

Samhliða þessu frumvarpi kynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra aðgerðaáætlun í 15 liðum til að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Nefndin ákvað eftir umfjöllun að skjóta enn styrkari stoðum undir þá aðgerðaáætlun hæstv. ráðherra og flytur nefndin því þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni verði falið að hrinda aðgerðaáætluninni í framkvæmd. Með þingsályktunartillögunni felur Alþingi ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun til að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þessi tillaga var unnin samhliða vinnu við síðasta mál um afnám svokallaðrar frystiskyldu. Hún er því lögð fram af allri atvinnuveganefnd og mun sú sem hér stendur mæla fyrir þeirri þingsályktunartillögu í framhaldinu. Meginhluti tillögunnar var kynntur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra samhliða framlagningu frumvarpsins um afnám frystiskyldu. Eftir umfjöllun nefndarinnar var ákveðið að flytja þessa þingsályktunartillögu til að gefa aðgerðaáætlun ráðherra meira vægi og renna traustari stoðum undir hana.

Atvinnuveganefnd bætir við tveimur aðgerðum sem ég mun fjalla um á eftir þar sem ákveðnar breytingar eru gerðar á nokkrum aðgerðum. Þar sem ég tel að það skipti máli í öllu þessu samhengi mun ég fara aðeins yfir það líka hér og nú. Aðgerðaáætlunin er því í 17 liðum og bendi ég þeim sem hafa áhuga á þessu máli að kynna sér vel og ítarlega greinargerðina yfir allar þessar aðgerðir og hvað í þeim felist. Ætla ég hér að fjalla um þau atriði sem ég tel vera mikilvægust og þau atriði sem nefndin bætti við aðgerðaáætlun ráðherra

Í 5. lið aðgerðaáætlunarinnar er fjallað um að ráðist verði í átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Á síðari árum hefur ónæmi gegn sýklalyfjum farið vaxandi í heiminum. Slíkt gerir meðferð ýmissa hættulegra sýkinga erfiða og kostnaðarsama og í sumum tilvikum ómögulega. Sýklalyfjaónæmi á Íslandi hefur verið umtalsvert minna vandamál en í nálægum löndum. Ísland ætlar að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga og á grundvelli lýðheilsusjónarmiða miða munu íslensk stjórnvöld stefna að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þessu skal náð m.a. með með banni við dreifingu tiltekinna sýklalyfjaónæmra baktería í matvælum að undangenginni greiningu á stöðunni, uppsetningu eftirlits og í samræmi við opinbera stefnu í aðgerðum vegna útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

Mikilvægt er að kallaðir séu til færustu sérfræðingar í því skyni að móta aðgerðir sem miði að því að lágmarka áhættu sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum.

Einnig er fjallað um mikilvægi þess að efla nýsköpun í innlendri matvælaframleiðslu í lið 10 en lagt er til að setja á fót sjóð með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS, rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Með því að sameina þessa sjóði megi efla nýsköpunarumhverfi atvinnugreinanna. Til að ná því markmiði verður að setja aukið fjármagn í slíkan sjóð en jafnframt þarf að tryggja að hlutfallsleg skipting fjármagns til atvinnugreinanna verði með sambærilegum hætti og nú er.

Þá leggur nefndin til að bæta við tveimur aðgerðum til viðbótar við hinar 15 sem fyrir voru. Þær snúa annars vegar að því að endurskoða tollskrá fyrir landbúnaðarvörur með því markmiði að inn- og útflutningur verði flokkaður betur og nákvæmar en nú er. Þeirri vinnu skal ljúka haustið 2019. Það er mjög mikilvægt að fá betri söfnun hagtalna til að fá yfirsýn yfir þær vörur sem fluttar eru til landsins. Hins vegar verður ráðist í sérstakt átak í framhaldinu varðandi afnám leyfisveitingakerfisins í fjóra mánuði. Það verður aukið átak í eftirliti fyrstu fjóra mánuði eftir að lögin taka gildi. Að þeim tíma liðnum verður tekin afstaða til þess hvernig framgangur þessa eftirlits verður. Komi í ljós miklar brotalamir á eftirliti er mikilvægt að fyrirkomulag þess verði endurskoðað frá grunni. Í átakinu verður lögð sérstök áhersla á sýnatökur og skoðun á vottorðum vegna salmonellu og kampýlóbakter. Þá verður tíðni skyndiskoðana aukin á þeim tíma. Þannig verði hægt að tryggja áreiðanleika viðbótartrygginganna.

Við fjöllum um þessa þingsályktunartillögu á eftir þar sem ég renni yfir alla liði hennar en ég tel að hún muni skjóta traustari stoðum undir innlenda framleiðslu og lýðheilsu landsmanna. Það er verkefni okkar allra, tel ég, að íslenskur landbúnaður verði samkeppnishæfur með því að gæði hans séu tryggð og séu í fyrsta sæti og gæðin séu vonandi enn betri en innfluttra matvæla.

Síðan vísa ég í nefndarálitið varðandi breytingartillögurnar við hverja grein lið fyrir lið. Undir nefndarálitið rita Lilja Rafney Magnúsdóttir framsögumaður, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, með fyrirvara, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Njáll Trausti Friðbertsson og Jón Þór Ólafsson, með fyrirvara. Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.



[22:32]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég geri mér grein fyrir því að forseta langar heim en það er nú óþarfi að flýta sér svona mikið. Mig langar að þakka nefndinni fyrir þessa vinnu. Ég held að eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns og formanns nefndarinnar — sú þingsályktunartillaga sem við ræðum síðar í dag — sé vissulega til bóta. En það sem ég óttast er að sú tillaga og frumvarpið sem við erum að ræða hér og þau góðu fyrirheit sem koma fram í frumvarpinu og nefndaráliti meiri hlutans séu enn bara orð á blaði vegna þess að ég fæ ekki séð að það sé búið að tímasetja nema lítinn hluta af því sem hér á að gera, hvað þá að fjármagna allt sem þarna á að gera.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji ekki að það væri nauðsynlegt að fyrir lægi tímasett áætlun. Ef við ætlum að láta þessi lög taka gildi á næstu mánuðum gera sér allir grein fyrir því sem einhvern tímann hafa komið nálægt íslenskri stjórnsýslu að það mun taka mörg ár að ná þessu öllu fram ef ekki er sett pressa á að það gerist með samþykktri tímaáætlun og að fjármagn sé tryggt. Því spyr ég: Er búið að tryggja fjármagn í allar þær aðgerðir sem hér eru boðaðar? Ef ekki, hvernig í ósköpunum er þá hægt að leggja á borð fyrir þingið að þetta sé allsherjarlausn á áhyggjum bænda og okkar sem höfum áhyggjur af því að sá innflutningur sem heildsalarnir viljað ráðast í leiði ekki til þess að íslenskur landbúnaður, dýraheilbrigði og heilsa manna bíði tjón af? Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því? Ætlar þingmaðurinn að fara út í héruð núna og segja við bændur landsins að hafa engar áhyggjur af þessu, þetta muni allt ganga eftir og verða fjármagnað?



[22:34]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður veit eru fallnir tveir dómar, bæði í Hæstarétti og EFTA-dómstólnum. Við því er ekki annað að gera en að bregðast við. Ég treysti þessari ríkisstjórn og þeim hæstv. ráðherra sem situr í stól sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vel fyrir því að fylgja þessu máli eftir sem og þingheimi öllum. Það verður tryggt fjármagn til að fylgja þessu eftir. Ég efast ekkert um að það verði gert.

Nefndin hefur unnið gífurlega vel að þessu máli og við höfum fengið til liðs við okkur færasta fólk til að útbúa þetta mál eins og það er og við höfum ekki fengið neinn stuðning, neinar tillögur eða hugmyndir frá Miðflokknum í þeim efnum. Það hafa ekki komið neinar tillögur úr þeirri átt svo mér finnst ansi holur hljómur í því að vera að gagnrýna og treysta ekki stjórnvöldum til að fylgja þessu máli eftir. Margur heldur mig sig í þeim efnum. Ég vísa því til föðurhúsanna að menn geti nú á síðustu stundu komið með einhverja efnislega gagnrýni á málið en hafa ekki lagt fram snifsi til að koma með tillögur til að mæta hæstaréttardómi og EFTA-dómstólnum.



[22:35]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki alveg hvar hv. þingmaður er staddur. Auðvitað gerum við okkur öll grein fyrir því að það þarf að bregðast við dómnum. Var einhver að draga það í efa? Það var enginn að draga það í efa. En ég vil gjarnan nota tækifærið, fyrst hv. þingmaður kannast greinilega ekki við það, eða vill ekki kannast við það, og benda á að Miðflokkurinn hefur flutt tvö þingmál á þessu þingi er varða einmitt hag neytenda þegar kemur að landbúnaðinum. Annað þingmálið fjallar m.a. um að það verði sett á matvælavörurnar hvert kolefnissporið sé til að neytendur geti gert sér grein fyrir kolefnisspori vörunnar þegar þeir versla. Það var frá hv. varaþingmanni Þorgrími Sigmundssyni.

Síðan fluttum við annað þingmál sem er líklega fast í nefnd hv. þingmanns sem hefði verið nær að afgreiða það mál. Það snýr að því að í verslunum séu neytendur upplýstir um hvaða lyfjainnihald sé mögulega í vöru sem þeir ætla að kaupa, að neytendur geti valið í versluninni um vöru sem er alin og framleidd á stað þar sem er notað lítið af lyfjum í stað vöru þar sem notað er mikið af lyfjum. Af hverju afgreiddi hv. formaður nefndarinnar það ekki út úr nefndinni? (HSK: Var það fullfjármagnað?) Af hverju var það ekki afgreitt?

Þetta er nefnilega vandinn, virðulegur forseti, sem við stöndum frammi fyrir hér. Það hafa komið fram góð mál er snerta þetta, góð mál til að upplýsa neytendur um hvaða hætta getur verið á ferðinni — en þau hafa ekki fengist afgreidd úr nefndinni hjá hv. formanni þessarar atvinnuveganefndar.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég fagna þessu máli og ég fagna breytingunum hjá nefndinni. Þær eru til bóta, það er engin spurning. Þær eru til bóta — en við verðum að tryggja að þetta gangi eftir. Það er það sem ég efast um og sem ég sakna í afgreiðslu frá nefndinni, að þessar góðu hugmyndir séu allar settar í tímasetta röð og tryggt að fjármagnið fáist. (Forseti hringir.) Ég treysti alveg hv. þingmanni til að berjast fyrir fjármagninu en ég veit ekki hvernig afgreiðslan á því verður hins vegar hjá ríkisstjórn.



[22:38]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að heyra að hv. þingmaður treystir þeim þingmanni sem hér stendur. Það er gott að heyra og þá treysti ég því að hann leggi sig líka fram við að vera þakklátur fyrir þá vinnu sem er búið að leggja í þetta mál. Hún er ekki hrist fram úr erminni og hv. þingmaður sem hefur gegnt starfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þekkir ýmislegt sem kemur að þessum málum og ég veit ekki betur en að kallað hafi verið eftir því í tíð hæstv. ráðherra að því yrði fylgt eftir að fá upprunamerkingar á innfluttar landbúnaðarvörur. Það var kallað eftir því og það tók ansi langan tíma að fá einhver viðbrögð við því. (GBS: Starfshópur skipaður.) Starfshópur skipaður, já, (Gripið fram í.) það tók ansi langan tíma og ég veit að af hálfu atvinnuveganefndar á þeim tíma var sérstaklega haft á orði að ekkert væri að gerast í málinu.

Nú skulu bara allir líta í eigin barm í þessum efnum. Við í atvinnuveganefnd erum búin að vinna mikla vinnu með okkar færustu sérfræðingum til að búa málið í þennan búning og ekki hafa komið neinar tillögur um akkúrat þetta mál, hvernig á að bregðast við. Á að gera eitthvað öðruvísi eða til viðbótar? Ekki hafa komið neinar tillögur um það í nefndinni frá fulltrúum Miðflokksins svo að við verðum bara að ræða málin eins og þau eru.

Ég hef ekki fundið annað en að fulltrúar Miðflokksins, hv. þingmenn, sómamenn, hafi verið mjög ánægðir með þá vinnu sem hefur verið unnin til að styrkja þetta mál gagnvart þeim breytingum sem verða þegar innflutningur matvæla til landsins eykst og að við séum að styrkja íslenskan landbúnað til að mæta þeim breytingum sem óhjákvæmilega verða (Forseti hringir.) til þess að við göngumst undir þá matvælalöggjöf sem við innleiddum fyrir 12 árum.



[22:40]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, þótt fyrr hefði verið að þetta mál kæmi fram. Ég vil um leið og ég segi það þakka fyrir að það er komið fram og líka hvernig mál voru afgreidd í nefndinni. Ég verð að segja að ég var smeyk við að nefndin, og ekki síst ríkisstjórnarflokkarnir, myndu fara hvaða leið sem þeir gætu fundið til að tefja málið, torvelda það, koma með aukakröfur, skýrari reglur, skarpari, strangari, allt til þess að torvelda málið. Það sem hins vegar gerðist var að menn fóru af mjög miklum heiðarleika yfir málið, settu fram skýra aðgerðaáætlun, aðgerðir til mótvægis varðandi innflutning á fersku kjöti og það er ekki hægt að setja út á það. Ég vil hrósa hv. formanni nefndarinnar fyrir það.

Mér finnst hins vegar miður að upplifa það — og var á móti því — að gildistökunni sé seinkað. Ég held að það sé afráð en skil hins vegar sjónarmið meiri hlutans. Menn vilja gefa ákveðið svigrúm til að fara betur í mótvægisaðgerðirnar — og ég vil aftur hrósa ríkisstjórnarflokkunum hvað það varðar að þeir taka alþjóðaskuldbindingar sínar alvarlega. Það er stórmál ef við Íslendingar ætlum ekki að gera það. Og þó að í stjórn séu flokkar sem vilja hafa landið sem mest lokað fyrir innflutningi, m.a. á landbúnaðarvörum, fylgja þeir eftir alþjóðaskuldbindingum sem er búið að taka hátt í tíu ár að reyna að fylgja eftir og það hefur kostað íslenska ríkið, neytendur líka, stórfé, tugi milljóna. Þetta er alvörumál og þess vegna vil ég frekar segja að mér finnst nefndin hafa unnið vel. Ég var smeykust við það og er að vissu leyti líka enn þá smeyk við að það eigi að ýta málinu svolítið fram fyrir sig en það hefur ekki gerst. Menn hafa tekið á þessu af skynsemi, reynt að snerta þau álitamál sem fólk hefur sett fram í gagnrýni sinni á málið. Það hefur verið reynt að koma til móts við ýmis sjónarmið og fyrir það vil ég þakka. En þetta mál ber að afgreiða og það verður að fara áfram og það verður að klárast.



[22:43]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er gott að heyra að hv. þingmaður hefur upplifað þá vinnu sem verið hefur í nefndinni þannig að menn væru að bregðast málefnalega við þeim veruleika sem þessir dómar sýndu fram á að við þyrftum að bregðast við og gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar. Það væri ekki gott ef við værum ekki þar. Í öllu sem hefur farið fram í þessari vinnu erum við vissulega að reyna að mæta því að íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir breyttum veruleika með auknum innflutningi. Það er allt innan þeirra marka að við gerum sömu kröfu til íslensks landbúnaðar og erlendrar framleiðslu sem kemur hingað inn til landsins. Ég er bara ánægð með það. Auðvitað vilja þeir aðilar sem koma til með að flytja inn landbúnaðarvörur eðlilega að þetta taki gildi sem fyrst en ég hef samt þá tilfinningu að þeir muni sýna því ákveðinn skilning að þetta mál er þannig vaxið að menn þurfa líka aukið svigrúm til þess að vinna með þá þætti sem þarna eru undir varðandi viðbótartryggingar og annað sem við höfum heimild til að setja inn. Ég treysti því að sú samfélagslega ábyrgð sé ríkjandi hjá þessum aðilum að þeir horfi ekki í það þó að þarna sé seinkun um tvo mánuði á gildistöku. Ég er bara ánægð með að heyra að hv. þingmaður telur að við séum á réttri braut í þessum málum.



[22:45]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Frú forseti. Ég kem hingað til að gera grein fyrir áliti minni hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Tímans vegna mun ég bara stikla á stóru í þessu nefndaráliti en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Minni hlutinn bendir á að heilbrigði íslenskra búfjárstofna er mun betra en almennt er í Evrópu. Vegna einangrunar landsins er Ísland laust við fjölmarga dýrasjúkdóma sem hafa verið landlægir í Evrópu öldum saman. Af því leiðir að innlendir búfjárstofnar eru viðkvæmir fyrir smiti af slíkum pestum og fári þar sem viðnám þeirra er lítið sem ekkert. Minni hlutinn bendir á að notkun sýklalyfja hérlendis er mun minni en annars staðar í Evrópu og er íslenskur landbúnaður að þessu leyti í öfundsverðri stöðu. Til dæmis hefur tekist að halda kampýlóbakter í skefjum í eggja- og kjúklingabúskap og þykir árangur Íslendinga í þessum efnum eftirtektarverður. Minni hlutinn bendir á að mikilvægt er að viðhalda þessari einstöku stöðu sjúkdóma í íslenskum landbúnaði og viðhalda jafnframt hreinleika íslenskra landbúnaðarafurða.“

Í álitinu er vitnað í grein Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis á Keldum, sem birtist í Bændablaðinu 16. maí sl. þar sem hann hvetur alþingismenn til að standa gegn frumvarpinu, m.a. með vísan til framangreindra raka. Bendir Sigurður jafnframt á að áður óþekktir smitsjúkdómar hafi margoft borist til landsins með ógætilegum og óþörfum innflutningi og valdið stórfelldu tjóni og erfiðleikum, þrátt fyrir viðnámsaðgerðir og varúðarráðstafanir. Telur hann það sama eiga við um þær viðnámsaðgerðir sem boðaðar hafa verið, barist hafi verið gegn afleiðingum slíkra ákvarðana stjórnvalda og þó að tekist hafi að útrýma mörgum innfluttum smitsjúkdómum hafi það verið með ærnum tilkostnaði og fórnum. Sigurður bendir í grein sinni á að frumvarpið hafi jafnframt í för með sér aukna hættu á innflutningi sýklastofna sem engin lyf vinna á og að það sé hættulegt heilsu manna og dýra. Telur hann að verið sé að hrekjast undan þrýstingi hagsmunaafla innan lands og reglum erlendis frá.

Ég ætla að grípa hérna niður þar sem er vitnað í umsögn Félags eggjabænda þar sem bent er á að hætta sé á margvíslegum óafturkræfum afleiðingum fyrir íslenska eggjaframleiðslu og landbúnað í heild. Þar segir að heilnæmi íslenskra eggjaafurða sé eins og best verði á kosið og notkun sýklalyfja nær óþekkt svo áratugum skiptir. Innflutningur á erfðaefni sé háður mjög ströngum skilyrðum og því sé sjúkdómastaða með eindæmum góð. Bent var á að málið þyrfti meiri umfjöllun og lagt til að gildistöku yrði frestað enn frekar. Leggja þurfi línur um eftirlit og viðbótarvarnir og kröfur um að framleiðsluaðferðir séu ekki lakari en hérlendis.

Frú forseti. Ég vil grípa frekar niður í þetta álit minni hlutans, með leyfi forseta:

„Í umsögnum var enn fremur bent á að bæta þyrfti merkingar á innfluttu kjöti hvað varðar lyfjanotkun í framleiðslu eða upprunalandi og gera strangar kröfur um lekaheldar umbúðir, meðferð vöru og flutningsleiðir. Vel skilgreind viðbragðsáætlun þurfi að vera fyrir hendi þegar nær alónæmar eða alónæmar bakteríur greinist ásamt heimild til að stöðva dreifingu. Bent var á að í lögum verði að kveða skýrt á um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á að tryggja heilnæmi sem og viðurlög við brotum.“

Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin og bendir á í þessu samhengi að þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli á þskj. 1189 þar sem lagt er til að upplýsingar um notkun sýklalyfja í matvælaframleiðslu verði neytendum aðgengilegri. Aðdragandi málsins er vissulega vel rakinn í greinargerð með frumvarpinu, þar á meðal ferill málsins á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, samningsbrotamál gagnvart EFTA-dómstólnum og skaðabótamál fyrir innlendum dómstólum. Í því sambandi vakna spurningar um hvort nægilega hafi verið gætt að íslenskum hagsmunum á öllum stigum málsins og að þeirri sérstöðu sem landið óumdeilanlega hefur.

Eins og fram hefur komið, m.a. í máli framsögumanns meiri hluta, hefur meiri hlutinn lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Felur hún í sér mótvægisaðgerðir sem miða að því að vernda íslenskan landbúnað og búfé eftir að innflutningur landbúnaðarafurða verður heimill og hefur þeim aðgerðum fjölgað meðan málið hefur verið til þinglegrar meðferðar. Minni hlutinn bendir í sínu áliti á að í umsögn Bændasamtaka Íslands komi m.a. fram að samtökin leggist fyrst og fremst gegn því að frumvarpið verði samþykkt. Að öðrum kosti óskuðu samtökin þess að gildistöku laganna yrði frestað og gripið til aðgerða til að lágmarka það tjón sem orðið getur, annars vegar með því að tryggja fjármögnun og framkvæmd mótvægisaðgerða og hins vegar með því að fela þar til bærri stofnun að gera greiningarmörk vegna sýklalyfjaónæmra baktería í matvælum og banna markaðssetningu á afurðum sem í ræktast sýklalyfjaónæmar bakteríur.

Það er rakið í áliti minni hlutans að Landssamband kúabænda segir í umsögn sinni að nauðsynlegt sé að ráðast í mótvægisaðgerðir, hvort sem frystiskyldan verði afnumin eða ekki, og enn fremur að óraunhæft sé að nauðsynlegri vinnu við innleiðingu þeirra og fjármögnun yrði lokið fyrir áætlaða gildistöku. Minni hlutinn telur mótvægisaðgerðirnar góðra gjalda verðar og styður þær að sjálfsögðu, svo langt sem þær ná. Hins vegar tekur minni hlutinn undir framangreind sjónarmið og telur sýnt að mótvægisaðgerðirnar verði hvorki komnar til framkvæmda né fjármagnaðar að fullu áður en gildistaka er áætluð, líkt og Bændasamtökin bentu á, og telur því þörf á lengri fresti á þessu máli en áformaður er.

Minni hlutinn getur af þessum ástæðum ekki lagt til að málið verði samþykkt án þess að fyrir liggi tímasett áætlun mótvægisaðgerða og fjármögnun þeirra sé tryggð. Undir álitið rita sá sem hér stendur, Ólafur Ísleifsson, og Sigurður Páll Jónsson.

Frú forseti. Það hefði verið ástæða til að vísa í mun fleiri umsagnir en þarna er gert en hér hefur verið leitast við að hafa knappan texta og stutta framsögu. Ég vil sérstaklega geta mjög mikilvægrar umsagnar Læknafélags Íslands og mætti nefna fleiri góðar og vandaðar umsagnir sem liggja fyrir í þessu máli og ber að þakka fyrir þær.

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[22:54]
Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir ræðuna. Ég velti fyrir mér meðan ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns hvort hv. þingmaður, sem vitnaði til umsagna sem sendar voru inn til nefndarinnar, geri sér ekki grein fyrir því að þær umsagnir sem var vitnað til voru sendar inn löngu áður en lokaniðurstaða frumvarpsins var ljós. Þeir sem hafa fylgst með málinu frá upphafi hljóta að hafa tekið eftir því að það hefur tekið gríðarlegum breytingum í meðförum nefndarinnar.

Ég ætla að ræða þingsályktunartillöguna á eftir og því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji frystiskylduna öflugri vörn gegn þeirri vá sem hann boðaði í sinni ræðu en sú aðgerðaáætlun sem liggur hér á borðinu. Það verður fróðlegt að fá svar við því.

Einnig vitnaði hann í ágætan mann, Sigurð Sigurðarson, og grein sem hann skrifaði í Bændablaðið. Ég held að því miður hafi svipað verið komið fyrir þeim ágæta manni og þeim sem stóð hér á undan mér í ræðustól, að þeir hafi hvorugur kynnt sér lokaniðurstöðuna sem er í þessu plaggi.



[22:56]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið en ég get ekki þakkað honum fyrir að víkja að Sigurði Sigurðarsyni með þeim hætti sem hann gerði. Hann gjörþekkir auðvitað þetta mál og engin ástæða til að draga það í efa. Varðandi spurningu hv. þingmanns um frystiskyldu eða aðgerðaáætlun lít ég ekki þannig á að valið standi á milli þessara tveggja þátta. Það er nákvæmlega rétt sem segir í umsögn Landssambands kúabænda og er tekið upp í álit minni hlutans, að nauðsynlegt sé að ráðast í mótvægisaðgerðir, hvort sem frystiskyldan verður afnumin eða ekki. Það er auðvitað lykilatriði. Þetta mál hefur tekið miklum breytingum meðan nefndin vann að því. Mótvægisaðgerðirnar í frumvarpinu eins og það kom frá hæstv. ráðherra voru líklega einar 12, svo fjölgaði þeim í 15 og síðan í 17. Þetta er allt saman til bóta og þetta er stutt af okkar hálfu, alveg tvímælalaust. Spurningin er í mínum huga mjög einföld: Er óhætt að halda áfram með málið án þess að fyrir liggi tímasett áætlun og án þess að það liggi fyrir með óyggjandi hætti að fjármögnun þeirra aðgerða sem mótvægisáætlun gerir ráð fyrir sé fyllilega tryggð? Um það snýst málið.



[22:58]
Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér fannst ekki mikið kjöt á beinunum í svarinu varðandi það sem ég spurði hv. þingmann um, varðandi frystiskyldu. Það hafa komið fram vísindamenn og talað um að frystiskyldan sé í sjálfu sér bara töf. Það er ýmislegt sem fer þar í gegn. Nú er boðað í þingsályktunartillögu sem við komum til með að ræða á eftir bann við dreifingu á vörum sem innihalda fjölónæmar bakteríur. Í mínum skilningi og vonandi flestra er það svo að þegar maður bannar dreifingu á vörum sem innihalda fjölónæmar bakteríur, vörum sem innihalda kampýlóbakter, vörum sem innihalda salmonellu — við erum ekki bara að tala um kjöt, við erum að tala um öll matvæli í þessu samhengi — er gríðarleg vörn fólgin í því fyrir búfjársjúkdóma og lýðheilsu landsins.

Því spyr ég hv. þingmann: Getum við ekki öll verið sammála um það að það sem liggur fyrir, sú þingsályktunartillaga sem við komum til með að ræða á eftir og tengist frumvarpinu sem við erum að ræða núna, sé virkilega góð lausn og mikið framfaraskref? Ég vil einnig minna á að í því frumvarpi sem lagt var fram til að byrja með af hæstv. ráðherra voru mótvægisaðgerðirnar 15 og þær voru í greinargerð með frumvarpinu. Nú erum við með þingsályktunartillögu með 17 mótvægisaðgerðum.



[23:00]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál er ekki flókið. Það snýst um að sýna nægilega varúð. Það liggja fyrir alveg skýrar staðreyndir í þessu máli, þær staðreyndir að heilbrigði íslenskra búfjárstofna er mun betra en almennt gerist í Evrópu. Þetta er staðreynd. Það er staðreynd að Ísland hefur verið laust við fjölmarga dýrasjúkdóma sem hafa verið landlægir, hvers kyns pestir og fár. Það er staðreynd að íslenskir búfjárstofnar hafa lítið sem ekkert viðnám gagnvart slíkri óværu. Íslenskur landbúnaður er þannig hreinlega í stórhættu ef út af bregður. Málið er að viðhafa nægilega tryggar varnir og nægilega varúð í málinu.

Eins og ég rakti, fyrst í framsögu minni og síðan í fyrra svari mínu, er enginn ágreiningur um að mótvægisaðgerðirnar eru góðar, svo langt sem þær ná. Það er að vísu ekki óumdeilt hversu öruggar þær eru en það er algjört lágmark að tímasett áætlun liggi fyrir og að það liggi fyrir óyggjandi staðfesting á því að þær aðgerðir sem þarna eru í 17 liðum séu að fullu fjármagnaðar.



[23:03]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú í júní eru 50 ár liðin frá því að fyrsta konan var skipuð prófessor. Það var doktor Margrét Guðnadóttir veirufræðingur. Margrét var skipuð prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands. Gegndi hún þeirri stöðu í 30 ár. Margrét var dugleg að benda okkur á þá sérstöðu sem Íslendingar byggju við hér á landi vegna legu landsins, sérstöðu sem við þyrftum að verja. Það væri mikilvægt að við afsöluðum okkur ekki réttinum til að ráða sjálf sóttvarnamálum okkar. Í lok álitsgerðar sem dr. Margrét gaf vegna innflutnings á kjöti fyrir tíu árum segir hún, með leyfi forseta:

„Að lokum vil ég minna á þá staðreynd, að margar kynslóðir af góðu fólki lögðu á sig ómælda vinnu til að koma íslensku heilbrigðisástandi og matvælaeftirliti þangað, sem það er núna. Það gerðist ekki á einum degi með samþykkt laga, heldur með þrotlausri vinnu. Höldum henni áfram.“

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að bregðast við niðurstöðu EFTA-dómstólsins um innflutningstakmarkanir á ferskum matvælum til landsins. Við framlagningu málsins voru kynntar aðgerðaáætlanir til að tryggja vernd lýðheilsu og búfjár og standa vörð um hagsmuni neytenda.

Ég hef verið nokkuð sannfærð um að hagsmunir bænda og neytenda fari saman þegar varað er við innflutningi á matvælum. Þingflokkur Framsóknarflokksins setti fyrirvara um frumvarpið í vetur um að sömu gæðakröfur yrðu gerðar til innfluttra matvæla frá Evrópska efnahagssvæðinu og gerðar eru til íslenskrar matvælaframleiðslu og enn fremur að lýðheilsa hlyti ekki skaða af innflutningi sýktra matvæla. Því hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga frá atvinnuveganefnd sem boðar aðgerðaáætlun í 17 liðum. Sú tillaga fylgir eftir áherslum Framsóknarflokksins í þeim málum.

Eðlilega þarf að bregðast við niðurstöðu EFTA-dómstólsins og það verður gert með samþykkt þessa frumvarps og styð ég það, að því gefnu að þingsályktunartillagan sem fylgir þessu máli fái góðan hljómgrunn.