149. löggjafarþing — 124. fundur
 18. júní 2019.
dánaraðstoð.
beiðni BHar o.fl. um skýrslu, 969. mál. — Þskj. 1824.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[13:42]

[13:41]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við greiðum ekki atkvæði um það hvort leyfa eigi dánaraðstoð og lögleiða það í íslenskan rétt. Við erum hér að greiða atkvæði um skýrslubeiðni, um að taka saman upplýsingar um hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum og öðrum löndum sem við berum okkur saman við, auk þess sem verið er að fara fram á skoðanakönnun sem gerð yrði meðal heilbrigðisstarfsmanna um viðhorf þeirra til dánaraðstoðar.

Ég sé á töflunni að það lítur út fyrir að þetta sé samþykkt og ég fagna því mjög og er þingheimi þakklát fyrir það. Á sama tíma verð ég að lýsa furðu minni á að ákveðnir aðilar séu mótfallnir því að teknar séu saman upplýsingar með þessum hætti. Ef upplýsingarnar eru á þá leið að hér inni ákveði einhverjir þingmenn að koma seinna með frumvarp sem myndi leyfa dánaraðstoð verður örugglega gefið nægt rými í slíka umræðu, umsagnir og annað þess háttar.

Ég fagna þessari afstöðu þings, að leyfa þessa upplýsingaöflun og skýrslugjöf, og hlakka til að fá skýrslu frá hæstv. heilbrigðisráðherra í hendurnar.



Beiðni leyfð til heilbrigðisráðherra  með 39 shlj. atkv. og sögðu

  já:  JarÁ,  AFE,  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BLG,  BHar,  GBr,  GIK,  HKF,  HarB,  HVH,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  JSV,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SIJ,  SilG,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP,  ÞórdG,  ÞSÆ.
10 þm. (NMG,  BergÓ,  BirgÞ,  BN,  JónG,  KGH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  ÞorS) greiddu ekki atkv.
14 þm. (AKÁ,  ATG,  ÁslS,  BjG,  GÞÞ,  GuðmT,  HSK,  HallM,  LE,  NTF,  PállM,  SÁA,  SSv,  ÞKG) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[13:40]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég skil málið þannig, verði það samþykkt, að það sé undirbúningur að lagafrumvarpi um dánaraðstoð. Hugsanlega sé því aðeins tímaspursmál þar til umræður um að lögfesta rýmri rétt til að deyja verði teknar fyrir á Alþingi og það hugnast mér ekki vegna þess að álitamálin eru mjög flókin, eiga sér siðferðislegar, faglegar, lagalegar og trúarlegar hliðar.

Siðfræðingar hér á landi efast um að Alþingi ætti að samþykkja dánaraðstoð. Bæði heilbrigðisstarfsfólk og sjúklingar geta verið settir í mjög erfiðar aðstæður verði dánaraðstoð heimiluð. Embætti landlæknis telur að það væri misráðið ef Íslendingar færðu umræðu um dánaraðstoð inn á Alþingi. Landlæknir segir umræðuna um þetta mál á hinum Norðurlöndunum fara fram á samnorrænum vettvangi, utan þings og án þrýstings.

Ég greiði ekki atkvæði.