149. löggjafarþing — 125. fundur
 19. júní 2019.
staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum, síðari umræða.
þáltill. OH o.fl., 187. mál. — Þskj. 192, nál. m. brtt. 1853.

[12:27]
Frsm. um.- og samgn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Nefndarálit þetta kemur frá umhverfis- og samgöngunefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Grindavíkurbæ, Isavia, Reykjanesbæ, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Suðurnesjabæ og Sveitarfélaginu Vogum.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að skipaður verði starfshópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum sem vinni tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun á svæðinu. Lagt er til að hópurinn skili skýrslu til forsætisráðherra sem kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.

Skemmst er frá því að segja að umsagnir um málið voru allar mjög jákvæðar en þar er m.a. bent á sérstöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum þar sem stór hluti fólks starfar í tengslum við ferðaþjónustuna, auk þess sem hlutfall íbúa af erlendum uppruna er hærra á Suðurnesjum en á öðrum svæðum landsins. Þá hefur íbúafjölguninni fylgt tilheyrandi álag á félagslega innviði, ekki síst þá sem eru á forræði ríkisins, svo sem heilbrigðisþjónustu, löggæslu, framhaldsskóla og vegakerfi. Í umsögn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum kemur fram að í árslok 2018 hafi erlendum ríkisborgurum fjölgað um 3.780 frá árinu 2010, þ.e. rétt um íbúafjölda Ísafjarðarbæjar. Í áætlunargerð ríkisins hafi ekki verið tekið tillit til íbúafjölgunar eða íbúasamsetningar. Sambandið bendir á að nauðsynlegt sé að skoða fjárframlög ríkisins til opinberra stofnana og mikilvægra verkefna á svæðinu þannig að íbúar Suðurnesja búi í það minnsta við sömu þjónustu og íbúar annarra landshluta. Sem dæmi er þess getið að fjáraukning til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var 1% á ári með 0,5% hagræðingarkröfu á meðan íbúum svæðisins fjölgaði um heil 15%. Auk þess hafi greining fyrirtækisins Atons sem framkvæmd var árið 2018 sýnt fram á skekkju í framlögum til svæðisins.

Nefndin áréttar að staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum er um margt sérstök og miklar sveiflur hafa verið í atvinnulífi Suðurnesjamanna á undanförnum árum. Mikilvægt er að bregðast við þeim aðstæðum á grundvelli upplýsinga og með skilvirkum og skýrum hætti. Nefndin leggur áherslu á að starfshópurinn fari heildstætt yfir stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum með tilliti til íbúafjölgunar og samsetningar íbúa og kanni samfélagsleg áhrif fólksfjölgunarinnar. Þá leggi starfshópurinn mat á hvort fjárframlög til ríkisstofnana á svæðinu hafi fylgt þróun mála á Suðurnesjum, hvort sem er félagslegri eða efnahagslegri.

Keflavíkurflugvöllur er stærsti vinnustaðurinn á Suðurnesjum og staða hans hefur mikil áhrif á samfélögin. Það er því mikilvægt að breytingar, hvort sem eru aukin umsvif á undanförnum árum eða samdráttur sem nú stendur yfir, verði metnar skipulega. Nefndin leggur því áherslu á að starfshópurinn meti áhrif niðursveiflu í ferðaþjónustu og færri flugferða um Keflavíkurflugvöll á sveitarfélögin á Suðurnesjum. Leggur nefndin til breytingu á tillögugreininni til samræmis við framangreindar áherslur.

Í tillögunni er lagt til að starfshópurinn skili skýrslu sinni fyrir 1. júní 2019 en eðli málsins samkvæmt leggur nefndin til að það tímamark verði 1. desember 2019, þar sem 1. júní 2019 er liðinn, til að tryggt verði að nægur tími gefist í vinnuna en nefndin áréttar þó mikilvægi þess að vinnu starfshópsins verði hraðað eins og unnt er.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem hefur verið farið yfir og eins og áður sagði að starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. desember 2019 og að forsætisráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins. Telur nefndin það mjög mikilvægt.

Hanna Katrín Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en hún skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í starfsreglum fyrir fastanefndir. Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Björn Leví Gunnarsson, sem er áheyrnarfulltrúi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, er samþykkur áliti þessu en undir það rita Ari Trausti Guðmundsson, Helga Vala Helgadóttir, Bergþór Ólason, Hanna Katrín Friðriksson, Karl Gauti Hjaltason, Líneik Anna Sævarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Árnason.



[12:32]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Loksins kemst tillaga um að líta sérstaklega til Suðurnesja til afgreiðslu þingsins, tillaga um að meta stöðu samfélaganna sem eru um margt sérstök og hafa miklar sveiflur verið í atvinnulífi á undanförnum árum og áratugum. Fulltrúar sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa komið fyrir fjárlaganefnd árum saman til að benda á að vitlaust sé gefið þegar ríkisfjármunum sé skipt á milli landshluta og að Suðurnesin hafi ekki notið sannmælis hvað það varðar. Fyrirtækið Aton gerði ítarlega greiningu fyrir Reykjanesbæ á fjárframlögum til stofnana svæðisins og verkefna á vegum ríkisins sem Alþingi verður að taka alvarlega, sannreyna og bregðast við með aðgerðaáætlun til að bæta og styrkja stöðu Suðurnesjamanna. Mörg dæmi má nefna sem benda til þess að sveitarfélögin hafi rétt fyrir sér.

Athyglisvert er t.d. dæmið sem dregið er fram í nefndarálitinu og kom fram í ræðu hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur um ábendingu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í umsögn um tillöguna um að á meðan fjáraukning til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var 1% á ári með 0,5% hagræðingarkröfu fjölgaði íbúum svæðisins um 15%. Slík skekkja kemur augljóslega niður á heilbrigðisþjónustu við Suðurnesjamenn, ég tala nú ekki um þegar stofnunin var fjársvelt fyrir þessa miklu fjölgun. Augljóslega hefur þessi staða komið niður á þjónustu heilbrigðisstofnunarinnar við Suðurnesjamenn.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að skipaður verði starfshópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga sem fari heildstætt yfir stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum með tilliti til íbúafjölgunar og samsetningar íbúa, að samfélagsleg áhrif fólksfjölgunarinnar verði könnuð og sérstakt mat lagt á hvort fjárframlög til ríkisstofnana á svæðinu hafi fylgt þróun mála á Suðurnesjum, hvort sem er félagslegri eða efnahagslegri. Það er einnig nauðsynlegt að meta áhrif niðursveiflu í ferðaþjónustu og færri flugferða um Keflavíkurflugvöll á sveitarfélögin á Suðurnesjum.

Þegar mælt var fyrir þessari tillögu í haust var fall WOW ekki komið fram og ekki augljóst í hvað stefndi en nú hefur enn bæst við staða sem þarf að meta og mun koma niður á íbúum Suðurnesja. Keflavíkurflugvöllur er nefnilega stærsti vinnustaðurinn á Suðurnesjum og staða hans hefur mikil áhrif á samfélögin. Það er því mikilvægt að breytingar, hvort sem eru aukin umsvif á undanförnum árum eða samdráttur sem nú stendur yfir, verði metnar skipulega.

Samfylkingin gerði það að forgangsmáli sínu á þessu þingi að fá hæstv. ríkisstjórn til að gera tímasetta áætlun til að bæta stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Ég er 1. flutningsmaður málsins en að þessu sinni eru þingmenn Suðurkjördæmis meðflutningsmenn mínir. Tillagan hefur áður verið lögð fram af þingflokki Samfylkingarinnar en fékk þá ekki brautargengi. Nú fær tillagan forgang eingöngu vegna þess að Samfylkingin valdi málið sem forgangsmál, bæði í haust þegar ég mælti fyrir því og kom því til nefndar og nú við frágang þinglokasamninga þegar Samfylkingin kom málinu út úr nefnd til samþykktar. Annars hefði málið dagað uppi og það er sorglegt til þess að hugsa en það er sannarlega ástæða til að gleðjast yfir því að okkur hafi tekist að greiða fyrir málinu. Það er reyndar við hæfi að það hafi verið gert fyrir tilstilli jafnaðarmanna því að málið snýst um að jafna stöðu Suðurnesjamanna, hvort sem er meðal ólíkra hópa samfélagsins eða við aðra landshluta.

Suðurnesjamenn eiga það skilið að nú sé litið sérstaklega til þess landshluta eins og þeir hafa kallað eftir árum saman.



[12:37]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að fagna afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu allra þingmanna Suðurkjördæmis úr hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Það er ekki þörf á að fjölyrða um stöðu fjármála í Reykjanesbæ og fleiri sveitarfélögum á Suðurnesjum en rétt að minna á að tekist hefur að bregðast við með verulegum árangri af hálfu sveitarfélaganna undanfarið. Ýmsar kárínur hafa gengið yfir Suðurnes. Þær verða heldur ekki raktar hér og nú, en ítrekað að miklar vonir eru bundnar við vinnu þess starfshóps sem þingsályktunartillagan tekur til og þá verð ég að segja, herra forseti, að samstaða allra þingmanna sem eru á þessari þingsályktunartillögu er staðfesting þess að málið er mikilvægt og þarfnast ekki aðeins yfirlegu heldur líka þeirra lausna sem yfirlegan mun birta okkur þegar þar að kemur. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en endurtek að ég er mjög ánægður með að það tókst að afgreiða tillöguna. Ég er nokkuð viss um að hefði hana borið að með einhverjum öðrum hætti hefði hún einnig öðlast stuðning margra þingmanna.



[12:39]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég tek undir það sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum, það er fagnaðarefni að þessi tillaga skuli nú fá hér afgreiðslu. Það má segja að lengi hafi verið beðið eftir henni enda þörfin brýn. Fólksfjölgun á Suðurnesjum er fordæmalaus sem hefur skapað mikið álag á innviði samfélagsins þar. Það er tilefni til þess úr þessum ræðustól að þakka sérstaklega því starfsfólki þessara sveitarfélaga sem hefur unnið frábært starf undir miklu álagi við að mæta öllum þeim kröfum og áskorunum sem fylgja því þegar svo fordæmalaus og hröð fólksfjölgun á sér stað eins og á Suðurnesjum. Hlutfall erlendra íbúa er mjög hátt á Suðurnesjum. Því fylgir auk þess mikið álag á grunnskóla, leikskóla o.s.frv. Því miður verður ekki það sama sagt um ríkisvaldið, að það hafi staðið sig sérstaklega vel í þeim erfiðu aðstæðum sem hafa ríkt á Suðurnesjum. Við þekkjum það og það hefur komið fram í ræðum og riti víða, m.a. frá forsvarsmönnum Reykjanesbæjar, að ríkisvaldið hefur ekki staðið sig sem skyldi í því að fylgja eftir með fjárveitingum og aukningu vegna þessarar fólksfjölgunar. Ég nefni sérstaklega Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, löggæsluna og fjölbrautaskólann, þetta eru allt opinberar stofnanir sem hafa þurft að mæta þessu mikla álagi en ekki mætt nægilegum skilningi af hálfu ríkisvaldsins hvað það varðar. Þessari tillögu er m.a. ætlað að fara nákvæmlega yfir það hvernig fjárveitingum ríkisins er háttað til þessara stofnana á Suðurnesjum og leggja mat á það hvort fjárframlögin hafi fylgt þróun mála á Suðurnesjum. Ég tel að svo hafi ekki verið og Reykjanesbær hefur sýnt fram á það, m.a. með mjög vandaðri skýrslu. Hluti þessa starfshóps er að fara yfir það og það er bara gott mál.

Ég fagna þessari tillögu og ég fagna að sjálfsögðu frumkvæði Samfylkingarinnar í þessu máli. Ég er einn af flutningsmönnum tillögunnar og ég vil hrósa hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir framgöngu hennar í málinu. Frá því að tillagan var lögð fram hefur margt gerst og því miður kannski á verri veg hvað atvinnuhorfur varðar á Suðurnesjum. Flugfélagið WOW varð gjaldþrota og því hefur fylgt mikill samdráttur í komu ferðamanna til landsins. Rétt er að hafa í huga að í maímánuði var u.þ.b. 24% samdráttur í komu erlendra ferðamanna til landsins og það er mesti samdráttur sem um getur frá því að talningar hófust þannig að það eru blikur á lofti í þessari grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og hún snertir Suðurnesin alveg sérstaklega. Þess vegna er afar ánægjulegt að tillagan fái hér afgreiðslu á þessum tímapunkti því að það er svo sannarlega þörf fyrir hana. Ég tek undir það sem kom frá framsögumanni umhverfis- og samgöngunefndar, það er brýnt að nefndin skili af sér sem fyrst.

Það er annað í þessu líka sem er að vísu áhyggjuefni, ég sé engin teikn í fjármálaáætlun um að það eigi að mæta sérstaklega þessum áhyggjum hvað varðar fjárveitingar til opinberra stofnana á Suðurnesjum. Ég vil þó geta þess að í fjármálaáætlun sem kom bara úr prentsmiðjunni í morgun er gert ráð fyrir sérstöku framlagi árlega upp á 315 milljónir, minnir mig, til framkvæmda á hinu svokallaða varnarsvæði sem er á höndum Landhelgisgæslunnar til viðhalds á varnarmannvirkjum á Keflavíkurflugvelli. Þetta er mikilvægt framlag sem ég vil hrósa ríkisstjórninni fyrir að hafa sett inn í fjármálaáætlunina. Það var ekki þar. Við ræddum málið í fjárlaganefnd og ég hef m.a. verið talsmaður þess að framlagið kæmi inn vegna þess að því fylgir töluvert mótframlag af hálfu Atlantshafsbandalagsins sem gerir það að verkum að þarna er komin dágóð upphæð til að nota í brýn viðhaldsverkefni á Keflavíkurflugvelli, þ.e. varnarhluta svæðisins, og verður þá væntanlega atvinnuskapandi.

Síðan eru fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum Bandaríkjahers sem mér skilst að verði til þess að einhverjir íslenskir starfsmenn verði þar ráðnir. Bandaríkjaher bauð út framkvæmdir við flugskýli á svæðinu og bandarískur verktaki bauð lægst. Ég spjallaði við fulltrúa á vegum bandaríska sjóhersins hér á landi um þetta mál og hann fullvissaði mig um að til stæði að ráða íslenska verkamenn að því verkefni og vonandi gengur það eftir. Þetta er jákvætt og rétt að það komi hér fram. Ég þakka ríkisstjórninni fyrir að hafa komið með þetta framlag á síðustu metrum fjármálaáætlunarinnar.

Í þessu árferði suður frá, þ.e. þessari miklu fjölgun íbúa og ég vil líka nefna fjölgun hælisleitenda, hefur álag á löggæsluna aukist mikið sem hefur gert það að verkum að hinn almenni borgari á svæðinu fær kannski ekki nægilega góða þjónustu vegna þess að mjög mikill tími hefur farið í að sinna verkefnum þar. Þetta hef ég frá stjórnendum lögreglustjórans á Suðurnesjum. Í því tilliti er líka nauðsynlegt að mæta þessum opinberu stofnunum með hærra fjárframlagi.

Það sem er kannski mesta áhyggjuefnið er hinn mikli fyrirsjáanlegi samdráttur í ferðaþjónustunni og hvernig hann kemur til með að þróast. Það er svolítil óvissa í þeim efnum. Forsvarsmenn ferðaþjónustunnar hafa áhyggjur af því að samdrátturinn verði dýpri og meiri en stjórnvöld áætla og meiri en fram kemur í spám þannig að haustið og veturinn er vissulega áhyggjuefni fyrir Suðurnesin hvað þetta varðar. Þess vegna er í mínum huga mjög mikilvægt, eins og ég sagði áðan, herra forseti, að nefndin skili af sér sem fyrst en auk þess þurfa fjárveitingar að fylgja verkefninu. Nefndin kemur væntanlega með einhverjar tillögur í þeim efnum þannig að því fyrr sem þær koma betra því betra svo það sé hægt að bregðast við með réttum aðgerðum.

Að lokum vil ég bara enn og aftur þakka fyrir þessa tillögu. Ég hef töluverðar væntingar til þess að starfshópurinn komi með góðar og haldbærar tillögur sem gætu orðið til þess að mæta þeim áhyggjum sem fram hafa komið af hálfu stjórnenda Reykjanesbæjar og fleiri sveitarfélaga á svæðinu og líka því sem við horfumst í augu við núna, þ.e. hinum mikla samdrætti í ferðaþjónustunni, þannig að við vonum svo sannarlega að þessi starfshópur komi til með að skila góðu verki.



[12:48]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp fulltrúa sveitarfélaga á Suðurnesjum sem yrði einnig skipaður fimm sérfræðingum úr hinum ýmsu ráðuneytum til að vinna aðgerðaáætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun þar. Starfshópurinn skal skila skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. desember eftir að umhverfis- og samgöngunefnd lagði það til enda er tillagan orðin nokkurra mánaða gömul. Loks er gert ráð fyrir að hæstv. forsætisráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.

Herra forseti. Þessi tillaga er lögð fram af öllum þingmönnum Suðurkjördæmis. 1. flutningsmaður er hv. þm. Oddný Harðardóttir og vil ég sérstaklega þakka henni fyrir að beita sér fyrir þessari tillögu og einnig fyrir að beita sér fyrir því að þetta hafi verið og sé forgangsmál á þinginu af hálfu hennar flokks. Ég lýsi ánægju minni með það og fagna því að svo skyldi vera og vonast auðvitað til þess, vegna þess að þessi tillaga er borin fram af öllum þingmönnum kjördæmisins og úr öllum flokkum, að tillagan njóti víðtæks stuðnings og fái framgang og samþykki á næstu klukkustundum. Það er hörmungarsaga hvernig ríkisvaldið hefur sinnt Suðurnesjum á umliðnum árum í gegnum gífurlegar og ítrekaðar niðursveiflur á svæðinu. Síðan þegar rofar til hefur íbúum fjölgað, eins og kemur fram í tillögunni og í nefndarálitinu, með þeim hætti sem ekki er nokkur dæmi að finna annars staðar. Ríkið hefur dregið lappirnar áberandi í allri þjónustu og uppbyggingu á svæðinu. Þetta verður að lagfæra. Um það hefur verið talað síðustu ár og hér er komin tillaga sem vonandi verður til þess að eitthvað fari að gerast í þessum málum vegna þess að íbúarnir eru orðnir langþreyttir á þessari bið.

Saga atvinnuþróunar á Suðurnesjum undanfarin ár er vel þekkt og hefur verið reifuð hér í umræðunni, bæði í upphafi og í dag, og óþarfi að ég endurtaki það allt en í stuttu máli hefur ástandið einkennst af því að miklar sveiflur hafa verið í atvinnulífi svæðisins, djúpar lægðir og síðan miklar hæðir. Á undanförnum árum hefur uppsveifla verið á svæðinu eftir mikið samdráttarskeið eftir brottför varnarliðsins 2006 og tveimur árum síðar varð efnahagshrunið, 2008. Varnarliðið var á svæðinu í meira en hálfa öld og atvinna svæðisins dró svolítið dám af því hvernig atvinnu var háttað í kringum veru liðsins. Uppsveiflan undanfarin ár hefur leitt til þess að íbúaþróun á svæðinu hefur verið með þeim hætti að ekki eru til dæmi um slíka íbúafjölgun á nokkru svæði á jafn skömmum tíma. Þar kemur margt til, bæði fordæmalaus uppgangur í ferðaþjónustu og komu ferðamanna til landsins og ekki síður mikil vöntun og verðhækkanir á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu þannig að margir hafa kosið að setjast að í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hefur verið kostur á ódýrara húsnæði, a.m.k. til skamms tíma. Merki þess er að finna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, bæði á Vesturlandi, austan við höfuðborgarsvæðið og sunnan við, þ.e. á Suðurnesjum, ekki síst þar. Þannig hefur íbúafjölgun verið algjörlega dæmalaus á Suðurnesjum mörg undanfarin ár. Í nefndarálitinu kemur fram að erlendum ríkisborgurum á svæðinu hafi fjölgað um 3.780 á árabilinu 2010–2018, á átta árum. Svo mikill fjöldi væri góð sneið fyrir marga landshluta ef slík fjölgun ætti sér stað þar fyrir utan það að nú búa á svæðinu yfir 26.000 manns sem er stórt og mikið atvinnusvæði. Á sama tíma hefur þjónusta ríkisins á svæðinu dregist verulega aftur úr íbúaþróuninni.

Hvaða þættir heyra undir ríkið? Það er m.a. heilbrigðisþjónusta. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Sem dæmi er þess getið að fjáraukning til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var 1% á ári með 0,5% hagræðingarkröfu á meðan íbúum svæðisins fjölgaði um 15%.“

Aukningin er 1% en íbúafjölgunin 15%. Þarna myndast gap, herra forseti, sem verður að brúa og það er brýnt.

Einnig má nefna hér þann hluta skólakerfisins sem heyrir undir og er á forræði ríkisins, eins og t.d. fjölbrautaskólann sem hefur kvartað yfir fjárvöntun. Ég vil einnig nefna löggæsluna þar sem aukning íbúa og aukning ferðamanna að sjálfsögðu hefur kallað á verulega aukningu verkefna lögreglunnar.

Einnig vil ég nefna samgöngumálin eins og Reykjanesbrautina sem er ekki enn, árið 2019, búið að tvöfalda milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar. Þar eru enn langir kaflar með einni akrein í hvora átt. Allt þetta kallar á að ríkið taki til hendinni, lagi þessi verkefni og þessa þjónustu. Í dag er einnig óvíst um áhrif falls WOW air á svæðið til lengri tíma, en ljóst er að áhrifin eru fjarri því að vera að fullu fram komin. Hvort þetta verður mikill samdráttur í ferðaþjónustu á svæðinu er óvíst enn í dag en menn hafa talað um kannski 15–20% samdrátt í komu ferðamanna og það mun hafa áhrif. Fólk missir atvinnu og er þegar búið að því og það er óvíst hvað kemur í staðinn og hvort við réttum okkur af á skömmum tíma eða löngum.

Ég bendi á að Keflavíkurflugvöllur er einn stærsti vinnustaður á Suðurnesjum og þessi óvissa kemur ofan á vöntun á fjárframlögum frá ríkinu til allra þessara stofnana sem ég nefndi og þátta ríkisvaldsins. Á sama tíma og um leið og mikil íbúafjölgun á sér stað á svæðinu og þjónusta ríkisins er langt á eftir þeirri þróun var sveitarfélögunum á svæðinu gert með lögum fyrir 13 árum að gefa ríkinu afslátt af fasteignagjöldum á eigum ríkisins á fyrrverandi varnarsvæði á Ásbrú. Þar ber einnig að hafa í huga að sú ráðstöfun kom á sínum tíma ekki upphaflega til af góðu vegna þess að allar þessar fasteignir komu í fang ríkisins á örskotsstund. Hvað hefur gerst síðan? Síðan þá hefur ríkið selt þessar eignir og fengið milljarða fyrir. Á sama tíma dregur ríkið lappirnar í uppbyggingu þjónustu sinnar á svæðinu.

Þetta virkar sem öfugmæli, herra forseti. Ríkið þarf vissulega að gyrða sig í brók varðandi þjónustu við íbúa Suðurnesja og ég ber þá von í brjósti að þessi tillaga, verði hún samþykkt, og vinna starfshópsins sem skipaður verður, sem gert er ráð fyrir að skili niðurstöðum 1. desember nk., dugi til að vekja ríkið af þeim dvala sem það hefur verið í gagnvart þessu svæði og að árangurinn verði sá að gefið verði í hvað varðar uppbyggingu á vegum ríkisins, á heilsugæslu á Suðurnesjum, í bættum samgöngum, sterkum menntastofnunum og eflingu löggæslu á svæðinu íbúum til heilla. Í raun og veru, herra forseti, er einungis farið fram á að ríkið leggi fram sanngjarnan og eðlilegan skerf til þjónustu og uppbyggingar á þeim sviðum sem undir það heyra á svæðinu.

Að svo sögðu legg ég til og ber þá von í brjósti að þetta mál nái hér fram að ganga fyrir þinglok.



[12:59]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég tek undir þá jákvæðu tóna sem hafa verið slegnir varðandi þessa þingsályktunartillögu sem er svipaðs eðlis og var flutt á síðasta þingi af hálfu Samfylkingarinnar. Núna eru allir þingmenn Suðurkjördæmis á tillögunni. Þetta er svolítið gott dæmi um það að allir flokkar geta unnið saman en þetta er líka dæmi um nálgun sem ég vil ekki endilega festast í, að það séu bara þingmenn viðkomandi kjördæma sem taka málið að sér. Mig langar til að við horfum á landið okkar allra, sama hvar við búum, a.m.k. gerum við það í Viðreisn, sem kjósendur okkar og okkar fólk sem við þurfum að taka vel utan um, sama hvar það er búsett. Ég er með mikil tengsl við Suðurnesin og Suðurkjördæmið allt og það skiptir mig máli að sjá að ákveðnum hlutum sé sinnt. Um leið vil ég undirstrika ósk um og skila þökkum til flutningsmanna frumvarpsins fyrir að viðhalda þessu máli því að það þarf að gera það. Það þarf að bregðast við hratt og strax að okkar mati því að ríkisstjórnin hefur að vissu leyti ekki staðið sig nægilega vel í stykkinu þegar kemur að því að leysa þann vanda sem fylgir þeirri óvissu sem er í efnahagslífi landsmanna, ekki síst eftir fall WOW. Við sjáum það núna á helstu greiningaraðilum, eins og t.d. hjá Arion banka, að þeir spá því að í haust verði álagið meira, það verði hugsanlega aukið atvinnuleysi og fleiri þættir sem muni koma fram í kjölfarið á samdrætti í ferðaþjónustu. Þá eru það auðvitað Suðurnesin sem við þurfum að gæta sérstaklega að. Eins og hefur komið fram í ræðum hér áður hefur orðið þar íbúasprenging. Fjölgunin hefur orðið hlutfallslega hröðust og mest þar en að sama skapi hefur ekki verið tekið tillit til þess aukna álags á heilbrigðisstofnanir, löggæsluna og fleiri stofnanir, eins og skólakerfið, menntaskólann, Ásbrú líka, sem er á svæðinu.

Ég fagna því sérstaklega að þessi tillaga sé komin þetta langt, að hún hljóti vonandi líka afgreiðslu á þinginu síðar í dag. Ég vona þó að það verði ekki þannig að ríkisstjórnin haldi þegar búið verður að samþykkja þessa tillögu að þá sé það bara fínt og svo malli þetta áfram. Þetta má ekki malla. Það verður að fara strax í ákveðnar aðgerðir og við verðum að vera tilbúin gagnvart því sem haustið mun hugsanlega bjóða upp, ekki síst á Suðurnesjunum. Það eru þessir óvissutímar sem við þurfum að átta okkur á og hefjast strax handa við að fara í ákveðnar aðgerðir. Hvað getur ríkisvaldið gert? Það getur stutt við þær stofnanir sem eru á Suðurnesjunum. Við í Viðreisn höfum líka lagt það til til að mæta niðursveiflunni og höfum sérstaklega tilgreint að við eigum að fara í öflugar samgönguframkvæmdir. Við höfum tiltekið að við eigum að klára fyrir 2022, fara strax í að klára Reykjanesbrautina og ýmsar aðrar framkvæmdir, m.a. Ölfusárbrúna og hættulega vegarkafla frá Vík að Jökulsárlóni. Þetta er það sem við eigum að gera á þessu svæði, sérstaklega á Suðurnesjunum, til að koma í veg fyrir að óvissa, óþægindi og erfiðleikar verði meiri á því svæði en þarf að vera. Ég hvet ekki síst stjórnarþingmenn til að halda ríkisstjórninni við efnið. Stundum veitir hreint ekki af því.

Ég tek því eindregið undir þessa tillögu og mun greiða henni atkvæði mitt. Ég þakka nefndinni fyrir að hafa unnið þetta áfram en ég mæli líka með því að nefndin fylgi þessu eftir strax í haust og spyrji: Hvað eruð þið búin að gera síðan við samþykktum tillöguna? Hvað hefur verið sett í ferlið þannig að við getum til að mynda gefið skýr skilaboð inn í Ásbrú, gefið skýr skilaboð inn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja o.s.frv. þannig að Suðurnesjamenn fái skýr svör um þau viðfangsefni sem þeir standa frammi fyrir. Þetta er gott mál, það er gott að það sé komið þetta langt og ég styð það. Þetta mál má þó ekki verða til þess að allir haldi að allt sé komið í höfn. Þetta er ekki þannig, það þarf að fylgja þessu eftir og það er okkar hlutverk á þingi, ekki síst ríkisstjórnarflokkanna, að sjá til þess að raunverulegar úrbætur komi í kjölfarið fyrir Suðurnesjamenn.



[13:04]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við séum að ræða þessa mikilvægu tillögu sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir leggur fram; hún skal hafa miklar þakkir fyrir það ásamt flestum þingmönnum kjördæmisins, það er vel. Það hefur verið gaman að taka þátt í að vinna að þessari tillögu í meðförum þingsins og að þeim málum sem tillagan fjallar um þar sem þingmenn úr öllum kjördæmum og ráðherra og þingmenn í öðrum þingnefndum hafa tekið vel í þetta. Ég vil líka þakka aðkomu sveitarfélaganna, sveitarstjórnarfólksins og starfsmanna þeirra, og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum sérstaklega fyrir þá vinnu sem þau hafa lagt í það, bæði að undirbúa þá vinnu sem hér er og líka að vekja athygli á þeirri stöðu sem er á Suðurnesjum. Það hafa þau gert með úttektum og þau hafa verið dugleg að koma í heimsókn í ráðuneytin til ráðherranna og starfsfólks ráðuneytanna og kynna stöðuna og þær upplýsingar sem þau hafa aflað og upplýsa þingmenn og þingnefndirnar almennt um þessa stöðu því að þetta er afar mikilvægt.

Við fjölluðum líka um það í byggðaáætluninni, þegar hún var til umræðu hér, hversu mikilvægt væri að fjalla ekki bara um brothættar byggðir í þeim skilningi að þar væri íbúum að fækka og ekki væri mikið að gerast í atvinnumálunum, heldur þyrfti líka að nálgast þær sem mikil vaxtarsvæði. Suðurnesin eru og hafa verið mikið vaxtarsvæði. Þó að kannski hafi aðeins hægt á því nú er þar enn mikill vöxtur og verður. Ég hef mikla trú á því þó að nú hafi aðeins hægst á og atvinnuleysi aukist. Þá skal nefna að það sem er kannski öðruvísi á Suðurnesjum en á öðrum svæðum á landinu er hve uppbyggingin er mikil og mikil atvinnustarfsemi þar en starfsfólkið sem um ræðir býr kannski töluvert fyrir utan svæðið. Þeir sem eru í hvað hæst launuðu störfunum á Suðurnesjum búa á höfuðborgarsvæðinu en alla jafna ekki á Suðurnesjunum sjálfum. Það hefur gert það að verkum að í gegnum tíðina hafa meðallaun á Suðurnesjum verið töluvert lægri en annars staðar á landinu. Það gerir sveitarfélögunum á Suðurnesjum enn erfiðara fyrir að bregðast við þeim mikla vexti og umsvifum sem fylgja þessari miklu uppbyggingu. Á Suðurnesjum hefur íbúum fjölgað einna mest á landinu og því fylgja miklir vaxtarverkir. Þegar umsvifin aukast umfram íbúaþróunina, sem er samt mikil, verða enn meiri vaxtarverkir. Þar vil ég fyrst og fremst nefna samgöngurnar og svo opinbera þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Þá er gríðarlega mikilvægt að takast á við þetta og til að þessi þróun haldi ekki áfram, að meðallaun séu lægri á Suðurnesjum en annars staðar, verður menntakerfið að fylgja líka. Það verður að vera öflugt menntakerfi.

Þegar við förum í þá vinnu sem þessi þingsályktunartillaga kveður á um, og þegar við erum almennt að skoða þessi svæði varðandi byggðaáætlunina og annað slíkt, verður að hafa í huga að það verður að vera öflug grunnþjónusta og sveitarfélögin þurfa að hafa bolmagn til að takast á við þennan mikla vöxt og þessa þróun. Þessi mikla íbúafjölgun sker sig líka frá mörgum öðrum sveitarfélögum í því tilliti hve innflytjendur eru hátt hlutfall. Það gerir íbúaþróunina fjölbreyttari og þar af leiðandi eru fleiri áskoranir sem þarf að takast á við. Þetta eru áskoranir sem er mikilvægt að stjórnvöldum takist, bæði stjórnendum heima í héraði og stjórnvöldum ríkisins, að leysa vel úr svo að samfélagið megi þróast sem best, að við nýtum krafta fólksins sem best og tryggjum því sem mesta velferð.

Í þessu samhengi vil ég nefna að nemendur í grunnskólum Reykjanesbæjar eru af yfir 60 þjóðernum og tala meira en 45 tungumál. Það gefur augaleið að það er meiri áskorun en að hafa nemendur alla með sama menningarbakgrunn og sama tungumál. Þetta leiðir líka inn í aðrar opinberar stofnanir eins og löggæsluna og heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustuna og annað. Þetta gerir það að verkum að það tekur oft lengri tíma að vinna verkefnin og veita þá aðstoð sem þarf að veita íbúum svæðisins, það þarf að fara aðrar leiðir og afla frekari upplýsinga út frá mismunandi bakgrunni fólks. Verkefnið er stærra en samt sem áður jafn mikilvægt.

Við þurfum að geta brugðist við þessu. Í þessu samhengi vil ég líka benda á að þessi umsvif og þessi þróun á svæðinu er kannski fyrst og fremst út af þróun opinberra eigna. Þá vil ég fyrst nefna Isavia, Keflavíkurflugvöllinn sjálfan og reksturinn í kringum hann, sem er í opinberri eigu. Í kringum það svæði hefur vöxturinn verið hvað mestur. Landsvæðið sem flugvöllurinn er á, og sem Kadeco þróunarfélag hefur til umráða, er að mestu í eigu ríkisins og opinberri eigu. Þar hefur verið mikil markaðssetning, þróun og uppbygging sem er vel og mikilvægt, og við sem íbúar á Suðurnesjum eigum að fagna öllum þessum umsvifum, bæði uppbyggingunni á Keflavíkurflugvelli og í kringum Kadeco. Þeir sem standa að uppbyggingu af þessu tagi, eiga svona eignir og eru að auka verðmæti þeirra, þurfa náttúrlega að taka mið af því samfélagi sem þau eru að vaxa og þróast í. Ég vil bara benda á að það er ríkið sjálft sem hefur af því beina fjárhagslega og efnahagslega hagsmuni og ber samfélagslega ábyrgð á því að þessi uppbygging gangi vel fyrir sig. Því fagna ég því samkomulagi sem er komið í höfn, á milli sveitarfélaganna og fjármálaráðuneytisins, um framtíð Kadecos og hvernig svæðið verður búið til, svokallað uppbyggingarplan, og hvernig megi nota þessi tækifæri og markaðssetja svæðið, hvaða áherslu við viljum leggja á að nýta svæðið. Það er mjög mikilvægt að þarna sé gott samtal á milli sveitarfélaganna á svæðinu, sem sjá þá um að vera talsmenn samfélagsins sem uppbyggingin og þróunin á sér stað í, og svo eigandans, ríkisins sjálfs og stofnana þess. Það er mjög mikilvægt að það samtal sé tryggt, náið og mikið og að þessir aðilar hafi sameiginleg markmið um hvernig við viljum sjá svæðið og samfélagið þar byggjast upp og þróast þannig að við getum byggt upp öflugt og gott samfélag sem er efnahagslega mikilvægt fyrir Ísland allt og ríkissjóð. Það skiptir mjög miklu máli. Ef við nýtum öll þau gríðarlega miklu tækifæri sem Suðurnesin hafa yfir að búa getum við aukið velferð allra landsmanna gríðarlega, ef við höldum rétt á spilunum. Ég vona að bæði í samstarfinu í kringum Kadeco og í þeirri nefnd sem verður sett á fót í framhaldi af þessari þingsályktunartillögu sjái menn þessi tækifæri og sameinist um að ná þeim og byggja upp og sjái hvað þarf til að byggja þarna upp.

Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur svolítið verið bent á að það hafi verið erfitt fyrir Suðurnesin að takast á við það að vera þetta vaxtarsvæði, stofnanir og aðrir hafa ekki fengið sömu framlög og annars staðar. Þá vil ég bara benda á að Suðurnesin hafa oft orðið fyrir vissri öfund eða fordómum gagnvart því að vera svona nálægt flugvellinum; það hefur verið talið að fyrst Suðurnesin hafi flugvöllinn þurfi þau enga frekari athygli eða aðstoð. Það hefur komið svolítið niður á ferðaþjónustunni og uppbyggingu ferðamannastaða á svæðinu. Það er t.d. sagt að þar sem yfir 90% af ferðamönnum komi til landsins á þessu svæði — allir halda það — en það hefur eiginlega verið öfugt, það hefur verið erfiðara fyrir Suðurnesin. Þar sem Keflavíkurflugvöllur er oft markaðssettur sem Reykjavík og fleira kemur til hafa ferðamennirnir ekki stoppað mikið á Suðurnesjum en sveitarfélögin á Suðurnesjum og fyrirtækin hafa sýnt gríðarlegt frumkvæði í ferðaþjónustu og skipulagi ferðamannastaða með því að vera fyrst sveitarfélaga á landinu til að gera svokallaða áfangastaðagreiningu til að ákveða hvernig við ætlum að taka á móti ferðamönnum og tryggja upplifun þeirra og um leið vernd náttúrunnar. Það er frumkvæði sveitarfélaganna á svæðinu og fyrirtækja á svæðinu að fá UNESCO-vottun fyrir „geopark“ eða jarðvang. Því ber að fagna og ég vil bara benda á að íslensk stjórnvöld hafa ekkert komið að því verkefni. Þetta er algjörlega að frumkvæði sveitarfélaganna og er gríðarlega mikilvægt og mun skipta miklu máli upp á frekari uppbyggingu til framtíðar á atvinnustarfsemi þarna, að hafa þessa UNESCO-vottun á svæðinu. Svo hafa sveitarfélögin á Suðurnesjum líka gert svokallað svæðisskipulag. Í þessu svæðisskipulagi hafa sveitarfélögin sameinast um það hvar þau vilja leggja áherslu á sína uppbyggingu. Þau eru ekki hvert sveitarfélag fyrir sig að biðja um stórskipahöfn og fiskihöfn, þau eru bara búin að ákveða að ætla að hafa eina stórskipahöfn í Helguvík og svo tvær fiskihafnir, aðra í Sandgerði, hina í Grindavík. Um þetta hafa þau sameinast og fleira, svo sem hvar þau ætla að hafa mismunandi iðnaðarsvæði. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Mér finnst að stjórnvöld eigi að sýna þeim þakklæti fyrir það frumkvæði sem þau sýna í því að forgangsraða sínum verkefnum og sameinast um hagkvæma uppbyggingu innviða. Þess vegna er mikilvægt að þessir samgönguinnviðir verði byggðir upp núna, bæði Reykjanesbrautin og hafnarmannvirkin, að komið verði til móts við sveitarfélögin í umhverfismálunum, hvernig þau takast á við þetta, í stað þess að segja: Heyrðu, þið þurfið ekki aðstoð af því að þið eruð svo nálægt flugvellinum. Það bara á ekki við þarna, það þarf að takast á við þetta. Nálægðin við flugvöllinn kallar á enn meiri athygli og frekara samstarf stjórnvalda og samfélagsins á Suðurnesjum.

Lögreglan fær þarna miklar áskoranir og ég hef kynnst því sem fyrrverandi lögreglumaður á svæðinu hve alþjóðaflugvöllurinn tekur gríðarlega mikið af löggæslu til sín. Þess vegna ber að fagna því hve landamæragæslan hefur fengið miklar fjáraukningar, hátt í milljarð á síðustu árum. Það mun styrkja löggæsluna gríðarlega á Suðurnesjum og vonandi verða til þess að hægt verði að efla hina almennu löggæslu samhliða því. Það er gríðarlega mikilvægt að það gerist því að hin almenna löggæsla á Suðurnesjum hefur þurft að líða fyrir mikla aukningu umferðar á flugvellinum. Það er mikilvægt og ég vil ítreka það. Þess vegna er það líka alveg rétt, sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði áðan, að svona mál eru ekki bara mál þingmanna Suðurnesja eða Suðurkjördæmis heldur eru þetta mál okkar allra, þingmanna þjóðarinnar. Ef vel tekst til við að byggja upp þessi atvinnutækifæri á Suðurnesjum, ef vel tekst að byggja þar upp gott samfélag og nýta þau tækifæri sem þar eru í sátt við samfélagið, mun það skila sér í betri velferð fyrir landsmenn alla. Nú er meira atvinnuleysi og ég vil koma inn á það áður en ég lýk máli mínu að fall WOW hefur haft áhrif um allt land og þá sérstaklega út af ferðaþjónustunni en það hefur umframáhrif á Suðurnesjum af því að það að þjónusta heilt flugfélag með heimahöfn kallar á miklu meiri þjónustu og störf en bein ferðaþjónustustörf gera. Þetta hefur líka mikil áhrif á útflutningsfyrirtæki sem starfa mörg á Suðurnesjum í sjávarútvegi og fiskeldi, vöruflutninga þeirra. Það er margt sem fylgir því að vera þjónustuaðili fyrir heilt flugfélag og störfin á flugvellinum sjálfum sem tengjast því voru gríðarlega mörg. Umfram þessi venjulegu ferðaþjónustustörf sem fall WOW hafði áhrif á hefur það áhrif á þessa hluti. Þarna er því stórt skarð fyrir skildi fyrir almenn fyrirtæki á Suðurnesjum sem voru að þjónusta flugfélagið og starfsfólk þeirra fyrirtækja og þar af leiðandi á samfélagið allt. Það ber að hafa í huga og það hefur bæst við frá því að þessi þingsályktunartillaga kom fram.

Framtíðin er björt á Suðurnesjum, ég hef fulla trú á því. En það eru margar áskoranir á leiðinni í að nýta þessa björtu framtíð, að hún megi verða. Við verðum að vera tilbúin að bregðast við þeim áskorunum og vera vel undirbúin. Þess vegna fagna ég þessu máli og vona að þingheimur sameinist um þetta mál og að við náum að láta góða hluti gerast í sameiningu.



[13:21]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að leiða okkur þingmenn Suðurkjördæmis í því ágæta máli sem hér er komið fram. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fara að því sem nefndin segir í áliti sínu, að leggja áherslu á að fara heildstætt yfir stöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Það er ekki langt síðan ég flutti stutta ræðu í störfum þingsins um stöðuna á Suðurnesjum og ég ætla ekki að endurtaka það allt saman, það er alger óþarfi að gera það, en mjög mikilvægt er að varpa ljósi á þau vandamál er snúa að heilbrigðisstofnuninni, skólunum og samgöngum, en við megum ekki gleyma því hversu margt gott er gert á Suðurnesjum og staðan er að mörgu leyti góð. Á undanförnum árum hafa yfir 20 milljarðar á ári verið notaðir í framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli sem hefur haldið uppi gríðarlega háu atvinnustigi á svæðinu og störfum hefur fjölgað alveg gríðarlega þrátt fyrir það áfall sem gerðist við fráfall WOW síðasta vetur.

Ég vek líka athygli á því að gríðarlega öflugur sjávarútvegur er stundaðar í Grindavík og í Garði og Sandgerði, í nýjum Suðurnesjabæ. Það væri ágætt verkefni þessarar nefndar að benda á að bæta hafnaraðstöðu í Suðurnesjabæ sem þarf að gera til að taka á móti þeim skipum sem eru gerð út frá sameiginlegu sveitarfélagi.

Ég held að Suðurnesjamenn geti borið höfuðið hátt. Í rauninni drýpur smjör af hverju strái á Suðurnesjum, það eru tækifæri við hvert einasta fótmál og grípa þarf þau tækifæri. Það er gríðarlega öflugt samfélag á Suðurnesjum með Reykjanesbæ í broddi fylkingar þar sem skuldastaða sveitarfélagsins er komin í 140% og er auðvitað gjörbreytt staða fyrir íbúana. Það skiptir allt svæðið miklu máli að sú staða sé orðin uppi í því sveitarfélagi. Hin sveitarfélögin, ég held að ég megi segja öll, standa verulega vel og þrátt fyrir að við viljum fleiri ferðamenn erum við nú með einn fjölsóttasta ferðamannastað landsins, Bláa lónið, en þangað komu á síðasta ári um 1,3 milljónir gesta, jafnvel rúmlega það, voru það a.m.k. árið 2017, og það segir allt um þann segul sem Bláa lónið er og dregur auðvitað fullt af fólki inn á svæðið. Við sjáum mörg tækifæri í ferðaþjónustu, hjólaferðir og annað slíkt sem nýtt er í Grindavík skiptir miklu máli fyrir svæðið en við viljum sjá meira. Bátar eru gerðir út á sjóstöng og hvalaskoðun og þetta skiptir líka miklu máli. Mikil þjónusta er á svæðinu og auðvitað vinna svo íbúar á því svæði eins og annars staðar í Reykjavík.

Ég segi því að tillagan sem hér er komin fram er mjög góð og vonandi verður það plagg sem kemur frá henni í desember gott plagg til að halda áfram að vinna að góðum málum á Suðurnesjum vegna þess að Suðurnesin eru gott svæði, það er vaxtarsvæði. Þar er mikið að gera og þrátt fyrir þetta högg sem er núna megum við ekki láta það blinda okkur. Svæðið býður upp á það mikið. Að þessu sinni ætla ég að láta þetta duga þar sem margir hafa talað og það styttist í þinglok.