149. löggjafarþing — 125. fundur
 19. júní 2019.
aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna, frh. síðari umræðu.
þáltill. atvinnuvn., 957. mál. — Þskj. 1678.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:44]

[16:36]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Þetta er aðgerðaáætlun í 17 liðum og ég tel að með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu sé traustum stoðum skotið undir innlenda framleiðslu og lýðheilsa landsmanna tryggð vel. Aðgerðirnar eru mjög fjölbreyttar. Flestar þeirra verða tilbúnar þegar frumvarpið tekur gildi 1. janúar 2020 en aðrar eru viðvarandi verkefni, líkt og þær sem snúa að samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu. Því verkefni lýkur aldrei en samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar verður best tryggð með því að gæði hans séu meiri en innfluttra matvæla.

Ég vil nota tækifærið til að þakka sérstaklega sérfræðingi okkar við vinnslu á þessu máli, Kára Gautasyni, vísindamanni í búvísindum, fyrir alla þá aðstoð sem við höfum fengið við að gera þetta mál sem best úr garði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:37]
Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um aðgerðaáætlun til að sporna við þeirri áhættu sem lítt heftur innflutningur á ófrosnu hráu kjöti og ógerilsneyddum matvælum er. Afstaða Miðflokksins er sú að við styðjum mótvægisaðgerðirnar svo langt sem þær ná. Þrátt fyrir þessa aðgerðaáætlun er það engin réttlæting á því að samþykkja þennan innflutning, heldur fremur viðleitni til að draga úr fyrirséðri áhættu og hugsanlegu tjóni sem af þessum innflutningi stafar. Við teljum aðgerðir í þessa veru nauðsynlegar, ekki bara núna heldur ætíð, en teljum þær alls ekki ganga nógu langt. Veruleg óvissa er um að mótvægisaðgerðirnar dugi til að tryggja þá vernd gegn dýrasjúkdómum sem okkur er nauðsynleg. Þær eru illa tímasettar, fjármögnun þeirra óviss og óráðin. Við leggjum áherslu á að ráðherra haldi Alþingi upplýstu um undirbúning aðgerðanna. Mikilvægt er að náðst hefur að fresta gildistöku málsins til 1. janúar nk. svo aukið ráðrúm gefist til að undirbúa aðgerðirnar. Miðflokkurinn leggur áherslu á að hagsmunaaðilum verði haldið upplýstum og hafi virka þátttöku í undirbúningnum og ferlinu öllu (Forseti hringir.) svo aðgerðirnar megi duga sem best.



[16:39]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þetta er góð tillaga. Þetta tengist því að innflutningur verður núna leyfður á búvörum sem hefði átt að gera fyrir löngu, en dómur EFTA-dómstólsins féll og í kjölfarið þurfti að leyfa þann innflutning neytendum til hagsbóta. Á móti kemur að fara þarf í mótvægisaðgerðir til að tryggja að sýklalyfjaónæmar bakteríur dreifist ekki í búfénað á Íslandi o.s.frv. Það er mjög gott.

Ég spurði alla í nefndinni: Eru þessar mótvægisaðgerðir bæði nauðsynlegar og nægilegar sem mótvægisaðgerð til að koma í veg fyrir þá áhættu sem er verið að tala um? Það kemur alveg skýrt fram hjá Matvælastofnun að fara þurfi í þær allar og það þarf að gera fyrir innleiðingu laganna. Nú verður innleiðingu þeirra frestað til 1. janúar. Út úr þessari þingsályktunartillögu um þær mótvægisaðgerðir sem er verið að fara í á að koma skýrsla til Alþingis 1. nóvember þannig að þetta er á góðum tíma. (Forseti hringir.) Þetta er vel gert og það var samstaða í nefndinni um þetta og samkvæmt okkar sérfræðingum eru þetta nægilegar aðgerðir við því að verið sé að flytja inn ófrosið kjöt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:40]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fara að greiða atkvæði um aðgerðaáætlun sem er mjög mikilvæg fyrir öryggi allra matvæla og vernd búfjárstofna og lýðheilsu í landinu. Mig langar til að nota tækifærið til að þakka hv. atvinnuveganefnd fyrir mikla vinnu að málinu og öllum þeim öðrum sem komu að því á ýmsum stigum. Ég þekki töluvert þá vinnu sem þar fór fram og ég tel afskaplega mikilvægt að þessar aðgerðir eru nú komnar í sérstaka þingsályktun sem gefa þeim allt annað vægi en ef þær væru í greinargerð eða nefndaráliti eins og upphaflega var lagt upp með. Ég fagna þessum áfanga sérstaklega.



[16:41]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil nefna að að þeim tillögum sem liggja fyrir í þingsályktunartillögunni hefur verið unnið í hátt í tvö ár með aðkomu fjölda manns í ráðuneytinu, starfsmönnum þingflokka og hjá hagsmunaaðilum. Um þetta hefur skapast breið samstaða og ég vil þakka öllum þeim sem hafa lagt þessu verki lið.

Það er rangt sem hefur verið haldið fram að þessar aðgerðir séu illa tímasettar eða ekki fjármagnaður á þessu ári o.s.frv. Þetta er allt í réttum farvegi. Vinna er hafin við allar þær aðgerðir sem þarna liggja fyrir og henni miðar vel þannig að ég kýs að líta svo á, í ljósi þeirra orða sem hér falla, að mikil og breið samstaða sé um að standa vörð um lýðheilsu og búfjárheilsu í landinu, burt séð frá því hvernig við tökumst á um áratugagamalt deilumál sem íslensk stjórnvöld hefðu fyrir löngu átt að vera búin að leiða í lög.



[16:43]
Þórarinn Ingi Pétursson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér að tala um mig sem neytanda og sem matvælaframleiðanda. Sem neytandi og matvælaframleiðandi í einu orði, einni setningu, fagna ég þingsályktunartillögunni. Ég þakka öllum þeim sem hafa komið að þessari vinnu. Ég var svo heppinn að fá að taka aðeins þátt í henni líka. Ég vil bara segja við þá sem halda því fram að bændur landsins séu uggandi, sárir og reiðir yfir því sem hér er verið að gera, (Gripið fram í: Þeir eru það.) að það er rangt.



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till.  samþ. með 54 shlj. atkv. og sögðu

  já:  NMG,  JarÁ,  AFE,  AIJ,  AKÁ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁsmD,  ÁsF,  BergÓ,  BÁ,  BirgÞ,  BjarnB,  BLG,  BHar,  GBr,  GÞÞ,  GuðmT,  HKF,  HVH,  HHG,  HildS,  JónG,  JÞÓ,  JSV,  KGH,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  LE,  NTF,  OH,  ÓGunn,  ÓÍ,  ÓHall,  ÓBK,  PállM,  SDG,  SPJ,  SilG,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞorS,  ÞórP,  ÞórdG,  ÞSÆ.
2 þm. (GIK,  IngS) greiddu ekki atkv.
7 þm. (ÁslS,  BN,  HSK,  HallM,  HarB,  RBB,  SIJ) fjarstaddir.