149. löggjafarþing — 126. fundur
 19. júní 2019.
fiskeldi, 3. umræða.
stjfrv., 647. mál (áhættumat, úthlutun eldissvæða o.fl.). — Þskj. 1870, nál. m. brtt. 1918, breytingartillaga 1920 og 1921.

[19:08]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta atvinnuveganefndar í fiskeldismálinu. Nánast allar breytingarnar sem þar er að finna hafa verið boðaðar og ættu ekki að koma neinum á óvart. Það var tilkynnt um það strax í upphafi að draga ætti til baka breytingartillögu sem snýr að meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi á svæðum sem þegar hafa verið metin til burðarþols. Eins og kom fram við 2. umr. drógum við í meiri hlutanum til baka nokkrar breytingartillögur frá okkur og hið sama gerðu þau sem stóðu að minnihlutaálitinu. Þær voru svo sameinaðar í þetta nefndarálit með breytingartillögu.

Það hefur gerst í millitíðinni að þó að fleiri þingmenn standi að þessu áliti en meiri hlutinn einn, líkt og var með nefndarálit eftir 1. umr., má segja að veður hafi skipast þannig í lofti að þeir tveir hv. þingmenn Miðflokksins sem sitja í atvinnuveganefnd og voru með á nefndarálitinu eftir 1. umr. eru ekki með á þessu nefndaráliti. Hins vegar hefur hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, sem var framsögumaður minnihlutaálitsins, ritað undir nefndarálitið þó að hún standi ekki að breytingartillögunni sem lögð er fram á sérskjali.

Ég verð að segja, forseti, að mér þykir miður að við skyldum ekki geta sameinast í nefndinni um þær breytingar sem lagðar eru til á sérskjali. Þær eru allar þess eðlis að þær rúmast vel innan þess anda sem unnið hefur verið eftir í nefndinni, um að styrkja betur umgjörðina utan um fiskeldi, að stíga skref í átt til þess að tryggja rétt bæði almennings til upplýsinga og eins fyrirsjáanleika og ekki síst að skjóta styrkari stoðum undir vísindin og rannsóknir sem undir öllu þessu eru.

Ég ætla ekki að lesa allt nefndarálitið, það geta þingmenn gert sjálfir. Viðamesta breytingin sem lögð er til í nefndaráliti með breytingartillögu fyrir utan meðferð leyfa er sú að Hafrannsóknastofnun ákveður skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði á grundvelli burðarþols og bestu heildarnýtingar mögulegra eldissvæða. Áður skal stofnunin leita umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og, þar sem við á, svæðisráðs viðkomandi svæðis um tillögu sína, samanber lög um skipulag haf- og strandsvæða.

Þetta er í raun og veru hið sama og var í breytingartillögum meiri hlutans eftir 2. umr., með leyfi forseta:

„Þar sem strandsvæðisskipulag samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, liggur fyrir skal Hafrannsóknastofnun taka tillit til þess við ákvörðun um skiptingu í eldissvæði. Þar sem strandsvæðisskipulag liggur ekki fyrir skal Skipulagsstofnun birta tillögu Hafrannsóknastofnunar opinberlega á vefsíðu stofnunarinnar og veita þriggja vikna frest til að skila inn athugasemdum áður en stofnunin veitir umsögn til Hafrannsóknastofnunar.“

Þessi breyting verður til þess að tilkynning um alla skiptingu fjarða í hafsvæði eða eldissvæði er auglýst þannig að almenningur hefur færi á að koma með athugasemdir innan þriggja vikna í anda Árósasamningsins og réttar almennings til upplýsinga. Þau svæði sem eru innan skipulags haf- og strandsvæða hefur áður orðið að auglýsa, eins og venjan er með skipulag, og fyrirmyndin er sótt í skipulagslög. Þetta er auglýst þannig að almenningi gefst kostur á að koma með athugasemdir.

Síðan er einu orði skotið inn hvað varðar þá vísindanefnd sem skipuð er á sviði fiskifræði, stofnerfðafræði og/eða vistfræði til að rýna aðferðafræði áhættumatsins. Það er ítrekað að það er nefnd þriggja óvilhallra vísindamanna. Þetta er gert til að undirstrika enn frekar að við séum að tala um faglega rýni og trúverðugleika á aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar. Við teljum að þetta auki trúverðugleikann enn frekar.

Síðan eru efnisminni breytingartillögur sem ég hvet þingmenn til að kynna sér.

Undir þetta nefndarálit rita hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ásmundur Friðriksson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og sá sem hér stendur.

Mér er hins vegar skylt að greina frá því að ég skrifa undir þetta álit með fyrirvara. Fyrirvarinn snýr ekki að því sem ég hef farið yfir hér heldur að breytingartillögunni á þskj. 1920 sem hefur verið dreift með og lýtur að meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi sem þegar eru komnar fram. Ég kynni þá tillögu, forseti, og útskýrir svo fyrirvara minn í örstuttu máli. Tillagan á því skjali fjallar um b-lið 24. gr. og hljóðar þannig:

„Um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lokið fyrir gildistöku þessa ákvæðis eða frummatsskýrslu hefur verið skilað fyrir gildistöku þessa ákvæðis til Skipulagsstofnunar samkvæmt 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, fer eftir eldri ákvæðum laganna.“

Hér er margboðuð breytingartillaga sem snýr að því að, eins og ég hef orðað það, loka dyrunum á eftir gamla kerfinu þannig að umsóknir fari sem mest inn í nýja kerfið eftir að nýju lögin hafa verið samþykkt. Vilji meiri hluta nefndarinnar kom skýrt fram í nefndaráliti við 2. umr. Síðan höfum við unnið að því með stjórnkerfinu að finna bestu leiðina til að þessi skurðpunktur verði sem skýrastur.

Mig greinir á við félaga mína í meiri hluta hv. atvinnuveganefndar. Hér er miðað við að frummatsskýrslu hafi verið skilað. Ég tel að bæði sé betra og skýrara að miða við að matsskýrslu hafi verið skilað, það uppfylli betur þær hugmyndir sem meiri hlutinn setti fram um hvaða áhrif hann vildi að umrædd breyting hefði í för með sér.

Hins vegar lít ég svo á að það mál sem við erum að vinna að saman sé risastórt og mikilvægt og að þetta séu afar góð skref sem við erum að stíga í þessu máli í átt til þess að ná eins víðtækri sátt og hægt er yfir höfuð um fiskeldi hér á landi. Við vitum öll að gríðarlega skiptar skoðanir ríkja um fiskeldi, fólk hefur mjög sterkar skoðanir á því. Þess vegna finnst mér miður að við höfum ekki öll getað sameinast, hvar í flokki sem við stöndum, um það hvernig við viljum sjá þetta. Ef við getum ekki sameinast um það hvernig við viljum sjá þessi mál getum við ekki endilega ætlast til þess að fólk utan þessara veggja sameinist, eða hvað? Þannig hugsaði ég þegar ég ákvað að styðja þessa tillögu þótt ég væri í grunninn sannfærður um að það væri betra að fara aðra leið. En ég veit að ég hef í fyrsta lagi ekki alltaf rétt fyrir mér, í öðru lagi virði ég lýðræðislegan vilja og í þriðja lagi er svo mikilvægt að þetta mál verði að lögum að skiptar skoðanir um eina breytingartillögu eru, með leyfi, forseti, tittlingaskítur í stóra samhenginu. Þess vegna mæli ég fyrir þessu og líka breytingartillögu sem ég geri fyrirvara við en styð. Ég ítreka að ég hefði viljað fara aðra leið en ég styð þessa tillögu.



[19:18]
Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við þessa lokaumræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskeldi langar mig til að koma inn á nokkur atriði en fyrst ætla ég að fá að koma stuttlega inn á breytingartillögu sem við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson erum skrifaðir fyrir og snýr að breytingu á b-lið 24. gr. sem tengist svokallaðri 8. greinar umræðu í þessu máli. Þetta er ekki langur lestur, með leyfi forseta:

„B-liður 24. gr. orðist svo:

Um meðferð umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols, sem bárust fyrir gildistöku ákvæðis þessa og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lokið, skilað hefur verið inn frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar samkvæmt 9. gr. laganna, eða um er að ræða breytingu eða viðbætur við þegar útgefið rekstrarleyfi, fer eftir eldri ákvæðum laganna hvað varðar meðferð og afgreiðslu umsókna.“

Þar sem tillagan er um viðbót við 24. gr. þar sem segir „eða um er að ræða breytingu eða viðbætur við þegar útgefið rekstrarleyfi“ hlýtur öllum að vera augljóst sem hér eru inni og hafa skoðað þetta mál vel að það getur ekki verið markmið lagasetningarinnar að grauta rekstraraðilum saman á sama svæðinu. Það gengur gegn öllu því sem snýr að umhverfishluta þessara laga, sjónarmiðum um vernd villta laxastofnsins og þar fram eftir götunum.

Mér hefur þótt undarlegt hversu tregir sumir hv. þingmenn hafa verið til að sýna þessu sjónarmiði skilning því að markmið laganna getur ekki verið annað en það að þar sem um stækkun á þegar útgefnu rekstrarleyfi er að ræða sé um að ræða sama aðilann. Af hverju í ósköpunum ættum við þá að taka ákvörðun um að stækkunin á þegar útgefnu rekstrarleyfi, þar sem starfsemi er komin af stað, falli undir nýja kerfið? Það heldur engu vatni. Ef við reynum að nálgast þetta út frá því hvernig þetta virkar þarna í raunheimum eru ekki nægjanlega góð rök að það sé búið að leggja svo mikla vinnu í málið að það verði að klára það eins og það liggur fyrir. Það eru að mínu mati ekki rök hvað þetta atriði varðar að þá sé búið að úthluta meiru en hv. atvinnuveganefnd hafði áætlað að yrði úthlutað. Það er bara skynsamlegt að nálgast þetta svona, að verkefni sem eru í undirbúningi og búin að vera það árum saman og snúa að því að stækka þegar útgefin rekstrarleyfi fái að lifa.

Menn reikna sig ekki upp á tvo aukastafi í hvað er rétt og rangt þegar heildarendurskoðun á lagabálki á sér stað. En þetta atriði hljóta hv. þingmenn að líta á sem sanngjarnt og eðlilegt og blanda ekki inn í það markmiðum um heildaruppsafnaða úthlutun leyfa og þar fram eftir götunum. Þegar aðili sem er búinn að fá útgefin öll leyfi og hefur hafið rekstur á eldissvæðinu og óskar eftir stækkun á því leyfi og fer í gegnum alla þá ferla sem því fylgir, það er enginn undansláttur með það, hlýtur hann með öllum réttmætum og sanngjörnum sjónarmiðum að falla undir gamla kerfið.

Ég vona að hv. þingheimur fallist á þessi sjónarmið því að ef horft er á þetta úr smáfjarlægð ætti öllum að vera ljóst að það er beinlínis í anda þeirra markmiða sem er verið að reyna að ná fram með lögunum að nálgast þetta atriði svona.

Það er annað sem er mikilvægt að nefna í þessu samhengi, það að þetta styður við markmið laganna um umhverfisvernd, vernd hins íslenska villta laxastofns og þar fram eftir götunum, í fyrsta lagi vegna þess að þarna erum við þá augljóslega að tryggja að sami aðilinn haldi á stækkuninni og frumúthlutuninni á því tiltekna svæði og enn fremur tryggjum við með þessu, sem er sjálfstætt markmið að mínu mati, að ýtt sé undir það að rekstraraðilar sem í þessu standa hafi ákveðna stærð og burði til að bera til að geta sinnt umhverfisverndarhlutanum, til að geta sinnt því að við séum ekki að taka áhættu með íslenska villta laxastofninn, til að geta brugðist við kröfum sem við setjum fram hérna. Það er ekki loku fyrir það skotið að einhvern tímann vilji þingheimur, ef ástæða þykir til, herða á umhverfisskrúfunum, ef svo má segja, herða á þeim skilyrðum sem sett eru hvað þessa starfsemi varðar.

Þá verða þessi fyrirtæki að hafa burði til að bregðast við slíkum breytingum.

Enginn velkist í vafa um að málið allt er stórt, flókið og umdeilt. Sú staða er uppi að fyrirsvarsmenn stærstu hagsmunaaðilanna báðum megin víglínunnar, ef svo má segja, telja málið þannig vaxið í dag að það væri skynsamlegt að þingheimur tæki sér rýmri tíma til að vinna það. Landssamband veiðifélaga er þeirrar skoðunar og hvetur þingheim til að taka sér rýmri tíma til að vinna málið. SFS, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, leggja til fyrir hönd eldisfyrirtækjanna að Alþingi taki sér rýmri tíma til að skoða málið.

Ég er hræddur um að í þetta skiptið séu rökin ekki til staðar sem oft vill verða þegar allir aðilar málsins virðast tiltölulega ósáttir, að menn hafi hitt þarna á rétta punktinn. Ég held því miður að það eigi ekki við í þessu máli. Það eru ógrynni atriða sem æskilegt væri að skoða betur.

En svo allrar sanngirni sé gætt hafa ýmis atriði lagast í meðförum nefndarinnar. Þar hefur verið unnið prýðilegt starf en málið er einfaldlega þess eðlis að það er ekki alveg tilbúið. Breytingarnar sem bæði hafa komið fram á milli umræðna og koma síðan fram í nefndaráliti sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé fór yfir áðan eru sem betur fer flestar í rétta átt en þó vantar enn nokkuð upp á.

Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom réttilega inn á það í ræðu sinni áðan að hv. þingmenn Miðflokksins, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson, hefðu verið á nefndaráliti sem kom inn á milli 1. og 2. umr. Þeir hv. þingmenn voru á því áliti með fyrirvara og fyrirvarinn sneri einmitt að 8. gr. Það er það sem þingmenn Miðflokksins höfðu áhyggjur af, því að hér er ekki bara um að ræða veiðiréttarhafa sem hafa áhyggjur, veiðiréttarhafa í Borgarfirði og í Húnavatnssýslunum, fyrir austan og hvar á landinu sem er, í Djúpi jafnvel. Það eru ekki bara fiskeldisfyrirtækin, það eru líka sveitarfélögin þar sem þessi uppbygging á sér stað sem taka ákvarðanir og hafa tekið ákvarðanir út frá því hvernig þessi mál skipast. Svo eru heimilin í þessum byggðarlögum sem hafa tekið ákvarðanir út frá þeim væntingum um framtíðaruppbyggingu, réttmætum væntingum, sem fyrirtæki, sveitarfélög og heimili höfðu af því að starfsemin í þessum geira hingað til hefur ekki verið í neinu lagalegu tómarúmi. Vissulega erum við að vinna að uppfærslu þessara laga af því að þau má bæta. Staðan er samt sú að fyrirtæki hafa verið að vinna undir þeim reglum sem um geirann gilda. Sveitarfélögin og heimili á þessum svæðum hafa öll nálgast hlutina og haft væntingar um uppbyggingu og uppbyggingarhraða á réttmætum forsendum og í góðri trú.

Sem betur fer er umhverfishlutinn í þessum málum og varnir settar til að verja hinn ótrúlega, einstaka, íslenska villta laxastofn sem við eigum og þar þykir mér hafa tekist betur til en í þeim málum er snúa að leyfisúthlutun.

Og bara til að enginn misskilningur sé uppi um þau mál sem snúa að 8. gr., þ.e. hvernig haldið er á leyfum og leyfisúthlutunum, hvaða leyfisumsóknir lifa og hvaða leyfisumsóknir deyja, það að ganga lengra hvað það varðar að fleiri umsóknir lifi en lagt er til í áliti nefndarinnar, vil ég, svo allrar sanngirni sé gætt, þakka fyrir að þó sé miðað við frummatsskýrslu í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar. Viðmið um matsskýrslu hefðu mér þótt alveg hræðileg niðurstaða svo ég reyni að orða það varlega. Það að draga línuna sem næst því á ásnum að meira magn leyfa lifi en minna styður við náttúruverndarlutann og vernd hins íslenska laxastofns, ekki öfugt. Það er af því að þetta tryggir að fyrirtækin sem á þessum markaði starfa hafi afl til að bregðast við kröfunum. Menn eru búnir að sjá þetta erlendis, ég tók í ræðu í gær eða fyrradag dæmi af Chile. Þar batnaði ástand mála verulega þegar menn báru gæfu til að breyta regluverkinu með þeim hætti að eldisfyrirtækin urðu færri, stærri og öflugri í staðinn fyrir að þau voru veikburða og smá á fyrri stigum.

Ég vil í lok ræðu minnar aftur hvetja þingheim til að taka undir breytingartillöguna sem snýr að því að þeir aðilar sem þegar hafa útgefið rekstrarleyfi og óska eftir stækkun á því tiltekna rekstrarleyfi verði áfram undir gamla kerfinu en að þær umsóknir falli ekki niður og að þeir þurfi þá ekki að byrja upp á nýtt. Það yrði svo fjarri markmiðum laga þeirra sem hér er verið að fjalla um ef menn fyndu sig í þeirri stöðu að þriðji aðili fengi úthlutað eftir útboð þeim stækkunarheimildum sem hér um ræðir. Þá væri loksins gengið til ills í þessu því að það getur ekki verið markmiðið. Það er það ekki og þessi breytingartillaga er í takti við markmið laganna og ég hvet þingheim allan til að samþykkja hana.



[19:32]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að segja að ég er pínulítið hissa á að sjá hv. þm. Bergþór Ólason á breytingartillögu um þetta mál. Minni mitt er gloppótt en ég man ekki eftir hv. þingmanni á mörgum fundum hv. atvinnuveganefndar um málið. Það skýrir kannski það sem mér finnst vera misskilningur um ýmislegt, svo ég tali pent, sumt sem ég held að eigi sér einfaldlega ekki alveg stoð í raunveruleikanum. Hv. þingmenn Miðflokksins hafa mikið talað um fyrirvara í síðari umr. um þriðja orkupakkann og sagt heilmikla brandara um leitina að fyrirvörum. Hér talaði hv. þm. Bergþór Ólason um að aðrir tveir kollegar hans í Miðflokknum hefðu skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvar þeir fyrirvarar eru því að þá er ekki að finna í nefndarálitinu. Og það er kannski ókunnugleiki hv. þingmanns gagnvart málinu sem veldur því að hann ruglar líka saman þeim þingmönnum sem skrifa undir nefndarálitið. Það voru hv. þingmenn Ólafur Ísleifsson og Jón Þór Þorvaldsson sem rituðu undir það og ekki með neinum fyrirvara. Það að leggja út frá einhverjum meintum fyrirvara eru einfaldlega rangfærslur eða talað af ókunnugleika.

Þegar talið berst að kunnugleika eða ókunnugleika kannast ég mjög við þann texta sem settur er fram í breytingartillögu hv. þingmanns. Hann er ansi líkur texta sem framkvæmdastjóri eins fiskeldisfyrirtækis sendi á nefndarmenn hv. atvinnuveganefndar í morgun. Er sá texti uppruni þessarar breytingartillögu?



[19:35]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst er það að segja að ég hef gagnrýnt það mjög í meðförum nefndarinnar, og það hefur ekki verið neinn feluleikur með það, að mér hafa þótt nefndarmenn leggja mikið upp úr því að nálgast þetta mál þannig að það væri þeim, hvort sem það var viljandi eða ekki, óljóst hvaða áhrif sú lína sem lögð er til í meirihlutaálitinu hefði á hvert svæði fyrir sig. Svörin við þeirri gagnrýni voru að kalla eftir samantekt frá Skipulagsstofnun um leyfisbeiðnir sem eru í gangi og hvorum megin hryggjar þau féllu miðað við ýmsar gefnar forsendur. Þar var skipt upp í Austurland og Vestfirði. Ég hef ekki farið dult með að þetta þótti mér allsendis fráleit nálgun nefndarmanna. Ég hef líkt því við það að hv. nefndarmenn hafi viljað nálgast málið þannig að síðar væri hægt að kenna einhverri opinberri stofnun um að leyfisumsóknir féllu öfugum megin hryggjar.

Ég vildi gera kröfu um að þingmenn tækju þessa ákvörðun með galopin augun, að menn vissu hvaða áhrif þetta hefði á hvert svæði fyrir sig, að það væri öllum ljóst og að menn tækju ákvarðanir út frá því.

Staðreyndin er sú að sú lína sem nú er dregin, miðað við niðurstöðu nefndarinnar, kemur sérstaklega illa niður á einu tilteknu svæði, sunnanverðum Vestfjörðum. Þær upplýsingar komu ekki fram í gegnum nefndina. (Forseti hringir.) Menn þurftu að rýna í þau takmörkuðu gögn sem lögð voru fram. Ég held að það sé bara kostur að öllum sé ljóst á hvaða svæði mestu áhrifin verða miðað við þennan skurðpunkt.



[19:37]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmanni tókst að tala í tvær mínútur og jafnvel tala sig upp í smáæsing af því að hann þurfti að tala svo mikið fram hjá mínum tveimur beinu spurningum sem hann vék ekki einu orði að. Þess vegna ætla ég að nýta þessa mínútu til að endurtaka spurningarnar. Ég vona að hv. þingmanni dugi sú mínúta sem hann hefur til að svara þeim í þetta skiptið.

Hvar eru fyrirvararnir sem hv. þingmaður útskýrði í löngu máli áðan hvað hefðu þýtt? Þeir voru reyndar ekki eignaðir akkúrat réttum hv. þingmönnum í Miðflokknum en látum það vera. Hafði hv. þingmaður rangt fyrir sér þar? Ætti hann þá ekki að leiðrétta það hér, að það eru engir fyrirvarar?

Textinn sem býr að baki breytingartillögunni minnir ansi mikið á tölvubréf sem hv. þingmenn í atvinnuveganefnd fengu í morgun frá framkvæmdastjóra eins fiskeldisfyrirtækis. Á breytingartillagan uppruna sinn þar?



[19:38]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa gleymt að svara spurningunni um nefndarálitið. Ég hugsaði með mér að ég hefði þá seinna andsvarið til þess.

Það er hárrétt að það er misminni hjá þeim sem hér stendur, auðvitað var hv. varaþingmaður Jón Þór Þorvaldsson varamaður inni fyrir Sigurð Pál Jónsson þegar nefndarálitið sem var til meðferðar milli 1. og 2. umr. var lagt fram. Ég fletti því ekki upp áður en ég kom í ræðuna en mig minnti að þeir hefðu gert fyrirvara við þá undirritun. Ef svo er ekki dreg ég það til baka. Ég tek alveg á mig þetta misminni ef þetta var svona en það breytir ekki þeim efnisatriðum að 8. greinar málefnin hafa verið gagnrýnd mjög harkalega af fulltrúum Miðflokksins allan tímann. (KÓP: En uppruni breytingartillögunnar?) Uppruni breytingartillögunnar? Ja, þetta eru þau sjónarmið sem ég er að tala fyrir hérna, (Forseti hringir.) að opnunin —

Ég veit ekki hvort það eru fleiri fyrirtæki sem falla undir þetta en ég veit að þarna er rekstur á svæði sem hefur verið sérstaklega viðkvæmt áratugum saman og mér þykir ekki boðlegt að viðskilnaður Alþingis við þetta mál (Forseti hringir.)verði með þeim hætti að það svæði sem hefur verið veikast um langa hríð verði það sem fer verst út úr skurðpunktinum. (Gripið fram í.)

(Forseti (BN): Forseti minnir hv. þingmann á tímamörkin.)



[19:40]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Það er eiginlega búið að spyrja að því sem ég ætlaði að spyrja en ég vil taka í sama streng. Það kemur fram í nefndarálitunum að Jón Þór Þorvaldsson og Ólafur Ísleifsson geri ekki fyrirvara. Ég heyrði eftir að málið hafði verið afgreitt í 2. umr. þeir hefðu bakkað út úr því og yrðu með fyrirvara og fylgdist sérstaklega vel með því. Ég vildi fylgjast með því hvar menn staðsettu sig. Þeir settu ekki fyrirvara heldur bara samþykktu málið eins og það var afgreitt úr nefndinni. Ég varð hissa þegar þeir fóru að tala um það eftir á, skoðaði það og sá að það var enginn fyrirvari. Það er enginn fyrirvari. Ég man þetta mjög vel og ég tek mjög góðar glósur í nefndum, höfum það alveg á hreinu.

Svo horfir maður á stöðuna og reynir að lesa út úr henni. Þarna er Ólafur Ísleifsson. Hann er í Reykjavíkurkjördæmi norður, kannski ekki endilega að hugsa um sérhagsmuni Norðvesturkjördæmis, og nú er þingmaðurinn Bergþór Ólason búinn að nefna það hérna, sem er hv. 4. þm. Norðvest., og er að berjast fyrir sérhagsmunum þeirra sem nú þegar eru fyrir í fiskeldi að hann vill koma með breytingartillögu um að þeir fái útvíkkun á sínu, að það sé inni að þeir þurfi ekki að fara aftur í röðina, að þeir geti verið í gamla kerfinu með sitt ef þeir vilja t.d. stækka við sig.

Gott og vel, það er alveg skiljanlegt að menn berjist fyrir sérhagsmunum en þá er ágætt að það sé ljóst nákvæmlega hver staðan er. Staðan er sú að þingmenn Miðflokksins voru ekki með fyrirvara. Menn gera mistök og þeir geta þá komið sjálfir, a.m.k. Ólafur Ísleifsson, og útskýrt hvernig það er. Ég tek undir spurninguna frá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé um það hvernig þetta gerist.

Síðan kemur maður aftur heim og á þing, Sigurður Páll Jónsson í Norðvesturkjördæmi, aðalmaður þar, og svo Bergþór Ólason, aðalmaður í Norðvesturkjördæmi, báðir stökkva á þetta og inn í nefndina og eru með andstöðu við það sem hinir þingmenn Miðflokksins höfðu samþykkt.

Mér sýnist þetta svolítið vera staðan og að þarna séu ákveðnir sérhagsmunir. Þingmaðurinn getur leiðrétt mig ef svo er ekki.



[19:42]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa yfir mikilli ánægju með góðar glósur hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar. Sérstaklega þykir mér athyglivert ef það kemur fram í þeim að ég hafi verið með honum á fundum atvinnuveganefndar. (JÞÓ: Ég sagði það ekki.) Ég skildi það þannig. Ég er ekki í þeirri nefnd. Við sem erum flutningsmenn að þessari breytingartillögu erum þingmenn Norðvesturkjördæmis sem er annað af tveimur kjördæmum landsins þar sem er meginþungi fiskeldisins sem nú er verið að ræða þannig að það er ekkert tortryggilegt við það.

Það er bara heiðarlegt að segja frá því að það hefur verið meira en lítið mál að draga út upplýsingar um það hvaða áhrif hver sá skurðpunktur sem um hefur verið rætt í málinu hefði á hvert svæði fyrir sig. Til að mynda fyrir vestan er munur á því hvort inni eru leyfi á sunnanverðum Vestfjörðum eða í Ísafjarðardjúpi þar sem enn er allt lokað. Svona hlutir skipta máli og nefndin var treg til, svo ég orði það pent, að sundurgreina þetta. Ég hef sagt það í ræðu áður að ég vildi að nefndarmenn nálguðust málið með galopnum augum gagnvart því hvaða áhrif þetta hefði á hvert svæði fyrir sig.

Hvað mælir því í móti? Hér er talað um gegnsæi daginn út og daginn inn og ég veit að hv. þm. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, er mikill áhugamaður um gegnsæi. Mér þótti ekki mikið gegnsæi í því að það var beinlínis lagst gegn því (Forseti hringir.) að sundurgreina áhrif hvers skurðpunkts fyrir sig.



[19:44]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Það hefði verið mjög gott að gera það, enda er ég ekki hlynntur þessu máli. Ég get ekki greitt atkvæði með því og ég hef lýst því yfir. Ég er ekki á nefndarálitinu og ég er ekki með. Við greiðum atkvæði með þeim atriðum í breytingartillögum og greinum sem setja betri umgjörð utan um vernd náttúrunnar í þessu frumvarpi sem er gert líka en á sama tíma er verið að víkka út og stækka hvað megi vera með mikið fiskeldi í landinu og setja ákveðið gjald á það hvað skuli taka, sem er langt undir því sem menn sem sækja miðin eiga að venjast í sjávarútvegi. Okkar tillaga er að gera það.

Varðandi umhverfissjónarmiðin sem hv. þingmaður hefur mikið talað um eru til leiðir til að setja upp varnir þannig að ef frjóir fiska sleppa gangi þeir ekki upp árnar og hrygni. Þetta er ekki komið á. Væri þá ekki bara gott að bíða svolítið með það mál þangað til þessar mótvægisaðgerðir eru raunverulega komnar upp?

Finnst þingmanninum ekki að allur ytri kostnaður (Forseti hringir.) ætti að vera nýttur, að allur ytri kostnaður sem hlýst af einhvers konar umhverfisspjöllum ætti allur að vera lagður á fiskeldisfyrirtækin sjálf?



[19:46]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að meginreglan sé sú að sá umhverfiskostnaður, það mögulega tjón sem rekstur veldur, skuli greiðast af þeim rekstri sem honum veldur. Ég treysti mér ekki til að svara þessari spurningu skýrar en þetta. Ég vona að ég sé að svara spurningunni sem átti að koma hér í gegn.

Varðandi mótvægisaðgerðirnar sem hv. þingmaður kom inn á má nefna ýmislegt. Við sjáum t.d. að í Langadalsá er verið að klára — ég man ekki hugtakið sem er notað yfir þetta en eiginlega fiskigildru eða síu sem tekur mynd af hverjum einasta fiski sem fer upp í ána. Menn nota ljósastýringar, möskvastærð og annað slíkt, þetta eru allt saman hlutir sem er hægt að taka ákvörðun um með mjög stuttum fyrirvara hjá eldisfyrirtækjum og þar fram eftir götunum. Ég held að undirbúningur og (Forseti hringir.) aðdragandi mótvægisaðgerða sé í sjálfu sér á ágætisstað.



[19:47]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir þessi ræða hjá hv. þingmanni koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í þessa umræðu, inn í þá góðu vinnu sem hefur verið í atvinnuveganefnd mjög lengi í þessu stóra og mikla hagsmunamáli, að byggja upp fiskeldi til framtíðar með nýrri löggjöf og horfa til umhverfissjónarmiða og líka til þess að vernda villta laxastofna landsins. Mér þykja ummæli hv. þingmanns bera vott um að hann sé ekkert inni í þessum málum. Við erum að setja almenna löggjöf, ekki löggjöf sniðna að einstaka fyrirtækjum. Ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um að löggjöf eigi að miðast almennt við lagaumhverfi þeirra sem hún á að ná til en ekki með einhverjum krúsindúllum til að mæta einstaka fyrirtækjum sem lobbíast á Alþingi.

Við erum búin að vinna mjög þétt saman að því að greina hvaða leið væri hægt að fara til að mæta því að hafa skýr lagaskil á milli gömlu laganna og þeirra nýju sem við erum að setja hér. Væntanlega vill hv. þingmaður að einhverjir vinni eftir þessum nýju lögum sem við erum búin að vinna svo lengi að. Það er ekki einhver endastöð ef menn komast ekki inn með umsóknir á grundvelli gömlu laganna. Það er framtíð eftir það fyrir öll fiskeldisfyrirtæki.

Hvað sér hv. þingmaður að því að farin sé frummatsskýrsluleið þar sem menn eru komnir næstum því á endastöð í umsóknarferlinu? Við fórum þá leið frekar en að taka matsskýrsluleiðina sem er enn þrengri. Við víkkuðum þetta og fengum þær upplýsingar hjá Skipulagsstofnun að það væru mjög skýr lagaskil að miða við móttöku á frummatsskýrslu. (Forseti hringir.) Eins og tillaga hv. þingmanns lítur út eru menn á byrjunarreit í tillögu að matsáætlun til að þóknast einhverjum ákveðnum fyrirtækjum og við höfum aldrei horft til þess hvaða fyrirtæki eru þar undir, kennitölur eða landshlutar.



[19:50]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir andsvarið. Ég tók það einmitt sérstaklega fram að ég vissi ekki hversu margir aðilar féllu undir þetta. Punkturinn hjá mér er sá að leyfisumsóknir þar sem verið er að óska eftir stækkun á þegar útgefnu rekstrarleyfi falli undir gamla kerfið. Það er akkúrat það sem ég sagði. (JÞÓ: Áttu við um …?) Fyrirgefðu? Það er það sem ég segi hérna og út á það gengur breytingartillaga mín.

Það getur ekki verið markmið þessara nýju laga að stækkun á þegar útgefnu rekstrarleyfi fari á uppboðsmarkað og geti lent hjá hverjum sem er, er það? Er það markmiðið með þessari lagasetningu að upp geti komið sú staða að það verði grautað saman rekstraraðilum á takmörkuðu svæði? Ég held að það sé ekki markmiðið. Ég er eiginlega alveg viss um að það er ekki markmiðið.

Ég held að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, hafi misskilið mig eitthvað. Það sem ég er að tala um er ferli sem er í gangi og getur hafa staðið yfir árum saman, hvar á landinu sem það kynni að vera. Framsögumaður málsins nefndi áðan tiltekið dæmi. Ég veit um eitt en það getur vel verið að það séu fleiri en það getur ekki verið markmiðið að stækkun á þegar útgefnu rekstrarleyfi fari til annars aðila en hefur það í dag. Það getur ekki verið.



[19:52]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Alþingismenn handpikka ekki fyrirtæki inn á þau svæði sem eru burðarþolsmetin. Það er alveg á hreinu. Það eru fleiri en einn aðili sem sækja um í hverjum firði sem er burðarþolsmetinn. Sumir eru búnir að skila frummatsskýrslu og eru komnir á endastöð, aðrir ekki. Það kemur skýrt fram hjá Skipulagsstofnun, í áliti sem ég tel að hv. þingmaður hefði átt að vera búinn að kynna sér, að ef um stækkun er að ræða er það háð lögum um umhverfismat með sama hætti og gildir um nýframkvæmd áform. Þetta hefði ég haldið að hv. þingmaður legði sig fram um að kynna sér áður en hann fer að flytja breytingartillögu sem er algjörlega absúrd. Sú breytingartillaga myndi ná til allra þeirra í framtíðinni sem væru að stækka við sig, að þeir færu eftir gömlu lögunum. Út í hvaða forarpytt værum við að fara þá?

Við erum hér að setja almenn lög en ekki sértæk lög (Forseti hringir.) til að eltast við einhverjar vinsældir í sínu kjördæmi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[19:53]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki hafi verið nein spurning í þessu hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur en ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan, það getur ekki verið markmið þessara laga að aðili sem er að sækja um stækkun á þegar — (LRM: Það er ekki það sem ég sagði.) Jú, jú, ég heyrði það nefnilega. (LRM: Það er ekki rétt.) — útgefnu rekstrarleyfi lendi í limbói með það gagnvart þriðja aðila innan svæðis.

Það breytir ekki þessari afstöðu minni að hv. þingmaður hristi hausinn.

Það er ekkert verið að biðjast undan því að aðilar sem halda leyfum virkum á grundvelli gamla regluverksins losni undan því regluverki sem þarf að fara í gegnum með stækkunina, síður en svo. Það dytti mér ekki í hug. (Forseti hringir.) Þetta snýst bara um að menn þurfi ekki að byrja aftur á núlli. (LRM: Það er enginn sem þarf að gera það. …)



[19:55]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tel að með þessum breytingum á lögum um fiskeldi séum við að skapa skýrari umgjörð um fiskeldi á Íslandi til framtíðar. Eins og fram hefur komið, kannski óþarflega oft í þessum ræðustól, hefur samvinna í nefndinni og vinnan að málinu í henni verið til fyrirmyndar þó að við höfum ekki náð saman um öll atriði málsins að lokum.

Nefndin leggur til nokkrar breytingartillögur við 3. umr. þar sem tekið er tillit til nokkurra tillagna minni hlutans. Þar tel ég sérstaklega mikilvægt að kveðið sé á um kynningu á skiptingu eldissvæða á þeim svæðum þar sem ekki er í gildi strandsvæðaskipulag. Sömuleiðis verður kveðið skýrt á um að nefnd vísindamanna sem eiga að fjalla um áhættumat erfðablöndunar skuli vera skipuð óvilhöllum aðilum. Að lokum er nefndin sammála um mikilvægi þess að til staðar sé framtíðarsýn fyrir fiskeldi sem miði að því að tryggja að fiskeldi á Íslandi verði í fremstu röð hvað varðar framleiðslu, umhverfisþætti og sjálfbærni. Allt eru þetta atriði sem við teljum að styrki málið mjög og fögnum því að samkomulag hafi náðst milli minni og meiri hluta nefndarinnar um þessi atriði.

Auðvitað eru atriði í löggjöfinni sem ég tel að hefðu mátt fara öðruvísi en þetta er niðurstaðan og ég tel að hún sé til bóta.

Sú leið sem meiri hlutinn hefur valið varðandi tilhögun leyfismála á burðarþolsmetnum svæðum er hins vegar ákveðin vonbrigði, enda er sjálfur framsögumaður málsins á tillögunni með fyrirvara. Sú leið sem valin er þýðir að lítið magn, ef eitthvert, verður eftir á burðarþolsmetnu svæðunum til úthlutunar samkvæmt nýju lögunum. Það tel ég sérstaklega slæmt enda hef ég, eins og ég hef sagt áður, þá trú að með nýju löggjöfinni komi inn mikilvæg atriði við mat á umsóknum, eins og t.d. upphæð tilboðs, reynsla af fiskeldisstarfsemi, fjárhagslegur styrkur og mælikvarðar sem mæla hvernig tilboðsgjafi hefur stundað rekstur sinn og upplýsingar um það hvernig tilboðsgjafi hyggst stunda reksturinn. Allt eru þetta atriði sem ég tel mikilvægt að verði horft til við mat á umsóknum og hefði ég því viljað sjá stærri hluta fiskeldisleyfa fara eftir nýju löggjöfinni í stað þess að það sé einfaldlega fyrstur kemur, fyrstur fær eins og er í þeirri gömlu.



[19:58]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Það er einstaklega gaman að vera í salnum með þér, jafn oft og við erum hér í salnum. Ég sé að hv. þm. Jón Þór Ólafsson er kominn. Hann tekur kannski sæti mitt hér næst á eftir.

Það er rétt að geta þess, virðulegi forseti, að samstaða í nefndinni hefur verið afar góð í þessu máli. Við erum búin að vinna mánuðum saman að því máli sem hér er til umræðu og ég verð að segja eins og er, jafn ólík og við erum öll og með ólíkar skoðanir, að það hefur gengið vel að vinna þetta mál undir öruggri forystu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés sem er framsögumaður þessa máls og formanns nefndarinnar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur.

Við erum búin að hitta gríðarlega marga og höfum átt fundi með fólki erlendis, í Noregi eins og hér hefur komið fram, til að setja okkur sem best inn í þessi mál. Það sem mér finnst ánægjulegast við lok allrar þessarar vinnu er að allan þennan tíma höfum við verið eins og með autt blað fyrir framan okkur án þess að vita hvaða fyrirtæki það væru sem við værum að hugsa um og vinna fyrir, hvaða svæði það væru. Núna í lokin þegar síminn hringir mikið getum við alveg með sannleika sagt, að ég hygg allir nefndarmenn, að við höfum unnið af heilum hug að þessu máli og reynt að landa því fyrir heildina án þess að hugsa um einhverja sérhagsmuni. Það hefur verið algjörlega þannig.

Það eru mjög viðkvæm mál sem við erum að fara með og viðkvæmast af því öllu var auðvitað þegar við þurftum að finna þann skurðpunkt þegar lögin áttu að taka gildi. Það liggur fyrir að skurðpunkturinn mun miðast við frummatsskýrslur þar sem fyrirtækin hafa eytt mestum tíma og mestum peningum í að undirbúa þau leyfi sem þau sækjast eftir. Það hefur líka verið upplýst í nefndinni og okkur sagt að öll sú vinna og allir þeir peningar sem fyrirtæki sem hafa ekki náð því marki að vera búin að skila frummatsskýrslu munu nýtast í áframhaldandi vinnu. Það er gríðarlega mikilvægt og ég verð að segja alveg eins og er að fyrir mig var mikill léttir að vita þegar við þyrftum einhvers staðar að skera á málið að hinir miklu peningar þeirra fyrirtækja sem náðu ekki inn og þeirra dýra vinna myndu nýtast áfram. Það er huggun harmi gegn.

Við verðum líka að átta okkur á því að við erum að tala um að burðarþolsmetið fiskeldi á Íslandi er u.þ.b. 144.000 tonn og eins og kom fram í máli framsögumanns var meiningin að töluverðu af því magni yrði úthlutað samkvæmt nýjum lögum. Það var farið af stað með það. Það er eitt af þeim verkefnum sem við settum okkur í upphafi. Þegar tíminn hefur liðið og staðan hefur skýrst kemur í ljós að eftir að við höfum samþykkt þessi lög munum við trúlega standa uppi með það að 122.000 tonnum af þessum 144.000 er meira og minna þegar úthlutað eða komin í þann farveg að verða úthlutað.

Það liggur fyrir strax að þegar hefur verið úthlutað 50.000 tonnum. 15.000 tonn eru á bráðabirgðalögum sem við settum í haust og önnur 15.000 tonn komin á lokametrana. Svo eru 17.000 tonn samkvæmt matsskýrslu. Með því að taka skurðpunktinn um frummatsskýrslu erum við að tala um 20.000–25.000 tonn sem gerir það að verkum að við erum að landa þessu máli með því að klára nánast burðarþolið. Þá eru 24.000–25.000 tonn eftir. Það er langt umfram það sem við ætluðum upphaflega og ekki hægt að segja að með þessu þyngi þingið róður þessara fyrirtækja eða komi í veg fyrir það að þau geti vaxið og dafnað.

Ef ég man rétt voru framleidd u.þ.b. 11.000 tonn á síðasta ári. En við hlökkum til að sjá það vaxa og dafna og það veitir ekki af fyrir samfélagið sem þarf á milljarði í nýjum tekjum að halda í hverri einustu viku næstu 20 árin ef við ætlum að halda í 3% hagvöxt í þessu landi. Það er gríðarlega mikilvægt. Sóknarfærin eru í laxeldinu. Þar eru gríðarleg sóknarfæri. Við treystum þessum fyrirtækjum til að bera okkur inn í framtíðina á þessum vængjum og auka tekjurnar og vera virkilega sú grein sem kannski er mest horft til í dag um vöxt í þessu landi.

Mig langar bara til að það komi hér fram að við teljum okkur hafa gengið eins langt og nokkur kostur var. Á síðustu metrunum er mjög mikilvægt að við reynum að tala áfram einum rómi til að klára þetta mál í sátt og samlyndi, eins og hér hefur komið fram. Það hefur aldrei verið hugmynd okkar að grauta fyrirtækjum saman í firðinum. Það er alls ekki heppilegt og eitt af því fyrsta sem var sagt við okkur var að helst ætti að koma í veg fyrir að það væri meira en eitt fyrirtæki í hverjum firði og á hverjum stað. Þegar við komum að þessu máli var það hins vegar ekki hægt af því að sú staðreynd blasti við að fleiri en eitt fyrirtæki voru komin á suma staðina. Auk þess eru firðirnir mjög stórir og ef áhættumatið leyfir kannski í framtíðinni laxeldi í Ísafjarðardjúpi er varla hægt að ætlast til þess að eitt fyrirtæki verði þar með 30.000 tonna eldi. Þar eru líka gríðarleg tækifæri.

Við höfum rætt áhættumatið áður, það er líka verkfæri sem er alveg á heimsmælikvarða þannig að atvinnuveganefnd og þingið getur gengið hnarreist frá borði þegar við höfum lokið þessu máli, þess fullviss að við séum að setja góð lög með góðri samvisku.



[20:05]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vil byrja á að segja að Píratar geta ekki samþykkt þetta fiskeldisfrumvarp vegna þess að það er alveg ljóst að ekki er fylgt að fullu annars vegar varúðarreglunni og hins vegar kostnaðarreglunni þegar kemur að umhverfisvernd. Varúðarreglan er sú að allt sé gert sem tæknilega er hægt. Það er mikið talað um bestu tækni en þegar frumvarpið tekur gildi verður ekki búið að tryggja með fáanlegri tækni að komið verði í veg fyrir þann umhverfisskaða sem hlýst af fiskeldi þegar ekki eru notaðar bestu hugsanlegu mótvægisaðgerðir.

Eitt varðandi kostnaðarregluna er að í þessu frumvarpi er heldur ekki tryggt að fiskeldisfyrirtækin sem stunda þennan rekstur beri kostnaðinn af umhverfisspjöllum. Það er ekki tryggt í þessu frumvarpi og þess vegna geta Píratar ekki samþykkt það.

Jafnframt var í gær felld tillaga frá okkur Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um að gjaldtakan færi eftir þeirri sömu reglu og þegar kemur að því að taka gjald af sameiginlegri auðlind landsmanna við nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Þetta er heldur ekki gert. Því var hafnað hér í gær.

Að gefnum öllum þessum forsendum, samkvæmt samþykktri stefnu Pírata, geta Píratar því ekki stutt þetta mál.

Mig langar að fara inn í spádóma um hvað gerist í kjölfarið á þessu frumvarpi, sér í lagi eftir fund í atvinnuveganefnd í gær þegar Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi komu fyrir nefndina ásamt ráðuneytinu. Þá fór ákveðin mynd að teiknast upp. Það er mikil óánægja hjá þessum sérhagsmunagæsluaðilum um að skurðpunkturinn, sá punktur sem var valinn í umsóknarferlinu, væri á þeim stað að ekki skyldi allt rata inn í gamla kerfið langt umfram áhættumatið. Það sem er gert í þessu frumvarpi er að nánast allt ratar í gamla kerfið, ekki í lögin eins og við erum að samþykkja þau núna. Þar ratar nánast allt inn í gamla kerfið eins og lögin eru áður en við samþykkjum þetta.

Það er margt gott í þessu góða frumvarpi enda samþykktum við Píratar góðu partana af því hérna í gær en greiddum atkvæði gegn því sem við erum ósammála. Þannig vinnum við málefnalega en við getum að sjálfsögðu ekki samþykkt málið í heild, eins og ég segi, vegna þeirra forsendna sem ég talaði um. Það á nánast allt, allt umfram það sem er í dag í fiskeldi, að lenda innan gömlu laganna.

Samt voru sérhagsmunagæsluaðilar fyrir þessi fiskeldisfyrirtæki gríðarlega óánægðir með frumvarpið og létu vanþóknun sína heyrast yfir alla nefndina. Það var ekki mikill sáttahugur og vilji til að hlusta á málflutninginn á lokametrunum. Ég skil og virði hvernig nefndin hefur unnið þetta mál að mjög miklu leyti. Þótt ég sé ósammála þessu máli segi ég að það var óvenjumikið samráð, óvenjulangt ferli sem var farið í til að reyna að sætta þessi sjónarmið. Daginn áður en við samþykktum þetta komu sérhagsmunagæsluaðilarnir og skvettu inn í nefndina óánægju sinni með að þeir fengju að fara inn í gamla kerfið, ekki nýju lögin, þangað rata allar umsóknir, upp yfir áhættumat umhverfisþáttanna. Og þeir héldu meira að segja að málið yrði samþykkt seinna sama kvöld. Þeir vilja fara upp yfir það og eru samt óánægðir með að það rati allt inn í gamla kerfið. Þvílík frekja!

Sumir hv. þingmenn vilja í breytingartillögu að þetta fari enn þá lengra. Þá fer þetta umfram burðarþolsmatið líka. (Gripið fram í: Nei.) Þvílík frekja! (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Þingmenn geta útskýrt í andsvörum hvað er ekki rétt. Þetta fer umfram áhættumatið og jafnvel það sem er verið að tala um hérna, það fer umfram burðarþolsmatið og ef þingmenn Miðflokksins, sem ég bið um að koma í andsvar og leiðrétta ef ég fer ekki rétt með, vilja fara enn þá lengra með þetta er það í báðum tilfellum umfram áhættumatið og burðarþolsmatið.

Fyrir nefndinni var talað um hvort menn vildu virkilega áhættumat. Áhættumatið er nú bara lifandi plagg, var sagt, og það eru ekki almennileg rekstrarskilyrði, fyrirtækin verða að vera miklu stærri og það verður að vera miklu meiri fiskur til að fiskeldisfyrirtækin geti verið arðbær. Kannski er það rétt, en þá er ekki verið að segja þjóðinni það áður en þetta er samþykkt, að til að þessi fyrirtæki geti verið arðbær þurfi að fara umfram áhættumat eða lækka gjöldin á fyrirtækin. Það er ekki verið að segja þjóðinni þá sögu þegar verið er að leggja fram þetta frumvarp og þau sjónarmið sem eru til grundvallar samþykkt þessa frumvarps.

Spádómur minn en sá að eftir eitt og hálft ár þegar á að fara að endurskoða þetta gjald muni upphefjast grátkór um að fiskeldið sé ekki sjálfbært nema gjaldið verði lækkað eða farið að færa út kvíarnar miklu frekar og víðar. Það er minn spádómur.