150. löggjafarþing — 7. fundur
 19. september 2019.
einföldun regluverks, fyrri umræða.
þáltill. SDG o.fl., 5. mál. — Þskj. 5.

[16:31]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir afskaplega jákvæðu og mikilvægu máli sem á sér alllanga sögu en það er tillaga til þingsályktunar um einföldun regluverks, mál sem mun hafa, verði það samþykkt og innleitt í samræmi við það, alveg gríðarlega mikil og jákvæð áhrif á t.d. byggðamál, á atvinnumál, hvort sem það er landbúnaður, iðnaður, ferðaþjónusta, sjávarútvegur eða annað, á lífskjör fólks í landinu og lífsgæði þess almennt, á verðmætasköpun á Íslandi, á tekjur og rekstur ríkisins, á samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum löndum, meira að segja á húsnæðismál, heilbrigðismál og þannig mætti lengi telja. Þetta er mál sem getur haft mjög umfangsmikil og jákvæð áhrif á flestum sviðum samfélagsins og þetta er aðkallandi mál eins og ég mun rekja á eftir.

Tillagan er flutt af öllum hv. þingmönnum Miðflokksins og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin geri tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks. Við vinnuna verði miðað við að uppfylla að minnsta kosti markmið stöðuskýrslu ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um einföldun gildandi regluverks frá september 2014 og sértækar jafnt sem almennar aðgerðir útlistaðar og tímasettar. Forsætisráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina á vorþingi 2020.“

Eins og þarna er nefnt byggir þetta á heilmikilli undirbúningsvinnu sem var búin að fara fram við að ná hina mikilvæga markmiði um einföldun regluverks, ekki hvað síst skýrslunni sem við gáfum út í forsætisráðuneytinu í september 2014 og lagt er til að verði höfð til hliðsjónar þannig að sú góða vinna sem farið var í á sínum tíma nýtist og menn bæti við hana eftir þörfum.

Þá að greinargerðinni. Hún hljómar svo, herra forseti:

„Umræðan um óþarflega flókið og íþyngjandi regluverk og þörfina á einföldun þess er ekki ný af nálinni heldur hefur vandinn lengi legið ljós fyrir. Sem dæmi má nefna að 30. mars 1999 tóku gildi lög um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999, en í upphafsorðum greinargerðar frumvarpsins sem varð að þeim lögum sagði:

„Undanfarin ár hefur komið í ljós að ofvöxtur er víða hlaupinn í reglugerðir og eftirlitsumfang opinberra aðila í iðnvæddum ríkjum. Regluverk eru sums staðar orðin svo flókin og viðamikil að fyrirtæki og einstaklingar eiga erfitt með að fylgjast með réttarstöðu sinni. Jafnframt hafa strangar hömlur af ýmsu tagi leitt til hægari nýsköpunar og atvinnustarfsemi og þannig haft neikvæð áhrif á hagvöxt og lífskjör.““

Þetta var fyrir 20 árum, herra forseti, og ekki hefur ástandið batnað síðan. Ég held áfram með greinargerðina:

„Þrátt fyrir markmið laganna um að sporna við þeirri þróun sem þarna er lýst verður ekki um það villst að reglubyrði atvinnulífsins og flækjustig regluverksins í heild hefur margfaldast frá setningu þeirra fyrir tveimur áratugum. Talsverður hluti þeirrar auknu reglubyrði er kominn til vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og skyldubundinnar innleiðingar reglna vegna þátttöku landsins í innri markaði Evrópusambandsins. Því verður hins vegar ekki einu um kennt og má nefna að hagsmunaaðilar á vinnumarkaði hafa á undanförnum árum verið iðnir við að benda á að stjórnvöld innleiði EES-gerðir með meira íþyngjandi hætti fyrir almenning og atvinnulíf í landinu en nauðsynlegt er. Stjórnvöld nýti ekki það svigrúm sem bjóðist til að létta reglubyrði heldur hneigist þvert á móti til að bæta við séríslenskum reglum sem íþyngi atvinnulífinu og veiki samkeppnisstöðu þess á alþjóðamarkaði.“

Það er ekki aðeins atvinnulífið sem þarf að fást við þetta því að allt þetta mikla regluverk og eftirlit hefur áhrif á líf hvers manns í þessu landi.

Næst segir í greinargerð undir fyrirsögninni Stefna stjórnvalda:

„Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22. maí 2013 var að finna sérstaka áherslu á einföldun regluverks og tekið fram að sérstakt markmið væri að engar nýjar íþyngjandi reglur yrðu innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið féllu brott jafn veigamiklar kvaðir. Þannig myndu heildaráhrif regluverksins þróast í rétta átt. Í september 2014 gaf forsætisráðuneytið út Handbók um einföldun regluverks.

Ég er með eintak hér, herra forseti, ef einhver vill kynna sér það. Það liggur sem sagt fyrir handbók sem við gáfum út strax árið 2014 um einföldun regluverks sem vonir stóðu til að stjórnsýslan og stofnanir ríkisins myndu nýta sér.

Þessi handbók „var hluti af aðgerðaáætlun þáverandi ríkisstjórnar um málefnið og var ætlað að leiðbeina stjórnvöldum við skipulega einföldun á sínu sviði. Í sama mánuði kom út stöðuskýrsla ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur sem lagt er til að höfð verði til hliðsjónar við mótun áætlunar samkvæmt þessari tillögu“ eins og ég gat um áðan.

„Undanfarin ár virðist hafa dregið úr áherslu stjórnvalda á einföldun regluverks. Þannig var í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar ekki minnst á málefnið. Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar segir að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings án þess þó að nánar sé útskýrt hvað í því felist. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 150. löggjafarþing, sem telur ríflega 160 lagafrumvörp og um 30 þingsályktunartillögur, er að finna þrjú frumvörp sem sérstaklega er ætlað að einfalda regluverk, tvö á sviði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og eitt á sviði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Í lýsingu á síðasttalda frumvarpinu kemur fram að það sé fyrsti áfangi í aðgerðaáætlun um einföldun regluverks á málefnasviði ráðherrans. Þessi viðleitni er af hinu góða. Skili hún árangri í þá átt sem lagt er upp með í þessari tillögu hvetja flutningsmenn til að aðgerðaáætlun ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði öðrum ráðherrum hvatning á sínum málefnasviðum.“

Svo segir undir fyrirsögninni Stöðuskýrsla ráðgjafarnefndarinnar sem er skýrslan sem lögð hefur verið til grundvallar og ég nefndi áðan:

„Líkt og fram hefur komið leggja flutningsmenn til að við gerð aðgerðaáætlunar um einföldun regluverks verði tekið mið af stöðuskýrslu um einföldun gildandi regluverks sem ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur skilaði af sér og forsætisráðuneytið birti í september 2014. Í 5. kafla skýrslunnar er fjallað um mismunandi aðferðir til að ná fram einföldun og í undirkafla 5.5 er gerð grein fyrir svokallaðri jafnvægisreglu. Vísi að slíkri reglu var að finna í áðurnefndum stjórnarsáttmála frá 2013 þar sem kveðið var á um að ekki skyldi bæta við nýrri íþyngjandi reglu án þess að önnur jafn veigamikil félli brott. Í skýrslu ráðgjafarnefndarinnar er gerð grein fyrir hertri kröfu að þessu leyti, sem ríkisstjórn Breta hafði þá nýverið markað, og gerir ráð fyrir að til þess að ein íþyngjandi regla fái brautargengi þurfi tvær sambærilegar að falla brott.

Flutningsmenn telja nauðsynlegt að jafnvægisregla verði innleidd með skýrum hætti og höfð að leiðarljósi við reglusetningu stjórnvalda. Þá telja flutningsmenn skynsamlegt að krafa verði gerð um að tvær íþyngjandi reglur á tilteknu málefnasviði falli brott við innleiðingu einnar nýrrar á því sviði, a.m.k. tímabundið, og árangurinn af slíkri kröfu metinn. Rétt er að innleiðingar EES-gerða verði undanþegnar þessari reglu að því marki sem innleiðing felur ekki í sér þyngri kvaðir en nauðsynlegt er.“

Ég ætla að undirstrika þetta síðasta, að undanþágan eigi við þegar innleiðing felur ekki í sér þyngri kvaðir en nauðsynlegt er.

Loks er hér fjallað um mikilvægi tímasettrar aðgerðaáætlunar:

„Í þágu framangreindra markmiða um einföldun regluverks til að auka skilvirkni og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er í tillögugrein kveðið á um að gerð verði tímasett aðgerðaáætlun. Nauðsynlegt er að útlistaðar verði sértækar aðgerðir, svo sem brottfall tiltekinna reglna eða einföldun á borð við þá að taka upp tilkynningarskyldu í stað leyfisskyldu fyrir ákveðna starfsemi, og þær tímasettar.“

Aðeins um tilkynningarskyldu í stað leyfisskyldu, þetta er eitt af því sem fjallað er um í skýrslunni sem ég nefndi áðan og snýr að því að einfalda fólki að gera eitthvað nýtt, stofna fyrirtæki og hefja verðmætasköpun þannig að á ákveðnum sviðum nægi einfaldlega að tilkynna að menn séu farnir af stað í stað þess að sækja um leyfi fyrir öllu mögulegu frá ríkinu.

„Samhliða sértækum aðgerðum er nauðsynlegt að kveða á um almennar aðgerðir á borð við upptöku jafnvægisreglu líkt og framar greinir. Flutningsmenn leggja til að forsætisráðherra hafi forgöngu um gerð áætlunarinnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og kynni Alþingi áætlunina á komandi vorþingi.“

Eins og ég nefndi strax í upphafi er þetta mál sem gæti, yrði því fylgt vel eftir, haft gríðarlega mikil og jákvæð áhrif, ekki aðeins fyrir atvinnulífið heldur fyrir samfélagið allt. Hafi þetta verið orðið aðkallandi fyrir 20 árum, eins og ég rakti, er það það svo sannarlega núna og full ástæða til að nýta þá góðu vinnu sem farin var af stað og þann undirbúning sem liggur fyrir til að hægt sé að ráðast í þetta eins fljótt og verða má og þar af leiðandi ekki seinna en á vorþingi 2020, eins og ég nefndi áðan.

Á ferðum mínum um landið í sumar skoðaði ég mörg fyrirtæki og hitti margt fólk. Í langflestum tilvikum höfðu menn orð á því, hvort sem þeir ráku fyrirtæki eða voru bara að reyna að lifa lífi sínu, hvað kerfið, báknið, væri orðið íþyngjandi á Íslandi og gerði mönnum erfitt fyrir á öllum mögulegum sviðum. Það var til að mynda nefnt um allt land að þeir sem vildu láta til sín taka, vildu byggja eitthvað upp í sínu byggðarlagi, vildu búa til störf fyrir aðra og skapa ný verðmæti — sem er auðvitað það mikilvægasta í byggðamálum, að menn hafi tækifæri til slíks um allt land — mættu allir hindrunum. Stjórnkerfið, ríkið, var í huga þessa fólks miklu meira að leggja steina í götu þessara þörfu og mikilvægu verkefna en að ryðja þeim leið. Þessu þarf að breyta, snúa við, svoleiðis að ríkið upplifi að það sé í þjónustuhlutverki við almenning í landinu en ekki öfugt. Takist okkur það munum við leysa úr læðingi mikla verðmætasköpun og gera lífið auk þess einfaldara og skemmtilegra fyrir allan almenning.

Ég ætla að nefna eitt dæmi af lyfjaframleiðanda í bæ á Norðurlandi sem sagði okkur að ef til að mynda frumvarp heilbrigðisráðherra um ný lyfjalög, sem til allrar hamingju kláraðist ekki á síðasta þingi, yrði samþykkt óbreytt gæti fyrirtæki hans þar með hætt starfsemi. Því miður er þetta dæmi bara eitt af mörgum um að stjórnvöld, því miður kannski ekki hvað síst þessi ríkisstjórn, eru stöðugt að stækka kerfið og gera lífið erfiðara, flóknara og dýrara fyrir allan almenning.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillagan gangi til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.



[16:46]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. frummælanda, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir ræðuna. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu og hlakka til þess verkefnis, sem verður sameiginlegt með öðrum félögum okkar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að fjalla um tillöguna. Við vitum að það hefur legið fyrir að hvergi í ríkjum OECD er reglubyrði, a.m.k. þjónustugreina, þyngri en á Íslandi. Það var a.m.k. niðurstaða OECD sem var kynnt fyrr á þessu ári á fundi sem ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur hélt í apríl, ef ég man rétt, mars eða apríl. Því miður bendir ekkert til þess að reglubyrðin sé hlutfallslega einfaldari, skulum við segja, í öðrum atvinnugreinum. Eiginlega má fullyrða með nokkurri vissu að almennt sé staðan hér á Íslandi sú að reglubyrði atvinnulífsins sé þyngri en í öðrum OECD-ríkjum.

Þá er spurningin: Skiptir það einhverju máli? Þurfum við að hafa raunverulegar áhyggjur af þessari staðreynd? Já, alveg örugglega, vegna þess að regluverkið, þ.e. umgjörðin sem við búum íslenskum fyrirtækjum, er auðvitað spurning um samkeppnishæfni fyrirtækjanna gagnvart helstu samkeppnislöndum, bæði á útflutningsmarkaði og á innanlandsmarkaði. Það má t.d. nefna landbúnaðinn en einnig fleiri atvinnugreinar, ekki bara þjónustugreinar. Með því að setja íþyngjandi reglur og þyngri skattbyrðar líka, við skulum ekki gleyma þeim, allt spilar þetta hugsanlega saman, a.m.k. umfram það sem almennt gerist í ríkjum sem við berum okkur saman við, er aukin hætta á því að íslensk fyrirtæki og íslenskt launafólk verði hreinlega undir. Þetta er ekki bara spurning um samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs heldur spurning um lífskjör almennt. Þess vegna skiptir máli að við tökum tillögu eins og þá sem hér liggur fyrir alvarlega og fjöllum um hana, ekki í hálfkæringi heldur af þeim alvarleika sem nauðsynlegur er.

Hið gleðilega er hins vegar, því að ekki er nú allt svart, að þessi vinna er að hluta til hafin. Það mætti ganga betur undan en menn eru þó byrjaðir. Þessi vegferð er hafin. Bara á síðasta ári tók hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sig til og felldi úr gildi tíu reglugerðir á sviði landbúnaðarmála, henti þeim bara út í hafsauga, og það hefur ekkert gerst annað en að líf íslenskra bænda varð aðeins léttara og einfaldara. Við sjáum líka á þingmálaskrá ráðherra sem liggur fyrir að stefnt er að því, í samræmi við stjórnarsáttmála, að ganga sæmilega rösklega til verka. Hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur boðað að í október verði lagt fram frumvarp um breytingar á samkeppnislögum sem skipta auðvitað máli. Við megum ekki gleyma því að samkeppnislögin eru ekki alveg einföld og þau eru á margan hátt gölluð. Þau eru líka umgjörð um atvinnulífið sem við þurfum að huga að. Þar hef ég ákveðnar skoðanir um hvernig samkeppnislögin eigi að vera úr garði gerð. Við sjáum til og ég hlakka til að fá að takast á við frumvarpið sem hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur boðað. Hann boðar einnig frumvarp í október um breytingu á ýmsum lögum er varða leyfisveitingar þar sem lagðar verða til breytingar á ýmsum lögum sem snúa að einföldun regluverks og leyfisveitinga, m.a. afnámi iðnaðarleyfis, verslunarleyfis, brottfalli úreltra laga o.s.frv. Hér er hæstv. ráðherra að stíga rétt skref í rétta átt, til að einfalda lífið.

Hið sama á við um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem í október mun leggja fram frumvarp um breytingu á ýmsum lögum um opinbert eftirlit, sem mun m.a. fela í sér að einfalda regluverk sem gildir um matvælakeðjuna, eins og þar segir, auk þess sem breytingunum er ætlað að stuðla að samræmdara og skilvirkara eftirlitskerfi fyrir matvælakeðjuna í heild sinni. Þá er með frumvarpinu einnig lagt til að Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóður í sjávarútvegi verði sameinaðir og að við taki nýr sjóður á breiðari grunni sem heiti Matvælasjóður. Þá er einnig boðað í febrúar á komandi ári frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar þar sem kveðið er á um og gert átak um einfaldara regluverk í þágu atvinnulífsins og almennings og lögð áhersla á skilvirka og réttláta stjórnsýslu. Frumvarpið mun fela í sér breytingar sem miða að því að einfalda regluverk og nema úr gildi lög á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar sem eru úrelt. Hér er því verið að boða ákveðin skref sem falla akkúrat vel að þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur boðað að í janúar leggi hann fram frumvarp sem feli í sér brottfall hátt í 40 lagabálka á verksviði ráðuneytisins. Um er að ræða löggjöf sem ekki á lengur við sökum breyttra aðstæðna eða sökum þess að ráðstafanir sem lögin kváðu á um eru um garð gengnar. Allt er þetta til að einfalda lífið. Er nóg að gert? Nei. Þess vegna skiptir þessi tillaga máli. Þess vegna skiptir máli að við séum stöðugt vakandi og ræðum hvort við séum í hvert einasta skipti sem við ræðum lagasetningu, ég tala nú ekki um veitum síðan reglugerðarheimildir, að vinna í þágu annars vegar almennings og hins vegar atvinnulífsins.

Hæstv. forseti. Ég fagna þess vegna þessari tillögu og mun leggja mig fram eins og mér er unnt við að efla umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd og síðar, þegar efnahags- og viðskiptanefnd hefur lokið störfum, að stuðla að því að hér verði kannski aðeins líflegri og öflugri umræður og aðeins fleiri þingmenn í salnum vegna þess að hér er ekki um léttvægt mál að ræða. Þegar kemur að regluverki atvinnulífsins eru það alvörumál, alveg með sama hætti og þegar skattar og gjöld eru rædd, þó að sumir þingmenn gangi um þau mál eins og eitthvert hlaðborð.



[16:55]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. og mjög svo virðulegi forseti. Ég er kominn í ræðu vegna þess að ef ég hefði farið í andsvar áðan hefði ég verið rekinn burtu. Hins vegar er nauðsyn að minnast aðeins á þetta mál sem er gagnmerkt og þarft. Það er nú einu sinni þannig, og það hefur komið fram hjá tveimur ágætum ræðumönnum á undan mér, að þegar svo er komið að Ísland er farið að skera sig úr í OECD-ríkjunum fyrir reglugerðarfargan er full þörf á því að gera áætlun eins og hér er gert ráð fyrir. Það var kannski eitt sem mér fannst að kæmi ekki fram í ræðum, þ.e. hvorugs þingmannsins hér áðan, og það er að umsjón með þeim reglugerðum, lögum og reglum sem við höfum á Íslandi krefst mikils mannafla. Það er þekkt að eftirlitsiðnaðurinn, sem við köllum svo, hér á Íslandi, þ.e. eftirlitsstofnanir, hafa bólgnað út mjög og væri full þörf á því að fá fram gagnmerkar tölur um hvernig sú þróun hefur verið. Síðan hefur komið fram, t.d. mjög vel hjá nýskipuðum ríkisendurskoðanda, sem var áður ríkisskattstjóri, að opinberir aðilar á Íslandi nýta netið ekki nægjanlega til að eiga samskipti, hvort sem er við einstaklinga eða fyrirtæki. Í því efni eru mikil tækifæri til að einfalda lífið, bæði þeim sem eru þiggjendur — eða þolendur — þeirrar þjónustu og/eða reglugerða sem um er að ræða sem og þeim sem vinna við þetta. Það er nú kannski ein upphrópun sem ég saknaði úr ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar áðan, herkallið Báknið burt. Ég saknaði þess að heyra það ekki í annars ágætri ræðu hans, en auðvitað er það kannski það sem við erum að ræða hér einnig, að einfalda stofnanastrúktúr um leið og við einföldum regluverk sem um almenning og atvinnulíf gilda. Ég er þannig mjög stoltur af því að vera meðflutningsmaður að þessari tillögu og vona að hún fái gaumgæfilega athugun, væntanlega í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég vænti þess að hv. formaður þeirrar nefndar taki þetta mál mjög föstum tökum. Það hefur einmitt komið fram núna á fyrstu dögum þessa þings, m.a. á samráðsfundum með forsætisráðherra, að fyrir liggja nú þegar um 300 þingmál frá þingmönnum. Það er hins vegar ekki til nein statistík um hversu mörg mál, t.d. undanfarin þing, frá þingmönnum, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, hafa ratað alla leið í gegnum þingið. Ég held að það væri líka þarft fyrir okkur að vita það. Þess vegna legg ég ríka áherslu á það að þetta mál verði tekið mjög föstum tökum því það á sannarlega skilið að fara alla leið í gegnum þingið en sofna ekki í nefnd eða daga uppi einhvers staðar á leiðinni.

Það er alveg ljóst að við stöndum frammi fyrir því að það er t.d. mjög flókið að stofna fyrirtæki. Í sumum greinum þurfa menn kannski að verða sér út um tug eða tugi mismunandi leyfa og leyfa áður en þeir geta farið af stað með fyrirtæki. Auðvitað er þetta hamlandi og rándýrt. Eins og fram hefur komið undanfarandi í ræðum þingmanna skerðir þetta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. (Gripið fram í.)Það gerir það. Þannig að þetta þurfum við að gaumgæfa nú því að við erum náttúrlega í vaxandi samkeppni. Ísland sjálft stendur í vaxandi samkeppni við löndin í kringum okkur, hvað varðar mannafla og störf sem gefa vel af sér. Við þurfum náttúrlega að kappkosta að við séum ekki sjálf að búa til girðingar eða hindranir fyrir atvinnulíf og einstaklinga sem séu það hamlandi og það miklu meira íþyngjandi en í nágrannalöndunum að við séum við að bregða fæti fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja hasla sér völl, hefja hér starfsemi og starfa áfram.

Þessi tillaga er náttúrlega mjög tímabær. Eins og fram kom í ræðu framsögumanns voru uppi fyrir 20 árum hugmyndir í þessa veru sem ekki hafa orðið að neinu enn þá. Þó að ég fagni því sem kom fram í ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar áðan, um að ráðherrar séu í með í undirbúningi lagabálka sem eigi að einfalda regluverk, held ég engu að síður að full þörf sé á því að menn geri sér grein fyrir því hvernig ástandið er akkúrat núna, hvernig við eigum að bregðast við, hvenær og með hvaða hætti. Það er akkúrat það sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á.

Að því sögðu vil ég ítreka að ég æski þess og vona að tillagan fái vandaða meðferð í nefnd og komi aftur inn í þingsal til síðari umræðu og afgreiðslu og verði þannig skref í þá átt að íslenskt atvinnulíf verði þróttmeira og enn farsælla en nú er.



[17:02]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég vildi nefna. Í fyrsta lagi varðandi kostnað atvinnulífsins. Ég hefði auðvitað átt að benda á það, en hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson vék að því, að samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar, sem var unnin árið 2004, sem ég held að sé nýjasta og skásta skýrsla sem hefur verið unnin, var kostnaður atvinnulífsins á verðlagi ársins 2003 metinn um 7,2 milljarðar, þ.e. kostnaðurinn við að framfylgja þeim eftirlitsreglum sem gilda. Þetta eru u.þ.b. 15 milljarðar á verðlagi dagsins í dag. Frá þeim tíma hefur hins vegar umfang regluverksins aukist. Það er orðið flóknara o.s.frv. Ég hygg að óhætt sé að segja að það kosti atvinnulífið yfir 20 milljarða á ári. Sumt af því er nauðsynlegt, annað er það ekki.

Eitt vil ég benda hv. þingmanni á. Ég er ekki alveg viss um að það sé endilega æskilegt að fjölga þingmannamálum sem ná í gegn. Ég er heldur ekkert almennt fylgjandi því að lagafrumvarp renni líkt og á færibandi í gegnum þingið og mér hefur aldrei líkað það þegar þingmenn koma á vori og hreykja sér af því að yfirstandandi þing hafi verið mjög afkastamikið og duglegt og afgreitt svo og svo mörg mál, 100 frumvörp og 50 þingsályktunartillögur o.s.frv. Ég held að efnisatriðin skipti máli. Það er efni frumvarpanna sem skiptir máli en ekki fjöldi þeirra. Það eru áhrif frumvarpa sem við samþykkjum eða fjöllum um, áhrif á einstaklinga, heimili og atvinnulíf, sem við eigum að spyrja um. En við spyrjum því miður sjaldan um þau.



[17:04]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar sem var sköruglegt eins og hans er von og vísa. Ég er hins vegar á öndverðum meiði við hv. þingmann um þingmannamál, hafandi verið þingmaður líka í stjórnarliði. Oft og tíðum koma nauðsynleg mál ekki fram vegna þess að þau henta kannski ekki í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar á hverjum tíma. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að þingmenn komi fram með merk mál. Við sem höfum verið að flytja þingmannamál þekkjum það að þurfa að flytja þau þing eftir þing, merk og mjög góð mál. Ég gæti nefnt tugi af þeim. Ég held að engum sé skaði gerður með þeim. Mörg af þeim málum sem t.d. við Miðflokksmenn höfum kynnt undanfarin tvö þing hefðu örugglega orðið til bóta ef þau hefðu gengið í gegn og orðið að lögum. Það er alveg klárt. Þannig að ég er ósammála hv. þingmanninum um að það eigi að vera einhver bremsa á að þingmenn komi með mál. Það er ekki þar með sagt að þingið eigi að vera einhver krani. Það er það vissu leyti því að hérna renna EES-gerðir í gegn eins og enginn sé morgundagurinn og enginn horfir á, jafnt stórar og smáar. Þrátt fyrir að beitt sé hóflegu andófi til að koma í veg fyrir verstu mistökin henda þau samt, hv. þingmaður, þannig að ekki er um það að ræða að við séum endilega á því að hér eigi mál að renna í gegn umræðu- eða umfjöllunarlaust. Alls ekki.

Ég segi aftur: Ég held að mörg þau mál sem lögð eru fram af þingmönnum og jafnvel einstaka þingflokkum eigi sannarlega skilið að fara í gegn. Þetta mál er eitt af þeim og ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér í því.



[17:06]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur eitthvað misskilið mig eða ég talað óskýrt. Ég leggst ekki gegn því að þingmenn leggi fram mál, þvert á móti. Ég held að það sé eftirsóknarvert. En það er ekki endilega eftirsóknarvert að þingið afgreiði hvert frumvarpið eða hverja þingsályktunartillöguna á fætur annarri á færibandi. Það er efnisinnihaldið sem skiptir máli. Forvitnilegt væri að fá úttekt á því hversu mörg frumvörp þingmenn leggja fram sem fela í sér aukin útgjöld, hærri skatta eða flóknara regluverk versus þau sem fela í sér lægri skatta, einfaldari reglur og minni útgjöld. Ég hygg að í seinni flokknum séu ekki mjög mörg mál, því miður. Það segir mér að við sem hér sitjum ættum að minnsta kosti að hugleiða — og þetta á líka við um stjórnarfrumvörp — hvort ástæða sé fyrir okkur að hreykja okkur hátt yfir að hafa afgreitt 10, 20, 30 frumvörpum fleiri á því þingi sem nýlokið er en árið á undan, að vísitala samþykktra frumvarpa hafi rokið upp, þegar liggur fyrir að líkur eru á að útgjöld hafi aukist, skattar hækkað og regluverkið allt orðið flóknara og erfiðara, lífið hafi ekki orðið einfaldara heldur aðeins þyngra og við lagt þyngri byrðar á fyrirtæki, einstaklinga og fjölskyldur. Markmið okkar er ekki að hámarka fjölda afgreiddra þingmála heldur hámarka það sem við getum gert (Forseti hringir.) til að gera líf einstaklinga og fyrirtækja einfaldara og þægilegra.



[17:08]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessa ræðu hv. þingmanns, sem ég þakka fyrir, hefði ég viljað heyra um daginn í umræðunni um þriðja orkupakkann. Þar var nú aldeilis verið að berjast á móti því að líf einstaklinga og fyrirtækja yrði flóknara og erfiðara en ella. Ég vildi óska þess að hv. þingmaður hefði hugsað sig vel um áður en hann galt jáyrði við því máli sem á eftir að hafa afleiðingar næstu áratugina til hins verra, ekki bara á okkar kynslóð heldur næstu kynslóðir. Þarna talaði þingmaðurinn aðeins í kross. Auðvitað er það rétt að frumvörp og þingsályktunartillögur eiga ekki að renna í gegn á færibandi. Að vísu gera þau það stundum líka vegna þess að stjórnvöld hvers tíma eru óskipulögð í framlagningu þingmála sinna og ég ætla bara að nefna eitt nýlegt dæmi sem er fjármálaáætlun, sú síðasta, og umræða um hana sem var í skötulíki. Eins má náttúrlega segja líka — og það er kannski kjarni í þessari tillögu hér — að búið sé að framselja mikið vald frá stjórnmálamönnum til embættismanna, og við getum bara nefnt fjárlög hvers árs. Ég held að hver einasti þingmaður ætti að líta í eigin barm eða horfa í spegil og hugsa með sér: Hafði ég áhrif til góðs í þessu fjárlagafrumvarpi? Ég er hræddur um að svarið sé nei í nánast öllum tilfellum. Ég vil líka benda á að síðustu tvenn fjárlög, sem hafa verið samin af excel-mönnum uppi í fjármálaráðuneyti, hafa verið tekin úr meðförum þingsins milli 2. og 3. umr. til að gera á þeim virkilega miklar breytingar sem varða bæði fólk og fyrirtæki án þess að þingheimur hafi fengið rönd við reist. Þannig að ég held að kjarninn í þessari tillögu hér sé að mörgu leyti sá að við þurfum að hafa bönd á kerfinu og fara að draga úr áhrifum þess en auka áhrif þeirra sem eru kjörnir til þess að hafa áhrif.



[17:11]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg óhætt að segja og kemur kannski fáum á óvart að við í Viðreisn og þingmenn Miðflokksins séum ósammála um æðimargt. Um þetta erum við hins vegar sammála. (Gripið fram í.) Ég fagna þessu máli og tel það þarft og mikilvægt verkefni og get staðhæft að við í Viðreisn munum styðja brautargengi þess í þinginu. Ég er sjálfur í efnahags- og viðskiptanefnd þangað sem ég geri fastlega ráð fyrir að málinu verði vísað. Það er allt of lítið gert í þessum efnum, við erum allt of dugleg í þessum sal og í stjórnsýslunni almennt við að finna upp leiðir til að leggja nýjar reglur á fyrirtæki og fólk án þess að gæta að því að ekki sé um of þrengt að samkeppnishæfni og rekstrarskilyrðum fyrirtækja almennt.

Það er alveg hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar, lífskjör þjóðarinnar eru undir, sá þróttur sem er í atvinnulífinu til að skapa vel launuð störf og stuðla að mikilli og traustri velsæld til lengdar. Þetta er verkefni sem við eigum alltaf að vera í. Við eigum stöðugt að vera að endurskoða regluverkið með það fyrir augum að reyna að einfalda það og gera það skilvirkara. Eins mikilvægt og regluverk er til að tryggja að eðlilega sé unnið, að skattareglum sé fylgt, hugað sé að umhverfissjónarmiðum og öðru þvílíku, er íþyngjandi regluverk gríðarlega skaðlegt frjálsri samkeppni. Það gleymist oft í þessu samhengi að íþyngjandi regluverk er skaðlegast litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það eru þau sem eiga erfiðast með að rísa undir slíku og í raun skapar íþyngjandi regluverk ákveðið samkeppnisforskot fyrir stór fyrirtæki. Þau eiga miklu auðveldara með að ráða sérfræðinga til starfa, vera með lögfræðinga á sínum snærum til að sigla fyrirtækjunum í gegnum flókið net regluverksins en lítil og meðalstór fyrirtæki gefast jafnvel einfaldlega upp fyrir ómöguleikanum. Þess vegna er mjög mikilvægt að huga stöðugt að þessu og auðvitað væri óskandi að núverandi ríkisstjórn hefði meiri áhuga á því að einfalda regluverk almennt.

Þetta mál er náskylt máli sem ég lagði fram á Alþingi á síðasta ári. Það fól í sér svipað, að fá OECD til að vinna svokallaða samkeppnisúttekt á öllu okkar regluverki og lagaverki með það fyrir augum að afnema óþarfar reglur sem fyrst og fremst virka til þess að hamla frjálsri samkeppni á markaði. Árangur annarra ríkja af slíkri úttekt er ótvíræður og hefur markvert aukið hagvöxt í þeim löndum. Ég vona svo sannarlega að til þeirrar reynslu verði horft verði ráðist í endurskoðun sem þessa.

Það sem er mikilvægt að gleyma ekki í þessu samhengi er samkeppnisvinkillinn sjálfur, að sérstaklega sé horft til regluverks sem hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Okkur í Viðreisn greinir aðeins á við Miðflokkinn þegar kemur að ákveðnum atvinnugreinum eins og landbúnaði þar sem við höfum jafnvel reist upp hreinar samkeppnisskorður, jafnvel lögbundið samráð, ef svo mætti segja, eða veitt atvinnugreininni að talsverðu leyti undanþágu frá samkeppnislögum. Mér finnst mikilvægt þegar við horfum til slíkra þátta, þó að okkur greini oft á um markmið og tilgang slíks regluverks sem ég veit að er sett fram í góðum ásetningi, að verja íslenskan landbúnað, að við spyrjum líka: Getum við náð þeim markmiðum öðruvísi en að hamla frjálsri samkeppni á markaði? Frjáls samkeppni á markaði er einfaldasta og skilvirkasta leiðin til að tryggja hagsmuni neytenda, tryggja að vöruverð sé eins lágt og verið getur, öllum neytendum til hagsbóta. Þess vegna vona ég að þetta verkefni komist á koppinn hjá stjórnvöldum og að sérstaklega verði horft til þess með hvaða hætti megi afnema samkeppnishamlandi reglur.

Einföld leið til að auka skilvirkni eftirlitskerfis og einfalda um leið starfsumhverfi fyrirtækja væri að sameina talsvert af þeim eftirlitsstofnunum sem við erum með þannig að þá verði á færri staði að leita og auka um leið leiðbeiningarskyldu þessara eftirlitsstofnana. Sérstaklega hafa stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið verið gagnrýndar mjög harðlega fyrir að neita jafnvel að leiðbeina fyrirtækjum um hvernig þau eigi að fara að þeim reglum sem gilda. Það er óþolandi viðmót eftirlitskerfis að neita að sinna almennri og eðlilegri leiðbeiningarskyldu gagnvart þeim fyrirtækjum sem starfa undir hatti þess.

Á þetta tvennt mætti leggja sérstaka áherslu, hvernig við drögum úr og fækkum samkeppnishamlandi reglum og hvernig við getum síðan sameinað eftirlitsstofnanirnar. Það myndi um leið auka skilvirkni í ríkisrekstrinum almennt. Svo væri ágætisviðmið í þessum sal að við mæltum almennt ekki fyrir eða styddum nýjar reglur sem eru samkeppnishamlandi og hafa jafnvel þann beina tilgang að vera nákvæmlega það, samkeppnishamlandi og neytendum til skaða. Þetta mál er hið besta mál og ég vona svo sannarlega að það fái framgöngu í þessum sal.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.