150. löggjafarþing — 7. fundur
 19. september 2019.
almannatryggingar og félagsleg aðstoð, 1. umræða.
frv. GIK og IngS, 33. mál (skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja). — Þskj. 33.

[18:36]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi Flokks fólksins til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð (skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja). Með leyfi forseta: Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007:

„1.gr.

Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tilraun til starfa.

Örorkulífeyrisþega er heimilt að afla sér atvinnutekna í tvö ár án þess að þær skerði örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót á lífeyri skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Réttur til að starfa án skerðinga vegna atvinnutekna stofnast við tilkynningu örorkulífeyrisþega til Tryggingastofnunar um að hann hyggist nýta þá heimild eða á síðari dagsetningu sem örorkulífeyrisþegi tilgreinir sérstaklega í tilkynningu sinni. Um tilkynningu fer skv. 52. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að skerða bótagreiðslur séu heildartekjur öryrkja hærri en meðallaun í viðkomandi starfsstétt samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Notast skal við nýjustu upplýsingar hverju sinni. Skal þá skerða þær greiðslur almannatrygginga sem örorkulífeyrisþegi á rétt á án tillits til atvinnutekna um 50% þeirrar fjárhæðar sem nemur mismun á heildartekjum örorkulífeyrisþega og meðallauna í viðkomandi starfsstétt. Skerðing samkvæmt ákvæðinu er heimil þrátt fyrir ákvæði b-liðar 2. mgr. 16. gr. og 4. mgr. 22. gr.

Óheimilt er að afturkalla útgefið örorkumat á grundvelli starfsgetu örorkulífeyrisþega á því tímabili þegar hann nýtir sér heimild til að afla sér atvinnutekna án skerðinga skv. 1. mgr. Við endurmat örorku skal ekki litið til starfsgetu örorkulífeyrisþega á tímabilinu.

Hafi umsækjandi áður nýtt sér heimild til að afla atvinnutekna án skerðinga getur hann sótt aftur um þá heimild átta árum eftir að tveggja ára tímabili skv. 1. mgr. lauk.“

Í II. kafla er breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

„2. gr.

Á eftir 3. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skal ekki telja til tekna atvinnutekjur lífeyrisþega undir meðaltekjum í viðkomandi starfsstétt samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands á því tímabili þegar hann nýtir sér úrræði 1. mgr. 22. gr. a laga um almannatryggingar. Notast skal við nýjustu upplýsingar hverju sinni.“

Lög þessi öðlast gildi í janúar 2020.“

Reglur gildandi laga um almannatryggingar eru torskildar og gjarnan reynist erfitt fyrir hinn almenna borgara að átta sig á verkan þeirra. Þeir öryrkjar sem fá greiðslu örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. laganna vita þó að þeir eiga von á ýmiss konar skerðingum afli þeir sér atvinnutekna. Þá er örorkumat gjarnan veitt tímabundið og margir óttast skerðingu á bótum ef heilsu þeirra hrakar eftir að þeir hefja vinnu. Öryrkjar eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framtíðarhorfum sínum ef þeir gera tilraun til að hefja atvinnu á ný. Þvert á móti ættu þeir að eiga von á betri lífskjörum. Því er lagt til að öryrkjum verði veitt sérstök heimild sem þeir geti nýtt sér þegar þeir vilja reyna að hefja störf á ný eða auka starfsgetu sína. Fari svo að sú tilraun heppnist ekki þarf öryrki ekki að óttast frekari skerðingar lífeyrisgreiðslna eða endurmat örorku á grundvelli þeirrar tilraunar.

Svipað úrræði skilaði góðum árangri í Svíþjóð þar sem um 30% þátttakenda sneru aftur út á vinnumarkaðinn eftir tilraun til starfa. Skiluðu sér sem sagt ekki aftur á örorku eftir tilraunina. Samfélagið hefur ríka hagsmuni af því að allir þegnar þess hafi hvata til að vinna og aukinn starfskraftur verður því samfélaginu til bata. Ríkissjóður fær skatttekjur af atvinnutekjum öryrkja og því koma skatttekjur að einhverju leyti á móti auknum greiðslum almannatrygginga. Andleg heilsa batnar gjarnan ef fólk getur tekið virkan þátt í samfélaginu og því er þessi tilhögun til þess fallin að bæta andlega líðan öryrkja og fjölskyldna þeirra.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að ný grein, 22. gr. a, bætist við lög um almannatryggingar sem heimili örorkulífeyrisþegum að sækja um undanþágu frá skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna undir meðaltekjum í viðkomandi starfsstétt í tvö ár. Þannig skerðist örorkulífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, örorkustyrkur, tekjutrygging og sérstök uppbót samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð ekki vegna atvinnutekna á því tímabili sem örorkulífeyrisþegi nýtir sér úrræðið. Eftir sem áður skerðast greiðslur vegna annarra tekna örorkulífeyrisþega á tímabilinu. Ákveðin efri mörk eru þó á úrræðinu og miðast þau við meðaltekjur í viðkomandi starfsstétt. Þannig skulu bætur skerðast með tilliti til atvinnutekna sem nái umfram það viðmið. Til að koma í veg fyrir tvíverknað skatta og skerðinga er þó lagt til að sú skerðing megi ekki nema meira en 50% tekna sem örorkulífeyrisþegi nýtur umfram meðallaun.

Svo að úrræðið hvetji til aukinnar atvinnuþátttöku er í 3. mgr. kveðið á um að ekki megi líta til atvinnuþátttöku á meðan örorkulífeyrisþegi nýtir sér úrræðið þegar örorka er metin að nýju og að jafnframt sé óheimilt að afturkalla útgefið örorkumat á grundvelli starfsgetu á meðan úrræðið er nýtt. Því þarf örorkulífeyrisþegi ekki að hafa áhyggjur af því að aukin atvinnuþátttaka kunni að leiða til réttindamissis ef honum hrakar og hann þarf að draga úr vinnu. Í 4. mgr. er kveðið á um hvenær örorkulífeyrisþegi megi nýta sér úrræðið aftur.

Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 9. gr. laga um félagslega aðstoð til að tryggja að sérstök uppbót 2. mgr. 9. gr. þeirra laga skerðist ekki vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega sem gerir tilraun til starfa.

Þetta frumvarp er eitt af fimm forgangsmálum Flokks fólksins í velferðarpakka flokksins. Meðflutningsmaður á frumvarpinu er Inga Sæland.

Í þessu samhengi verðum við að átta okkur á því að að vísu hafa öryrkjar ákveðið frítekjumark, 109.500 kr. af tekjum sem þeir afla. En því miður verður að segjast eins og er að ef þeir fara upp yfir frítekjumarkið þá er aukin skattbyrði á hverja krónu eftir það, frá 70% og upp undir 100%, sem er bara hrein eignaupptaka. Að ætlast til þess að einhver leggi sig fram og reyni að vinna með þannig skattprósentu er auðvitað alveg fáránlegt vegna þess að það segir sig sjálft að ef maður fær ekkert fyrir sína vinnu og jafnvel tapar vegna kostnaðar við að sækja vinnu fer maður ekki af stað. Síðan skerðast allir flokkar einnig, t.d. styrkir og önnur réttindi öryrkja í almannatryggingakerfinu, í núverandi kerfi þegar fólk er að reyna að vinna.

Það hafa verið skipaðar nefndir um endurskoðun á almannatryggingum, um atvinnu öryrkja. Nýjasta nefndin um endurskoðun almannatrygginga kom fram með starfsgetumat. Þar áður var nefnd Péturs Blöndals sem tók af sérstöku krónu á móti krónu skerðingarnar til eldri borgara og öryrkja og færði inn í grunnlífeyrinn. Í gegnum tíðina hefur þannig verið reynt að koma á starfsgetukerfi. Ef við hugsum okkur þá tilraun sem er verið að gera í sambandi við starfsgetukerfið sem við vitum að tekur mjög langan tíma að koma í gagnið og það verða margar hindranir í vegi við að koma því kerfi í gagnið, þá er þetta frumvarp mjög gott til að gefa þeim öryrkjum sem geta unnið og vilja vinna tækifæri til að gera það á eigin forsendum, án þess að ríkið sé að anda ofan í hálsmálið á þeim og segja þeim hvað þeir eigi að gera og hvaða vinnu þeir geti unnið og hvernig. Þarna er verið að gefa þeim öryrkjum sem vilja vinna og geta unnið eitthvað tækifæri til að finna sér vinnu, þeir vita hvað þeir geta unnið við, reyna á sig til að sjá hvað þeir eru færir um að gera á eigin forsendum, án þess að eiga á hættu, eins og kerfið er í dag, að fá ekkert fyrir sinn snúð fyrir að reyna að vinna og í öðru lagi að þegar þeir koma út á vinnumarkaðinn og ráða ekki við vinnuna detti þeir inn í kerfið aftur með tilheyrandi erfiðleikum við að komast aftur inn. Kerfið er ótrúlega ósveigjanlegt við að hleypa fólki inn aftur eins og það er uppbyggt.

Tökum sem dæmi einstakling sem er á örorku, hefur lent á örorku fertugur og er á örorkubótum. Við verðum að átta okkur á því að viðkomandi er alltaf á bótunum, ríkið þarf alltaf að borga viðkomandi sínar bætur mánaðarlega. Það er því svolítið furðulegt að ef þessi einstaklingur ætlar að reyna að vinna skuli ríkið reyna, bara leyfa sér, að refsa fyrir svoleiðis tilraun. Það segir sig sjálft að um leið og viðkomandi vinnur, hversu lítið sem það er, skilar hann alltaf skatti til baka. Það hlýtur alltaf að vera jákvætt. Þess vegna hef ég aldrei skilið og mun aldrei getað skilið kerfi sem letur fólk og reynir að koma í veg fyrir að það vinni á þeim forsendum að það sé á bótum og ríkið borgi því. Þá þarf ríkið hvort sem er að borga áfram, hvort sem fólk er að reyna að vinna eða ekki. En um leið og það reynir að vinna fer það að skila einhverju til samfélagsins. Mestu munar þó um það hve miklu þetta skilar til þeirra sem geta þetta. Það segir sig sjálft að það er enginn þarna úti sem vill ekki vinna heldur getur viðkomandi ekki unnið og fær engu um það ráðið hversu mikið hann getur nýtt sér sína orku.

Eftir að maður er kominn upp yfir frítekjumarkið er 70% skattur að lágmarki. Af hverjum 100.000 kr. þarf viðkomandi öryrki, eftir að frítekjumarkinu er náð, að skila nær 70.000 í skatt til baka. Hann fær að halda 30.000 kr. Ef við setjum þetta í samhengi er hátekjuskattur í dag um 46%. Hátekjumaður í sömu aðstöðu fengi að halda eftir 54.000 kr. en öryrkjar 30.000 Ef við sjáum sanngirni í svona er það bara stórfurðulegt vegna þess að þetta getur ekki verið sanngjarnt á einn eða neinn hátt. Þess vegna ber okkur að sjá til þess að lágmarki að skatturinn sem viðkomandi borgi sé eingöngu 37% og að hitt skili sér til viðkomandi eins og fyrir flesta vinnandi.

Í þessu frumvarpi erum við samt með hatt eða mörk. Segjum að einstaklingur sem hefur verið í vinnu í ákveðinni starfsstétt en geti ekki unnið sína vinnu tímabundið ákveði að láta reyna á vinnu eftir að hafa verið á örorku um einhvern tíma. Hann fær starfið sem hann hafði áður stundað og nær að vinna. Segjum bara að upp kæmi sú staða að hann gæti unnið fulla vinnu við það starf tímabundið. En þá myndi byrja að skerðast þegar bætur hans frá ríkinu og launin næðu meðallaunum viðkomandi stéttar. Það myndi aldrei koma upp sú staða að hann væri vinnandi við hliðina á öðrum einstaklingi í sömu stétt og fengi mun meira fyrir sína vinnu en hinn einstaklingurinn sem er í fullri vinnu. Þannig að við erum að reyna að búa til kerfi sem er ekki mannfjandsamlegt eins og gömlu kerfin eru, kerfi sem væri mjög gott sem millistig meðan verið er að reyna að koma á mannsæmandi endurhæfingarkerfi fyrir öryrkja þar sem þeir hafa val um það hvort þeir fari í nám eða vinnu á eigin forsendum. Fyrsta skrefið í þessu öllu saman er hvort vinnan sé til fyrir viðkomandi. Þess vegna er mjög þægilegt og gott að hafa þetta frumvarp og vonandi verður það samþykkt. Þá hafa öryrkjar tvö ár til að ákveða sig, reyna að finna vinnu, reyna sjálfir og vonandi skilar það þeim árangri að þeir sem vilja, geti unnið.

Í framhaldi af þessu vísa ég málinu til velferðarnefndar og vona að tekið verði vel í það og að við getum komið því aftur inn í þingið, helst til samþykktar.



[18:53]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka mínum góða þingflokksbróður og framsögumanni frumvarpsins fyrir framsöguna. Ég verð nú að segja að ég er einstaklega stolt af því að loksins skulum við mæla fyrir frumvarpi sem við höfum stefnt að frá því að við komum inn á Alþingi Íslendinga. Ég hef ítrekað staðið í þessu ræðupúlti og lýst hugmyndum okkar um að hver og einn sé bærastur til að meta sína eigin starfsgetu, umfram bírókrata úti í bæ sem eigi að setja okkur öryrkja í starfsgetumat eftir dúk og disk, en það hefur nú verið við frekar dræmar undirtektir, verð ég að segja. Ef þið sæjuð það, ágætu landsmenn, sem eruð að horfa á okkur hér og nú í þessum ágæta ræðustól, er ekki nokkur einasta sála í þingsal nema hæstv. forseti og starfsmaður þingfundaskrifstofu. Ég held því að þessi málaflokkur sem hefur verið hjartans mál Flokks fólksins hljóti ekki neina sérstaklega athygli (Gripið fram í.)almennt — nema hvað hér kemur hv. þm. Vilhjálmur Árnason og bara þýtur inn í salinn. Vertu velkominn.

Staðreyndin er sú að það sem við erum að leggja til er ekkert nýtt af nálinni. Við erum ekki að finna upp hjólið heldur líta til annarra landa. Við erum að líta í kringum okkur og sjá hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig annars staðar. Í Svíþjóð kom t.d. glögglega í ljós að 32% þeirra einstaklinga sem reyndu fyrir sér á vinnumarkaði skiluðu sér ekki aftur inn á bótakerfið. Nú hefur verið mikið ákall, sérstaklega hjá hæstv. fjármálaráðherra sem fórnar höndum yfir því hversu mikið öryrkjum fjölgar og hvernig í veröldinni fara eigi að því að fækka þeim. Ég hef gjarnan sagt að það séu nú kannski ýmis önnur ráð til en að fleygja okkur fyrir björg — og þetta er eitt af þeim, úrræðið sem við tölum fyrir hér og nú þar sem einstaklingurinn sjálfur fær tækifæri til að meta sjálfan sig til þeirrar vinnugetu sem hann hugsanlega hefur. Það teljum við vera í anda alls annars sem við gjarnan boðum, frelsis, að reyna að styrkja einstaklinginn og ná fram því besta sem hugsast getur.

Þegar hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson nefnir að frítekjumark öryrkja sé 109.000 kr. skulum við átta okkur á því að um leið og við förum að vinna, þrátt fyrir frítekjumarkið, er sérstaka framfærsluuppbótin bara farin. Maður bara borgar hana til baka. Ef maður byrjar að vinna í september og fær 100.000 kr. fram að jólum, fer eitthvað umfram, þó að það séu ekki nema 100.000 kr., þarf maður að borga framfærsluuppbótina til baka allt árið. Punktur og basta. Og þetta er nákvæmlega sú reynsla sem ég hef upplifað sjálf. Þetta kerfi sem við búum við í dag er skúmaskotakerfi sem hvetur alla sem mögulega geta reynt að afla sér tekna til að koma sér út úr fátæktargildrunni til að vinna svarta vinnu. Er það það sem við viljum, virðulegi forseti? Er það virkilega það hvatakerfi sem við sýknt og heilagt sendum skilaboð um út í samfélagið? Væri ekki nær að taka utan um þennan þjóðfélagshóp, þá sem mögulega geta unnið? Við tölum mikið um nýgengi örorku en í þeim hópi eru margir ungir karlmenn á aldrinum 18–25 ára gamlir, sérstaklega þeir, sem er virkilega sorglegt. Í mjög mörgum tilfellum eru þessir einstaklingar líkamlega vel á sig komnir en eiga erfitt andlega. Margir hverjir eru að koma úr neyslu og reyna að ná sér upp úr erfiðleikum sem þeir hafa gengið í gegnum og gengur bara ekki allt of vel að fóta sig úti í samfélaginu. Einstaklingar sem leggjast í þunglyndi og vanlíðan og eiga mjög erfitt því að það er sannað mál að því lengur sem við erum frá því að taka þátt í samfélaginu, því líklegra er að við lokumst af til lengri tíma, hvort heldur sem það er eftir slys sem við erum lengi að ná okkur af — og því lengri tími sem líður, því erfiðara verður fyrir einstaklinginn að koma sér aftur út í samfélagið. Það er bara staðreynd. Ég er ekkert að koma með nein ný vísindi.

Það er athyglinnar virði að við erum búin að mæla fyrir öðru frumvarpi, eða réttara sagt eru ríkisstjórnin og hæstv. félagsmála- og barnamálaráðherra með það mál núna, þar sem við vorum ítrekað búin að benda á að þótt hætt yrði að skerða aldraða vegna launatekna myndi ríkissjóður alveg örugglega ekki tapa. Allir útreikningar sem við höfðum frá sérfræðingum bentu til þess að ríkissjóður myndi frekar hagnast. Það væri lýðheilsumál að eldri borgarar gætu mögulega fengið að vinna lengur. Nákvæmlega það sama á við um öryrkja. Hugsið ykkur hvað það væri frábært ef við, Alþingi Íslendinga, gætum hvatt þennan þjóðfélagshóp til dáða, komið fólkinu okkar út í vinnu, a.m.k. þeim sem eru bærir til þess og hafa líkamlega burði til þess. Við getum hjálpað þeim út í lífið aftur og um leið værum við að fækka öryrkjum í orðsins fyllstu merkingu.

Ég átta mig ekki á þessari þrákelkni. Ég átta mig ekki á því af hverju kerfið er svona ofboðslega þungt í vöfum. En um leið get ég ekki annað en bent á að heyrst hefur úti í samfélaginu þegar þessi mál ber á góma: Ætlið þið virkilega að gera það að verkum að öryrkinn fari að græða á því að fara að vinna og fái líka framfærslu Tryggingastofnunar? Það er eiginlega þyngra en tárum taki ef fólk sýnir svona neikvæðni og heldur virkilega að við boðum fulla vinnu öryrkjans og fulla framfærslu hjá Tryggingastofnun. Það er alrangt og ég hvet alla þá sem yfir höfuð hafa einhvern áhuga á því að setja sig inn í málin að lesa þetta frumvarp, lesa greinargerðina og skoða það sem við höfum fram að færa — en fyrst og síðast að hlusta á það sem við erum að segja því að við erum að segja satt. Ég er verulega stolt af því að við séum þó búin að mæla fyrir frumvarpinu. Ég hvet ykkur hins vegar sérstaklega til að fylgjast með hvernig því verður tekið, hvernig almennt verður tekið utan um þau fimm forgangsmál sem Flokkur fólksins mun mæla fyrir núna hverju á fætur öðru, og bera það síðan saman við þau stóru orð sem oft hafa verið höfð í frammi í kosningabaráttunni um hvernig allt eigi að laga, allt skuli bæta, öllu breyta og allir ætli að gera allt fyrir alla. Hér erum við að berjast fyrir þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu, þá sem eru með lægstu launin, þá sem varla draga fram lífið dag frá degi. Við erum að tala um þann hóp hér og nú.

Ég ítreka að ég er afskaplega ánægð með að við skulum vera búin að mæla fyrir málinu. Flokkur fólksins segir það sem hann meinar og meinar það sem hann segir: Allt það sem við höfum boðað munum við koma fram með, alveg sama hvernig aðrir taka því og hvort þeir hjálpa okkur að koma því í gegn eða ekki. Venjulega erum við tilbúin að setja öll okkar mál í hendurnar á ríkisstjórninni og gefa henni kost á því að útfæra þau og hrinda þeim í framkvæmd þannig að þegar upp er staðið væri það ekki bara Flokkur fólksins heldur við öll, eins og ég hef gjarnan sagt, sem tækjum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum; við öll sem sýndum þjóðinni og sönnuðum fyrir henni að við gætum unnið saman að góðum málum, staðið saman í gegnum þykkt og þunnt og verið saman þegar það skiptir virkilega máli. Og þannig held ég — eða ekki held, þannig í raun finnst mér það vera í hjarta mínu — að Alþingi Íslendinga eigi að vinna, þó að upp komi alls konar pólitískt hártog og eitt og annað, og er það náttúrlega eðli málsins samkvæmt akkúrat eins og það á að vera, þó að við hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson séum kannski ekki alveg orðin nógu flink í því enn þá. En við lærum hratt enda höfum við gengið í gegnum ýmislegt misskemmtilegt og stundum svolítið bratt. En við erum bjartsýn og brosandi og nú er hv. velferðarnefnd komin með þetta frábæra mál í fangið. Þar er mikið af góðu fólki sem ég vona að sé tilbúið til þess að rýna djúpt í rökin sem fylgja því, horfa til frænda okkar í Svíþjóð og sjá hvort við séum nokkuð í bullinu. Við erum að segja satt og það sem er eiginlega það besta við málið, eins og kom fram í framsögu hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar rétt áðan, er að ef þessir einstaklingar geta fengið vinnu og treysta sér til að vinna munu þeir greiða staðgreiðslu af sínum launum.

Virðulegur forseti. Ég held að það sé kannski ekkert frekar um þetta að segja nema bara að þetta er mál nr. tvö sem Flokkur fólksins mælir fyrir af fimm mála forgangsmálapakkanum okkar sem við köllum velferðarpakka Flokks fólksins. Og svo bara þakka ég fyrir í bili — er það ekki, Guðmundur?



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.