150. löggjafarþing — 9. fundur
 24. september 2019.
virðisaukaskattur, 1. umræða.
frv. JónG o.fl., 26. mál (endurgreiðsla virðisaukaskatts). — Þskj. 26.

[15:06]
Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Við erum að leggja til að virðisaukaskattur verði endurgreiddur af fráveituframkvæmdum sveitarfélaga og hljóðar frumvarpið svo: „Við 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Fráveituframkvæmdir sveitarfélaga.“ Það er reiknað með því að þessi lög, verði frumvarpið samþykkt, öðlist þegar gildi þann 1. janúar 2020.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að það hafi verið lagt fram á 149. löggjafarþingi, þá náðum við ekki að afgreiða málið og það er nú endurflutt óbreytt. Það er óhætt að taka fram hér, virðulegur forseti, að þær umsagnir sem um málið bárust voru mjög jákvæðar og það var mikil áhersla lögð af hálfu sveitarfélaganna á að þetta gæti komist í gegn.

Í greinargerðinni segir:

„Fráveitur eru hluti af lögbundinni almannaþjónustu sveitarfélaganna, utan samkeppnisumhverfis. Nánar er fjallað um skyldur sveitarfélaga í þessum málaflokki í lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, með síðari breytingum. Fráveituframkvæmdir uppfylla því vel þau skilyrði sem almennt eru sett fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts og standa rök til þess að virðisaukaskattur vegna slíkra framkvæmda sveitarfélaganna verði endurgreiddur að fullu.

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, felur í sér að sveitarfélög fái framvegis fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Sjónarmið sem ráða því að undanþágur eru gerðar í 3. mgr. 2. gr. laganna eru af ýmsum toga. Þannig má segja að félagsleg og heilbrigðissjónarmið ráði undanþágunum í 1. og 2. tölulið, tæknileg sjónarmið í 7. og 10. tölulið, félagsleg og tæknileg í 3. og 9. tölulið o.s.frv. Í samanburði við aðrar þjóðir standa Íslendingar sig ekki nægjanlega vel í meðhöndlun skolps og fráveitumálum almennt. Umhverfismálin eru sett á oddinn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að gera þurfi átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga en veruleg þörf er á uppbyggingu í þessum málaflokki, sérstaklega á landsbyggðinni.

Umfang endurgreiðslna, komi til þeirra, liggur ekki fyrir en helgast væntanlega af eftirstöðvum þess verkefnis sem stofnað var til með lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995. Á gildistíma þeirra laga hefur stuðningur ríkisins numið meira en 2.000 millj. kr. og var stuðningurinn hlutfallslega mestur fyrst. Lítið hefur verið um nýframkvæmdir í fráveitumálum frá árinu 2008. Flest fjölmennustu sveitarfélögin hafa náð að ljúka framkvæmdum en allmörg fámenn og meðalstór sveitarfélög hafa hins vegar enn ekki hafið framkvæmdir.

Almenn lagabreyting sem þessi, sem felur í sér fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda, er heppilegur kostur að mati flutningsmanna. Með frumvarpi þessu er ætlunin að ríkissjóður veiti stuðning við fráveituframkvæmdir með því að gefa eftir þann hluta framkvæmdakostnaðar sem ella myndi skila sér sem virðisaukaskattur. Nettótekjutap ríkisins verður þó óverulegt ef frumvarpið verður að lögum enda er vandséð að sveitarfélögin leggi í fjárfrekar framkvæmdir á þessu sviði án fjárhagslegs stuðnings ríkisins.

Tillagan er ekki alveg ný af nálinni. Í skýrslu tekjustofnanefndar, sem skilað var árið 2010, var umfjöllun um endurgreiðslur virðisaukaskatts til sveitarfélaga. Í skýrslunni lagði nefndin til að tekið yrði tillit til kostnaðar sveitarfélaga sem hlytist af greiðslu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum. Nefndin taldi tvær leiðir koma til greina í því sambandi, þ.e. að ríkissjóður endurgreiddi sveitarfélögunum virðisaukaskatt sem legðist á umrædda starfsemi eða að sveitarfélögin fengju auknar fjárveitingar, t.d. í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, til að mæta kostnaði við greiðslu virðisaukaskatts af verkefnunum. Í frumvarpi þessu er lagt til að fyrrnefnda leiðin verði farin enda er hún að flestu leyti einfaldari í framkvæmd.“

Virðulegur forseti. Hér er mikilvægt mál á ferðinni sem hefur áður verið flutt hér á Alþingi og er mikil áhersla lögð á af hálfu sveitarfélaganna. Þannig ályktaði þing Sambands íslenskra sveitarfélaga á fundi sínum að mikilvægt væri að þingið myndi reyna að ljúka þessu máli. Þetta eru dýrar framkvæmdir og það er alveg ljóst að það er víða pottur brotinn, alveg sérstaklega í litlum og meðalstórum sveitarfélögum, eins og fram kemur í meðfylgjandi greinargerð. Það er því mikilvægt að við klárum þetta mál. Með þessu máli er verið að uppfylla hluta af stjórnarsáttmálanum og taka öflugt skref. Það liggur fyrir að mörg sveitarfélög horfa til þessa máls og eru jafnvel að bíða með framkvæmdir og búin að undirbúa þær. Verði þetta að veruleika megum við reikna með að nýtt átak í þessum mikilvæga málaflokki fari af stað.

Meðflutningsmenn auk mín í þessu máli eru Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir.

Ég legg til að málinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.



[15:12]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Um afar mikilvægt mál er að ræða, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi hér á undan mér. Þetta er, eins og við segjum stundum, gamall vinur síðastliðinna ára. Frárennslismál eru yfir höfuð mjög stórt úrlausnarefni. Þó að við séum frekar fámenn í stóru landi eru hér þéttbýlisstaðir og víða viðkvæmir viðtakar. Þetta tengist vatnsgæðum og hreinleika lífvera í nærumhverfi okkar, bæði á sjó og landi. Eins og einnig kom fram hjá hv. framsögumanni hér á undan mér eru ýmsir staðir þar sem þetta hefur gengið ágætlega. Það eru góðir viðtakar við frárennsli, eða sæmilegir, gjarnan sjórinn sjálfur. Það eru aðrir staðir, sérstaklega landluktir, þar sem viðtakinn er viðkvæmur og lausnir mun erfiðari. Það er líka mikilvægt að muna að það skiptir máli hvers konar hreinsibúnaður er á ferðinni, að það séu ekki bara rotþrær heldur flóknari tæknibúnaður, fyrsta, annars eða þriðja stigs hreinsun eins og gjarnan er talað um. Það er jafnvel hægt að losna við örplast úr frárennsli. Það er til úttekt þar sem til að mynda er verið að bera saman Ísland og Svíþjóð og þar kom fram að á þéttbýlustu svæðum, annars vegar í Reykjavík og hins vegar í stórborgum í Svíþjóð, er örplastmengun í frárennsli miklum mun meiri hér en í Svíþjóð. Þetta er eitt af þeim málum sem taka þarf tillit til.

Herra forseti. Ég kem hér upp til að lýsa því að mér líst mjög vel á þessa tillögu svo langt sem hún nær. Ég er sammála því að þátttaka ríkisins er nauðsynleg í þessum málaflokki. Eftir því hvernig við förum að þessu, með virðisaukaskattsfráfellingu eða öðru, er erfitt að sjá fyrir í bili hver fjárhæðin er sem verið er að fara fram á að falli á ríkissjóð; hún er örugglega allhá, ég ætla ekki að fjölyrða um það. Mitt erindi var fyrst og fremst að reifa stöðu mála í stjórnkerfinu því ég kannaði það sérstaklega. Þá vil ég fá að segja frá því að mjög nýlega var lagt fram minnisblað í ríkisstjórn og í framhaldi af því var ákveðið að stofna starfshóp um málefnið sem hér um ræðir. Þar í eru fulltrúar frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, frá fjármálaráðuneytinu og frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, auk sérfræðinga. Verkefni hans er að kortleggja hvar skórinn kreppir. Við vitum jú að það eru allmörg sveitarfélög sem þurfa þessa aðstoð. Hvers konar skilyrði þarf að uppfylla þegar um er að ræða þessi frárennslismál, eða frágang þeirra öllu heldur, hvaða reglugerðir þarf að uppfylla og hvernig þarf hreinsun að vera o.s.frv.? Það er síðan verkefni þessarar nefndar að áætla kostnað miðað við leiðir í ríkisstuðningi og þá sérstaklega það að fella niður virðisaukaskatt af framkvæmdum.

Herra forseti. Þetta mál er komið á rekspöl og það er ljóst að afgreiðsla á því, hvernig sem hún nú verður, má ekki dragast mikið. Þetta er mikilvægur hluti umhverfismála. Frárennslismál eiga alls staðar á Íslandi að vera í góðu lagi. Við erum að leggja áherslu á matvælaframleiðslu, hreinleika landsins, ferðaþjónustu o.s.frv. og því er til mikils að vinna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.