150. löggjafarþing — 15. fundur
 9. október 2019.
niðurfelling ábyrgða á eldri námslánum, fyrri umræða.
þáltill. LE o.fl., 179. mál. — Þskj. 180.

[18:10]
(Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Í fjarveru Loga Einarssonar, hv. þm. Samfylkingarinnar, en hann er fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu, mæli ég fyrir henni. Það fer svo sem ekki mikið fyrir henni á blaði, en hún er svona:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að fella niður ábyrgðir á námslánum sem veitt voru fyrir 31. júlí 2009.“

Í greinargerðinni kemur fram að þingsályktunartillagan var lögð fram á 149. löggjafarþingi og var þá mál nr. 811 en var ekki afgreidd og er nú endurflutt. Fram til 2009 þurfti námsmaður sem hugðist taka námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna að fá einhvern annan, t.d. foreldri, ættingja eða maka, til að ábyrgjast lánið. Með lögum nr. 78/2009, um breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992, var fallið frá því að krefja lántakendur um ábyrgðir á lánum þeirra nema í þeim tilfellum þegar námsmaður teldist ekki lánshæfur. Þrátt fyrir þetta var ákveðið að aflétta ekki ábyrgðum af lánum veittum fyrir lagabreytingarnar. Röksemdin fyrir þessu ósamræmi var fjárhagsleg þar sem talið var að afnám ábyrgðarmannakerfisins gæti komið niður á innheimtuhlutfalli lánanna.

Mörg dæmi eru um að ábyrgð á eldri lánum hafi valdið fólki alls konar vandræðum jafnvel áratugum eftir að skrifað var undir og tengsl milli lántakanda og ábyrgðarmanns höfðu jafnvel gerbreyst.

Að undanförnu hafa auk þess fallið dómar sem leiða í ljós vankanta á núgildandi fyrirkomulagi. Þeir hafa t.d. leitt í ljós að ábyrgðarmenn námslána njóta ekki jafnræðis við ábyrgðarmenn annars konar lána í fjármálakerfinu.

Í athugasemdum við frumvarp til framangreindra breytingalaga kom fram það sjónarmið að krafan um ábyrgðarmenn samræmdist tæplega þeim tilgangi laga um lánasjóðinn að tryggja jafnrétti til náms því að ekki gætu allir námsmenn útvegað ábyrgðarmann. Samt var ákveðið að sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna yrði áfram virk á útistandandi námslánum. Núverandi ástand er ótæk mismunun og ekki í samræmi við félagslegt jöfnunarhlutverk sjóðsins. Því er réttlætismál að ábyrgðir á eldri námslánum verði felldar niður.

Meðflutningsmenn hv. þm. Loga Einarssonar á þessari tillögu eru hv. þingmenn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Jón Steindór Valdimarsson og Njörður Sigurðsson.



[18:13]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um tillögu til þingsályktunar um niðurfellingu ábyrgða á eldri námslánum. Ég er einn af stuðningsmönnum tillögunnar og verð að taka undir að þetta er ein af þeim þingsályktunartillögum sem mér finnst nauðsynlegt að fá inn í þingið. Þegar við hugsum aftur í tímann er gamla fyrirkomulagið um ábyrgðarmenn eiginlega óskiljanlegt. Þar er verið að veðsetja afa og ömmu, maka, frænda, frænku fyrir námslánunum sem má segja að séu að mörgu leyti bara lán sem er svolítið happadrætti hvernig enda vegna þess að það er ekkert samasemmerki á milli þess að fá námslán, taka mikið af námslánum, vera í löngu námi og þeirra launa sem það skilar eftir á. Fyrir utan það að ef áföll verða á þeirri vegferð og viðkomandi námsmaður getur ekki staðið í skilum er auðvitað ótækt að verið sé að leggja fjárhagslega stöðu frændfólks eða jafnvel vina undir. Þess vegna segi ég að það er alveg frábært að þetta mál sé komið fram og ég vona heitt og innilega að það fari alla leið og að við getum lagt þetta að baki þannig að við sjáum aldrei það fyrirkomulag á lánveitingum að einhverjir eigi að ábyrgjast svona hluti og allra síst námslán, vegna þess að við erum að fjárfesta í framtíðarmenntun.

Við þurfum eiginlega líka að breyta námslánakerfinu. Það getur að mörgu leyti verið mjög íþyngjandi kerfi því að það er ekki hægt að garantera það hvaða laun viðkomandi námsmaður fær. Við vitum það líka og höfum séð það mörgum sinnum að oftast eru það konur sem lenda í lægri launaflokkum, fá lægri laun. Þær eru með langt nám að baki en eru samt liggur við rétt fyrir ofan lágmarkslaun. Það segir sig sjálft að þetta er íþyngjandi og hlýtur að vera sérstaklega íþyngjandi fyrir þá sem vita af því að á bak við ábyrgðina eru afi, amma, maki og fjárhagsleg afkoma þessa fólks getur verið undir. Það hlýtur að vera mjög íþyngjandi og á ekki að eiga sér stað. Ég styð því málið heils hugar og vona að það fljúgi í gegn.



[18:16]
Margrét Tryggvadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég styð þetta mál að sjálfsögðu. Það er löngu tímabært. Við höfum á Íslandi haft undarleg kerfi í gegnum tíðina á lána- og skuldamálum. Þetta ábyrgðarmannakerfi er sem betur fer að mestu liðið undir lok, alla vega á nýrri lánum. En þetta er náttúrlega sérstaklega slæmt með námslán því að fólk var eðli málsins samkvæmt oft að taka þau ungt að árum og þeir sem skrifuðu undir voru kannski vinir eða jafnvel þáverandi tengdaforeldrar eða tengdaamma eða einhver sem tengdist viðkomandi á þeim tímapunkti í lífinu. En svo heldur náttúrlega lífið áfram og skuldirnar hjá LÍN, alla vega það sem ég skulda LÍN, eru mjög dularfullar því að upphæðin lækkar ekki nokkurn skapaðan hlut, alveg sama hvað ég borga. Það er alltaf eitthvað þarna sem er nokkurn veginn sama upphæð ár frá ári, sama hvað ég geri. Það er mjög ósanngjarnt að þetta lendi á einhverjum öðrum en lántakanum. Best væri auðvitað að koma hér á kerfi þar sem við værum með námsstyrki. Ég hef alla vega ráðlagt mínum börnum að taka ekki lán hjá LÍN.

Ég held að það sé löngu tímabært að við drífum í þessu og losum fólk úr skuldaálögum sem það er oft í vegna fólks sem er þeim algjörlega óviðkomandi. Ég hef heyrt mörg dæmi, staðfest dæmi, um að einhver hafi skrifað upp á fyrir vin, svo er vinurinn bara fluttur eitthvert til Ameríku og það veit jafnvel enginn hvar hann er eða hvort hann sé lífs eða liðinn, en skuldin er áfram á einhverjum sem viðkomandi hefur ekki verið í sambandi við í áratugi. Þetta þarf að laga.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.