150. löggjafarþing — 16. fundur
 10. október 2019.
um fundarstjórn.

ráðherrar til svara í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:31]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla ekki að vera með mikil leiðindi, ég finn mig bara knúna til að tjá vonbrigði mín yfir því hvað félags- og barnamálaráðherra dettur seint inn á dagskrá fyrir óundirbúinn fyrirspurnatíma. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri í boði að eiga samtal við félags- og barnamálaráðherra fyrr en fyrir um 20 mínútum. Ég hefði alveg verið til í að eiga orð við hann en var ekki undirbúin á nokkurn hátt þannig að mig langaði bara til að koma því á framfæri að það væri gott að vita þetta með einhverjum fyrirvara. Á heimasíðu Alþingis var það ekkert komið í ljós og ég vissi ekki af því fyrr en ég fékk tölvupóst fyrir stuttu að það yrði hægt að tala við félags- og barnamálaráðherra. Ég vildi bara koma þessum vonbrigðum á framfæri.



[10:31]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill þvert á móti hrósa hæstv. félags- og barnamálaráðherra fyrir að bregðast vel við og koma í óundirbúinn fyrirspurnatíma með skömmum fyrirvara. Þannig hafði atvikast að ekki stóðu eftir nema tveir hæstv. ráðherrar þegar verið var að undirbúa fundinn síðdegis í gær og í morgun. Félags- og barnamálaráðherra á síst skilið að sitja undir gagnrýni en hitt viðurkennir forseti, að það er óheppilegt að listinn liggi ekki fyrir með góðum fyrirvara og sé réttur. Stundum gerist þetta samt. Þannig háttaði til að í óundirbúnum fyrirspurnatíma á mánudaginn voru mjög margir ráðherrar en fáir skráðir í dag af ástæðum sem við getum giskað á hverjar séu, m.a. Arctic Circle ráðstefnan, þannig að það er verið að reyna að gera sitt besta í þessum efnum.



[10:32]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég leyfi mér að taka undir með bæði hv. þm. Halldóru Mogensen og um leið með forseta og hrósa hæstv. félags- og barnamálaráðherra fyrir að bregðast skjótt við. Engu að síður var ég kl. 9.50 eða svo að skoða hvaða ráðherrar væru til svara af því að það er sérstaklega eitt mál sem snertir NPA-þjónustuna sem virðist vera upp í loft og ég hefði gjarnan viljað fara yfir það með ráðherra. En ég er nú þegar búin að skrá mig í fyrirspurn til annars ráðherra sem verður sett fram á eftir þannig að um leið og ég hvet forseta til að reyna að koma betri brag á þessi mál segi ég takk við félagsmálaráðherra fyrir að bregðast hratt við.



[10:33]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim sem gagnrýna það að rétt áður en þingfundur er settur sé sent út hverjir verði í óundirbúnum fyrirspurnum. Þetta eru engan veginn boðleg vinnubrögð. Við erum að reyna að skipuleggja störf okkar. Í aðra röndina er talað um að við þurfum að laga skipulag á þinginu, og forseti hefur tekið undir það, en síðan er ríkisstjórnin svo óskipulögð að hún hendir út nafnalista yfir ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum með nokkurra mínútna fyrirvara. Ég get ekki tekið undir það að sérstök ástæða sé til að hrósa hæstv. ráðherrum fyrir að mæta í óundirbúinn fyrirspurnatíma, en við verðum að fá tíma til að undirbúa okkur. Við í Samfylkingunni vorum búin að undirbúa fyrirspurn til annars þeirra tveggja ráðherra sem var búið að tilkynna að yrðu hér í salnum. Við höfðum hugsanlega viljað eiga orðastað við hæstv. félagsmálaráðherra en undirbúningstíminn er bara of lítill.



[10:35]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er hálfpartinn farinn að sjá eftir því að hafa brugðist við beiðni þingsins um tíuleytið að mæta til óundirbúinna fyrirspurna vegna þess að það hefðu orðið forföll. Engu að síður var ég líka hér á mánudaginn í óundirbúnum fyrirspurnatíma þá og hefði haft gaman af því að svara fyrirspurnum hv. þm. Halldóru Mogensen um NPA-samninga og fréttir sem voru í morgun. Ég vonast til þess að fá einhverjar fyrirspurnir en ég get glatt þingmanninn með því að ég mun reyna að vera aftur í óundirbúnum fyrirspurnatíma strax eftir helgi. Það er gott að geta brugðist hratt við hjá þinginu og að það séu fyrirspurnir. Vonandi verða fleiri en við hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem fáum fyrirspurnir. Eins og ég segi er ég hálffarinn að sjá eftir því að hafa brugðist svona fljótt við en ég mun gera það hér eftir sem hingað til.



[10:36]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það kom mjög snöggt að hæstv. félags- og barnamálaráðherra kom inn. Ég held að maður sé búinn að læra það í þinginu að vera eins og skátarnir, ávallt viðbúinn. Ég var tilbúinn með spurningar til allra þriggja. Ég á gusu fyrir félags- og barnamálaráðherra vegna þess að mér finnst skipta mestu máli að ná sambandi við hann þannig að ég fagna því að hann sé kominn.



[10:36]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir það sem fram hefur komið hér, gagnrýni á þetta skipulagsleysi og þær afleiðingar sem það hefur á getu stjórnarandstöðunni til að sinna hlutverki sínu. Af því að þingið er ekki þrúgað af stjórnarmálum á dagskrá langar mig hins vegar að varpa þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort það sé mögulegt að lengja þennan óundirbúna fyrirspurnatíma þannig að við ættum möguleika á að bæta við þær fyrirspurnir sem þegar voru skipulagðar í ljósi fyrirliggjandi dagskrár þannig að við fengjum færi á að spyrja hæstv. félags- og barnamálaráðherra spjörunum úr fyrst hann er kominn hingað. Ég velti fyrir mér hvort þetta gæti verið leið til að bregðast við þessum skorti á skipulagi.



[10:37]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti leggur til að við höldum okkur við þá reglu sem er orðin föst í sessi, að óundirbúinn fyrirspurnatími sé lengri á mánudögum svo að sex komist að. Þetta er undirbúið þannig að í ríkisstjórn er tekið fyrir hverjir geti mætt og yfirleitt skráð viku fyrir fram. Eins og við þekkjum geta hins vegar orðið breytingar. Ráðherrar geta forfallast og þegar þannig háttar til, eins og gerði núna, að ekki nema tveir ráðherrar gátu komið sem áður höfðu verið tilkynntir inn, var farið í að athuga hvort þriðji ráðherrann gæti ekki bæst við. Eins og hefur komið fram brást hæstv. félags- og barnamálaráðherra vel við. Forseti tekur því ekki alveg undir það að um sérstakt skipulagsleysi sé að ræða, heldur er þvert á móti reynt að hafa þetta eins fyrirsjáanlegt og mögulegt er.

Ef ekki verða stærri vandamál sem menn þurfa að kvarta yfir á þinginu í vetur er forseti ánægður með það. (Gripið fram í.)