150. löggjafarþing — 16. fundur
 10. október 2019.
upphæð örorkulífeyris.

[10:45]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins var haldinn 4.–5. október og þar var ályktað um kjör örorkulífeyrisþega. Þar segir, með leyfi forseta:

„Enn eitt árið eykst gjáin milli örorkulífeyris og lágmarkslauna. Það er ömurlegt að við Íslendingar höfum ákveðið að sumum okkar skuli haldið í sárafátækt lífið á enda. Þó að forsætisráðherra vilji ekki biðja fátækt fólk um að bíða eftir réttlætinu, bíður það enn. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þjóðina að beita sér fyrir því að biðinni ljúki nú þegar. Það veit enginn hver þarf næst að reiða sig á smánarlegan örorkulífeyri.“

Í ályktun Öryrkjabandalagsins kemur einnig fram að frá 2008 hafi leiðir lágmarkslauna og örorkulífeyris skilið. Nú munar 70.000 kr. á mánuði á lágmarkslaunum og lífeyri. Eftir næstu launahækkanir stefnir í að munurinn fari upp í 86.000 kr. á mánuði.

Ég spyr ráðherra: Hvernig í ósköpunum getur hann og hans ríkisstjórn reiknað það út að öryrkjar þurfi þetta miklu minna til framfærslu en láglaunafólk? Og hvers vegna í ósköpunum þurfa þeir líka minna en atvinnulausir? Er það eitthvað í fari öryrkja sem gerir að verkum að þeir eigi að fá þetta miklu lægri framfærslu? Er það vegna þess að þeir þurfa að borða minna, þurfa að fá færri lyf eða ódýrari? Hvað veldur því að kerfið er sett upp eins og öryrkjar þurfi mun minna til framfærslu en láglaunafólk?



[10:47]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hann vitnaði í ályktun aðalfundar Öryrkjabandalagsins og það er alveg rétt að samkvæmt nýgerðum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði er gert ráð fyrir því m.a. að lágmarkslaun hækki. Reyndar liggur ekki nákvæmlega fyrir á hvaða hátt það verður vegna þess að sú nýlunda var í kjarasamningunum að hluti af þeirri hækkun er bundinn við það hvernig hagkerfinu vindur áfram.

Við þurfum að hafa í huga þegar við ræðum bætur almannatrygginga, hvort sem er örorkulífeyri eða greiðslur til aldraðra, að þær eru alla jafna bundnar við vísitölu svo að þær breytast. Þó að þingmaðurinn hristir hausinn er það þannig að í fjárlögum hvert ár gerum við ráð fyrir því að stofninn þar hækki á þeim grunni. Það hefur verið kallað eftir því að það sé hluti af kjarasamningum en hann er það ekki á þann hátt vegna þess að hann er bundinn þannig að við erum að breyta stofninum og grunninum við fjárlagagerð hvers árs á meðan almenn laun á vinnumarkaði eru ekki verðtryggð. Þau eru ekki tengd vísitölu eða hækka sjálfkrafa þegar verðlag í landinu hækkar. Þetta helst aldrei þannig saman í hendur.

Hins vegar spyr þingmaðurinn hvað við séum að gera og af hverju við séum ekki að gera neitt gagnvart þeim sem búa við bágust kjörin. Við bættum á yfirstandandi ári við fjármagni sem ætlað var m.a. til þess að draga úr krónu á móti krónu skerðingum. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 1,1 milljarði kr. til að bæta stöðu þessa hóps. Það er sá rammi sem við munum vinna út frá. Við erum líka í fjölmörgum aðgerðum sem lúta að húsnæðismálum sem eiga að geta nýst þessum hópi jafnt sem öðrum og skattkerfisbreytingum o.fl. Þegar það allt saman er tekið (Forseti hringir.) tel ég að með því séum við að bæta kjör þessa hóps og ég vona að þingmaðurinn sé sammála mér um að margt af því séu jákvæðar aðgerðir.



[10:49]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin, en ég held að hangið sé á prósentuhækkunum og verðlagsbreytingum á miklu sterkari og stærri hækjum en ég er með. Þetta er bara hækja að segja svona. Þið eruð í ríkisstjórn. Þið getið breytt þessu, þið getið farið eftir launaþróun. Af hverju var ekki farið eftir launaþróun? Af hverju fá öryrkjar ekki kjaragliðnun leiðrétta? Af hverju fengu þingmenn á svo til einni nóttu 600.000 kr. hækkun yfir ákveðið tímabil, en öryrkjar 60.000? Er þetta sanngjarnt? Hvernig í ósköpunum ætlið þið að réttlæta það — og ég vil fá svar við því — að öryrkjar og ellilífeyrisþegar eigi að lifa á 70.000–80.000 kr. minna á mánuði en lægstu laun eru? Hvers vegna? Hvað er það í fari þeirra sem gerir það að verkum að þeir eigi að lifa af þessu? Ég vil fá svar við því: Af hverju í ósköpunum þarf að mismuna fólki svona?



[10:50]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Margar af þeim aðgerðum sem við erum að vinna munu nýtast þessum hóp sérstaklega og við erum þegar farin að sjá ávinning af því. Ég bendi t.d. á að byggðar verða 600 almennar íbúðir á næsta ári sem m.a. félag örorkulífeyrisþega getur sótt í. Við höfum lagt áherslu á að ná í gegn breytingum sem miða að því að breyta endurhæfingarkerfinu vegna þess að við þurfum í sameiningu að ná utan um það að draga úr nýgengi örorku. Það er verkefni sem skiptir máli. Þegar við skoðum hækkanir sem sannarlega þarf fyrir þann hóp verðum við að skoða þær í því samhengi hver fjölgunin verður á næstu árum og áratugum. Vandi okkar er sá að við höfum verið með þetta allt í einum hóp en við getum ekki tekið ákveðna hópa út fyrir. Það er því svo mikilvægt að við náum í gegn breytingum sem miða að því að efla starfsendurhæfingarkerfið og draga úr nýgengi örorku, þannig að við getum gert meira fyrir þann hóp sem þarna er (Forseti hringir.) og sannarlega þarfnast aukinna fjármuna.