150. löggjafarþing — 16. fundur
 10. október 2019.
greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, 1. umræða.
frv. IngS og GIK, 85. mál (hækkun bótagreiðslna). — Þskj. 85.

[16:05]
Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Það er gjarnan þannig að við í Flokki fólksins skoðum löggjöfina og reynum að bæta hana. Hv. þm. Brynjar Níelsson kenndi mér það nú t.d. ekki alls fyrir löngu að hún væri nú götótt sums staðar og mætti kannski sparsla pínulítið í þetta og færa í rétt horf. Frumvarpið sem ég mæli fyrir hér og nú snýst um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995. Við erum sem sagt að tala um að hækka bæturnar, enda hafa þær ekkert breyst síðan 2012 eins og kemur fram síðar. Með mér á frumvarpinu er hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson.

Í 1. gr. frumvarpsins viljum við gera eftirfarandi breytingar á 2. mgr. 7. gr. laganna sem fjallar um ábyrgð ríkissjóðs á dæmdum eða ákvörðuðum bótum til þolenda afbrota: Í stað 250.000 kr. í a-lið, sem nú er, komi 400.000 kr. Hér er verið að tala um tjón á munum. Í b-lið komi í stað 5 millj. kr. 8 millj. kr. og hér erum við að tala um líkamstjón. Í c-lið komi 6 millj. kr. í stað 3 millj. kr., vegna miska. Í d-lið komi 4 milljónir í stað 2,5 millj. kr., fyrir missi framfæranda, og í stað 1,5 millj. kr. í e-lið komi 2,5 millj. kr., vegna útfararkostnaðar.

2. gr. hljóðar svo:

„Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:

Fjárhæðir tilgreindar í 7. gr. skulu breytast árlega í samræmi við þróun launavísitölu, en þó þannig að þær hækki aldrei minna eða lækki meira en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

3. gr. frumvarpsins er:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.

Miða skal fyrstu árlega breytingu á fjárhæðum bóta við þróun launavísitölu frá þeim mánuði þegar lögin taka gildi til næstu áramóta.“

Virðulegi forseti. Mál þetta var flutt á 149. löggjafarþingi, 892. mál, en hlaut ekki afgreiðslu. Er það nú endurflutt óbreytt. Bótagreiðslur sem ríkissjóður ábyrgist á grundvelli laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota takmarkast við fjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna. Þær fjárhæðir sem þar er kveðið á um hafa verið óbreyttar frá árinu 2012, sem sagt í sjö heil ár. Síðan þá hafa orðið breytingar á verðlagi og jafnframt hafa bætur ákvarðaðar í refsimálum þróast í samræmi við þær verðlagsbreytingar. Það er ágalli á gildandi löggjöf að þessar fjárhæðir þróast ekki í samræmi við verðlag. Þegar fjárhæðum var breytt síðast, í júní 2012, stóð launavísitalan, miðað við grunn frá 1989 samkvæmt vefsíðu Hagstofu Íslands, í 433,1 stigi en nú stendur hún í 675,3 stigum. Þá er ekki ósennilegt að hún kunni að hækka verulega í framtíðinni. Af framangreindum ástæðum er lagt til að fjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 7. gr. hækki. Þykir manni það bara eðlilegt miðað við allt og ég myndi segja að þegar við erum að tala um mál eins og miska, missi framfæranda og þær bætur sem ríkissjóður greiðir til að koma til móts við þá sem hafa orðið fyrir mismiklum missi hljóti það að vera hálfgerð handvömm að láta bæturnar ekki fylgja vísitöluþróun eða launaþróun.

Ástæða þykir til að hækka fjárhæð c-liðar umfram hlutfallslega hækkun annarra liða. Ávallt kemur betur í ljós hve mikil áhrif afbrot hafa á líf og líðan brotaþola. Erfitt er að meta slík áhrif út frá læknisfræðilegum viðmiðum. Þótt líkamleg áhrif brots séu metin er erfiðara að meta andleg áhrif og þau geta oft komið fram eða aukist löngu eftir að brot er framið. Því er mikilvægt að hækka ábyrgð á bótum fyrir miska umfram hækkanir annarra bótaflokka. Þá er óskandi að slíkt veiti dómstólum hvatningu til að ákvarða hærri bætur fyrir miska í alvarlegri málum en tíðkast hefur.

Einnig er lagt til að til frambúðar hækki fjárhæðir bóta samkvæmt 2. mgr. 7. gr. árlega í samræmi við breytingar á launavísitölu. Einnig skal lágmark ábyrgðar á bótakröfu hækka, samanber 1. mgr. 7. gr., í samræmi við breytingar á launavísitölu. Eðlilegt er að breyting á fjárhæðum skuli fara fram um hver áramót.

Við þekkjum það náttúrlega öllsömul, það er nákvæmlega þá sem ríkið uppfærir venjulega allt sitt og hækkar brennivínið og rafmagnið, nefnið það bara, það er allt vísitölutengt og allt hækkar 1. janúar, meira að segja er svakahækkun núna til almannatryggingaþega um heil 3,5%, er það ekki, hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson? Það er eitt af því sem manni þykir þyngra en tárum taki að skuli bara fylgja þeirri vísitöluþróun. En það er svo sem ekki verið að fara fram á meira, virðulegi forseti, með þessari breytingu í frumvarpinu en nákvæmlega það, að árlega verði þetta skoðað því að það er bara eðli málsins samkvæmt. Það lítur út fyrir að vera sanngirnismál og hefði sennilega átt að vera í lögum frá byrjun. Annað finnst mér eiginlega stórfurðulegt. Það er eðlilegt að breyting á fjárhæðum skuli fara fram um hver áramót.

Miða skal fyrstu árlega breytingu við þróun launavísitölu frá þeim mánuði þegar lögin tóku gildi til áramóta. Þar sem launavísitala kann að lækka ef efnahagur versnar skyndilega er lagt til að miðað verði við vísitölu neysluverðs ef hún hefur hækkað meira eða lækkað minna á gefnu ári en launavísitala.

Ég vona að málið fái nánari umfjöllun og einhver taki eftir því að verið sé að flytja það hér því að við erum þrjú í salnum núna ásamt virðulegum forseta og aðstoðarmanni. Það er svolítið dapurt að það skuli vanta 59 þingmenn í salinn. En það er eins og gengur, það er af mörgu að taka í dag og margir eru á ráðstefnu í Hörpu vonandi, Arctic Circle og allt það. Starf þingmannsins fer sannarlega fram víðar en akkúrat í þessum háttvirta þingsal. En vonandi kemur málið aftur hingað í þingsal þar sem þetta er algjört sanngirnis- og réttlætismál að mínu mati og tel ég, miðað við þá grunnþekkingu sem ég hef í lögum, að það sé eðlilegt að þessu sé breytt.



[16:14]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, þ.e. hækkun bótagreiðslna. Flokkur fólksins stendur að þessu frumvarpi og er það löngu tímabært og kannski sérstaklega vegna þess að það er lagt fram mánuði fyrir dag gegn einelti, og kynferðislegri áreitni eða ofbeldi, sem er 8. nóvember ár hvert, sem sagt eftir réttan mánuð.

Hvað erum við í sjálfu sér að ræða hér og hvers vegna viljum við breyta þessu bótakerfi? Þetta er bótakerfi sem bætir fyrir á einhvern hátt það ofbeldi sem fólk hafa orðið fyrir. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ingu Sæland erum við að hækka bætur fyrir líkamstjón og miska, missi framfæranda og útfararkostnað. Þetta hefur ekki hækkað síðan árið 2012. Það sem er eiginlega furðulegast við þetta er að allt það sem virðist heita bætur hjá ríkinu gleymist, þær bætur verða einhvern veginn eftir á og það gleymist að uppfæra þær og þær detta bara út. Hvort þetta er sparnaðarleið, hugsanavilla eða eitthvað sem hefur gleymst í þessu máli veit ég ekki. Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt vegna þess að ef við viljum og getum fundið það út og teljum að við séum að búa til einhvern ramma um það að bæta einhverjum eitthvert tjón, af hverju eigum við þá að bæta það með nákvæmlega sömu upphæð árið 2019 og árið 2012? Það stenst ekki. Ef við ætlum að tryggja að viðkomandi fái þær bætur sem hann á rétt á hljótum við að tryggja að þær séu jafn mikils virði árið 2019 og þegar upphæðirnar voru ákveðnar á árið 2012.

Við getum talað um ýmsa bótaflokka. Það hefur t.d. mikið verið rætt um sanngirnisbætur. Ég tel að miða eigi þær við þennan bótaflokk. Við erum að tala um fólk sem hefur lent í ótrúlegum raunum, sem hefur orðið fyrir ótrúlega miklu ofbeldi, ekki bara fullorðið fólk heldur börn. Það er með ólíkindum að við skulum hafa þessar bætur svona smánarlega lágar. Við erum ekki að tala um einhverjar rosalegar fjárhæðir í þessu samhengi. Við erum að tala um að í stað 5 milljóna komi 8 milljónir fyrir líkamstjón, tjón sem veldur viðkomandi einstaklingi vanlíðan og raskar kannski lífi hans til fjölda ára, alveg frá því að tjón verður og jafnvel þar til viðkomandi er ekki í þessum heimi lengur. Við erum að tala um miskabætur, í stað 3 milljóna verði þær 6 milljónir. Fyrir útfararkostnað og missi framfæranda úr 250.000 kr. í 400.000 kr. Þetta eru lágar upphæðir, tiltölulega lágar og það ætti í sjálfu sér að fljúga í gegn vegna þess að það er bara sanngjarnt að við sjáum til þess að þeir sem verða fyrir slíku tjóni fái bætur og þó að þær séu smánarlega lágar skipta þær örugglega marga gífurlega miklu máli.

Við verðum að átta okkur á því að þeir sem verða fyrir ofbeldi verða fyrir gígantískum kostnaði. Það er auðvitað það ömurlegasta sem maður getur lent í, og ég tala þar af eigin reynslu, að eiga rétt á bótum en fá þær ekki. Maður verður fyrir kostnaði og sá kostnaður lendir kannski á bótagreiðslum eða lífeyri frá Tryggingastofnun, lífeyrir rýrnar bara vegna þess að viðkomandi fær ekki greiddar sanngjarnar og réttlátar bætur sem hann á rétt á. Í þjóðfélagi eins og við lifum í í dag er það hreinlega ömurlegt. Það er lágmarkskrafa að viðkomandi komi nokkurn veginn út á sléttu og verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni af því að lenda í hvers konar tjóni. Við erum að búa til kerfi sem á að bæta það en því miður virðist það ganga mjög illa. Orð eins og bætur eða að bæta eitthvað er eins og eitthvert fúkyrði og aukaatriði sem þurfi ekki að fylgja neinum almennum hækkunum.

Ég vona að frumvarpið fljúga í gegn og að við sjáum sanngirnina í því að hækka þessar bætur um þá smáaura sem við erum að tala um hér.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.