150. löggjafarþing — 17. fundur
 14. október 2019.
varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna.

[15:09]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Undanfarna daga hafa hersveitir Tyrkja gert loftárásir á Norður-Sýrlandi ásamt því að hafa ráðist með landher á tvo mikilvæga bæi. Þessi innrás Tyrkja, í baráttu þeirra gegn Kúrdum, hefur þegar haft hræðilegar afleiðingar fyrir þá sem búa á svæðinu. Vígamenn hliðhollir Tyrkjum hafa nýtt sér tækifærið undanfarna daga til að myrða óbreytta borgara á svæðinu. Hervin Khalaf var aðalritari kúrdíska stjórnmálaflokksins Framtíð Sýrlands. Hún var tekin af lífi í vegarkanti skammt frá landamærunum um helgina. Um 70 óbreyttir borgarar hafa látið lífið síðan um miðja síðustu viku og um 50 hermenn. Nú síðast hafa Kúrdar samið við sýrlenska herinn um að taka til varna á norðurlandamærum Sýrlands. Stærstu bakhjarlar sýrlenska hersins eru Rússar sem gætu sett þessi átök á annað og mun hættulegra stig.

Bandaríkjamenn stungu kúrdíska bandamenn sína í bakið í síðustu viku með því að yfirgefa þá á einni nóttu og gera þannig Tyrkjum kleift að ráðast á þá. Vítavert dómgreindarleysi Bandaríkjaforseta, nema það hafi verið viljandi gert sem er ekki skárra, hefur leitt til þess að rúmlega 700 meðlimir ISIS-hryðjuverkasamtakanna hafa sloppið úr haldi. Óbreyttir borgarar láta lífið daglega og stefnir í enn meiri átök á svæðinu. Öllum er ljóst að með þessu hafa Bandaríkjamenn skaðað samskipti sín við alla sína bandamenn.

Ég hlýt því að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Getum við treyst á varnarsamstarf með löndum eins og Bandaríkjunum og Tyrklandi? Getum við, miðað við núverandi stöðu, réttlætt það að vera í varnarsamstarfi með löndum eins og Bandaríkjunum og Tyrklandi? Er kominn tími til að endurskoða veru okkar í NATO?



[15:11]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Þar sem hv. þingmaður vekur hér athygli á er gríðarlega alvarlegt mál. Þau skilaboð sem við Íslendingar höfum gefið, ásamt þeim löndum sem við berum okkur saman við, hafa verið mjög skýr. Við mótmælum harðlega framferði Tyrkja og sömuleiðis fordæmum við þau brot gegn almennum borgurum sem eru nú að koma í ljós. Það eru strax komnir fram mjög alvarlegir hlutir á þeim örfáu dögum frá því að þessar aðgerðir hófust. Hv. þingmaður vísaði í ákveðin tilvik en þau eru því miður fleiri. Ég er þeirrar skoðunar, og hef ekkert legið á þeirri skoðun minni, að sú ákvörðun Bandaríkjaforseta að draga herliðið til baka hafi verið mjög misráðin. Þrátt fyrir að árásirnar séu á ábyrgð Tyrkja og séu svo sannarlega ekki studdar af Atlantshafsbandalaginu, sem hefur hvorki rætt um þær og því síður gefið nokkurt samþykki fyrir þeim, geta þær haft mjög alvarlegar afleiðingar og jafnvel enn alvarlegri en nú þegar er orðið. Við munum gera hvað við getum og erum m.a. í samtali við félaga okkar á Norðurlöndunum í NATO til að koma þessum skilaboðum skýrt áleiðis og reyna að pressa á Tyrki að hætta þessu framferði sínu. En ég tel samt sem áður ekki að þetta kalli á það sem þingmaður spyr hér sérstaklega um.



[15:13]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ef Tyrkir virkja 5. gr. NATO-samningsins vegna átakanna í Norður Sýrlandi — mun Ísland bregðast við? Geta Tyrkir dregið okkur í stríð ef hersveitir Kúrda og Sýrlendinga ráðast til baka á Tyrkland? Mér finnst þetta vera mikilvægar spurningar að fá svör við. Ég hef miklar áhyggjur af veru okkar í bandalagi þar sem utanríkisstefna tveggja aðildarríkja virðist vera gengin af göflunum. Eða alla vega ganga gegn öllu því sem við segjumst standa fyrir sem þjóð. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra aftur: Er öryggishagsmunum þjóðarinnar, þ.e. öryggishagsmunum okkar Íslendinga, best varið í varnarbandalagi með slíku fólki?



[15:14]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Því er fljótsvarað að Tyrkir geta ekki dregið okkur Íslendinga í stríð. Svo að það sé alveg skýrt fara þeir fram með slíkum hætti sem engin NATO-þjóð hefur stutt, ekki nokkur einasta. Öll skilaboð sem koma frá aðildarþjóðum NATO hafa verið á einn og sama veg. Við Íslendingar höfum verið með sambærileg skilaboð, ekki bara í málflutningi okkar heldur með beinum orðsendingum til stjórnvalda í Tyrklandi. Það er ekki um annað að ræða. Það sem skiptir máli á þessu stigi er að við og aðrar þjóðir gerum hvað við getum til að lágmarka þann skaða sem orðið hefur. Því miður, ef fer fram sem horfir, er ekki hægt að fullyrða að þetta sé búið. Skaðinn getur orðið miklu meiri en hann (Forseti hringir.) er í dag. Við þurfum að taka mið af því í okkar aðgerðum og orðum.