150. löggjafarþing — 17. fundur
 14. október 2019.
sérstök umræða.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[15:43]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að koma hingað núna og eiga við mig orðastað um málefni sem er mér afskaplega hugleikið, virkilega viðkvæmt málefni sem hefur átt undir högg að sækja í samfélaginu, veikindi sem hafa mátt sæta ótrúlegum fordómum. Þess vegna stend ég hér. Mig langar að tala um að síðustu þrjú árin hefur vímuefnaneysla í æð vaxið mjög. Það hefur fjölgað í hópi nýrra sprautuneytenda og fjölgað innlögnum alls hópsins, hóps sem er áberandi veikur. Neysla örvandi vímuefna vex og einnig neysla ópíóíða en það er svo sem ekkert nýtt, þetta er það sem við horfumst í augu við og sannarlega hefur ekki dregið úr alvarleikanum.

Stór hluti þess unga fólks sem kemur til meðferðar á Sjúkrahúsinu Vogi er algjörlega óvirkur í samfélaginu. Hann er ekki á atvinnumarkaði og sinnir heldur ekki uppeldi barna sinna. Líkamleg og andleg heilsa þeirra sem koma vegna langvarandi neyslu er mjög slæm, ekki hvað síst hjá ungum konum. SÁÁ, heilbrigðisyfirvöld og sveitarstjórnir þurfa að sýna samstöðu, við þurfum að taka höndum saman og ég trúi því af öllu hjarta að samtakamáttur okkar geti orðið til þess að við getum náð stórkostlegum árangri, miklu meiri árangri en við státum af í dag. Nú hafa biðlistarnir inn á Vog lengst, það hefur fjölgað um 100 einstaklinga á biðlista á rúmu ári. Nú eru þeir rétt um 700. Að hugsa sér að við skulum horfast í augu við það líka að yfir 6.000 einstaklingar á aldrinum 20–40 ára hafa læknisfræðilega verið greindir fárveikir af fíknisjúkdómi. Þetta eru ansi stórar tölur, virðulegi forseti.

Segja má að það gefi ranga mynd í samfélaginu að við notum orð um vandann eins og jaðarhópa eða jaðarsetta einstaklinga þegar hópurinn er orðinn eins stór og raun ber vitni. Eins og ég var að nefna hafa 6.000 einstaklingar á aldrinum 20–40 ára verið greindir. Þetta er langvarandi vandi og það er sannarlega ekki við heilbrigðisráðherra að sakast hvað það varðar. Hún er núna búin að vera í embætti sínu í tæp tvö ár. Ég er ekki að fara í þessa umræðu til að vera í einhverjum upphrópunarstíl og fara í pólitískar skotgrafir. Ég horfist í augu við þann alvarlega vanda sem er uppi úti í samfélaginu í dag og ég vil meina að við getum gert miklu betur. Ég trúi því. Hugsið ykkur t.d. ef við bara fjölguðum rúmum um tvö á Sjúkrahúsinu Vogi. Það tæki okkur ríflega eitt og hálft ár að klára niður biðlistana. Við getum gert þetta ef við tökum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, eins og ég segi gjarnan. Við þurfum líka að horfast í augu við það sem bíður einstaklinganna sem komast loksins í meðferð. Það vantar meira og minna allan stuðning, það eru örfáir sem geta notið þess. Það vantar búsetuúrræði, það vantar að hjálpa þeim að komast í atvinnu og annað slíkt. Fólk kemur uppfullt af væntingum og bjartsýni um nýtt og betra líf eftir að hafa gengið í gegnum meðferð og leitað sér hjálpar. Þessir einstaklingar lenda oft og tíðum nr. 701, 702 og 703 í röðinni vegna þess að þeir falla skömmu síðar. Stuðningsnetið sem bíður þeirra er nánast ekki til.

Áður en ég beini beinni spurningu til ráðherrans sérstaklega langar mig að benda á alvarleikann sem við höfum horfst í augu við um dauðsföll af völdum fíknar. Frá árinu 2013 hafa dáið 98 karlmenn sem viðurkennt var að hefðu dáið vegna lyfjaeitrunar. Á sama tíma hafa 76 konur dáið af völdum lyfjaeitrunar. Við erum að tala um mannauð upp á 174 einstaklinga og nú erum við ekki að tala um þá sem tóku sitt eigið líf. Hvað eru margir af þeim rúmlega 50 einstaklingum sem svipta sig lífi árlega sem gerðu það undir áhrifum af einhverju sem við vildum gjarnan hafa hjálpað þeim til að losna við?

Mig langar að vita hvað hæstv. heilbrigðisráðherra er að gera í stöðunni, hvað hún hefur á teikniborðinu og hvað hún sér fyrir sér, hvernig við eigum að byggja upp t.d. forvarnirnar og allt sem við gætum svo gjarnan gert, ef við myndum virkilega efla þetta. Ég skal vera fyrsta manneskjan til að taka frívakt kauplaust til að hjálpa til og styðja við að hjálpa þessu fólki okkar. Þetta er mannauður sem við megum ekki við því að missa. (Forseti hringir.) Við erum að tala um þjóðfélagslegan harmleik þegar við horfum upp á þessi dauðsföll og ástandið.



[15:48]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu. Mér er ánægja að taka þátt í henni. Þingmaðurinn óskaði eftir umfjöllun um biðlista í meðferð, umfjöllun um ópíóíða, amfetamín og kókaín ásamt því að fjallað yrði sérstaklega um dauðsföll vegna meintrar lyfjaeitrunar.

Ég kem í fyrsta lagi inn á biðlista í meðferð, en eins og fram kemur í framsögu hv. þingmanns er Vogur ein umsvifamesta meðferðarstofnun landsins við áfengis- og vímuefnafíkn og samkvæmt upplýsingum þaðan eru nú 700 einstaklingar búnir að óska eftir innlögn á Vog. Til viðbótar við beiðnir sem koma frá einstaklingunum sjálfum koma beiðnir frá fagaðilum innan heilbrigðis- eða félagsþjónustunnar, frá geðdeildum Landspítala og barnaverndarnefndum sveitarfélaganna. Biðlistinn er öðruvísi byggður upp en biðlistar almennt í heilbrigðisþjónustunni þar sem einungis fagaðilar leggja mat á viðkomandi heilbrigðisvandamál og skrá einstaklinga á biðlista.

Landspítalinn sinnir einnig meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn og það er mikilvægt að biðlistar fyrir meðferð á Vogi og Landspítalanum séu skoðaðir í samhengi. Það er góð samvinna milli Vogs og Landspítala og ákveðin verkaskipting hefur þróast á milli þessara tveggja stofnana þar sem Landspítalinn hefur til meðferðar sjúklinga með erfið fráhvarfseinkenni og bráð geðvandamál sem oft fylgja mikilli fíkniefna- og áfengisneyslu.

Í janúar 2018 var biðlisti inn á móttökugeðdeild fíknmeðferðar á Landspítalanum átta einstaklingar en fjöldinn á biðlista á liðnum árum hefur verið um 20. Á síðasta einu til tveimur árum hefur orðið mikil aukning í mjög alvarlegum tilfellum fíknivandamála, þ.e. mikið veikra einstaklinga í erfiðum fráhvörfunum með bráð geðvandamál tengd fíkninni. Landspítali hefur sinnt og sérhæft sig í þeim hópi en einnig eru auðvitað bráðatilvik meðhöndluð á Vogi eins og skýrt er. Eins og ég hef áður komið inn á í umræðu um biðlista og áfengis- og vímuefnavanda hef ég hraðað vinnu við heildarstefnumótun fyrir meðferð við áfengis- og vímuefnavanda og sú vinna er í gangi.

Ég vil líka segja hér að samkvæmt afgreiðslu hv. fjárlaganefndar og Alþingis á síðustu fjárlögum var framlag til SÁÁ aukið um 150 milljónir fyrir árið 2019, yfirstandandi ár, og á fjármálaáætlun og í frumvarpinu fyrir árið 2020 og áfram er gert ráð fyrir að sú tala sé inni.

Í öðru lagi óskar hv. þingmaður eftir umfjöllun um ópíóíða, amfetamín og kókaín en 1. júlí 2018 tók gildi reglugerð um lyfjaávísanir, þ.e. reglugerð sem sú sem hér stendur undirritar, og afhendingu lyfja sem m.a. takmarkar ávísanir ópíóíða og örvandi lyfja. Sé notkun þeirra lyfja skoðuð ári fyrir gildistöku reglugerðarinnar annars vegar og hins vegar ári eftir að hún tók gildi kemur í ljós að dregið hefur úr ávísunum á ópíóíða um 9,2% þegar fjöldi dagskammta er skoðaður og einstaklingum sem fá ávísað ópíóíðum hefur fækkað um 5,8%. Það dregur úr þessum lyfjum og fækkar þessum einstaklingum. Það hefur dregið úr notkun örvandi lyfja um 3,6% á sama tímabili sé fjöldi dagskammta skoðaður en það er þrátt fyrir að einstaklingum sem þiggja þá meðferð hafi fjölgað um 8%.

Hvað amfetamínnotkun varðar er aðeins lítill hluti hennar til kominn vegna lyfjaávísana. Þó hefur dregið úr notkuninni um 14% og einstaklingum sem nota amfetamín hefur fækkað um 9% samkvæmt tölum frá embætti landlæknis þannig að þarna sjáum við beinan árangur. Sé hins vegar litið til fjölda sjúklinga sem koma til innlagna á Sjúkrahúsið Vog vegna fíknar í örvandi vímuefni kemur í ljós að fjöldi sjúklinga vegna amfetamínfíknar er stöðugur á síðustu árum. Hins vegar hefur innlögnum vegna kókaínfíknar fjölgað og árið 2018 var 51% af innlögnum á Vog til komið vegna fíknar í örvandi vímuefni.

Í síðasta lagi vill málshefjandi fá umfjöllun um dauðsföll vegna meintrar lyfjaeitrunar. Lyfjatengd andlát eru skilgreind samkvæmt alþjóðlegri tölfræðiflokkun sjúkdóma sem óhappaeitrun, vísvitandi sjálfseitrun og eitrun með óvissum ásetningi eins og það er kallað í þessari tölfræði. Síðasta áratuginn hefur árlegur fjöldi lyfjatengdra andláta verið á bilinu 23–39 og það er erfitt að fullyrða hvort einhver marktæk breyting sé þarna á ferðinni milli ára þegar meðaltalið er ekki hærra en raun ber vitni, þó að við getum öll verið sammála um að meðaltalið sé of hátt og hvert einasta mannslíf of mikið. Lyfjatengd andlát eru að jafnaði lítið eitt tíðari meðal karla en kvenna og á síðustu árum voru að meðaltali 16 slík hjá körlum og 12 hjá konum. Sé litið til ársins 2018 urðu 37 lyfjatengd andlát og níu af þeim einstaklingum voru undir þrítugu, fjórir á aldrinum 20–24 ára og fimm á aldrinum 25–29 ára.

Ráðuneytið hefur sérstaklega leitað sér upplýsinga um skráningu á naloxone-nefúða á Íslandi sem nýtist í neyðarhjálp gegn ofskömmtun af völdum ópíóíða. Lyfið hefur nú fengið markaðsleyfi og vænta má markaðssetningar þess á næstu mánuðum. Á meðan er nefúðinn fáanlegur gegn ávísun á undanþágulyfseðli.

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað heilbrigðisvandamál en umbótastarf verður ekki unnið (Forseti hringir.) nema í samvinnu fjölmargra aðila í samfélaginu, bæði í forvörnum og meðferð. Ég hlakka til að heyra hvað aðrir hv. þingmenn hafa fram að færa í umræðunni.



[15:54]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að hefja þessa umræðu og ráðherra fyrir að vera hér til svara. Þetta vandamál heilt yfir hefur verið þeim sem hér stendur mikið hjartans mál og langar mig í þessari ræðu að talaði um aukna lengd á biðlistum eftir meðferð, sem er ein af spurningunum. Nú hefur komið fram að biðlistar hafa lengst upp í 700 manns, voru lengi vel 600. Ráðherrann minntist á það áðan að sett hefði verið aukið fjármagn í þennan lið í fjárlögum í fyrra, upp á 150 milljónir. Þeir peningar fóru ekki beint í þessa vinnu heldur í aðra vinnu og nú lengist biðlistinn. Þetta er grafalvarlegt mál og alveg ótrúlegt að við skulum ekki geta unnið að því að stytta biðlistana þannig að við getum hjálpað fólki sem vill komast í meðferð. Það er einu sinni þannig að þeir sem eru haldnir þessum sjúkdómi, alkóhólisma, fíknisjúkdómum, eru ekki alltaf tilbúnir til að leita að hjálpinni. Þegar það kemur upp að þeir gefast upp og biðja um hjálp er mjög æskilegt að hjálpin sé til staðar. Þeir sem lenda inni á biðlistum eru margir hverjir horfnir út af þeim þegar röðin kemur að þeim eða jafnvel dánir. Það er óboðlegt. Ég skora því á stjórnvöld og heilbrigðisráðherra að vinna að því, í samráði við meðferðarstofnunina Vog, að koma þessum málum í lag. Þar er fagfólk sem kann algerlega á þessi mál, best allra heilbrigðisstarfsmanna á Íslandi í sambandi við fíkniefnamál.



[15:56]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Hún er þörf nú og verður það því miður áfram. Ég vil bara taka undir það sem hér hefur komið fram. Vandinn er gríðarlega stór og við hæstv. ráðherra höfum rætt áður að það þarf að setja mikinn kraft í þetta verkefni. Við höfum rætt að lyfjaskammtar í apótekum eru allt of stórir. Það held ég að hver einasti einstaklingur sjái í skápunum heima hjá sér þegar lítill hluti lyfja er notaður og höfum við tekið saman dæmi um það sem ég sýndi hæstv. ráðherra.

Varðandi biðlistana liggur auðvitað fyrir að eiturlyfjamarkaðurinn gengur út á eftirspurn sem vex mjög hratt. Framboð er langt umfram það sem flestir geta ímyndað sér. Það er alveg ótrúlegt framboð af eiturlyfjum. Þrátt fyrir góða frammistöðu tollvarða sem tóku í sumar tvær stórar sendingar, annars vegar í Keflavík og hins vegar í Norrænu, sem eru u.þ.b. 60.000–70.000 skammtar, segja fróðir menn mér að verð hafi ekkert lækkað á markaðnum. Það segir alla söguna um hversu markaðurinn er sterkur hér á Íslandi og langt umfram það sem maður hefði trúað. Ég nefndi áðan læknadóp og það er auðvitað notað sem greiðsla fyrir kynlíf og auk þess gýs upp svartamarkaðsstarfsemi í kringum það.

Nær öll meðferð á Íslandi er rekin af sjálfstæðum stofnunum. Þær fá ríkisstyrk en fá langtum meira fyrir hverja einustu krónu en ef starfsemin væri í höndum ríkisins. Þrátt fyrir það er mikilvægt að halda því hjarta sem er í þeim stofnunum og frumkvöðlastarfi sem þar er og það þarf meira fé í þær stofnanir. Það eru Vogur, Hlaðgerðarkot og Krýsuvík; við þurfum að styrkja þær langtum meira en við gerum í dag til þess að stytta biðlistana.



[15:58]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda kærlega fyrir þessa umræðu sem við ættum í raun að hafa vikulega á þingi, enda er staðan sú að hér á landi missum við fjölda fólks vegna ofneyslu eiturlyfja fyrir utan þá sem falla vegna sjálfsvíga, slysa eða annarra voðaatburða sem tengjast neyslu. Í kjördæmaviku fórum við þingmenn Samfylkingarinnar í lærdómsríka heimsókn til SÁÁ og fengum að líta inn fyrir á bæði meðferðarstöðinni Vík og á Vog. Á biðlista eftir meðferð eru ekki sex einstaklingar, ekki 60 einstaklingar heldur 692 sem oft og tíðum eiga fjölskyldur, börn, maka, mæður, feður, systkini. Þetta eru ekki bara einhverjar tölur, þetta eru nefnilega næstum því 700 Jónar og Gummar og Heiður og Önnur í öllum fjölskyldum. Þetta erum bara við hér allt í kring, alls konar fólk. Sumir eru mjög veikir. Aðrir eru að reyna að fá fyrstu hjálp en þurfa að bíða mánuðum saman. Helmingur þeirra sem leita á Vog er á aldrinum 18–35 ára. Það sem helst hefur breyst undanfarin ár er mikil fjölgun þeirra sem hafa sprautað sig en á síðasta ári komu tæplega 450 manns sem höfðu sprautað sig. Það þótti fyrir nokkrum árum eiginlega alveg fáheyrt. Árið 1995 komu tæplega 70% í meðferð vegna áfengisneyslu en í fyrra var hlutfall þeirra sem komu vegna áfengissýki aðeins 29%. Þetta er grundvallarbreyting. Restin kom vegna fíknar í fíkniefni hvers konar.

Hæstv. ráðherra. Ég held að við verðum að fara nú þegar í stórátak eða öllu heldur þjóðarátak í forvörnum. Við getum ekki bara látið þetta flæða yfir. Við þurfum að fara þá leið núna til að koma í veg fyrir að fólk ánetjist þessu, að koma í veg fyrir að við stöndum frammi fyrir því eftir tíu ár (Forseti hringir.) eða 20 að hér verði allt fullt af fíklum.



[16:01]
Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Hér ræðum við að frumkvæði hv. þm. Ingu Sæland hvort fíkniefnafaraldur geisi á Íslandi. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir að vekja máls á málefninu því að það er mjög mikilvægt að halda umræðunni um þetta mikilvæga efni gangandi, upplýsa og fræða án þess þó að vera með upphrópanir eða hræðsluáróður. Því miður er það staðreynd að aðgengi að fíkniefnum er auðvelt í dag og er fíkniefnaakstur t.d. orðinn mun algengari en akstur undir áhrifum áfengis. Það er í sjálfu sér áhyggjuefni. Málshefjandi beindi athyglinni sérstaklega að ákveðnum efnum, svo sem ópíóíðum, amfetamíni og kókaíni, og tek ég undir áhyggjur hennar af auknu magni þessara hörðu efna í umferð. Fylgifiskur kókaíns hefur verið krakkkókaínreykingar en mér skilst að þær nái því miður niður til ungmenna.

Varðandi íslensk ungmenni eru reglulega gerðar kannanir í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum á vegum rannsóknamiðstöðvarinnar Rannsóknir og greining sem mæla ýmsa þætti í lífi ungmenna, svo sem áfengis- og vímuefnaneyslu. Á undanförnum árum höfum við ekki séð niðurstöður sem gefa til kynna að neysla vímuefna sé að aukast hjá þessum hópi sem er mjög ánægjulegt miðað við hvernig staðan er í dag. Hver og einn einstaklingur er mikilvægur og við þurfum að efla úrræði þar sem þau þurfa að vera til staðar í samfélaginu. Partur af því er svokallað MST-meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12–18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda en þar hefur starfsemin verið efld til muna að undanförnu til að auka aðgengi um allt land að þjónustunni og útrýma biðlista sem var eftir meðferðinni.

Fræðsla og forvarnir eru mjög mikilvægar og aðdáunarvert að sjá þann kraft sem einstaklingar og félagasamtök geta leyst úr læðingi og er nauðsynlegt að ríkið geri þeim kleift að halda úti öflugri starfsemi á landsvísu.



[16:03]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Vímuefnamisnotkun, fíkn og önnur vandamál sem eru til komin vegna vímuefnaneyslu verða alltaf hluti af samfélagi okkar og hafa alltaf verið þó að það sé tiltölulega nýlegt að mikil áhersla hafi verið lögð á svokölluð ólögleg vímuefni. Ég þakka fyrir þessa umræðu því að hún er mikilvæg. Mjög mikilvægt er að við stöndum okkur vel í forvörnum, í meðferðarúrræðum, fræðslu og öllu því. Ég dreg ekki neitt úr því, en mér finnst samt skrýtið hvernig reynt er á Alþingi Íslendinga, í fjölmiðlum og í almennu samfélagi að hugga sjúklinginn á sama tíma og hann er rassskelltur. Hvað sem einstaka þingmönnum hér inni gæti þótt um vímuefnaneytendur er þetta hataður hópur í samfélaginu. Hann er hataður og farið er illa með hann. Ég held að áður en fólk þróar með sér alvarlegan fíknivanda neyti það vímuefna í einhvern tíma án þess að lenda í sjáanlegum vandræðum. Á öllum þeim tíma er alið upp í fólki af yfirvöldum sjálfum að óttast yfirvöld og vantreysta þeim. Ég er með þá kenningu að það sé hluti vandans.

Ef það á að vera trúverðugt að okkur hérna sé ekki sama um þennan hóp þurfum við að sýna í verki að okkur sé ekki sama um hann. Það þýðir t.d. að við eigum að afnema refsingar fyrir vörsluskammta til að byrja með. Það er eitt af því sem við þurfum að gera. Hér liggur fyrir ágætt frumvarp hv. þm. Halldóru Mogensen um það efni og á því eru allir flokkar sem hér sitja fyrir utan Framsókn, Sjálfstæðisflokk og Miðflokk. Með þessu vil ég ekki draga úr neinu öðru sem aðrir hafa talað um í sambandi við mikilvægi þess að hafa sterkar forvarnir og meðferðarúrræði og styrkja þau eftir þörfum hverju sinni en við megum ekki gleyma þessum hluta heldur. Hvort sem þetta eru sjúklingar eða fólk sem verður kannski einhvern tímann seinna sjúklingar, og kannski ekki, á ekki að refsa þeim á sama tíma og við stöndum hér og segjumst ætla að (Forseti hringir.) hjálpa þeim svona mikið.



[16:05]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það eru risavaxin mál á dagskrá sem tengjast vímuefnavánni; biðlistar í meðferð, ópíóíðar, amfetamín og kókaín og svo dauðsföll vegna meintrar lyfjaeitrunar. Mig langar til að beina sjónum mínum að forvörnum. Hver er aðgangur að forvarnafræðslu í skólastarfi? Hvert er samspil skólanna við landlækni? Landlæknir hefur það lögbundna hlutverk að annast forvarna- og heilsueflingarstarfsemi. Svokölluð ACE-rannsókn, upp á ensku Adverse Childhood Experiences Study, er stór rannsókn sem hefur verið í gangi frá árinu 1995. Hún hefur óyggjandi sýnt fram á tengsl erfiðra upplifana og áfalla í æsku og heilsufarsvanda, þar með talið fíknivanda, síðar á ævinni. Samkvæmt rannsókninni eru börn sem hafa orðið fyrir áföllum mun líklegri til að ánetjast fíkniefnum síðar á lífsleiðinni. Þetta er mikið áhyggjuefni en á sama tíma má spyrja hvort þetta sé ekki eitthvað sem við getum nýtt okkur, gripið inn í fyrr og betur en við gerum með því að slást um að koma þeim í meðferð eftir að þau hafa ánetjast fíkniefnum.

Við höfum oft rætt skimun af ýmsum toga í þingsal í umræðum um heilbrigðismál. Mig langar til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort innan ráðuneytis hennar sé verið, og þá í samstarfi við menntamálayfirvöld, að skoða það að skima börn með einhverjum hætti með tilliti til þessara áhættueinkenna. Þar væri sannarlega hægt að slá margar flugur í einu höggi, finna börn sem hafa orðið fyrir áfalli af einhverjum toga og veita þeim faglega aðstoð við að vinna úr þeim áföllum, m.a. — ekki eingöngu heldur meðal annars — til að draga úr líkum á því að þau verði fórnarlömb fíkniefna síðar á ævinni, með öðrum orðum að leggja áherslu á að komast að rót vandans og vinna okkur þaðan.



[16:07]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að hefja þessa umræðu og ráðherra fyrir að taka þátt í henni. Við erum að ræða um gífurlegan vanda og enginn veit í sjálfu sér hvenær hann getur lent í að vera staddur þeim megin borðsins, hvort sem það er hreinlega vegna tilviljunar, vegna þess að viðkomandi lendir í áfalli, lendir í slysi, lendir á biðlista og þarf að taka inn sterk verkjalyf. Það veit enginn hver er útsettur fyrir því að verða fíkill.

Við verðum þó líka að horfa á forgangsröðun. Hvernig forgangsröðum við fjármagni? Jú, við erum að tala um og ráðherrann var að tala um að búið væri að setja 150 milljónir í þennan málaflokk. (Gripið fram í: Til viðbótar.) Til viðbótar? Ókei, en hvað er t.d. verið að setja á nýjustu fjárlögum til viðbótar í fjölmiðlanefnd? Þrisvar sinnum meira, 450 milljónir. Ég spyr: Eru biðlistar eftir fjölmiðlanefnd? Liggur lífið á þar? Er einhver að deyja þar? Nei, það er hérna sem það er. Þess vegna myndi ég vilja snúa þessu við, fá 450 milljónir hingað og 150 milljónir í fjölmiðlanefnd ef yfir höfuð er þörf á svo miklum peningum þar.

Við erum alltaf að forgangsraða rangt og við höfum sýnt að við getum með forvörnum komið í veg fyrir og dregið úr öllum hlutum. Við erum búin að sýna það með því að fara með forvarnir í skóla í sambandi við reykingar, í sambandi við áfengi. Við erum að vinna þar stóra sigra og við eigum að horfa á þennan fíkniefnavanda á nákvæmlega sama hátt. Við verðum að byrja í leikskóla, við verðum að byrja með fræðslu. Þannig náum við þessu og þannig eigum við að hugsa um þetta.

Þetta er heilbrigðisvandamál, ekkert annað.



[16:10]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ingu Sæland, fyrir að vekja máls á þessu máli sem er sannarlega mikilvægt. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað um að þetta sé nokkuð sem þarf alltaf að vera til umræðu í þinginu. Við eigum alltaf að vera að hugsa um þessi mál. Við verðum að horfa til þess að fíknivandinn er í rauninni heilbrigðisvandi eins og hver annar heilbrigðisvandi. Við þurfum að hjálpast að og hjálpa hvert öðru til að eyða þeim fordómum sem eru gagnvart þessum sjúkdómaflokki og gagnvart þeim sem eiga við hann að glíma. Það er gríðarlega mikilvægt. Til að mynda getum við þannig komist fram hjá þeim krísum sem við lendum í með sjálf okkur eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson kom inn á áðan: Er betra að setja peninginn í þetta eða er betra að setja hann í hitt? Við þurfum að fókusera á það að þetta er vandamálið. Hér eru sjúklingar sem við þurfum að hjálpa.

Það hefur verið komið inn á mikilvægi þriðja geirans í meðferð fíknisjúkdóma. Þriðji geirinn er sannarlega mikilvægur og ekki síður skaðaminnkunarúrræðið sem hann hefur staðið fyrir eins og til að mynda Frú Ragnheiður sem skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Í rauninni má umræðan að mínu mati kristallast í því að við þurfum að horfast í augu við vandann. Við þurfum að horfast í augu við okkar eigin fordóma og við þurfum að horfast í augu við þennan sjúklingahóp og hjálpa honum.



[16:12]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar í seinni ræðu minni um þetta mál koma inn á innflutning á fíkniefnum sem hefur stórlega vaxið síðustu misseri og aldrei hefur verið eins mikið flutt inn af ólöglegum fíkniefnum og er í dag. Verðið á markaðnum hefur þar af leiðandi lækkað vegna þess að framboðið er það mikið. Ég hef velt fyrir mér hvað hægt sé að gera. Stjórnmálin verða að móta skýra stefnu í þessum fíkniefnamálum. Það er ekki hægt að bjóða upp á það sem er í gangi í dag. Við í Miðflokknum komum með skýra tillögu í fyrra um að sporna við innflutningi á fíkniefnum með því að efla tolleftirlitið. Því var hafnað af öðrum flokkum og það er bara ekki nógu gott. Skýr stefna er það sem við þurfum að koma okkur upp um það hvernig við viljum bregðast við þessu og fylgja henni fast eftir. Það er náttúrlega hægt að segja eins og sumir hafa sagt að fíkniefni ættu að vera lögleg en ekki ólögleg en það er miklu stærra mál. Ef við ætlum að gera eitthvað í þessu strax þarf að byggja undir starfsemi tollgæslunnar til að það að sporna við innflutningi geti verið raunhæft en ekki gert í einhverju skötulíki eins og þetta er í dag. (Gripið fram í.)



[16:14]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir er ég mjög hugsi yfir þessum vanda. Við erum að reyna að leysa hann með ýmsum hætti. Við trúðum því á tímabili að við gætum beitt refsingu til að leysa hann. Ég held að það sé líka mjög mikil einföldun að það að fjölga rúmum leysi þennan vanda. Þetta er miklu tengdara öðrum vandamálum, vanlíðan, geðröskunum og geðrænum vandamálum. Þetta er ekki eitthvert sjálfstætt fyrirbæri sem við setjum inn á Vog og svo er allt orðið gott. Við höfum beitt forvörnum. Þær er miklu meiri núna en þegar við vorum yngri, en vandinn vex og vex, og við eigum að velta fyrir okkur af hverju hann vaxi. Er eitthvað í okkar samfélagi sem veldur því að okkur líður verr? Er eitthvað í fjölskyldumynstrinu? Er það eitthvað annað? Hvað veldur þessu? Erum við agalaus? Er uppeldið í molum? Af hverju er þetta, af hverju líður okkur svona illa?

Ég kann ekki svarið við því. Ég held að við leysum ekkert hér í stuttri umræðu en þetta er ótrúlega flókið mál. Við getum velt fyrir okkur einhverjum lyfjaávísunum, hvort þær séu fleiri eða færri, það skiptir engu máli. Ef þær eru fleiri er svarti markaðurinn bara stærri og svo öfugt. Við getum talað okkur hás endalaust um þetta.

En af hverju líður okkur svona illa? Þeir sem eru verst staddir hafa farið í margar meðferðir, nánast allir. Það er fullt af úrræðum í boði, m.a. á Landspítalanum, í Hlaðgerðarkoti, á Vogi, en við náum ekki neinum árangri. (Forseti hringir.) Veltum fyrir okkur orsökunum, ekki alltaf glíma bara við afleiðingarnar.



[16:16]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er gömul saga og ný að við Íslendingar eyðum stundum gríðarlegum tíma í mál sem það eru svolítið léttvæg en allt of litlum tíma í mál sem raunverulega skipta máli. Hvort þetta er dæmi um það að við fyllumst algjöru vonleysi gagnvart risavöxnu verkefni eða kunnum einfaldlega ekki að greina hismið frá kjarnanum veit ég ekki, en við þurfum a.m.k. að setja fókus á það sem skiptir máli.

Hér er t.d. allt búið að vera hrökkva af hjörunum að undanförnu vegna þess að sex einstaklingar hjá 300 milljóna þjóð hafa látist vegna notkunar á veipi. Orsökin er ekkert endilega ljós. Vissulega hefur farið fram umræða hér og það þarf að taka hana. Það þarf að halda þessu frá ungmennum en mér finnst einfaldlega meiri doði búinn að vera að undanförnu gagnvart hörðum fíkniefnum. Árlega deyja mjög margir vegna þessa fjanda og hann fer ekki í manngreinarálit.

Fólk getur rétt ímyndað sér að ef hér dæju 40–50 ungmenni á stuttu tímabili vegna umferðarslysa væri búið að ræsa hverja einustu malbikunarvél í landinu, allan verkfræðiflotann og setja upp eitthvað til að takast á við þetta. Þá héti það neyðarástand. (Forseti hringir.) Við erum auðvitað að glíma við neyðarástand. Góðu fréttirnar eru hins vegar að þetta er ekki flokkspólitískt mál. Þetta er nokkuð sem við öll ættum að geta sameinast um að verja meiri tíma og fjármunum í, hvort sem um er að ræða forvarnir, að bæta samfélag og líðan fólks eða meðferð, úrræði og rúm, hv. þm. Brynjar Níelsson.



[16:18]
Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt, sem kom fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, að ný reglugerð um lyfjaávísanir hafi dregið úr áskriftum að lyfjunum. Komið var inn á það áðan að verið væri að skrifa svo stóra skammta út á hverjum tíma, yfirleitt eru það þriggja mánaða skammtar sem verið er að leysa út fyrir fólk, að það mætti minnka þannig að við getum stjórnað einhverju með því bara að breyta aðeins til um það hvernig reglur og annað er í kringum þetta. Stefnumótunarvinna í meðferðarúrræðum er líka mjög góðar frétt. Þarna getum við með forvörnunum og með skimun gert stóra og mikla hluti og það er verið að skima gagnvart líðan, t.d. í framhaldsskólanum, þannig að þarna er verið að finna ákveðna einstaklinga sem verður hægt að hjálpa áfram, sem standa þar út úr. Börn yngri en 18 ára þurfa leyfi foreldra sem er gott en þegar þau verða eldri geta þau hafnað því að taka þátt í skimunum.

Annað sem einnig er verið að vinna að er bætt aðgengi að sálfræðiþjónustu og það hefur verið bætt á heilsugæslunni, þannig að sálfræðingar séu þar líka. Gera þarf mun betur þar úti um allt land. Síðan eru ýmis verkefni í gangi því að þó að biðlistar séu langir eru ekki endilega allir á biðlistanum tilbúnir til að fara í meðferðina þegar að því kemur. Reykjavíkurborg er þó með mjög metnaðarfullt verkefni varðandi húsnæðismál heimilislausra sem oft eru einstaklingar sem eru í þessum hópi líka. Ég veit að Reykjavíkurborg óskar eftir aðstoð frá öðrum sveitarfélögum á landinu, sem eiga einstaklinga í þessum hópi, við að hjálpa til við fjármögnun sem er mjög gott því að þetta er ekki einsleitur hópur, það eru mjög mismunandi einstaklingar á þessum biðlistum.



[16:20]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur átt sér stað hérna. Mig langar að tala aðeins um fjölbreytni meðferðarúrræða og gæðaeftirlit vegna þess að mér finnst mjög mikilvægt að einstaklingar, eins fjölbreyttir og þeir eru og eins margir og þeir eru, sem telja sig þurfa á hvers kyns meðferð og aðstoð að halda, geti valið fjölbreytt meðferðarúrræði sem miðist að þeirra þörfum. Vissulega geta margir leitað til t.d. AA-samtakanna en það hentar ekki öllum að ákalla einhvern æðri mátt til að takast á við sín vandamál. Það hentar heldur ekki öllum að fara í SÁÁ. Ég veit ekki betur en að þar sé mikil áhersla lögð t.d. á heilasjúkdómskenninguna þar sem því er haldið fram að fíkn sé heilasjúkdómur en minna litið til sálfræðilegra og félagsfræðilega þátta fíknivandans.

Þetta eru atriði sem mér finnst mikilvægt að skoða og mig langar líka í því samhengi að gauka spurningu að hæstv. ráðherra. Ég gladdist mjög að heyra að hún væri að vinna að heildarstefnumótun fyrir meðferð og meðferðarúrræði. Mér finnst það mjög mikilvægt sem og það að við verðum með gæðavísa og einhvers konar ytra eftirlit með því hvort það sé eitthvert gagn að þessum meðferðum. Ef við dælum gríðarlegum fjárhæðum í meðferðarúrræði, hvernig ætlum við að fylgja því eftir að þau meðferðarúrræði skili árangri?

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur SÁÁ brugðist við ábendingum landlæknis um að setja sér mælanleg gæða- og þjónustumarkmið og koma upp innra eftirliti, m.a. í þeim tilgangi að hægt sé að sannreyna gæði og árangur þjónustunnar? Mig langar að spyrja um það. Mér finnst vissulega mjög mikilvægt að fólk komist í SÁÁ (Forseti hringir.) en líka að fleiri úrræði séu í boði. Síðast en ekki síst spyr ég hvort sú meðferð sem við bjóðum upp á og borgum fyrir skili einhverjum árangri og að við getum fylgst með að svo sé.



[16:23]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það kerfi sem bíður þeirra sem vilja hætta í neyslu er ekki margbreytilegt hér á landi. SÁÁ sinnir bróðurparti hópsins og sumir komast inn á Landspítalann en við þekkjum að ekki er einfalt að komast inn á þann stað og hefur margoft verið komið inn á það hér. Eftir sitja spurningarnar: Eru þetta bestu lausnirnar og henta þær öllum?

Ég velti því upp, ekki síst í ljósi þess sem ég nefndi sérstaklega í fyrri ræðu minni, að rannsóknir hafa með óyggjandi hætti sýnt fram á tengsl erfiðra upplifana og áfalla í æsku og fíknivanda síðar á ævinni, hvort við þurfum ekki að vera með fjölbreyttari úrræði fyrir fíkla. Er ekki nokkuð útséð með að sömu eða svipuð úrræði virki fyrir alla? Ég fullyrði reyndar að svo er, með fullri virðingu fyrir því ágæta starfi sem unnið er t.d. á vegum SÁÁ. Við þurfum að ná að grípa þau börn og ungmenni sem vegna áfalla eru í miklum áhættuhópi. Við megum ekki missa sjónar af því þó að vandinn raungerist ekki fyrr en síðar á ævinni, á fullorðinsárum. Við vitum af þessum tengslum. Í því ljósi vil ég minna á frumvarp okkar í Viðreisn um að sálfræðiþjónusta falli undir greiðsluþátttökukerfið okkar. Það frumvarp fékk á síðasta þingi mikinn stuðning í þingsal, m.a. meðflutning úr öllum þingflokkum, en hlaut þó ekki afgreiðslu fyrir vorið. Það að setja sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttökukerfið væri sannarlega mikilvægur liður í því að bregðast við þeirri staðreynd sem tengsl áfalla í æsku og misnotkun fíkniefna eru.

Svo langar mig að lokum til að minna á mikilvægi ýmiss konar skaðaminnkunarúrræða. Þar mættum við gera betur. Við erum að fara að gera betur ef marka má mál sem eru núna á lista, það verði sem sagt vonandi breyting á til batnaðar, m.a. með fyrirhugaðri opnun neyslurýma sem vonandi næst í gegn sem fyrst og afglæpavæðingu á vörslu fíkniefna. (Forseti hringir.) Það mál er enn og aftur á dagskrá. Þetta hangir allt saman. Við erum ekki að tala um eitt úrræði sem hentar öllum. Við verðum að fara að hugsa fram hjá þeirri girðingu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:25]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er sannarlega þakklát fyrir þær góðu undirtektir sem umræðan hefur fengið hér. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra ásamt öllum öðrum og það sést að hjörtu okkar slá í takt. Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum með samtalið við hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég kem með þrjá punkta og gef henni faktískt fríspil á það hvernig hún ákveður að túlka það, hvort sem það er í sambandi við sjálf efnin, biðlistana eða dauðsföllin. Ég hélt allan tímann að lægi í hlutarins eðli að maður vildi sjá hvað væri að gerast, hvað væri á borði heilbrigðisráðherra, forvarnir og annað slíkt. Öll þessi mál höfum við rætt áður, það er alveg á hreinu. Staðreyndin er sú að það er 700 manna biðlisti núna inn á Vog. Þar eru nákvæmlega sömu afköst og voru áður. Samt hefur fjölgað um 100 einstaklinga á þessum nákvæmlega sama biðlista. Ég er eingöngu að tala um þessa meðferðarstofnun sem hefur sýnt á alþjóðavísu að hún hefur náð stórkostlegum árangri og mig langar að benda hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur á að það er hægt að finna tölulegar upplýsingar um mælanleika þó að hún hafi beint fyrirspurninni til ráðherra.

Staðreyndin er sú að við erum á leiðinni niður brekkuna. Ég finn það. Ég reyndi áðan að tala eins og við værum ekki í einhverri pólitík. Svörin sem ég fékk voru rosalega kerfislæg um einhver prósent. Ég er aðallega að horfa á hinn gríðarlega vanda og stóru verkefnin sem ég tel að við í sameiningu getum tekið utan um. Ég óska eftir því að við stígum út fyrir boxið og viðurkennum vandann af öllu hjarta og göngum í það algjörlega markvisst að vinna á vandanum og koma til móts við þá sem virkilega þurfa á hjálpinni að halda. Hvort sem það er fjölskyldulegt, samfélagslegt, félagslegt eða sálfræðilegt, eins og við vitum, mikill geðvandi og annað slíkt, er staðreyndin sú að þetta er heilbrigðismál. Það er til staðar, þessi vandi er hér og okkar er að leysa hann.



[16:28]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef ég hef valdið hv. þingmanni vonbrigðum í umræðunni en mér hefur fundist hún góð. Það eru allnokkrir punktar sem mig langar til að nefna í lokin og segja hér, bæði við hv. málshefjanda og aðra þingmenn, að þetta eru gríðarlega mikilvæg atriði sem koma upp í umræðunni, bæði sem lúta að forvörnum en ekki síður því sem lýtur að samspili áfalla og fíknar. Sem betur fer hefur sú umræða verið mjög vaxandi á allra síðustu misserum og tengsl áfalla í æsku og líkamlegrar heilsu á efri árum. Sem betur fer er heilsugæslan orðin sífellt meira meðvituð um þetta samspil.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson talaði um skaðaminnkun og fleiri hafa gert það, m.a. hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson. Við verðum að passa okkur á því að umræðan sem við erum með hér einkennist ekki í raun af fordómum sem er sú nálgun að það sé einungis ein einföld leið til að bjarga málinu og það sé að fjölga rúmum eða bæta peningum inn í eitthvert eitt tiltekið úrræði. Það er því miður ekki þannig því að þá væri búið að gera það.

Mig langar að segja líka að á Vogi hefur verið unnið markvisst að því að skapa forgang fyrir þá sem eru í brýnastri þörf, ungmenni undir 20 ára, fólk sem leitar meðferðar í fyrsta sinn, fólk sem ekki hefur verið í innlögn síðustu tíu ár; vegna félagslegra aðstæðna, barnaverndarmála, þungunar eða annars slíks. Allt þetta fólk fær inni milli sjö og 14 daga. Það er þannig. Þetta fólk er í forgangi.

Hér var spurt hvort það væru gæðavísar eða eitthvað slíkt á Vogi, hjá SÁÁ, en það er ekki orðið svo. Markmiðið er auðvitað það og það er með heilbrigðisstefnu, sem við samþykktum á Alþingi, að allir veitendur heilbrigðisþjónustu skili gæðavísum og árangursvísum líka þannig að við sem erum kaupendur þjónustunnar fyrir hönd ríkisins sjáum hver staðan er. (Forseti hringir.)

Ég vil að lokum segja: Þetta er sannarlega heilbrigðismál en það er líka einföldun að tala bara um þetta mál sem heilbrigðismál. Þetta er verkefni samfélagsins alls, verkefni tollyfirvalda og lögreglu en líka verkefni skóla, (Forseti hringir.) heimila, fjölskyldu og samfélagsins í heild vegna þess að þetta snýst líka um forgangsröðun og gildismat. Þess vegna þurfum við að gæta að því að klára umræðuna ekki inni í einhverju einu sílói.