150. löggjafarþing — 17. fundur
 14. október 2019.
Akureyri sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi, fyrri umræða.
þáltill. AFE o.fl., 182. mál. — Þskj. 183.

[16:44]
Flm. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég flyt tillögu þingflokks Samfylkingarinnar til þingsályktunar um Akureyri sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að Akureyri skuli fest í sessi sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi og felur utanríkisráðherra að leggja fram tillögu um eflingu þeirrar norðurslóðastarfsemi sem fram fer á Akureyri, í samstarfi við viðeigandi ráðuneyti og norðurslóðastofnanir á Íslandi.

Tillagan liggi fyrir í janúar 2020.“

Herra forseti. Eins og flestir þekkja hefur Akureyri löngum verið kölluð höfuðborg Norðurlands. Bærinn er eitt fjölmennasta sveitarfélagið utan höfuðborgarsvæðisins og er miðstöð iðnaðar, verslunar og þekkingarsköpunar á Norðurlandi. Norðurheimskautsbaugurinn liggur í gegnum sveitarfélagið u.þ.b. 60 km norðan við Akureyri í gegnum Grímsey sem er hluti af Akureyrarbæ. Má því halda því fram að Akureyrarbær sé bókstaflega landtenging okkar við norðurskautið. Eins og glögglega sást í fréttum síðustu viku og einnig síðustu ár verða málefni norðurskautsins æ mikilvægari í breyttum heimi og hefur Ísland sérstöðu sem norðurskautsríki á margan hátt. Í raun má segja að fá ríki hafi jafn mikla hagsmuni af hagfelldri þróun á svæðinu og Ísland.

Akureyrarbær hefur á síðustu árum þróast í að verða miðstöð norðurslóða á Íslandi og hefur því oftar en einu sinni verið lýst yfir af ráðherrum við hátíðleg tækifæri að Akureyri hafi það hlutverk. Það hefur þó aldrei verið ákveðið formlega og telja flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu ástæðu til að gera það. Fjölmargar norðurslóðastofnanir eins og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar og skrifstofur CAFF, sem er skammstöfun á ensku heiti stofnunarinnar Conservation of Arctic Flora and Fauna, og PAME, á ensku Protection of the Marine Environment, sem eru fastir vinnuhópar Norðurskautsráðsins, eru staðsettar á Akureyri. Háskólinn á Akureyri er hluti af Háskóla norðurslóða og starfrækir námsbraut í heimskautarétti, Rannsóknaþing norðursins, auk þess sem þar eru staðsettar Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og Rannsóknamiðstöð ferðamála. Einnig er þar starfrækt Heimskautaréttarstofnunin. Þá hafa fyrirtæki í bæjarfélaginu stofnað samtök sín á milli, Arctic Services, sem ætlað er að sinna þjónustu við Grænland á sviði iðnaðar og tækni. Þá má nefna norðurslóðasafnið Norðurslóð sem er einnig staðsett á Akureyri og ekki síst Norðurslóðanet Íslands – þjónustumiðstöð norðurslóðamála, sem er samstarfsvettvangur stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka á Íslandi sem vinna að málefnum norðurslóða. Þá má nefna að fjölmargir forviðburðir í tengslum við Arctic Circle hafa verið haldnir á Akureyri, nú síðast í síðustu viku.

Sveitarfélagið Akureyrarbær hefur í árafjöld lagt ríka áherslu á virka þátttöku í norðurslóðamálum innan lands sem utan, m.a. með aðild að og virkri þátttöku í samtökum sem tengjast norðurslóðum. Þannig hefur Akureyrarbær tekið virkan þátt í ýmsum samtökum um málefni norðurslóða, svo sem Northern Forum, sem eru samtök um samstarf svæða á norðurslóðum um eflingu byggðar og mannlífsgæða. Jafnframt hefur Akureyrarbæ, einu íslenskra sveitarfélaga, verið boðið til þátttöku á vettvangi borgar- og bæjarstjóra á norðurslóðum, sem heitir á ensku Arctic Mayors, en sá vettvangur var formlega stofnaður á fundi á Akureyri 10. október sl. Var Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, kjörin fyrsti formaður.

Herra forseti. Ísland fer nú með formennsku í Norðurskautsráðinu. Í formennskutíð Íslands verður byggt á því góða starfi sem unnið hefur verið á vettvangi Norðurskautsráðsins á liðnum árum. Með þessari tillögu er ekki verið að gera lítið úr þeim sem eru að vinna að norðurslóðamálum annars staðar á landinu nema síður sé, heldur er hér verið að viðurkenna þá sérþekkingu og það starf sem unnið hefur verið hingað til á Akureyri og leggja á það aukna áherslu og veita því stuðning. Við höfum dæmi um slíkt frá öðrum löndum, t.d. Tromsø í Noregi og Rovaniemi í Finnlandi, sem báðar eru kallaðar norðurslóðaborgir. Mikilvægt er að nýta og efla áfram þá þekkingu og reynslu sem byggst hefur upp á Akureyri í málefnum norðurslóða og styrkja jafnframt stöðu bæjarins sem norðurslóðaborg Íslands.

Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru sem áður sagði þingflokkur Samfylkingarinnar. Að lokum legg ég til að tillögunni verði vísað til umfjöllunar í utanríkismálanefnd.



[16:49]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Getum við ekki öll verið sammála um að Akureyri er miðstöð norðurslóða á Íslandi? Ég kem hingað upp til að þakka hv. flutningsmanni fyrir tillöguna sem ég held að sé allrar athygli verð en vekur ýmsar spurningar og kannski aðallega um með hvaða hætti flutningsmenn sjái fyrir sér þessa formlegu staðfestingu á því að Akureyri verði miðstöð í málefnum norðurslóða á Íslandi og hvað fælist í þeirri formlegu staðfestingu. Síðan velti ég fyrir mér hvort flutningsmenn sjái fyrir sér hugsanlega þátttöku fleiri stofnana en nefndar eru sérstaklega í tillögunni. Upp í hugann kemur Jafnréttisstofa sem staðsett er á Akureyri og jafnréttismál eru eitt af stóru viðfangsefnunum í samstarfi á norðurslóðum. Ég velti fyrir mér hvort nýta mætti fleiri tækifæri en þau sem nefnd eru í tillögunni til að festa þetta starf í sessi og efla. Þá velti ég fyrir mér hvort þetta sé eingöngu mál utanríkisráðuneytisins eða hvort þyrfti að draga fleiri ráðuneyti að vinnunni, þótt ekki væri nema forsætisráðuneytið og jafnvel umhverfis- og auðlindaráðuneytið því að það hefur vissulega mjög mikilvægu hlutverki að gegna. En á hinn bóginn má segja að málefni norðurslóða fléttast náttúrlega inn í allt samfélagið. Eitt af því sem þar hefur verið ofarlega á baugi eru einmitt forvarnir eins og voru til umræðu hér fyrr í dag.



[16:51]
Flm. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir þetta ágæta andsvar og fagna því að hún telji þessa tillögu athygli verða. Ástæðan fyrir því að við leggjum ekki til ákveðnar leiðir er sú að við viljum veita ráðherra tækifæri til að vinna aðeins með það. Ég sé t.d. fyrir mér að styrkja enn frekar Norðurslóðanetið í sessi og efla það þannig að það verði þá stærri og sterkari vettvangur norðurslóðasamstarfs á Íslandi. Þau eru að gera rosalega góða hluti nú þegar en ég held að hægt sé að gera enn meira með því að efla það starf. Mér líst ofboðslega vel á þá hugmynd hv. þingmanns að draga inn í þetta — ég sá það svo sem alltaf fyrir mér — fleiri stofnanir á Akureyri, og svo sem um allt landið. En þó að við séum að tala um að Akureyrarbær verði miðstöð norðurslóða erum við samt ekki að segja að það eigi að vera eini staðurinn þar sem er unnið að norðurslóðastarfi heldur að horfa einmitt til annarra stofnana og ekki síst þeirra sem eru staðsettar á Akureyri, eins og Jafnréttisstofu.

Hvað varðar önnur ráðuneyti treysti ég núverandi hæstv. utanríkisráðherra til þess að kalla þá að vinnunni sem hann telur þurfa. Hann hefur einmitt ítrekað lýst því yfir, bæði hér í þingsal og í ræðum annars staðar, að hann líti á Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi. En ástæða þess að ég taldi rétt að leggja fram þessa tillögu, þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. ráðherra, er sú að hann verður líklega ekki alltaf utanríkisráðherra. Þar af leiðandi er eðlilegt og mikilvægt að þetta verði formfest með þessum hætti.



[16:53]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir svarið. Ég velti áfram fyrir mér hvernig svona formleg staða myndi styrkja forystuhlutverk Akureyrar í sessi. Hvað gæti það eflt forystuhlutverkið mikið, er það eitthvað sem þingmaðurinn sér fyrir sér? Hvernig gæti formleg staða haft áhrif á stöðu Háskólans á Akureyri og hlutverk hans í rannsóknum á norðurslóðum eða á málefnum norðurslóða?

Síðan langar mig að spyrja: Telur þingmaðurinn að þetta hlutverk, sem mér heyrist að við séum sammála um, sé almennt viðurkennt í samfélaginu? Fram kom að það væri viðurkennt af utanríkisráðuneytinu, alla vega eins og það starfar núna, og það hefur komið mér þannig fyrir sjónir að víðast hvar sé þetta hlutverk og forysta ýmissa stofnana á Akureyri á þessu sviði viðurkennt. En vantar eitthvað upp á það? Hefur þingmaðurinn orðið vör við það?

Þá langar mig bara að nýta hér fimm sekúndur í að undirstrika að mjög mikilvægt er að Ísland sé virkt í þessu samstarfi og sinni þar forystu og einhverjum sé falið að leiða það starf.



[16:55]
Flm. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni aftur fyrir þetta síðara andsvar og fyrra andsvarið. Mér finnst þetta mjög áhugaverðar hugmyndir og mikilvægar pælingar og gaman að fá tækifæri til að ræða þær.

Jú, ég sé auðvitað fyrir mér að þetta gæti einmitt eflt Háskólann á Akureyri sem hefur verið með þá sérstöðu háskóla á Íslandi að fjalla um heimskautarétt. Það er eitt af því sem við hljótum að horfa til að efla enn frekar og er ekki síður mikilvægt í því samhengi sem við erum í í heiminum í dag, þar sem fókusinn er að færast æ meira á norðurslóðir. Undirliggjandi er möguleg hætta á átökum og ég sé svo sannarlega fyrir mér að stofnanir á Akureyri geti lagt sitt af mörkum, t.d. háskólinn með heimskautaréttinum, til að minnka spennuna og vera vettvangur skoðanaskipta á norðurslóðum. Á Akureyri er nefnilega líka alls kyns sérþekking sem er vert að deila á norðurslóðum. Það er ekki bara heimskautarétturinn eða jafnréttismálin, ég get líka nefnt umhverfismálin og það sem Akureyrarbær og Norðurlandið hefur verið að gera í umhverfismálum, sem er hreinlega til fyrirmyndar.

Varðandi það hvort þetta sé viðurkennt í samfélaginu hefur mér þótt það, já. Þess vegna hef ég ekki alveg skilið þetta hik við að stíga það skref að gera það formlega. Auðvitað er víða verið að vinna að norðurslóðamálum, en mín tilfinning hefur verið frekar sú að menn líti svo á að á Akureyri hafi sérþekking safnast saman og sé þar með miðstöð norðurslóða á Íslandi. Því held ég að við eigum ekkert að hika við að gera þetta formlegt og lýsa því yfir að það verði svo.



[16:57]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir þessa þingsályktunartillögu og framsögu. Mig langar eiginlega bara að byrja eins og hv. þingmaður gerði sem talaði hér á undan mér: Getum við ekki öll verið sammála um að Akureyri er einmitt miðstöð norðurslóðamálefna?

Ég velti fyrir mér hvað nákvæmlega fælist í þingsályktun um að Akureyri skuli fest í sessi sem slík miðstöð, en eins og hv. flutningsmaður kom ágætlega inn á er gríðarlega mikil þekking á málefnum norðurslóða á Akureyri og ég hef litið á Akureyri sem höfuðborg norðurslóðamála. Tækifærin sem felast í því fyrir íslenskt samfélag og ekki síður fyrir Norðurland og Akureyri að markaðssetja sig sem slíkt eru gríðarleg. Við sáum það vel á 2.000 manna ráðstefnu í Hörpu þar sem fólk kemur frá öllum heimshlutum til að fjalla um málefni norðurslóða.

Áherslunum sem við höfum sett á oddinn í formennskutíð okkar í Norðurslóðaráðinu var vel að merkja komið greinilega á framfæri, og ég minnist þess innan utanríkismálanefndar, þ.e. að leggja sérstaklega áherslu á það að í formennskutíð okkar myndum við horfa til þeirrar miklu þekkingar sem skapast hefur á Norðurlandi og að rannsóknastofnanir okkar og háskólasamfélag fái notið formennskutíðarinnar, ekki bara með verkefnum sem eiga sér stað akkúrat meðan á formennskunni stendur heldur líka til að byggja undir þann grunn til að þau geti haldið áfram. Ég held að tækifæri okkar í norðurslóðamálum, þegar kemur að vísinda- og rannsóknarsamstarfi, nýsköpun og nýrri hugsun í umhverfis- og norðurslóðamálum, séu mikil. Og það get ég sagt, virðulegur forseti, að það er í rauninni sá auður sem ég myndi vilja sjá virkjaðan í samhengi norðurskautsmálanna, þrátt fyrir að hingað til lands hafi komið ágætur ráðherra frá Bandaríkjunum sem talaði svolítið um norðurskautið eins og hlaðborð alls konar auðlinda sem hægt væri að nýta. Mín persónulega skoðun er að meira vit sé í því fyrir okkur öll að nýta og virkja hugvitið. Í því samhengi held ég að Akureyri spili stórt hlutverk, Háskólinn á Akureyri, Norðurslóðanetið og þær rannsóknastofnanir sem þar eru.

Ég held að þessi þingsályktunartillaga sé ágæt til síns brúks. Hún hvetur alla vega til umræðu um norðurslóðamál og hlutverk Akureyrar í þeim efnum. Ég get sagt það að þegar ég hóf störf á Alþingi og var að setja mig inn í norðurslóðamálin í tengslum við það að vera forseti Vestnorræna ráðsins, þá fór ég að sjálfsögðu til Akureyrar og heimsótti Norðurslóðanetið og kynnti mér það starf. Það var í mínum huga hjarta málefna norðurslóða og ég held að vel fari á því að efla það og tryggja. En ég verð kannski að segja að ég veit ekki alveg með tilgang þessarar þingsályktunartillögu sem slíkrar nema það að við sem hér störfum séum dugleg að ræða þetta og viðurkenna og virkja það starf sem á sér stað á Norðurlandi. Það var líka áhugavert á hringborði norðurslóðanna sem það myndi heita á íslensku, á ráðstefnu sem haldin var í Hörpu um helgina, að þar kynnti menntamálaráðherra vísindasamstarf vísindaráðherra um norðurslóðamál þar sem við höfum verið í sérstöku samstarfi við Japani. Þar sjáum við hvað málefni norðurslóða og vísindi því tengd teygja sig langt. Ég hef líka nefnt það víða að þegar þingmenn hafa heimsótt mig frá Kóreu, Japan og Kína er það tvennt sem ég hef verið spurð út í. Það eru jafnréttismál og norðurslóðamál.

Það eru vissulega mikil tækifæri þarna og ég óska Akureyri alls hins besta í að festa sig enn frekar í sessi sem miðstöð málefna norðurslóða.



[17:02]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætlaði að koma hingað upp aðallega til að taka undir og styðja þessa þingsályktunartillögu sem hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir lagði fram og hefði í sjálfu sér getað gert það í stuttu andsvari. En til að gera ekki einstaka atburði í vor að mynstri hér í þingsal, af því að hún er samflokkskona mín, þá ákvað ég að koma upp í ræðu. En svo hefur ýmislegt merkilegt gerst síðan ég ákvað það. Hér hafa fallið orð og spurningum varpað fram sem er bara allt í lagi að fara aðeins yfir.

Getum við ekki öll verið sammála um að svona er þetta bara? Jú, eflaust. En síðan koma nýir utanríkisráðherrar og nýir þingmenn sem geta verið sammála um eitthvað allt annað. Það er því mjög mikilvægt að svona hlutir séu formgerðir. Þannig höfum við reyndar alltaf gert það. Við skulum ekki gleyma því að í lok 19. aldar var það einmitt ákveðið með lögum og formlegum hætti, af því að við vorum afskaplega fá í svo ofboðslega stóru landi, að hér skyldi vera landspítali. Hér skyldi vera háskóli, hér skyldi vera Alþingi, hér skyldi vera hæstiréttur, þjóðleikhús. Allt var þetta örugglega mjög skynsamlegt og nauðsynlegt á þeim tíma, en það hafði hins vegar þau áhrif að Reykjavík, sem var árið 1901 með 8% af íbúafjölda landsins, óx upp í það fram að árinu 2015 að verða 35% af landinu og með höfuðborgarsvæðinu öllu, þessum litlu pínuhreppum sem héngu utan á borginni, Mosfellshreppi, Garðahreppi, sem breyttust í bæi, og Kópavogi, hefur hlutfallið farið upp í 75%.

Tvær ástæður eru fyrir því að það er fullkomlega eðlilegt og nauðsynlegt að formgera þetta, að Akureyri verði miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi, með þessum hætti. Í fyrsta lagi, eins og ágætur flutningsmaður kom inn á, er til staðar starfsemi og innviðir sem gera það kleift að verkefnið er mjög vel fallið til að vera þar. Í öðru lagi skiptir líka máli að við förum að spyrna við fótum gagnvart þeirri ofboðslega óheppilegu og vondu íbúaþróun sem er að verða í landinu. Norðmenn skilgreina það t.d. sem meiri háttar byggðaröskun ef íbúafjöldi Óslóar verður meiri en 25% af öllu landinu og búa þeir í sæmilega stóru landi líka. En hér erum við komin upp í 75%. Ég ítreka að þetta var skynsamleg ráðstöfun á sínum tíma en það er betra fyrir okkur að við höfum mótvægi. Það mótvægi er einfaldlega helst Akureyri. Í þriðja lagi gæti ég svo hnýtt við að Akureyri er þannig í sveit sett að vera eini bærinn sem snertir heimskautslínuna. Í einhverja tugi ára eða hundruð jafnvel mun það verða þannig, þar til að sú lína færist norður fyrir eyjuna, enda er hún ekki stöðugt á sama stað eins og við þekkjum öll. Þetta held ég að sé ærin ástæða til að ákveða að svona verði þetta.

Síðan langar mig aðeins að ræða norðurslóðamál og svæðið norðan við heimskautslínuna sem allir virðast hafa brjálæðislegan áhuga á, ekki síst stærstu og öflugustu ríki veraldar. Ég hrekk alltaf við þegar talað er um tækifærin okkar. Ég skil alveg hvað hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir á við og ég er sammála henni. En ég held að við eigum að nálgast málið á auðmýkri hátt en að tala alltaf um tækifæri sem felast í breytingum sem eru að verða vegna ofbeitar mannsins á plánetunni. Ég held að við ættum einmitt að vera eins konar útverðir og verðir þessa svæðis, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, gagnvart sjónarmiðum frekari ofbeitar eins og mér heyrðist fulltrúi bandarísku þjóðarinnar vera að leggja áherslu á. Ég verð líka alltaf pínulítið hræddur þegar ég sé of mörg grá jakkaföt í sama herberginu. Það gerðist einmitt á Arctic Circle. Það er rándýrt þar inn þannig að það er auðvitað tómt mál að tala um eins og fyrrverandi forseti Íslands talaði um að þarna væri alls konar fólk og venjulegt fólk. Þarna er ekkert alls konar fólk og venjulegt fólk. Þar er einfaldlega fólk sem hefur efni á því að taka sér frí í vinnunni og borga 50.000 kall inn. Engu að síður er þetta mikilvæg samkoma og hann á heiður skilinn fyrir að halda þessu máli á lofti. En ég vara þó við að þetta svæði verði einhver skák í kapphlaupi ríkja.

Ég var á mjög merkilegum gjörningi norður á Akureyri fyrir tveimur dögum sem var fluttur af Nordting, listahópi frá Norður-Noregi, sem fjallaði um norðurskautið. Þau voru búin að greina myndefnið sem birtist í auglýsingum, á plakötum og í bæklingum samkomunnar. Þau greindu það í þrennt. Í fyrsta flokkinum voru landslagsmyndir. Allar myndirnar voru hvítar af því að bara var sýndur snjór, eins og það sé aldrei sumar norðan við heimskautsbaug. Á næstu myndum voru bara vélar, tæki, alls konar tæki sem geta verið gagnleg. Þá fórum við aðeins að hrökkva í kút og hugsuðum: Er ekkert fólk? Það býr nefnilega alveg fullt af fólki þarna. Jú, svo fundu þau nokkrar myndir af fólki en þær voru af fólki í samíska þjóðbúningnum og fólki í Inúíta-búningum sem það klæðist væntanlega einungis á þjóðhátíðardaginn. Engar myndir voru af venjulegu fólki, ekki myndir af börnum, ekki af einhverjum að fara í skóla. Ég held að við ættum kannski að muna eftir því að þarna býr fólk, þarna er mjög merkilegur kúltúr og við eigum, ef við ætlum að taka þátt, fyrst og fremst að standa vörð um hann og auðvitað jörðina okkar.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.