150. löggjafarþing — 22. fundur
 21. október 2019.
náttúrverndarmál.

[15:17]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. umhverfisráðherra innilega til hamingju með kjör til varaformanns hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Það er í mörgu sem ég hef verið ósammála þeim ágæta flokki í gegnum tíðina en margt gott hefur líka komið frá honum, ekki síst á sviði umhverfismála. Ég las það sem hæstv. ráðherra setti eiginlega fram sem „manifestó“ sitt fyrir þingið þar sem hann lagði sérstaka áherslu á náttúruna. Ég fagna því en ég er líka pragmatísk og vil gjarnan fá að heyra hvernig hann ætlar að ná því fram að styðja náttúruna enn frekar.

Styður hann þingsályktunartillögu okkar í Viðreisn, með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson sem 1. flutningsmann, um betri gæðastýringu vegna landnotkunar?

Styður hann þau okkar sem vilja breyta hvatakerfinu í landbúnaði sem hefur stuðlað að ofbeit og mikilli offramleiðslu með tilheyrandi erfiðleikum fyrir umhverfið? Hyggst hann beita sér fyrir því innan ríkisstjórnar að taka upp búvörusamninginn á þeim forsendum að einblína frekar á styrki til bænda til landnotkunar þannig að það verði til stuðnings bændum, neytendum og ekki síst umhverfinu?

Ríkisstjórnin með Vinstri græn í broddi fylkingar hefur réttilega hreykt sér af aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Eftir yfirlýsingar landsfundar Vinstri grænna finnst þeim greinilega ekki nóg að gert, þó að þau hafi verið að stæra sig af þessu í tvö ár, og vilja gera betur en kolefnishlutleysi 2040 — sem ég styð. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann gera til þess að breyta þessu? Mun hann beita sér innan ríkisstjórnarinnar með því að taka aftur upp aðgerðaáætlun hennar í loftslagsmálum? Hyggst hann fá ríkisstjórnarflokkana alla til samstarfs (Forseti hringir.) í þessum efnum eða mun hann reiða sig á okkur, stjórnarandstöðuflokkana, sem leggja áherslu á umhverfismál?



[15:19]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég vil minna okkur öll á að í desember í fyrra voru ný landgræðslulög samþykkt á Alþingi. Í þeim er kveðið á um ákveðin tæki til að takast á við það sem hv. þingmaður nefndi er lýtur að beitarmálum. Það er líka stórt verkefni í gangi sem Landgræðslan stýrir í samvinnu við bændur og heitir GróLind og snýst um að greina hversu mikið sé af ósjálfbærri beit í landinu. Samkvæmt nýjum landgræðslulögum er verið að setja skilgreiningu á það hvað sjálfbær landnýting er. Þegar við verðum komin með þau tæki í hendurnar held ég að við eigum mun auðveldara með að takast á við þau vandamál sem vissulega eru sums staðar fyrir hendi þegar kemur að beit. Þetta eru lykilatriði til að vinna að núna í framhaldinu.

Eitt af þeim tækjum sem nefnd eru í landgræðslulögum er svokölluð landbótaáætlun sem á að grípa til þegar ekki er um að ræða beit sem samræmist sjálfbærri landnýtingu. Þetta er nokkuð sem er ekki óþekkt í kerfinu eins og það er í dag en er það sem við þurfum að styrkja.

Hér er líka spurt hvort gera þurfi betur í loftslagsmálum. Ég held að við séum öll sammála um að við þurfum að gera betur í loftslagsmálum alls staðar í heiminum. Mér finnst mjög sjálfsagt að svara þessari spurningu játandi. Auðvitað þurfum við að gera betur í loftslagsmálum alls staðar í heiminum og það er akkúrat það sem ríkisstjórnin er að vinna að. Hún hefur komið fram með aðgerð eftir aðgerð byggða á aðgerðaáætluninni sem við settum fram í fyrrahaust og við erum að vinna að endurskoðun hennar eins og sakir standa.



[15:21]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka svörin en engu að síður finnst mér skorta á svar við efnisinnihaldi spurningarinnar, hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að taka upp búvörusamninginn, ekki bara með tilliti til ofbeitar sem slíkrar heldur líka offramleiðslunnar. Hvatakerfi er innbyggt í búvörusamninginn og það hefur slæm áhrif á umhverfið. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að búvörusamningurinn verði tekinn upp á þessum forsendum, að við förum að beina styrkjunum í landnotkunina og styðja bændur á þeim forsendum? Ég ítreka að ég fagna því sérstaklega að við viljum gera betur í loftslagsmálum. Mér finnst það mjög mikilvæg yfirlýsing af hálfu ráðherra í ríkisstjórninni. Ég spyr enn og aftur: Hvernig ætlar hann að fá samstarfsflokkana með sér í þá vegferð að breyta viðmiðununum fyrir 2040 eins og Vinstri græn ályktuðu um um helgina? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að stefna Vinstri grænna í loftslagsmarkmiðunum, sem við í Viðreisn munum styðja, nái í gegn í þinginu? Hyggst hann taka (Forseti hringir.) þetta upp á vegum samstarfsflokkanna?



[15:23]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Hér er í rauninni spurt með hvaða móti við eigum að ná betri árangri. Ég hef rakið það að unnið er að endurskoðun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem fer að sjálfsögðu fyrir ríkisstjórn þegar að þeim tímapunkti kemur. Við Vinstri græn settum okkur um helgina það markmið að ganga lengra en að ná kolefnishlutleysi árið 2040. Það er metnaðarfullt en það er líka afskaplega skynsamlegt að gera þetta, þ.e. að við bindum meira kolefni en sem nemur nettólosun okkar á þeim tímapunkti. Þar þurfum við að grípa til allra mögulegra aðgerða. Það kann vel að vera að það megi gera breytingar á búvörusamningum og ýmsu sem lýtur að landbúnaðinum. Ég get algjörlega tekið undir með hv. þingmanni að slíkt megi skoða. Það er hins vegar nýbúið að ganga frá endurskoðun búvörusamninga við sauðfjárbændur og núna er unnið að því við aðrar búgreinar. Það þarf náttúrlega að skoðast í því heildarsamhengi.