150. löggjafarþing — 22. fundur
 21. október 2019.
Landspítalinn.

[15:24]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ástandið á Landspítalanum er grafalvarlegt. Sýkingavarnir á bráðamóttöku eru ekki tryggðar, viðunandi þjónusta fyrir fólk er ekki tryggð og þar af leiðandi er öryggi sjúklinga ógnað. Meðan þetta ástand er á bráðamóttökunni er sex tíma bið til að komast út af bráðamóttöku ekki rétt lýsing, það er margra daga bið. Á sama tíma eru gerðar enn meiri aðhaldskröfur á Landspítala. Það eru gerðar kröfur um að fresta viðhaldsverkefnum, aðhald í lyfjakostnaði og starfsmannavelta notuð til að fækka fólki. Það vantar fólk, t.d. hjúkrunarfræðinga, og það á að hætta að greiða hjúkrunarfræðingum vaktaálag.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Er þetta eðlilegt ástand? Er ástandið orðið þannig að það er orðið lífshættulegt að snúa sér í lífshættu á bráðamóttökuna? Hvað á að gera í því ástandi? Á sama tíma þenst ríkisbáknið út, eftirlitsstofnanir fá nóg af peningum, það hafa aldrei verið aðrar eins tekjur en á sama tíma er verið að skera Landspítalann — það er búið að skera hann inn að beini, það er búið að skrapa beinið og nú á að fara að plokka í beinagrindina. Hvernig ætlar ráðherrann að taka á þessu ástandi og sjá til þess að fólk sem sækir spítalann heim sé öruggt? Við vitum að það er ekki öruggt í dag.



[15:26]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Staðreyndin er sú að þegar við horfum á ríkisútgjöldin á Íslandi og umfang heilbrigðisþjónustunnar eru heilbrigðismálin um 25% af útgjöldunum í heild. Það er gríðarlega stór hluti og þar af er Landspítalinn – háskólasjúkrahús með verulegan skerf. Á þessu ári er fjárveiting til Landspítala samkvæmt fjárlögum 65,8 milljarðar og verður á næsta ári rétt um 69 milljarðar samkvæmt frumvarpinu fyrir 2020. Það er hækkun um 4,8% á milli ára. Rétt eins og aðrir forstjórar heilbrigðisstofnana og auðvitað forstjórar allra annarra ríkisstofnana þarf forstjóri Landspítala að glíma við það að halda stofnun sinni innan fjárlaga. Það er nokkuð sem við vitum og er veruleikinn hjá öllum sem um það fjalla.

Þegar upp koma áhyggjur af stöðu einstakra deilda eða starfsemi innan spítalans er það hins vegar verkefni embættis landlæknis að fara inn í þau mál og gera úttektir. Síðasta stóra úttektin af þessu tagi var hlutaúttekt embættis landlæknis vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítala frá því í desember 2018. Hún hefur verið endurtekin með eftirfylgniúttekt á síðustu vikum. Þar hafði embætti landlæknis bent á tiltekna þætti til úrbóta og ég vík betur að þeim í mínu síðara svari.



[15:28]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en við vitum að 70% af þessum kostnaði er launakostnaður hjá ríkinu. Það segir sig sjálft að þó að þið skammtið fé þá vantar milljarð upp á launakostnað. Það á að spara um milljarð og um 2,5 milljarða í heild. Á sama tíma eru samningar lausir hjá hjúkrunarfræðingum. Það er hjúkrunarfræðingaskortur og það er verið að taka launaaukann sem var komið á til að halda í hjúkrunarfræðingana. Ég spyr bara: Hvernig í ósköpunum ætlar ráðherrann að halda í hjúkrunarfræðinga á sama tíma og allt á að skera niður? Það er eiginlega verið að auka álagið. Hefur hún ekki áhyggjur af því að það verði bara ófremdarástand? Það er þegar ófremdarástand núna og ef á að fara að skera svona mikið niður og á sama tíma á ekki að sjá til þess að hægt sé að standa undir launakostnaði, hvernig í ósköpunum ætlast hún þá til þess að spítalinn starfi?

(Forseti (SJS): Forseti minnir á að það á að beina máli til forseta en ekki ávarpa einstaka þingmenn eða ráðherra beint.)



[15:29]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og forysta Landspítalans hefur raunar reifað á vettvangi fjárlaganefndar og líka við mig í heilbrigðisráðuneytinu, má eiginlega segja að sá rekstrarvandi sem við blasir á Landspítalanum núna sé sprottinn af mismunandi rótum. Ein þeirra róta er sú sem hv. þingmaður nefnir, sú staðreynd að hlutar af launahækkunum á fyrri stigum — ég er að tala um samninga sem voru undirritaðir fyrir alllöngum tíma — voru ekki bættir og eru í raun og veru komnir til fullra framkvæmda á síðasta eða þarsíðasta ári. Mér finnst þetta vera eitthvað sem þarf að skoða og vil minna á að fjárstjórnarvaldið er hjá Alþingi.

Ég vil líka segja vegna ummæla hv. þingmanns um hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, reyndar nefndi hv. þingmaður ekki síðarnefndu stéttina, að þetta er auðvitað algjört lykilatriði. Þetta eru lykilstéttir og burðarvirkið í því að stofnunin gangi upp yfir höfuð eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar. Ég hef miklar væntingar til þess (Forseti hringir.) að það takist að búa sómasamlega um kjör þessara stétta.