150. löggjafarþing — 22. fundur
 21. október 2019.
eigendastefnur Landsvirkjunar og Isavia.
fsp. ATG, 178. mál. — Þskj. 179.

[16:43]
Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur unnið brautryðjendastarf við langtímastefnumótun, þ.e. stefnumótun sem lýtur sífelldri endurskoðun í hinum og þessum málaflokkum. Ég nefni loftslagsstefnu, nýsköpunarstefnu, heilbrigðisstefnu, orkustefnu, flugstefnu og fleira mætti nefna en það er líka til önnur tegund af stefnu. Við kölluðum hana gjarnan eigendastefnu — fyrir ríkisfyrirtæki. Það er stefnt að gerð eigendastefnu fyrir t.d. Isavia og Landsvirkjun í ríkisstjórnarsáttmálanum. Eigendastefna Isavia snertir margt í afkomu ríkisins og okkar þar með og einnig í stjórnmálum. Ég nefni t.d. flugmálin, bæði innanlands- og millilandaflug, sjálfbærni ferðaþjónustunnar, rekstur flugvalla og þolmörk ferðaþjónustu. Einhvers staðar liggja þau þolmörk, hvað snertir hversu miklu við getum tekið á móti af bæði flugi og ferðamönnum innan lands. Þetta snertir líka samgöngustefnu og samgönguáætlanir og að sjálfsögðu loftslagsmálin í allri sinni vídd. Eigendastefna Landsvirkjunar snertir margt á sama hátt. Dæmi: Umgengni um orkuauðlindir okkar, viðmið í orkunýtingu og náttúruvernd og þar með jafnvægi á milli þessara þátta. Hún snertir orkustefnu í ljósi loftslagsmála, það er jú verið að vinna hana núna, hún er ekki að fullu komin fram, og sjálfbærnihugtakið sem heyrist æ oftar í þessum sal. Svo eru það auðvitað skipulagsmál og sveitarstjórnarstigið í báðum þessum tilvikum.

Það er nokkuð liðið á kjörtímabilið og mikil vinna fram undan. Ég hef spurt hæstv. ráðherra að þessu einu sinni áður í almennum umræðum. Þá var þetta á því stigi að vera rétt í undirbúningi. En nú langar mig að endurtaka þær spurningar í öðru formi og spyrja hver staðan sé við mörkun eigendastefnu þessara tveggja ríkisfyrirtækja, Isavia og Landsvirkjunar. Með öðrum orðum: Hversu langt erum við komin og hvernig er unnið að þessari stefnu? Þá á ég helst við á hverju verið sé að taka. Og að lokum: Hvenær má búast við að Alþingi fái eigendastefnu fyrirtækjanna í hendur til umræðu? Þetta eru sem sagt þrjár spurningar.



[16:46]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að ræða þessi mál í þinginu. Ég vil byrja á því að minnast á almenna eigendastefnu ríkisins fyrir hlutafélög og sameignarfélög frá 2012 og eins eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Almenna stefnan nær til félaga í C-hluta ríkissjóðs og einnig er horft til þess að félög í B-hluta taki mið af henni eftir því sem við getur átt. Eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki var endurskoðuð árið 2017 og hún nær til þeirra fjármálafyrirtækja sem Bankasýsla ríkisins hefur umsjón með. Þannig er í gildi eigendastefna fyrir bæði Landsvirkjun og Isavia eins og önnur félög í meirihlutaeigu ríkisins. Unnið er að endurskoðun á almennu eigendastefnunni í ráðuneytinu. Með því að segja að það sé í gildi eigendastefna er ég að vísa í þessa almennu eigendastefnu. Þar er gerð grein fyrir almennum meginreglum og markmiðum ríkisins með eignarhaldi og rekstri félaga ásamt árangursviðmiðum, viðmiðum um stjórnarhætti og upplýsingamiðlun.

Samhliða er unnið að sérstökum reglum um val á stjórnarmönnum í stjórnir félaga í eigu ríkisins og er gert ráð fyrir að þær verði hluti af almennu eigendastefnunni. Auk fyrrgreindrar vinnu hefur verið unnið að gerð viðauka við almennu eigendastefnuna þar sem sett verða fram sérstök viðmið og markmið fyrir einstaka geira eða fyrirtæki, eftir þörfum. Lögð er áhersla á að slíkir viðaukar verði stuttir og hnitmiðaðir og feli ekki í sér endurtekningu á þeim viðmiðum sem sett eru fram í almennu eigendastefnu ríkisins.

Spurt er hversu langt við erum komin í vinnslu slíkra viðauka fyrir Landsvirkjun og Isavia sérstaklega. Ég get bara greint frá því að þessi vinna stendur yfir. Hún hefur gengið ágætlega. Ég hefði viljað sjá meiri framgang í henni engu að síður en við höfum reglulega setið saman í ráðherranefnd og rætt um þau atriði sem við í stjórnarflokkunum teljum að sé mikilvægt að rætt sé um í slíkum viðaukum. Það hefur hjálpað til við að þoka vinnunni áfram. Það er unnið að gerð flugstefnu í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og hefur verið talið eðlilegt að viðaukinn um Isavia taki mið af flugstefnunni. Stefnt er að því að drög að viðauka um Isavia verði birt til umsagnar á næstu vikum í samræmi við þetta.

Í stjórnarsáttmála er lagt til að eigendastefna fyrir Landsvirkjun taki mið af orkustefnu sem nú er unnið að á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Unnin hafa verið drög að viðauka við eigendastefnu fyrir orkufyrirtæki og er stefnt að því að þau verði birt til umsagnar eftir að orkustefnan hefur verið samþykkt.

Aðeins um það hvernig við höfum unnið að þessum verkefnum. Það hefur verið leitað óformlega eftir sjónarmiðum ýmissa aðila varðandi efnisatriði þessara viðauka. Skoðaðar hafa verið eigendastefnur eða viðmið fyrir sambærileg félög í nágrannalöndum eftir því sem það getur átt við og við höfum sömuleiðis horft til leiðbeininga alþjóðastofnana um stjórnarhætti. Þá hefur verið litið til stefnu stjórnvalda á þeim sviðum sem tengjast starfsemi einstakra félaga eða geira. Einnig er horft til almennra stefnumiða stjórnvalda eftir því sem við á, svo sem á sviði sjálfbærni og loftslagsmála. Að loknu samráði innan Stjórnarráðsins og við viðkomandi félög verða drög að ofangreindum viðaukum kynnt í ráðherranefnd og í ríkisstjórn. Eftir það verða lokadrög sett á samráðsvettvang stjórnvalda þar sem hagaðilar og almenningur getað komið með athugasemdir. Loks verður farið yfir fengnar athugasemdir og stefnan aðlöguð eftir þörfum og kynnt fyrir ráðherra, viðeigandi ráðherranefnd og ríkisstjórn áður en hún er birt formlega.

Ég myndi segja að það sé eðlilegt að í beinu framhaldi af þessu væri efnið kynnt þingmönnum í viðeigandi þingnefndum. Ég get alveg séð fyrir mér að slíkt samtal geti sömuleiðis farið fram á samráðstímanum, þ.e. eftir að gögnin hafa verið birt í samráðsgáttinni, ef eftir því væri óskað af viðkomandi þingnefndum.



[16:51]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mjög víðfeðm og ég hef eina mínútu. Ég hef áhuga á að vita hvort ráðherra hyggst beita sér fyrir því að í eigendastefnu þessara fyrirtækja og fleiri ohf.-fyrirtækja, svo sem eins og RÚV ohf. og Landsbankans, verði greidd gata þeirra kjörnu fulltrúa sem vilja fá upplýsingar um starfsemi þessara fyrirtækja. Þau eru í eigu þjóðarinnar og þjóðin og fulltrúar hennar eiga fullan rétt á því að fá upplýsingar um rekstur, rekstrarfyrirkomulag o.s.frv. Ég minni á nýsvaraða fyrirspurn sem sá sem hér stendur lagði fram fyrir ráðherra þar sem spurt var um kostnað Landsvirkjunar við undirbúning að lagningu sæstrengs undanfarin tíu ár. Fékk engin svör. Það eru sex atriði í upplýsingalögum sem tilgreind eru sem ástæður fyrir því að svara ekki; öryggi þjóðarinnar og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er algerlega óþolandi og taka þarf á þessu. Því spyr ég ráðherra: Er ætlunin að í eigendastefnu verði upplýsingaskylda?



[16:52]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við um eigendastefnu sem mér skilst að verði sett fram bæði fyrir Isavia og Landsvirkjun sem viðbót við almenna eigendastefnu með viðmiðum og markmiðum. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé mjög mikilvægt að samþætta eigendastefnu Isavia við samgönguáætlun, flugstefnu, stefnu í ferðamálum og loftslagsmálum og skilgreina vel þau markmið sem Isavia væri ætlað að ná til þess að styðja við framgang stefnu ríkisins í viðkomandi málaflokkum. Þá koma upp markmið eins og um dreifingu ferðamanna, öryggi í samgöngum með nauðsynlegri varaflugvallarþjónustu í millilandafluginu og eins hlutverk Keflavíkurflugvallar sem varaflugvallar fyrir innanlandsflugið með uppbyggingu aðstöðu þar sem (Forseti hringir.) væri þjónusta fyrir innanlandsfarþega þegar sú staða kæmi upp.



[16:54]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Forseti. Það var mjög áhugaverður fundur haldinn um flugmál á Akureyri í síðustu viku. Þar var meðal ræðumanna forstjóri Isavia, Sveinbjörn Indriðason. Þar vöktu ummæli hans um Akureyrarflugvöll og hlutverk Isavia nokkra athygli. Hann sagði í hnotskurn að þótt minni alþjóðaflugvellirnir yrðu settir undir sama hatt og Keflavíkurflugvöllur myndi það ekki verða til þess að Isavia setti peninga í uppbyggingu á þeim þar sem fjárfestingin myndi ekki skila arði inn í fyrirtækið. Fjárfestingin yrði því alltaf fókuseruð á Keflavík þar sem væri von á arðsemi. Hann tók þó fram, og rétt að geta þess, að þetta væri svo nema skýr krafa kæmi frá stjórnvöldum um að setja skyldi ákveðna fjármuni til minni flugvalla eða framkvæma ákveðnar aðgerðir þar. Hann vildi samt sem áður meina að það ætti ekki heima í rekstri hlutafélags.

Mig langar að nýta þetta góða tækifæri, og þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir það, og spyrja: Er hæstv. fjármálaráðherra sammála þessari skoðun forstjóra Isavia?



[16:55]
Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra fyrir svörin. Ég lít á það sem mitt hlutverk að koma þessum umræðum af stað og ætla ekki að ræða einstök stefnuatriði í flugmálum eða spyrja fleiri spurninga. Mér fannst hins vegar mjög skýrandi hvernig eigendastefnan byggir annars vegar á almennum grunni og síðan á þeim viðaukum sem hæstv. ráðherrann nefndi. Þetta er nýtt fyrir mér og kannski fyrir flestum hv. þingmönnum, held ég.

Það er fyllilega eðlilegt að þegar stefnudrögin verða komin í samráðsgáttina fari þingnefnd yfir þau og að sjálfsögðu Alþingi líka. Það verður mjög forvitnilegt að sjá hvað er inni og hvað er ekki inni í því sem maður kallar eigendastefnu ríkisfyrirtækis. Ég geri mér ekki grein fyrir því og vænti mikils þegar þessi drög og plögg loksins koma fram. Ég veit að þetta hefur verið nokkuð langur meðgöngutími en það skal jú taka góðan tíma þegar á að vanda til hlutanna. Ég endurtek þakkir til bæði þingmanna og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu.



[16:56]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hafa komið fram nokkrar ágætar spurningar og ábendingar í umræðunni eins og t.d. varðandi upplýsingaskyldu félaga í eigu hins opinbera. Ég held að við getum verið sammála um að það skipti miklu að það sé fullt gagnsæi og að rekstrarformið geti ekki ráðið úrslitum um aðgang að nauðsynlegum upplýsingum til að undirbyggja málefnalega umræðu og veita aðhald með opinberum rekstri sem fer fram í hlutafélagaforminu. Hins vegar getur þurft að taka tillit til viðskiptahagsmuna í einhverjum tilvikum og ég á dálítið erfitt með að sjá að það eigi erindi sérstaklega inn í eigendastefnu ákveðinna fyrirtækja að þau eigi að sýna gagnsæi í sínum störfum og sinna upplýsingaskyldu. Það finnst mér að eigi að vera í almennum lögum og vera byggt á slíku.

Við þurfum líka að ræða hvernig við ætlum að samræma svona viðauka við eigendastefnu að hinum ýmsu stefnum, eins og ég rakti aðeins í mínu máli. Ég held að við getum ekki saumað þetta allt saman og verið með of mikið af endurtekningum. Ég lét þess getið að þetta væri hugsað sem stutt og hnitmiðað viðbótarskjal sem lýsti ákveðnum megináherslum en að sjálfsögðu þyrfti að taka tillit til stefnu sem tengdist viðkomandi rekstrarsviði.

Síðan er beint til mín spurningu varðandi alþjóðaflugvellina í landinu sem við höfum áhuga á að byggja upp. Ég myndi almennt vilja vara við því að við festumst í umræðu um formið á þeim í því efni, þ.e. hvort þeirri byrði sem fylgir rekstri og uppbyggingu einstakra flugvalla í landinu sem varaflugvalla eða alþjóðaflugvalla eigi að velta inn í samkeppnisrekstrarfyrirtæki (Forseti hringir.) eins og Isavia er eða hvort við eigum að fjármagna hana með fjárheimildum frá Alþingi. Ég held að það sé langmikilvægast að við komumst fyrst að niðurstöðu um það hvar við viljum byggja upp, hvað það kostar, hversu umfangsmikla starfsemi við viljum reka. Við eigum ekki að líta undan þegar kemur að því að horfast í augu (Forseti hringir.) við kostnaðinn af þeim markmiðum og reyna að sópa honum inn í hlutafélag og vonast til að hann bara gleymist þar eða týnist. (Forseti hringir.) Það er ekkert unnið með því.