150. löggjafarþing — 24. fundur
 23. október 2019.
grunnskólar, 1. umræða.
frv. BjG o.fl., 230. mál (ritfangakostnaður). — Þskj. 248.

[18:10]
Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt hér frumvarp sem ég lagði fram á 149. þingi. Þá hlaut það ekki afgreiðslu og ég legg það fram aftur núna með uppfærðri greinargerð. Áður var reyndar lagt fram sambærilegt frumvarp á 146. þingi, þá af hópnum talsmenn barna á þingi, en þetta er sem sagt frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla og varðar ritfangakostnað.

Ásamt mér eru hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson og Halldóra Mogensen meðflutningsmenn. Málið snýst um að 3. málsliður 1. mgr. 31. gr. laganna falli brott. Markmiðið með frumvarpinu er að fellt verði á brott ákvæði grunnskólalaga um að opinberum aðilum sé ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.

Nokkur umræða hefur verið í samfélaginu um kostnaðarþátttöku foreldra vegna ritfanga og annarra gagna vegna skólagöngu barna. Velferðarvaktin og samtökin Barnaheill og Heimili og skóli hafa vakið athygli almennings og stjórnvalda á að þarna geti verið um umtalsverðar fjárhæðir að ræða fyrir fjölskyldur og farið er fram á að skólar afhendi börnum ritföng og pappír gjaldfrjálst. Barnaheill stofnuðu á sínum tíma til sérstakrar undirskriftasöfnunar, sumarið 2016, til að mótmæla gjaldtökunni þar sem samtökin töldu hana ekki samræmast ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um gjaldfrjálsa grunnmenntun.

Í könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga á kostnaði foreldra vegna ritfanga sem gerð var þetta ár, 2016, voru skoðaðir listar frá grunnskólum víða um land um nauðsynleg námsgögn. Niðurstaða könnunarinnar var að skólar gerðu mjög mismunandi kröfur um hvaða gögn nemendum bæri að koma með í skólann. Þar af leiðandi getur kostnaður verið mjög mismunandi milli sveitarfélaga og jafnvel umtalsverður á milli skóla í sama sveitarfélagi.

Gera má ráð fyrir að þessi námskostnaður komi ekki síst illa við þær fjölskyldur sem standa höllum fæti í samfélaginu. Í hvatningu Velferðarvaktarinnar haustið 2016 kom fram að kostnaður við námsgögn fyrir barn í grunnskóla á þeim tíma gæti verið á bilinu 400–22.000 kr. og að þessi kostnaður kæmi eðli máls samkvæmt verst niður á efnaminni fjölskyldum.

Sumarið 2017 var aftur gerð könnun á vegum Velferðarvaktarinnar og kom þá fram að 17 af 74 sveitarfélögum væru ekki með kostnaðarþátttöku vegna skólagagna, svo sem ritfanga og pappírs, það skólaár, þ.e. 2016–2017, en að 41 af 74 sveitarfélögum væri með þá stefnu að hafa enga kostnaðarþátttöku fyrir skólaárið 2017–2018, síðasta skólaár.

Velferðarvaktin endurtók könnunina sumarið 2018 og þá kom fram að 66 af 72 sveitarfélögum hefðu þá stefnu að hafa gjaldfrjáls gögn skólaárið 2018–2019. Síðan könnunin var gerð hefur eitt sveitarfélag enn bæst í hóp þeirra.

Í stöðuskýrslu Velferðarvaktarinnar fyrir árin 2017–2018 kemur fram að könnunin árið 2018 hafi leitt í ljós að flest sveitarfélög hafi ákveðið að afnema kostnaðarþátttöku grunnskólabarna vegna skólagagna og er það vel. Við skulum samt hafa í huga að í lögum um grunnskóla frá 2008 kemur fram að kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skuli veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu. Það er óheimilt að krefja þá eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu. Þrátt fyrir þetta hafa því miður í gegnum tíðina verið innheimt efnisgjöld og síðan hafa nemendur þurft að leggja út í alls konar kaup á gögnum, eins og hér var sagt áðan, sem gat numið mjög miklu eða litlu eftir því hvernig skólarnir koma til móts við nemendur sína.

Það kemur vissulega fram í lögunum að opinberum aðilum er ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír, en það er samt ekki skilgreint hvað persónuleg not þýða. Getur maður verið í skóla án þess að hafa blýant? Líklega ekki þannig að þetta skiptir mjög miklu máli. Eins og ég sagði áðan er réttur til gjaldfrjálsrar grunnmenntunar samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Gjaldfrjáls grunnmenntun er líka eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Að mínu mati er engin ástæða til að hafa heimild til undanþágu frá þessu í grunnskólalögunum og þess vegna er í frumvarpinu lagt til, eins og ég sagði áðan, að 3. málsliður 1. mgr. 31. gr. grunnskólalaga verði felldur brott. Yfirgnæfandi meiri hluti grunnskólabarna hérlendis fær nú námsgögn gjaldfrjálst og þykir því nauðsynlegt á grundvelli jafnræðissjónarmiða að öll grunnskólabörn fái námsgögn gjaldfrjálst óháð búsetu. Menntakerfið er eitt af öflugustu jöfnunartækjum samfélagsins og jafnrétti til menntunar er um leið ein af grundvallarforsendum fyrir jöfnuði allra barna.

Þegar þetta frumvarp var unnið var m.a. stuðst við bréf Velferðarvaktarinnar, eins og ég kom inn á áðan, til sveitarfélaga um námsgagnakostnað og gögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið. Enn fremur nýtti ég ýmsar upplýsingar frá Barnaheillum og Heimili og skóla.

Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá og það leiðir til þess að staðið verði við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem felast í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um gjaldfrjálsa grunnmenntun.

Grunnskólar eru reknir á vegum sveitarfélaganna og árið 2017 voru í þeim ríflega 45.000 börn. Samkvæmt áðurnefndri könnun Velferðarvaktarinnar eru nú 67 af 72 sveitarfélögum með gjaldfrjáls námsgögn. Þó er vert að taka fram að ekki reka öll sveitarfélög, sem eftir standa skólaárið 2019–2020, grunnskóla. Vissulega er um að ræða einungis 1% landsmanna sem þar býr en það breytir því þó ekki að það þarf að laga þetta með tilliti til jafnréttis. Með tilliti til þess og að meiri hluti umræddra sveitarfélaga hefur þegar ákveðið að draga úr kostnaðarþátttöku grunnskólanema má ætla að heildarkostnaður frumvarpsins sé óverulegur fyrir þau sveitarfélög sem eftir standa af því að hér hefur oft verið gagnrýnt að við séum að leggja á íþyngjandi lög og reglugerðir til handa sveitarfélögunum.

Við sem störfum á Alþingi eigum að hafa hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi í öllum okkar störfum á þinginu. Ég hef sagt það áður, m.a. þegar ég var talsmaður barna á Alþingi, að mín skoðun er sú að eitt af okkar mikilvægustu markmiðum í okkar störfum, hvar sem við erum, eigi að vera að hlúa að öllum börnum og ungmennum og að þau fái tækifæri til að njóta sín í leik og starfi. Þar gegnum við alþingismenn mikilvægu hlutverki með setningu laga, reglna og útdeilingu fjár. Í mínum huga og örugglega margra annarra eru börn mikilvægasti hópur hvers samfélags, enda munu þau erfa landið, og okkar að búa þeim umhverfi sem styður við að þau fái að þroskast og dafna, enda höfum við sem þjóð skuldbundið okkur til að tryggja jöfn tækifæri allra, ekki síst þeirra sem veika rödd hafa í samfélaginu, og það þýðir að við þurfum að fylgja eftir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem við höfum lögfest.

Ég held að við þingmenn gerum almennt of lítið af því að ræða um börn og málefni þeim tengd í störfum okkar í þinginu og hvort eða hvernig við getum bætt lagaumgjörðina þannig að horft sé til þeirra hagsmuna. Eitt af því sem ég hef áður nefnt hér og tel vert að skoða og fyrir okkur að hafa í huga er aðkoma ungmennaráða að lagasmíð, sérstaklega að málum sem tengjast þeim með beinum hætti eins og t.d. skólamál. Ég tel að við þingmenn eigum að eiga samtal við ungmennaráðið og Stjórnarráðið um eiginlega aðkomu. Ég hvet ungmennaráðin til þess að nýta sér samráðsgátt stjórnvalda til þess m.a. að skila inn athugasemdum og ábendingum um þau mál sem þau hafa sérstaklega áhuga á því að auðvitað varða öll mál börn og ungt fólk en eins og allir aðrir hafa þau kannski meiri áhuga á einhverjum tilteknum málum. Þar er vissulega kominn vettvangur en ég veit að verið er að vinna í því og það var tekin ákvörðun um það síðasta vetur að finna flöt á því hvernig við gætum komið því sem best fyrir að ungmennaráðin hefðu aðkomu, m.a. þegar þau kæmu til nefnda.

Ég er afskaplega ánægð með að allflest sveitarfélög bjóði almennt börnum í grunnskóla upp á frí námsgögn en vona svo sannarlega að þau fáu sem eftir eru drífi nú í að framkvæma af því að grunnmenntun á að vera gjaldfrjáls að öllu leyti og það á ekki að gera upp á milli barna eftir efnahag. Meiri jöfnuður er ein besta leiðin til að auka velsæld og hamingju í samfélaginu sem við hljótum öll að vilja fyrir afkomendur okkar. Skólinn er hornsteinn jafnræðis í samfélaginu. Gerum grunnskólann gjaldfrjálsan í raun og virðum þau réttindi sem öll börn eiga samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Tryggjum þannig að börnum sé ekki mismunað vegna stöðu þeirra eða foreldra þeirra.



[18:22]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Hér er áhugavert mál á ferðinni. Ég vil fyrst nefna að það gerist hér á Alþingi að Alþingi setur lög og reglur sem varpa síðan kostnaðinum yfir á sveitarfélögin. Í öðru lagi vil ég kalla eftir því hvort einhver umræða hafi farið fram um það hvað nauðsynleg námsgögn séu og hver þau séu. Þingmaðurinn sagði í yfirferð sinni að það væri ekki hægt að fara í gegnum skóla án þess að hafa blýant. Nú voru að birtast okkur niðurstöður samræmdra könnunarprófa í fjórða og sjöunda bekk. Þau voru tekin á spjaldtölvu. Enginn blýantur. Í lögum stendur sannarlega, eins og þingmaðurinn tók fram, að námið skuli vera nemendum að kostnaðarlausu og ég vil því kalla eftir því hvort hér hafi farið fram einhver umræða undir þessu máli um hver hin nauðsynlegu námsgögn séu. Hver eru þau?



[18:23]
Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er sannarlega rétt, eins og ég nefndi áðan og sem þingmaðurinn byrjaði á að nefna, að kostnaðinum sé velt yfir á sveitarfélögin. Við þekkjum það hafandi bæði starfað sem sveitarstjórnarfólk og þess vegna veit ég að það eru mjög fá sveitarfélög eftir þegar kemur að þessu og þess vegna er mikilvægt, finnst mér, að þetta sé lögfest til að tryggja jafnræði.

Hver eru nauðsynleg námsgögn? Það er í rauninni ekki okkar að ákveða, að mínu mati. Ég nefndi blýant hér áðan og hv. þingmaður spjaldtölvur — ef gerð er krafa um það að nemendur noti spjaldtölvur er það ekki eitthvað sem mér þykir að foreldrar þurfi að skaffa fyrir börn sín. Það er apparat sem kostar töluverða peninga og þá hlýtur skólinn bara að innleiða það hjá sér að öll börn hafi aðgang að því — sem ég geri ráð fyrir að sé raunin. Við höfum auðvitað séð slík tæki færast töluvert inn í skólana, sem betur fer, alls konar félagasamtök gefa einum árgangi o.s.frv. Nauðsynleg námsgögn eru þau sem skólinn krefur barnið um að það þurfi að nota á hverjum tíma. Það hlýtur alltaf að vera þannig að það sem nemandinn þarf til að geta sinnt því sem lagt er fyrir hann, það eru hin nauðsynlegu námsgögn. Og eins og ég sagði áðan er þetta mismunandi. Kostnaðurinn gat á þessum árum sem ég taldi upp, 2017 og 2018, numið frá 400 kr. upp í 22.000 kr. Það eru mjög mismunandi kröfur og við þekkjum að það hefur líka verið mismunandi rukkað fyrir alls konar efnislegan kostnað annan, t.d. tengdan verkgreinum og öðru slíku. Aðrir skólar hafa ekki rukkað neitt. Þannig að ég held að einfalda svarið sé: Sem betur fer er skólinn fjölbreyttur og kennir á mismunandi hátt en hann krefst einhvers af nemendum sínum sem þeir þurfa að hafa aðgengi að. Þá eru það nauðsynleg námsgögn.



[18:25]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Við nefnilega lifum sannarlega nýja tíma. Ég vil meina að nauðsynlegt námsgagn í dag sé spjaldtölva og við erum að sjálfsögðu að fara þangað. Það er alltaf einhver sem borgar, hvort sem það eru sveitarfélögin, ríkið, félagasamtök, fyrirtæki sem gefur 50 spjaldtölvur í einhvern skóla o.s.frv. Þó að ég sé þeirrar skoðunar að sveitarfélögin eigi sannarlega skaffa nemendum spjaldtölvur er það til fyrirmyndar eins og er í Kópavogi og Árskóla í Skagafirði o.s.frv. þar sem menn hafa vel staðið að þessu. En hvers vegna erum við á þeim stað að tala um einhver grunnnámsgögn — blýantur, strokleður, yddari, gráðubogi o.s.frv.? Við höfum aldrei tekið umræðu um matinn í heimilisfræðistofunni, talandi um það að við erum að færa okkur yfir í það að þurfa að vera með meira verklegt og tæknilegt nám. Við höfum aldrei talað um að timbrið í smíðastofunni sé grunnnámsgagn. Við þurfum að taka umræðu um það hver þessi nauðsynlegu grunnnámsgögn séu. Það er spjaldtölva sem hver og einn nemandi á og þyrfti að hafa. Ég er þeirrar skoðanir að sveitarfélögin eigi sannarlega að greiða fyrir þetta og ég vil aftur segja það: Hérna er löggjafinn, ríkisvaldið, að setja einhver lög sem sveitarfélögin þurfa síðan að útfæra hjá sér og síðan að standa straum af kostnaði. Ég er algjörlega sammála þingmanninum að það á ekki að varpa þeim kostnaði yfir á fjölskyldur og heimili. Ég tek undir með þingmanninum í því. Mótorhjól getur þess vegna verið nauðsynlegt námsgagn fyrir nemanda. Far þú, vinur, og taktu sundur mótorhjól í þrjá mánuði og settu það svo saman aftur þannig að þú getið ekið mótorhjólinu þegar skólaárið er búið. Það getur verið nauðsynlegt námsgagn fyrir einhvern.



[18:27]
Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum en ég er ekki sammála honum um að mótorhjól geti verið nauðsynlegt námsgagn. Hins vegar getum við staðið frammi fyrir því að við þurfum að leysa málefni ólíkra aðila með ólíkum hætti. Það er sannarlega þannig. En hér erum við að tala almennt. Við erum að tala fyrir heildina, um það hvað séu nauðsynleg námsgögn. Þegar við erum að kenna heimilisfræði þarf sannarlega að leggja til mat. Alveg eins og skólinn þarf að kaupa bækur til að kenna ensku eða til að kenna íslensku er þetta líka partur af þeim námsgögnum sem þar eru undir, hvort sem það er, eins og hv. þingmaður nefndi, timbrið í smíðinni eða maturinn í heimilisfræðinni. Við erum hér að tala fyrir heildina og hér eru örfá sveitarfélög eftir, eins og ég sagði áðan, og ekki einu sinni öll þeirra halda úti skóla. Sveitarfélögin hafa sem betur fer tekið þetta inn til sín. Við eigum bara að vera ánægð með það sem hefur orðið raunin, að sveitarfélögin vilja búa vel að unga fólkinu sínu. Ég tek alveg undir það með hv. þingmanni að spjaldtölvur eru afskaplega góð tæki í vinnu í skóla og hef mikið talað fyrir slíku. En ef við ætlum að kenna með þeim hætti verður það að mínu mati að vera skólans að sjá til þess að slík dýr námsgögn séu til staðar. Ég vildi sannarlega óska þess að þetta næði fram að ganga til að þeir verði úr sögunni, þessir fáu nemendur sem búa við það ójafnræði enn þá að þurfa að kaupa og greiða fyrir námsgögn umfram hina.



[18:29]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, um ritfangakostnað. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps en við höfum verið að ræða um hvað eigi að vera í því. Ég er alveg sammála því sem hefur komið fram, þar á auðvitað að vera allt sem þarf að nota í grunnskólum og börn þurfa á að halda. Kannski vantar inn í frumvarpið líka ákvæði um að öll börn eigi að geta nýtt sér tól og tæki, sama í hvernig ástandi þau eru, hvort sem þau eru fötluð eða þurfa sérstaka hjálp. Við gleymum því oft að ekki eiga allir auðvelt með að komast í skólahúsnæði og nýta sér þau gögn sem þar eru fyrir. Það er eiginlega furðulegt að við skulum þurfa að ræða það á okkar tímum, við erum það ríkt samfélag að við ættum að vera búin að ganga frá svona málum, en hvort sem það heitir spjaldtölva eða eitthvað annað sem börn þurfa eiga þau bara að hafa aðgang að þeim gögnum. Þar eigum við líka að tala um fæði, að ekkert barn þurfi að vera svangt í grunnskóla.

Ég ætla ekki að hafa þetta langt, en það stakk mig rosalega þegar ég fór að hugsa um aðgang barna að grunnskólum úti á landi að maður sér verið að keyra börn langar leiðir á svo holóttum vegum að það eru eiginlega holur ofan í holunum og líftóran hrist úr börnunum. Það er ekki geðslegt að horfa upp á það að dag eftir dag, fram og til baka, þurfi börn að fara vegleysur til að komast í og úr skóla. Við þurfum að hugsa um allt svona. Það sem gerist líka uppi í Grafarvogi þegar börn eru færð á milli skóla og þurfa fyrir vikið að fara yfir stóra umferðaræð verðum við að kryfja og ganga þannig frá að börnin komist hættulaust í skólana og fái alla þá þjónustu sem þau þurfa til að blómstra.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.