150. löggjafarþing — 26. fundur
 4. nóvember 2019.
málefni innflytjenda.

[15:41]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Á undanförnum misserum hefur sífellt aukin umræða verið um stöðu innflytjenda hér á landi og sér í lagi kerfisbundna misnotkun á innflytjendum á vinnumarkaði þar sem brotið er á réttindum þeirra að því er virðist af hreinum ásetningi, þó kannski af fámennum hópi fyrirtækja en á mjög alvarlegan hátt. Það er auðvitað ljóst að við hefðum ekki farið í gegnum það hagvaxtarskeið sem við erum að fara út úr án þátttöku innflytjenda. Innflytjendum hefur fjölgað um 25.000 hér á undanförnum áratug og framlag þeirra til samfélagsins er alveg ómetanlegt á því tímabili. Í Þjóðarspegli sem Háskóli Íslands stóð fyrir í síðustu viku var farið yfir málefni innflytjenda og sérstaklega stöðu þeirra á vinnumarkaði. Þar var fulltrúi ráðherra ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins í pallborði og ummæli hans voru ansi sláandi. Meðal annars kom fram að hann teldi ekki ástæðu til þess að fræða innflytjendur frekar um réttindi sín á vinnumarkaði. Það væri á ábyrgð hvers og eins að afla sér upplýsinga þar að lútandi. Hann teldi ekki ástæðu til að styrkja sérstaklega íslenskukennslu því að innflytjendur nenntu ekki að læra tungumálið og hann tók sérstaklega fram hvað það væri gott að auðvelt væri að losna við fólk á íslenskum vinnumarkaði í því samhengi. (Gripið fram í: Smart.)

Þetta gengur auðvitað þvert á gildandi framkvæmdaáætlun sem samþykkt var á Alþingi fyrir þremur árum síðan. Það er nærtækt að spyrja hæstv. ráðherra, því að ég ætla að ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins, ráðuneytis vinnumarkaðar og málefna innflytjenda hafi ekki verið að lýsa persónulegum skoðunum sínum: Er þetta stefna ráðherra, stefna stjórnvalda í málefnum innflytjenda?



[15:43]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur og talar gat ekki sótt þetta málþing vegna þess að ríkisstjórnarfundur dróst á langinn og ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins hljóp þar í skarðið. Það er unnið eftir framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og þar á hefur engin stefnubreyting orðið. Ég hef fengið fregnir af þessum panel eða umræðum sem áttu sér stað og heyrt af pistlum sem hafa gengið ritaðir af að ég held borgarfulltrúum Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.) Ég hef ekki haft tækifæri til að setja mig nákvæmlega inn í þá pistla en ég hef haft fregnir af málinu. Ég segi algjörlega skýrt út að það er engin stefnubreyting í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Við vinnum eftir þeirri framkvæmdaáætlun sem samþykkt hefur verið og við höfum m.a. gert margt mjög gott í þeim málaflokki eins og t.d. í samræmdri móttöku flóttafólks þar sem eru auknar fjárveitingar á næstu árum. Við gerum enn betur en við höfum verið að gera með því t.d. að þeir sem koma hingað sem hælisleitendur geti farið inn í sama módel og kvótaflóttafólkið er að gera.

Það er engin stefnubreyting hvað þetta snertir. Ég hafði ekki tækifæri til að vera þarna en hv. þingmaður hefur greinilega náð að túlka allt sem ráðuneytisstjórinn sagði betur en það sem ráðherrann hefur fengið fregnir af. Eins og ég segi er algjörlega óbreytt stefna hér og ég bið hv. þingmann að benda mér á eitthvert mál þar sem félagsmálaráðuneytið eða félagsmálaráðherra hefur skert þjónustu eða ekki gengið nægilega langt í þjónustu við innflytjendur. Í þessari ríkisstjórn höfum við einmitt verið að bæta í hvað það snertir og ég fagna líka nýrri þingsályktunartillögu sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé lagði fram um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda. Ég er mjög fylgjandi þeirri tillögu og við höfum verið að vinna úr henni. Ég þakka fyrir brýninguna frá hv. þingmanni sem auðsjáanlega er (Forseti hringir.) vel í stakk búinn til að túlka allt sem ráðuneytisstjórinn sagði í þessum umrædda panel þar sem ráðherrann gat því miður ekki verið.



[15:46]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mér fannst ummælin svo alvarleg að ég sá ástæðu til að ræða þau við þó nokkra fundarmenn sem þarna voru og lesa opið bréf til ráðherra um þau ummæli sem ráðherra virðist ekki hafa lesið enn þá ef marka má orð hans hér. Ég treysti því að hæstv. ráðherra muni samt svara því bréfi. Fólk sem sat þennan fund var mjög slegið yfir yfirlýsingum ráðuneytisstjóra ráðuneytis vinnumarkaðar og málefna innflytjenda af því að þetta lýsir auðvitað, ég get ekki annað sagt, gríðarlegum fordómum gagnvart stöðu innflytjenda á vinnumarkaði og gríðarlegu áhugaleysi ráðuneytisins og ráðuneytisstjóra þess á að sinna málefnum þessa hóps.

Það er alveg rétt að aukið hefur verið í varðandi móttöku kvótaflóttamanna og mjög jákvæð breyting þar, en þetta varðar allan þann stóra hóp innflytjenda sem hér starfar og vinnur og leggur ómetanlegt framlag til samfélagsins á hverjum degi, að tryggja réttarstöðu þessa hóps og sýna raunverulegan (Forseti hringir.) áhuga að taka á þeim kerfisbundnu brotum sem framin eru á hópi sem er viðkvæmur fyrir einmitt vegna þess að hann þekkir ekki réttindi sín á vinnumarkaði. (Forseti hringir.) Ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins virðist ekki telja neina þörf á að ráða bót á því. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann gera? Hyggst hann (Forseti hringir.) leiðrétta þessi ummæli eða biðjast afsökunar á þeim?

(Forseti (SJS): Það er ekki hægt að bera fram spurningar þegar menn eru komnir 20 sekúndur fram yfir ræðutíma.)



[15:47]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í fyrra andsvari við hv. þingmann hefur þessi ríkisstjórn þvert á móti gert ýmislegt mjög jákvætt þegar kemur að málefnum innflytjenda. Ég rakti það áðan. Við höfum verið að auka þjónustu, við höfum lagt meira í þennan málaflokk og það er vel. Við höfum m.a. lagt sérstaka áherslu á það í gegnum Vinnumálastofnun að þjónusta (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Það er mjög erfitt að svara spurningum þegar það eru svona frammíköll. Við höfum lagt áherslu á að þjónusta (Gripið fram í.) þennan hóp sérstaklega.

Varðandi ummæli ráðuneytisstjóra í panel á umræddu málþingi segi ég eins og er að það er algjörlega óbreytt stefna hjá núverandi ríkisstjórn, sem verið hefur frá fyrsta degi, að gera betur við þennan málaflokk. Ég er ekki í stakk búinn, þar sem ég var ekki á staðnum og hef ekki séð neinar upptökur af þessu eða útprentanir, til að svara fyrir ummæli þegar hv. þingmaður túlkar pistil hjá manneskju sem var þar. (Gripið fram í.) Ég óska eftir því að hv. þingmaður bendi á eitthvað í aðgerðum (Forseti hringir.) núverandi ríkisstjórnar þar sem við höfum skert eða dregið úr þjónustu. Við höfum ekki gert það, þvert á móti, og við munum halda áfram á þeirri braut þrátt fyrir frammíköll hv. þingmanna Viðreisnar í salnum.